Ég varð hissa um helgina þegar ónefndur stjórnmálamaður talaði um í Silfrinu að „hinn valkosturinn“ við áframhaldandi samstarf núverandi ríkisstjórnar væri „Reykjavíkurmódelið“. Ég er nefnilega sammála því, en yfirleitt erum við tvö ekki sammála um nokkurn hlut. Stóra gjáin í íslenskum stjórnmálum er nefnilega ekki endilega milli hægri og vinstri, heldur milli íhalds og frjálslyndis. Samstarf frjálslyndisaflanna hefur gengið vonum framar í Reykjavík og getur einmitt verið góð fyrirmynd að valkosti á landsvísu.
Píratar, Samfylking, Viðreisn og VG geta vel unnið saman. Við höfum sýnt fram á að við erum fær um að sameinast um stóru málin. Um grænt og framsýnt velferðarsamfélag réttlætis og tækifæra. Við höfum náð saman um loftslagsmál, lýðræðismál, skipulagsmál og góða gagnsæja stjórnsýslu. Í þeim málum þar sem lengra er á milli höfum við jafnframt staðfest að við erum fær um málamiðlanir og gagnkvæmt traust.
Við höfum sannað að við erum fær um að taka erfiðar en nauðsynlegar ákvarðanir í erfiðu árferði og að við förum af ábyrgð með almannafé. Ríkisstjórn sem byggðist á Reykjavíkurmódelinu myndi standa traust gegn spillingu og sérhagsmunagæslu. Hún myndi styrkja eftirlitsstofnanir og lagaumhverfi. Öfugt við það sem þessi þingmaður virtist vera að gefa í skyn, þá er Reykjavíkurmódelið ekki eitthvað til að óttast. Þvert á móti er frjálslynd stjórn sem byggist á heilindum og almannahagsmunum, andstöðu við spillingu og sérhagsmunagæslu einmitt það sem Ísland þarfnast helst um þessar mundir. Hún væri stjórn sem Íslendingar þyrftu ekki að skammast sín fyrir.
Sá tími að fulltrúar afturhalds geti ýft upp ótta við allar breytingar til að verja hagsmuni afmarkaðra hópa er liðinn. Íslendingar vita að nú er kominn tími til breytinga, að við getum ekki lengur unað við óbreytt ástand þar sem auðlindir almennings eru afhentar afmörkuðum hópum gegn málamyndagjaldi, sem nota svo ágóðann til að halda uppi áróðri og persónuárásum til að tryggja áframhaldandi yfirráð. Vilji fólk raunverulegar, réttlátar og framsýnar breytingar er enginn kostur betri en einmitt Reykjavíkurmódelið.