Í gær var fjárhagsáætlun fyrir 2021 kynnt í borgarstjórn sem og græna planið, viðspyrnuáætlun borgarinnar vegna Covid-19. Það er engum ofsögum sagt að fjárhagsáætlunin er mjög Pírataleg og ég er stolt af því að vera hluti af meirihluta sem hefur þrek og þor í að bregðast við krefjandi aðstæðum af festu.
Viðspyrnan vegna Covid tekur ekki bara á fjárhagslegum kröggum heldur einnig umhverfislegum og samfélagslegum. Við ætlum að fjárfesta í fólki, ekki bara malbiki og steypu.
Nútímavæðing þjónustu mun gerast á tveimur til þremur árum í stað tíu, það er gert með því að setja í það tíu milljarða í stað þriggja. Allri þjónustu og stjórnsýslu verður umturnað þannig að þarfir íbúans verði í forgrunni, ekki þarfir og þvermóðska kerfisins.
Við nýtum tæknina og hugvitið til að auðvelda líf venjulegs fólks og auka aðgengi að þjónustu. Minnka skriffinsku, minnka vesen, minnka tímaeyðslu, minnka sóun og minnka mengun.
Við ætlum að auðvelda innritun í leikskóla með betra yfirliti yfir laus pláss og einfalda framkvæmdir með nýrri skipulags- og byggingargátt.
Með Gagnsjá Reykjavíkur og nýrri styrkjagátt munum við stórauka gagnsæi í öllu stjórnkerfi borgarinnar. Með fjárfestingu í gagnainnviðum eykst aðgengi að gögnum sem mun styðja við gagnadrifna og upplýsta ákvarðantöku. Það er grunnur að virku aðhaldi fjölmiðla og íbúa sem jú er lykillinn að lýðræðinu.
Við ætlum einnig að efla lýðræðið með nýrri lýðræðisgátt svo þú getir með auðveldum hætti komið þínum athugasemdum og sjónarmiðum vel á framfæri.
Með tölvuátaki á öllum skólastigum fyrir rúmlega 700 milljónir á þremur árum munum við tryggja að öll njóti góðs af tækniframförum og tækifærunum sem þeim fylgja.
Auk þess að hlúa að velferð íbúa hlúum við að velferð dýranna sem er metnaðarmál hjá okkur Pírötum. Með stækkun selalaugarinnar í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum munum við búa betur að selunum og þróa garðinn áfram sem friðsælt athvarf dýra. Lög leyfa ekki að selum í haldi sé sleppt. Þrír af fjórum selum eru ungir og eiga jafnvel áratugalíf fyrir höndum og við viljum gera það sem bærilegast. Svo mun laugin nýtast fyrir særð og illa haldin dýr, seli og sjófugla, við umönnum og endurhæfingu.
Ný dýraþjónusta Reykjavíkur, sem var ein af kosningaáherslum Pírata, verður sett á laggirnar sem sameinar alla þjónustu við gæludýr borgarinnar í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum. Dýr og menn eiga nefnilega að geta lifað í sátt og samlyndi, í ennþá betri borg.
Höfundur er oddviti Pírata og formaður mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs.