Alexandra Briem, varafulltrúi Pírata í Reykjavík notar baráttudag verkalýðsins til að vekja athygli á þeirri innbyggðu ósanngirni sem þrífst í grunnkerfum þjóðarinnar og stéttaskiptingunni sem af leiðir. Stéttaskiptingin er birtingarmynd spillingarinnar sem þrífst innan meðvirkninnar sem einkennir Íslenskt samfélag, og lausnin við henni er nýja stjórnarskráin sem bíður tilbúin fyrir löggjafann til að innleiða.
1. maí kveðju Alexöndru Briem má lesa hér fyrir neðan:
Gleðilegan 1. maí
Það er viðeigandi að muna hvers vegna við höldum áfram að mæta í kröfugöngur og halda útifundi á þessum degi, þrátt fyrir að öll lífsgæði hafi batnað til muna síðustu öld og við búum í dag við lífsgæði sem forfeður okkar og mæður myndu varla trúa. Það er mikilvægt að muna það núna að þó svo við getum ekki haldið útifundi í dag vegna sérstakra aðstæðna, þá eru þær einmitt það, sérstakar aðstæður. 2021 verður fyrsti maí haldinn af tvíefldum krafti.
Það er nefnilega langt í land ennþá. Baráttan fyrir bættum lífskjörum snýst ekki um að hækka bara lífsgæði almennt, sá slagur klárast ekki þó við lifum betur en fólkið fyrir nokkrum áratugum, því þetta snýst ekki um örlítið meira, eða einu sinni um mikið meira.
Í grunninn snýst baráttan um sanngirni og um réttlæti, það er tengiflötur Pírata við verkalýðsbaráttuna, frekar en beinlínis stéttabarátta. En þegar stéttaskipting á Íslandi eykst hröðum skrefum, bilið milli ríkra og fátækra eykst ár frá ári, og fulltrúar innmúraðra verða sífellt ósvífnari í ráðstöfun fjármuna, þá er erfitt að taka alveg af sér stéttagleraugun.
Í dag er stéttaskipting víða í landinu. T.d. milli starfsstétta í eru frekar konur og starfsstétta sem í eru frekar karlar, þó svo gerðar séu amk. svipaðar menntunarkröfur, í þeim sé amk., svipað álag, og þjóðfélagsleg nauðsyn sé amk. jöfn.
Bilið milli þeirra ríkustu og þeirra fátækustu hefur aukist til muna síðustu ár og áratugi og það er að búa til stéttaskiptingu. Ég vil ekki stéttskipt þjóðfélag, ég vil það síst af öllu, og ég trúi ekki að nokkur manneskja með gott hjartalag vilji það. Það er bara spurning um sanngirni. Það er bara spurning um réttlæti, að störf séu metin að verðleikum og fólk fái ekki úthlutað ríkidæmi fyrir ekkert annað en að þekkja rétta fólkið eða gera réttu greiðana.
Þegar Íslendingar horfa upp á hundruði milljarða arðgreiðslur til hluthafa útgerðarfélaga, á sama tíma og þær kveinka sér undan greiðslubyrði fiskveiðigjalda í mýflugumynd, þá særir það réttlætiskennd okkar.
Þegar við horfum upp á óhreint fé notað til þess að fjármagna áróðursmiðla kvótaeigenda, fé stolið ekki bara af Íslendingum, heldur arðrænt af fátækum ríkjum með misnotkun trausts sem fékkst í krafti þróunaraðstoðar, að fé sem gæti farið í uppbyggingu innviða fátækustu ríkja heims, sé þess í stað notað til þess að fóðra aflandsreikninga í skattaskjólum og til þess að soga upp eignir á Íslandi, til að fjármagna falska fjölmiðla og halda þeim í höndum leppa útgerðarrisa sem halda uppi málflutningi sem þeim er þóknanlegur, þá misbýður okkur.
Ósanngirnin á Íslandi er í dag djúpstæð og rótgróin. Hún er svo langvinn, rík og sterk að mörg okkar trúa því ekki að það sé einu sinni mögulegt að sigrast á henni, mörg okkar jafnvel farin að trúa því að hún sé óumflýjanlegt náttúrulögmál. Að einstaka ríkir einstaklingar fái gefins kvóta ár eftir ár, eða kaupi á hræódýru verði verðmæt sprotafyrirtæki fjármögnuð af almannafé, eða fái þægilegar stöður í umboði þeirra sem þeir hafa misnotað opinbert vald til að hjálpa, og það sé ekkert sem við getum gert í því nema rífast um afgangana.
En meðan grunnkerfið á Íslandi byggist á ósanngirni, þá verður aldrei friður um það. Þess vegna er baráttunni ekki lokið.
Ég trúi því, og það er stefna Pírata, að til þess að geta náð varanlegum árangri í því að bæta okkar meingallaða ósanngjarna samfélag, sem þó er byggt góðu fólki að mestu leiti, þurfum við að ráðast róttækt að vandanum og þeim þáttum sem undirbyggja hann.
Ógegnsæi í ákvarðanatöku, óskýrar valdheimildir og geðþóttavald eru stærstu óvinir gegnsæis og sanngirni. Þess vegna þurfum við nýja stjórnarskrá. Það er ekki tilviljun að þeir sem mest græða á geðþóttavaldi spyrna líka mest við fótum í hvert sinn sem á að auka eftirlit með valdi, skýra valdheimildir eða setja þeim mörk. Þeir sjá sig ekki sem fulltrúa íbúa landsins, heldur sem yfirstétt, kannski valinn í krafti vinsælda, en telja það sinn rétt að fara með vald eftir eigin höfði.
Risastórar fjármagnsblokkir sem eyða ótöldum milljörðum í að halda uppi áróðri sem tefur, þæfir og býr til úlfúð um allt sem getur dregið athyglina frá því hvernig þær eignast sína milljarða og hvernig sé hægt að breyta því, sem styðja heppilega frambjóðendur í prófkjörum og svo þeirra flokka í kosningum, bæði beint með fjárframlögum, óbeint með vilhöllum fréttamiðlum og útdeilingu starfstækifæra, og beinlínis með lygum og fölskum áróðri, eru stórhættuleg lýðræðinu og þeim umbótum sem þörf er á. Á Íslandi búum við við þann veruleika að þessar fjármagnsblokkir eru að stórum hluta fjármagnaðar með ágóða af nýtingu auðlindar sem við eigum öll rétt á, sem ætti að nýta til að fjármagna innviði okkar, menntakerfi og heilbrigðiskerfi, ekki til að féfletta afríkuríki og fjármagna áróðurspistla.
Það er þörf á breytingum á Íslandi. Við þurfum að breyta reglunum, og til þess að það sé hægt að gera, svo þær breytingar standi og svo falli ekki aftur í sama far, þá þurfum við nýja stjórnarskrá.
Þetta snýst um að búa til land þar sem við getum öll verið sátt við að búa, þetta snýst um sanngirni.