Kæru Píratar,
Þá er árið 2022 á enda. Tíunda afmælisár Pírata. Píratar sem byrjuðu sem skrítin hugmynd um að þörf væri á nýrri nálgun í stjórnmálum á Íslandi. Hugmynd sem fólk almennt trúði ekki að myndi leiða langt eða endast. En, hér erum við í dag, þriðji stærsti flokkurinn á landsvísu – með hugmyndir sem eiga erindi við þjóðina. Píratar sem eiga dýrmæta grasrót og öfluga og ötula kjörna fulltrúa, sem eru óhrædd við að taka slaginn.
Við fögnuðum afmæli okkar á ýmsan hátt: með 10 ára afmælisþema á aðalfundi í haust (með hoppukastala, þythokkí, trúði og alls konar skemmtilegu), viðburðum á vegum þingflokks og reglulegum, skemmtilegum úttektum á samfélagsmiðlum. Það er gott að staldra við í augnablik og hugsa aðeins um árangurinn sem við höfum náð í íslensku samfélagi og hugsa með þakklæti til allra þeirra sem hafa lagt vinnu sína til: grasrót, starfsfólk og kjörnir fulltrúar. Án þeirra værum við ekki hér í dag.
En nú er líka góður tími til að hugsa um hvar við viljum vera eftir 10 ár. Hvert erum við að stefna og hvaða breytingar viljum við sjá í samfélaginu? Hvað þarf að gerast?
Við erum óvenjuleg hreyfing að því leyti að við köllum eftir beinu lýðræði. Þetta beina lýðræði þýðir meðal annars að grasrót okkar er hluti af allri stefnumótun og þá stefnu flokksins. Þess vegna viljum við fá sem flest til að taka þátt í grasrótarstarfinu, koma með hugmyndir ykkar og kraft, móta starfið með því að kynnast og tala saman og helst hafa gaman saman á meðan á því stendur.
Aðildarfélög Pírata taka reglulegum breytingum. Nú síðast í október var kosin ný stjórn hjá Pírötum í Reykjavík og von er á aðalfundi suðvesturkjördæmis og Ungra Pírata á nýju ári. Ég vil hvetja öll til að fylgjast með sínu kjördæmafélagi og öðrum aðildarfélögum sem áhugi er fyrir og mæta á fundi. Það er gefandi að leggja sitt af mörkum og stuðla að sterkum grunni fyrir Pírata til starfa næstu árin. PíR eru með marga skemmtilega viðburði í bígerð fyrir nýja árið og við vonumst til að sjá sem flest. Hægt er að fylgjast með öllu sem er á dagskrá í gegnum dagatalið, https://piratar.is/dagatal/ og á samfélagsmiðlum. Hendið í follow þar til að missa ekki af.
Málefnastarfið er burðarliður í starfi okkar: félagsfólk mótar stefnur Pírata, sem kjörnir fulltrúar setja svo vinnu sína í að koma að á Alþingi og í sveitastjórnum. Mikilvægt er að fjölbreyttar raddir heyrist í þessari vinnu og eru öll velkomin að taka þátt í að móta stefnurnar. Vertu með og hafðu bein áhrif á nýju ári!
Kæru félagar, eigið gæfuríkt og gefandi nýtt grasrótarár og takk fyrir árin 10!
Halla Kolbeinsdóttir,
Formaður Pírata í Reykjavík
Samfélagsmiðlar:
https://www.facebook.com/PiratarXP
https://www.facebook.com/thingflokkurpirata
https://www.facebook.com/PiratarReykjavik