Home Aðildarfélög Dýr eru dýrmæt í borgarsamfélaginu

Dýr eru dýrmæt í borgarsamfélaginu

Dýr eru dýrmæt í borgarsamfélaginu

Við í Reykjavíkurborg höfum ákveðið að sameina alla þjónustu við dýr í Dýraþjónustu Reykjavíkur sem staðsett verður í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum. Með þessu erum við að bæta, einfalda og auka skilvirkni þjónustu við dýr og dýraeigendur. Þetta var ein af kosningaráherslum okkar Pírata sem rataði í meirihlutasáttmálann og verður nú að veruleika.

Hundahald loksins formlega leyft í Reykjavík

Samhliða verður hundahald loksins formlega leyft í Reykjavík en hingað til hefur það verið bannað með undanþágum. Hundagjöld verða lækkuð verulega, um allt að helming, og verða nú þau lægstu á höfuðborgarsvæðinu. Ef skráningum fjölgar að einhverju marki er stefnt að enn frekari lækkun gjalda. Unnið verður að betra aðgengi að skráningum með því að gera þjónustuferilinn rafrænan. Með aukinni skráningu er hægt að þjónusta hundaeigendur markvissara eftir svæðum með meðal annars úrbótum á hundagerðum og fjölgun þeirra, sem jafnframt er verið að auka fjárfestingu í. Sveitarfélög hafa nefnilega ekki aðgang að þeim upplýsingum sem eru til staðar úr örmerkingum í eigu einkaaðila. Auk þess er hluti hundagjaldsins skyldutrygging sem er ódýrari í krafti fjöldans með þessu móti fyrir hvern og einn.

Málefni katta

Málefni katta verða um leið flutt frá Meindýraeftirlitinu enda ekki talið viðeigandi að mjúkar og góðar kisulórur flokkist sem meindýr í stjórnsýslu borgarinnar. Hundaeftirlitið verður lagt niður. Sveitarfélög bera lagaskyldur gagnvart dýrum og svona nýtast innviðir og þekking á dýrum enn betur, auk þess sem vilji er til þess að efla samstarf við dýravelferðarfélög.

40% borgarbúa eiga gæludýr

Talið er að um 40% borgarbúa í Reykjavík eigi gæludýr og þeim hefur fjölgað eftir að Covid-faraldurinn skall á. Dýr eru dýrmætur hluti af borgarsamfélaginu og gæludýr geta haft margvísleg jákvæð áhrif. Það er hreinlega hollt að eiga gæludýr, bæði líkamlega og andlega. Náin samskipti við dýr geta stutt við félagslegan þroska barna, minnkað streitu og bætt heilsufar bæði líkamlegt og andlegt. Við viljum leggja okkar af mörkum til að gera fleirum kleift að njóta þess að eiga gæludýr í sátt við sitt samfélag.

Dóra Björt Guðjónsdóttir

Oddviti Pírata í Reykjavík