Borgarstjórn leggur áherslu á velferð og aðgengi fatlaðs fólks
Nú er dagur aðgengis fyrir alla runninn upp. Allt fólk óháð aðgengisþörfum á að geta lifað sjálfstæðu og góðu lífi í okkar samfélagi. Gleymum því þó ekki að upphaflega er það skipulagt út frá þörfum ófatlaðs fólks og því verður að breyta. Gott aðgengi fyrir fatlað fólk gagnast þar að auki öllum. Núverandi meirihluti borgarstjórnar leggur mikla áherslu á aukna velferð og aðgengi fatlaðs fólks.
Betri Reykjavík
Við hjá Reykjavíkurborg erum að safna aðgengissögum íbúa í tengslum við mótun aðgengisstefnu Reykjavíkur og ég hvet þig til að taka þátt með því að senda þína reynslusögu af aðgengismálum í borginni inni á Betri Reykjavík.
Ný og öflugri samráðsnefnd um málefni fatlaðs fólks tók til starfa á kjörtímabilinu því við viljum tryggja skilvirka aðkomu fatlaðs fólks að ákvarðanatöku og þar er ég svo heppin að eiga sæti sem fulltrúi borgarstjórnar. Við róum öllum árum að því að fatlað fólk geti komist sinnar leiðar og notið útivistar á við ófatlað fólk og erum því meðal annars að gera nýjan stíg sem mun bæta verulega aðgengi að útivistarsvæðinu í Öskjuhlíð, auka aðgengi að útisvæðinu við Kjarvalsstaði á Klambratúni og ráðast í endurbætur strætóbiðstöðva. Samtals nýlegar fjárfestingar upp á um 300 milljónir króna.
Bætt aðgengi er líka klókt í viðskiptalegum tilgangi
Nú erum við þar að auki að koma að stofnun aðgengissjóðs til að auka aðgengi fatlaðs fólks að þjónustu, verslun og veitingahúsum í Reykjavík. Dagurinn í dag snýst um mikilvægi þess að auka meðvitund um aðgengi. Ekki bara út frá mannréttindum heldur líka út frá viðskiptalegum sjónarmiðum. Bætt aðgengi er nefnilega ekki bara hið rétta heldur líka klókt í viðskiptalegum tilgangi. Um leið og réttlátara samfélag er samkeppnishæfara samfélag, styrkir aukið aðgengi samkeppnishæfni kaffihúsa, veitingastaða og verslana. Að þessu tilefni verður nýjum aðgengissjóði Reykjavíkur og verkefninu „Römpum upp Reykjavík“ ýtt úr vör í dag.
Áfram höldum við baráttunni fyrir réttlátara, betra og aðgengilegra samfélagi!