Home Aðildarfélög Aukið gagnsæi og jafnræði styrkveitinga hjá Reykjavík

Aukið gagnsæi og jafnræði styrkveitinga hjá Reykjavík

Aukið gagnsæi og jafnræði styrkveitinga hjá Reykjavík

Nú mætist hið gamla og hið nýja. Á morgun klukkan tólf rennur út umsóknarfrestur fyrir árlegar styrkveitingar úr borgarsjóði. Fjöldi fólks um allan bæ situr líklega sveitt við og tekur lokahnykkinn á sínum umsóknum. Gangi ykkur vel!

Líklega verður þetta í síðasta sinn að styrkjum er veitt úr þessum sjóð með ,,gamla laginu“ en við samþykktum í mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráði í vor nýtt fyrirkomulag með aukið gagnsæi og jafnræði styrkveitinga að leiðarljósi. Þegar ég kom inn í borgarkerfið stakk strax í augun hve óaðgengilegt og ógagnsætt núverandi fyrirkomulag er að mínu mati. Ég hlakka til að sjá aukið gagnsæi og aukið aðgengi að styrkjum borgarinnar til að styðja við jafnræði þannig að öll standi sem jöfnust þegar kemur að tækifærum til að fá úthlutað styrkjum. Það er lýðræðislegt! Það er réttlæti!

Nýtt fyrirkomulag styrkveitinga þýðir meðal annars þetta:

  • Settur verður upp styrkjavefur Reykjavíkurborgar sem mun halda utan um upplýsingar og leiðbeiningar um alla styrki þar sem notandi verður leiddur áfram að umsókn. Gögn um úthlutanir styrkja verða birtar þar til þess að auka gagnsæi.
  • Reglur Reykjavíkurborgar um styrki verða yfirfarnar og sameinaðar reglum í Styrkjahandbók þar sem farið verður markvisst yfir allar sérreglur um styrkveitingar og tryggt að þær séu í samræmi við meginreglur.
  • Styrkjum úr borgarsjóði verður framvegis úthlutað tvisvar á ári í gegnum nýja rafræna umsóknarferlið þannig að alltaf verði opið fyrir umsóknir.

Ég er mjög stolt af þessu verkefni. Ég elska að vinna að auknu gagnsæi og auknu aðgengi fyrir alla. Með betra upplýsingaaðgengi fyrir þá sem skilja og skilja ekki íslensku. Með því að ýta stanslaust á eftir algildri hönnun við þróun borgarlands og bygginga. Með stafrænni umbreytingu þjónustu þar sem við einföldum þjónustuferla. Með nýjum gagnsæis- og lýðræðisgáttum þar sem verður auðveldara að kynna sér málin og taka þátt. Með því að pönkast í kerfunum þegar fólk upplifir að á þeim hafi verið brotið.

Mig langar bara til þess að við getum öll átt hér gott líf. Að það skipti ekki máli hvaðan við komum eða hvernig staða okkar er. Að spilling fái ekki að grassera og að við fáum öll sömu tækifærin. Að samfélagið sé opið, réttlátt og nútímalegt. Til þess að fólk nenni hreinlega að búa hér og geti notið þess.

Höfundur er borgarfulltrúi Pírata og formaður mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs Reykjavíkur

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here