Loftslagsvandinn sprettur upp úr ákvarðanatöku hins opinbera. Styrkjum, fjárfestingum, skipulagi samfélagsins. Stjórnvöld bera stærstu ábyrgðina þó framlag einstaklinga geti haft mikil áhrif. Það er ekki bara hvað yfirvöld ákveða að gera sem skiptir máli heldur líka hvað þau ákveða að gera ekki. Þegar tekin var ákvörðun um að gera Reykjavík að bílaborg var í raun samhliða tekin ákvörðun um að byggja ekki upp öflugar almenningssamgöngur. Loftslagsvandinn sprettur upp úr ákvarðanatöku hins opinbera en það geta lausnir líka gert. Á fundi borgarstjórnar á þriðjudag var ný loftslagsáætlun Reykjavíkurborgar kynnt.
Hér eru lagðar til lausnir eins og að fletta upp malbiki og draga úr umfangi akreina, að almenningssamgöngur verði lausar við jarðefnaeldsneyti 2025, að fjármunir sem fara í vegasamgöngur verði jafnaðir með fjármunum fyrir innviði fyrir gangandi og hjólandi, að ný hverfi verði umhverfisvottuð, að rækta stóra loftslagsskóga, að endurheimta um 60% af votlendi fyrir árið 2040 og síðast en ekki síst að líta inn á við og meta hvernig við getum styrkt stjórnsýslu borgarinnar í loftslagsbaráttunni með tilliti til ábyrgðar og framfylgd verkefna. Þetta eru örfá dæmi.
Loftslagsvandinn er ekki tilviljunum háður. Hann var skapaður, meðvitað og ómeðvitað. Hér er loftslagsáætlun sem snýst einmitt um að taka meðvitaða ákvörðun um að koma okkur á réttan kjöl. Um meiri náttúru og minna malbik. Meiri borg fyrir fólk. Við ætlum ekki að sitja og bíða og vona að aðgerðirnar hitti í mark heldur mæla árangurinn árlega til þess að geta brugðist við ef ástandið sýnir að gefa þurfi í. Við setjum stefnuna hátt, öflum gagna, metum og endurskoðum.
Verkefnið er það flókið að við verðum að leysa það í sameiningu með nýsköpun og samvinnu. Í þessari nýju loftslagsáætlun voru markmiðin mótuð eftir útreikningum sérfræðinga og hlustað var á óskir almennings um auknar aðgerðir. Almenningur var fenginn að borðinu sem skilaði mörgum góðum tillögum. Núna er það yfirvalda, okkar í borgarstjórn, að framkvæma.
Höfundar eru borgarfulltrúar Pírata í Reykjavík.