Vingumst við náttúruna

Eftir Dóru Björt Guðjónsdóttur og Sigurborgu Ósk Haraldsdóttur

,,Árið 2021 verður að vera árið sem mannkynið vingast aftur við náttúruna.”

Þetta voru nýleg orð António Guterres, aðalritara Sameinuðu þjóðanna. 

Þessi orð hvíla á þeirri staðreynd að loftslagsbreytingar eru mannanna verk sem bitna á náttúrunni. Eftir áratugalanga ofnýtingu og eyðileggingu á náttúrunni blasir við átakanleg mynd. Hitastig plánetunnar rýkur upp ár eftir ár og sjötta fjöldaútrýming tegunda er gengin í garð. António Guterres heldur því fram að mannkynið þurfi að vingast aftur við náttúruna. En hvenær voru maðurinn og náttúran eiginlega vinir?

Mannkynssagan hefur sýnt okkur að maðurinn hefur nánast ávallt litið á sjálfan sig sem náttúrunni æðri. Þannig hefur manninum gengið ansi illa í sínu sambandi við náttúruna. Sambandið hefur ekki verið vinasamband. Frekar eitthvað sem er meira í ætt við ofbeldissamband. Útrýming stórra spendýra hefur haldist í hendur við dreifingu dýrategundarinnar mannsins, Homo sapiens, um plánetuna. Allsstaðar þar sem Homo sapiens nam land fór stærstu spendýrunum að fækka og þau dó út. Þetta sést þegar sorgarslóð Homo sapiens er rakin frá Afríku til Evrópu, Asíu og Ástralíu. Sömu sögu er að segja um Norður-Ameríku og síðar Suður-Ameríku. Dýrategundum á plánetunni hefur æ síðar fækkað, búsvæði hafa minnkað eða horfið og heilu vistkerfin er ekki að finna lengur.

Svo kannski er ekki rétt að segja ,,vingast aftur við náttúruna”. Því við vorum kannski aldrei vinir til að byrja með. Náttúran er forsenda fyrir tilvist okkar. Það er kominn tími til að viðurkenna að náttúran hefur gildi og verðmæti óháð okkur. Hefur gildi og verðmæti í sjálfri sér.

Á Íslandi er að finna sömu sögu og annarsstaðar í heiminum. Við landnám var landið vaxið skógi frá ,,fjalli til fjöru”. En sá skógur er horfinn, vistkerfi landsins hafa umbreyst og jarðvegseyðingin er mikil. Settur var kraftur í að grafa upp landið með beinum styrkjum frá yfirvöldum, skera það djúpum skurðum þannig að votlendi þurrkuðust upp á gríðarlega stórum skala. Í dag skapar framræst votlendi um 60% af heildarlosun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi.

En í sögunni er líka að finna stórkostlegar framfarir, fyrir tilstilli yfirvalda. Með hitaveitunni var grettistaki í umhverfismálum lyft. Húsin í landinu voru tengd heitu vatni sem kom beint upp úr jörðinni og yljaði fólkinu sem hér býr, ungum sem öldnum, og gerir enn. Ísland hefur miklu minna kolefnisspor en ella einmitt vegna þessa og erum við öfunduð af mörgum þjóðum vegna lífsgæðanna sem hitaveitan færir okkur.

Við getum gert stóra hluti. Íslendingar eru afskaplega góðir í að sýna það. Við getum komið upp íþróttafólki sem keppir í fremstu röð á heimsvísu, og við getum búið til bankakerfi sem er tíu sinnum stærra en hagkerfið. Við getum vakið athygli fyrir okkar góða tónlistar-, kvikmynda- og listafólk um allan heim, og við getum safnað upp einkabílaflota sem er fullkomlega fáránlegur á heimsvísu. Nú er kominn tími til að nýta þann kraft til góðs.

Í liðinni viku lýsti Reykjavík því nýlega yfir með formlegum hætti að það ríkir hnattrænt neyðarástand í loftslagsmálum. Með yfirlýsingunni skuldbindur Reykjavíkurborg, ásamt öðrum borgum, sig til að setja aðgerðir í loftslagsmálum í forgang við alla ákvarðanatöku til að ná kolefnishlutleysi. 

Í sömu viku voru kynnt drög að nýrri loftslagsáætlun Reykjavíkur. Þar er að finna stór verkefni líkt og að draga úr bílaumferð með tímasettri aðgerðaráætlun í samræmi við Parísarsáttmálann, fjölga rafhleðslustöðvum fyrir almenning og gera almenningssamgöngur lausar við jarðefnaeldsneyti árið 2025. Einnig ætlum við að jafna fjármuni sem fara í vegasamgöngur með fjármunum fyrir innviði fyrir gangandi og hjólandi svo að aðbúnaður og umfang gangstétta og hjólastíga verði fyrsta flokks og í forgangi.

Í fyrsta skipti verður öll losun við framleiðslu matvæla sett inn í kolefnisspor borgarinnar. Einnig verður sett ´zero waste´ (enginn úrgangur) stefna í úrgangsmálum samhliða því að flokkunaraðferðir stofnana Reykjavíkur og heimila á höfuðborgarsvæðinu verða samræmdar.

Stórt skref verður að endurheimta um 60% af votlendi innan Reykjavíkurborgar fyrir árið 2040, að planta stórum loftslagsskógum og auka gróðurþekju, ræktunarreiti, tré, runna og plöntuveggi víðsvegar um borgina. Að lokum verður náttúruvernd aukin og búsvæði dýra stækkuð með áherslu á lífauðug vistkerfi sem binda kolefni. Þetta eru þó aðeins nokkur dæmi um verkefni úr drögum að nýrri loftslagsáætlun.

Kannski árið 2021 verði ekki árið sem mannkynið vingast aftur við náttúruna. Kannski það verði frekar árið sem mannkynið vingast við náttúruna.

Dóra Björt Guðjónsdóttir og Sigurborg Ósk Haraldsdóttir

Borgarfulltrúar Pírata.

Upprunaleg BirtingMorgunblaðið

Fyrstu ár barnsins: fæðingarorlof, leikskóli og bilið þar á milli

Ljóst er að samfélagsgerð okkar gerir ekki nægilega vel ráð fyrir fyrstu fimm árunum...

Nýárskveðja

Kæru Píratar, Þá er árið 2022 á enda. Tíunda afmælisár Pírata. Píratar sem byrjuðu sem...

Hið fjöruga og fjölbreytta 2022

Nú er þetta langa og skrýtna ár senn á enda og tímabært að líta...

Destroyed by Unjust Law

We tend to think of our own interests rather than others when our safety...

Og ólögum eyða

Þegar öryggi okkar er ógnað hugsum við gjarnan um eigin hag en ekki annarra....