Alþjóðlegi öldrunardagurinn og aðgengi að stafrænu samfélagi
Í ár var vakin athygli á mikilvægi á stafrænu jafnræði fyrir eldra fólk. Aðgengi að stafrænni þekkingu og færni fyrir eldra fólk víðs vegar um heiminn er afar mismunandi, sums staðar er verið að gera ansi margt í því að efla og auka þekkingu og færni eldra fólks, svo þau geti nýtt stafræna tækni sér til gagns og gleði dags daglega. Á sama tíma eru lönd sem huga ósköp lítið að þessari aðkallandi þörf og er þar helst einmitt eldra fólk og konur sem virðast hafa minnsta aðgengið að stafrænu jafnræði, eins og lesa má um hér á síðu Sameinuðu þjóðanna.
Aukið aðgengi eldra fólks
Það er löngu tímabært að veita og auka aðgengi eldra fólks að þeim stafrænu breytingum sem samfélagið hefur verið að ganga í gegnum, í beinu framhaldi af fjórðu iðnbyltingunni, með allri sinni stafrænu umbreytingu í þjónustu, ferlum og daglegu lífi.
Þjónustan í samfélaginu
Oft í þessum breytingum er talað um að huga þurfi að því að allt form á umsóknum og þjónustu í samfélaginu megi ekki vera með þeim hætti að fólk sem t.d. noti ekki snjallsíma, eða þekki ekki almennilega tæknina, geti þar með ekki verið hluti af samfélaginu. Þetta er alveg hárrétt ábending og mikilvægt að huga að þeirri staðreynd að ekki eru allir að nota rafræn skilríki eða snjalltæki. Ekki ennþá að minnsta kosti.
Hvað hefur staðið í vegi fyrir að flýta fyrir stafrænni þátttöku eldra fólks?
Lengi hefur svolítið verið eins og að enginn nennti að huga að því hvernig ætti að flýta fyrir þessum breytingum fyrir eldra fólk líka. Það var eins og að það ætti bara að bíða eftir að síðasti aldraði einstaklingurinn myndi falla frá og þá kæmi þetta. Einn og einn gæti lært þetta og það væri fínt, en annars var enginn metnaður fyrir því í alvörunni að stuðla að því að eldra fólk myndi læra að nýta tæknina sér til gagns. Þau máttu bara vera ólæs á þetta stafræna samfélag.
Aldursfordómar
Í þessu birtast auðvitað ákveðnir aldursfordómar, sem oftast felast í þeirri undarlegu tilhugsun að eldra fólk sé bara of seint að hoppa upp á þennan vagn. Það sé of seint að reyna kenna þeim þetta. Sem betur fer hefur þetta verið að breytast og samfélagið að átta sig á mikilvægi þess að bæði gera þeim kleift að læra þetta og ekki síst líka að átta sig á að auðvitað geta allir lært að nota tæknina. Enda erum við að læra og þroskast alla ævi. Þekkt er einnig að því meira sem við hugum að því að viðhalda þekkingu og færni, með því t.d. að sækja ýmis námskeið, sinna endurmenntun og bara að vera virk í samfélaginu, því farsælli öldrun eigum við, hvert og eitt. Þá er það mikilvægt fyrir alla að geta notað tæknina, tækin og stafræna þjónustu fyrir eigið sjálfræði og sjálfstæði, svo er það líka valdeflandi.
Stafrænir glæpir og ofbeldi
Einnig er afar mikilvægt að fræða fólk um þær hættur sem stafar af stafrænum glæpum og ofbeldi, sem hafa jú sprottið upp með þessari stafrænu samfélagslegu þróun. Enda könnumst við sjálf flest við þær aðvaranir af tækniþrjótum úr ýmsum áttum. Reglulega birtast fréttir í fjölmiðlum þar sem við erum vöruð við stafrænum glæpum og eða fáum fréttir af því hvernig heilu fyrirtækin eða stofnanirnar hafa tekið þau í gíslingu. Þessir glæpir eru orðnir mjög sannfærandi og jafnvel faglegir. Þetta er því aðkallandi fræðsla fyrir okkur öll, á öllum aldri.
Hvað gerðum við í Reykjavík til að stuðla að stafrænu jafnræði?
