Hið óþekkta vekur gjarnan upp óttatilfinningu. Það getur verið óþægilegt að vita ekki við hverju er að búast. Innra með okkur getur skapast ákveðinn titringur, við förum jafnvel upp á afturlappirnar og setjum okkur í stellingar með klærnar og kryppuna úti eins og köttur í viðbragðsstöðu. Sum okkar mæta hinu óþekkta og nýjungum sem fram koma með hvæsi og vanþóknun.
En hið óþekkta er þó hliðið að framtíðinni. Það er aðeins með því að taka áhættu og stíga fyrsta skrefið að framfarir verða í samfélaginu. Stundum er nauðsynlegt að halda niðri í okkur andanum og stökkva út í djúpu laugina. Bæði í okkar persónulega lífi þar sem lykillinn að því að vaxa sem manneskjur er að stíga fyrir utan þægindarrammann, og svo sem samfélag – þar sem framþróunin verður á mörkum hins óþekkta og reynslu liðinna tíma.
Um þessar mundir erum við að færa borgina inn í 21. öldina með stafrænni umbreytingu og nútímavæðingu þjónustu. Við erum að ráðstafa tíu milljörðum í þetta verkefni næstu þrjú árin sem er rúmlega þreföldun frá því sem áður var. Mörg mæta þessari framþróun með efasemdum í dag en eins og áður hefur sést getur grátkór hins liðna á augabragði viljað Lilju kveðið hafa. Oftar en ekki kostar að fjárfesta í framtíðinni og mikilvægum breytingum sem munu gagnast okkur til lengri tíma svo við sem heild getum tekið flugið.
Margt er að breytast en sumt breytist aldrei. Þó tækniframfarir geti nýst okkur vel þá er hinn mannlegi þáttur mikilvægur sem aldrei fyrr. Til þess að vera reiðubúin undir þær breytingar sem þegar eru hafnar eru tilfinningagreind og samskiptahæfileikar okkar öflugustu vopn. Hér tala ég um hæfni til að bregðast við hinu óþekkta. Ef einhver hélt að hugvísindin og húmanisminn væru á leið út í skiptum fyrir tæknikunnáttu þá er það mikill misskilningur. Hugvísindin og samfélagsgreinarnar, þessi fagþekking sem eflir skilning okkar á samfélaginu, stóra samhengi hlutanna og styður við sveigjanlega og frjóa hugsun er stökkbretti framþróunar.
Borgarlínan er dæmi um framþróun sem hefur raðað fólki í fylkingar þar sem önnur hliðin virðist eiga erfitt með að horfast í augu við nýja tíma. Þetta er jafnvel óháð staðreyndum máls og rökum með og á móti. Stundum er þörfin að tilheyra einfaldlega yfirsterkari staðreyndunum. En kannski eru örar breytingar einmitt valdur að því er jaðrar við örvæntingarfulla þörf einstaklinga að stilla sér upp með ákveðnu liði og sanna fyrir sjálfum sér og öðrum að þau tilheyri. Búi að föstum og öruggum stað í ófyrirsjáanlegum hræringunum, eigi sér vin í eyðimörkinni, geti fundið lognið í storminum. Þetta getur reynst lýðræðinu hættulegt. Aukin pólarisering er ekki til þess fallin að ýta undir efnislega og málefnalega umræðu sem grundvöll ákvarðanatöku.
Í umhverfi þar sem nágrannar hafa mikið til umbreyst í ókunnugt fólk, þar sem samfélög og samvistir sem fólk sótti áður í félagslegar einingar og trúfélög sem áttu sér fastan sess innan þorpsmenningarinnar hafa breyst og jafnvel gufað upp – er ekkert óeðlilegt að finna fyrir óöryggi og jafnvel hræðslu. Í umhverfi þar sem samhliða þessu eiga sér stað miklar breytingar með tækniframförum og áhrifum erlendis frá í síminnkandi heimi er ekkert óeðlilegt að finna fyrir óöryggi og jafnvel hræðslu.
Viðbragð við slíku óöryggi getur verið leit að nýjum sess til að styrkja stoðir sjálfsmyndarinnar með. Þann sess getur verið að finna innan skautaðra fylkinga stjórnmálanna og samfélagsumræðunnar. Mér finnst brýn ástæða til að reyna að bjóða annan valkost, annan faðm sem er síður til þess fallinn að grafa undan málefnalegri umræðu og skyggja á upplýsta niðurstöðu. Þannig getum við fetað vegslóða sem skartar öllu litrófinu, flokkað og grúskað í sameiningu í stað störukeppni hins svarta og hvíta.
Í veröld framþróunar þar sem breytingar eru örar þurfum við að muna eftir mennskunni. Hvers virði er þetta annars allt saman? Sýnum hvort öðru hlýju og samkennd. Verum til staðar. Þannig eigum við auðveldara með að flæða saman niður fljót framþróunar og getum jafnvel leyft okkur að njóta þess stundarkorn. Gleðilega páska.