Eitt af því sem var í starfslýsingunni minni í félagsstarfi fyrir fullorðna, var að kenna eldra fólki á síma og tölvur. Nema það var ekki minn styrkleiki, sem og margra annarra samstarfsfélaga minna, reyndar var það mjög misjafnt hreinlega meðal okkar hversu öflug við sjálf værum með þessi tæki. Við reynum að nýta unglingana, úr elstu bekkjum grunnskólanna í hverfunum, sem voru oft ansi falleg og skemmtileg verkefni. En ég rakst fljótlega á alls konar hindranir við það að fara þá leið, eins og t.d. ósamræmi á starfseminni í félagsstarfinu og svo stundatöflum krakkanna. Svo að það gekk ekki til lengdar, né var af því almennilegur árangur Þetta fallega samstarfsverkefni grunnskóla og félagsstarfs fullorðinna var því ekki ásættanleg lausn né skilaði hún væntum árangri.
Tæknilæsi fyrir fullorðna
Það þurfti eitthvað meira og formfastara. Svo ég fór að spjalla við son minn sem vann einnig með mér í öldrunarstarfi og svo einn af samstarfsmönnum mínum. Áður en við vissum vorum við búin að skapa verkefnið, Tæknilæsi fyrir fullorðna, sem fékk heldur betur góðan stuðning hjá Velferðarsviði Reykjavíkurborgar, og félagsmálaráðuneytinu, sumarið 2020. Farið var á milli félagsmiðstöðva í borginni og boðið upp á ókeypis námskeið fyrir eldra fólk. Sagan var einnig endurtekin síðasta sumar. Verkefnið gengur ekki bara út á að kenna eldra fólki á tæknina, heldur einnig út á að stuðla að kynslóðablöndun þar sem leiðbeinendur eru flestir yngra fólk, t.d. í framhalds- eða háskólanámi. Verkefnið vann svo hvatningarverðlaun Mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs Reykjavíkurborgar, í desember 2020.
Tæknilausnir til þess að eldra fólk geti búið lengur heima hjá sér
Í dag er þetta námskeið komið í réttar og góðar hendur hjá Velferðartæknismiðjunni hjá Velferðarsviði. Velferðartæknismiðjan hefur einnig verið að þróa og nota ýmsar tæknilausnir til þess að gera eldra fólki kleift að búa lengur heima hjá sér, að seinka þörf fyrir að flytjast á hjúkrunarheimili sem og að starfsfólk sem þjónustar aldraða geti nýtt þessa tækni í sínum störfum.
Skjáheimsóknir
Meðal þess sem hefur verið boðið upp á eru skjáheimsóknir, sem reyndust aldeilis mikilvægar í verstu samkomutakmörkunum hér á landi, skolsalerni, snjallúr, raflásar, ýmsir skynjarar, sýndarveruleika gleraugu (e.VR), heilsumælingar, skynörvun, og svo er þessa dagana verið að innleiða lyfjavélmenni á heimilum fólks. Þann 1. janúar 2022 opnar svo fyrsta rafræna þjónustumiðstöðin hjá Reykjavíkurborg sem getur orðið ansi góður vettvangur til þess að efla og bæta þjónustu við fólk á öllum aldri, þar á meðal líka eldra fólks.
Af hverju allar þessar tæknibreytingar?
Öll þessi stafræna umbreyting getur virkað yfirþyrmandi fyrir mörgum okkar. Hún er hins vegar afar gott verkfæri til þess að einfalda, valdefla og auka sjálfræði okkar allra, og hærri aldur er engin ástæða til þess að vera ekki hluti af þeim breytingum og þjónustuaukningu. En þó verðum við að vera vakandi fyrir því að skilja og vita að það þarf að íhuga hvernig við mætum þörfum eldra fólks innan þessara samfélagsbreytinga, og hvernig aðgengið þeirra er tryggt að þeirri þjónustu sem er fólgin í þeim breytingum.
Það að stuðla að sjálfstæði og færni eldra fólks í stafrænu umhverfi er til hagsbóta fyrir þau, sem og samfélagið því þar með eru þau ekki upp á aðra komin að nota tæknina. Auk þess sem sú þekking flýtir fyrir því að stafræn umbreyting eigi sér stað.
Eldri borgarar fullfærir að vera þátttakendur
Stafræn umbreyting stuðlar að aukinni þjónustu, auknum gæðum í þjónustu, felur í sér sparnað og er umhverfismál. En fyrst og fremst eru eldri borgarar almennt líka fullfærir um að vera þátttakendur í að nota tækin, sem mun auka lífsgæði þeirra, og þau eiga auk þess rétt á því að vera hluti af þeim vaxandi hópi sem nýtir tækninýjungar dagsdaglega.
Stafrænt jafnræði
Það gleður mig því afar mikið að Sameinuðu þjóðirnar hafi ákveðið að þemað öldrunardagsins í ár hafi verið stafrænt jafnræði, það var kominn tími til og margt sem ávinnst, bæði fyrir einstaklinginn en líka fyrir samfélagið, með því að auka aðgengi fólks að þessari þekkingu og notkun.