Áherslur Pírata fyrir alþingiskosningar 2016

Uppfærum Ísland með nýrri stjórnarskrá

Píratar eru sannfærðir um að lögfesting nýrrar stjórnarskrár sé grunnforsenda mikilvægra samfélagslegra umbóta á Íslandi.

Nýja stjórnarskráin felur í sér uppfærslu á úreltri stjórnskipan Íslands. Hún hefur mannréttindi og aukin áhrif almennings að leiðarljósi og tryggir ábyrgð valdhafa gagnvart kjósendum. Píratar vilja færa valdið til fólksins og verða við kröfunni um nýjan samfélagssáttmála, sem fram kom í kjölfar efnahagshrunsins 2008. Þar með vilja Píratar einnig efna það loforð sem þjóðinni hefur verið gefið allt frá lýðveldisstofnun árið 1944, um nýja stjórnarskrá sem tekur mið af breyttum stjórnarháttum á Íslandi.

Nýja stjórnarskráin okkar var samin af þjóðinni til þess að marka nýtt upphaf í kjölfar hins samfélagslega áfalls sem hún varð fyrir vegna hrunsins. Þjóðaratkvæðagreiðslan þann 20. október 2012 staðfesti eindreginn vilja þjóðarinnar til þess að leggja frumvarp stjórnlagaráðs til grundvallar nýjum samfélagssáttmála. Píratar virða vilja þjóðarinnar og setja því lögfestingu nýrrar stjórnarskrár í forgang á komandi kjörtímabili, rétt eins og þeir hafa gert frá stofnun hreyfingarinnar.

Píratar vilja uppfæra Ísland með nýrri stjórnarskrá af því að:

 • Hún svarar kalli þjóðarinnar um nýjan samfélagssáttmála
 • Hún færir auðlindir í þjóðareign
 • Hún tryggir mikilvæg réttindi eins og réttinn til bestu mögulegu heilsu
 • Hún færir almenningi aukið vald og stuðlar þannig að virkara lýðræði
 • Hún tryggir ábyrgð stjórnvalda gagnvart kjósendum

Tryggjum réttláta dreifingu arðs af auðlindum

 

Píratar vilja að íslenska þjóðin fái sanngjarnan arð af nýtingu sameiginlegra auðlinda sinna.

Nýja stjórnarskráin viðurkennir hin augljósu sannindi, að „auðlindir í náttúru Íslands eru sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar.“ Velsæld komandi kynslóða veltur á því að við komum upp skynsamlegum og sjálfbærum kerfum til að tryggja réttláta dreifingu arðs af auðlindum okkar til framtíðar. Við vitum að mannkynið er að ganga verulega á auðlindir jarðar og náttúru með fyrirsjáanlega hrikalegum afleiðingum fyrir komandi kynslóðir. Ábyrg umgengni við náttúruna og sjálfbær nýting auðlinda, þar sem náttúran nýtur vafans, er forgangsmál.

Píratar vilja uppfæra núverandi kerfi til þess að tryggja réttlátari dreifingu arðs af auðlindunum okkar þar til ný stjórnarskrá festir þennan sjálfsagða rétt í sessi. Fyrstu skref eru að breyta fiskveiðistjórnunarkerfinu og bjóða upp aflaheimildir á opnum markaði. Með þessum hætti er jafnræði, nýliðun og sanngjarn arður þjóðarinnar af fiskveiðiauðlind hennar tryggður. Píratar vilja einnig sjá til þess að stóriðjufyrirtækin greiði sinn skerf til samfélagsins fyrir nýtingu þeirra á orkuauðlind Íslendinga. Við gerum það meðal annars með því að breyta lögum og framkvæmd sem gera þeim kleift að koma hagnaði sínum úr landi án þess að greiða af honum skatta.

Píratar vilja:

 • Lögfesta auðlindaákvæði nýju stjórnarskrárinnar
 • Tryggja sanngjarna rentu af nýtingu allra sameiginlegra auðlinda
 • Setja lög gegn þunnri eiginfjármögnun
 • Færa allar aflaheimildir á markað

Endurreisum gjaldfrjálsa heilbrigðisþjónustu

Öll eigum við rétt á bestu mögulegu heilsu. Píratar standa vörð um þessi sjálfsögðu mannréttindi og stefna að því að heilbrigðisþjónusta og nauðsynleg lyfjakaup verði gjaldfrjáls og aðgengileg öllum, óháð búsetu. Við viljum stórbæta aðbúnað og kjör heilbrigðisstarfsfólksins okkar og stöðva fjársvelti heilbrigðiskerfisins. Píratar vilja lögfesta rétt allra til bestu mögulegu heilsu með nýrri stjórnarskrá.

Tann- og geðheilsa eru órjúfanlegur þáttur í heilsu einstaklinga sem ber ekki að aðskilja frá almennri heilbrigðisþjónustu. Píratar stefna að því að þjónusta sálfræðinga og tannlækna verði hluti af almannatryggingakerfinu líkt og önnur heilbrigðisþjónusta.

Við höfum alla burði til að reka hér framúrskarandi heilbrigðisþjónustu fyrir alla landsmenn.
Píratar vilja fjármagna endurreisn heilbrigðiskerfisins með sanngjarnri auðlindarentu, verðmætaaukningu í formi nýsköpunar og kerfisbreytingum sem fela í sér réttlátari skattbyrði í þjóðfélaginu.

Píratar vilja:

 • Gjaldfrjálsa og örugga heilbrigðisþjónustu fyrir alla, óháð búsetu
 • Stöðva fjársvelti heilbrigðiskerfisins
 • Færa sálfræðiþjónustu inn í almannatryggingakerfið
 • Færa þjónustu tannlækna inn í almannatryggingakerfið
 • Viðeigandi heilbrigðisþjónustu fyrir vímuefnanotendur í vanda, í stað refsingar

Eflum aðkomu almennings að ákvarðanatöku

Píratar treysta fólkinu í landinu til þess að taka góðar og skynsamlegar ákvarðanir um líf sitt og samfélag. Við viljum innleiða frumkvæðis- og málskotsrétt þjóðarinnar með nýrri stjórnarskrá. Frumkvæðisrétturinn veitir þjóðinni beinan aðgang að lagasetningu þingsins. Með málskotsréttinum fær almenningur verkfæri í hendur til að veita Alþingi nauðsynlegt aðhald og stöðva lög sem sett eru í óþökk þjóðar.

Píratar telja að allir hafi rétt til að koma að ákvarðanatöku um málefni sem varða þá. Við viljum vernda sjálfsákvörðunarrétt einstaklinga með eflingu borgararéttinda og auknu valfrelsi um eigin heilsu, atvinnu og lífsstíl. Við viljum tryggja sjálfsákvörðunarrétt samfélagsins í heilbrigðu lýðræði með ríkri aðkomu og aðhaldi almennings. Upplýsingatækni nútímans opnar leiðir fyrir nýsköpun í lýðræði og eykur áhrif borgaranna.

Píratar vilja:

 • Lögfesta málskots- og frumkvæðisrétt þjóðarinnar með nýrri stjórnarskrá
 • Auka aðkomu borgaranna að ákvarðanatöku samfélagsins með virku lýðræði
 • Efna loforð um þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB
 • Styrkja borgararéttindi með sjálfsákvörðunarrétt einstaklinga
 • Efla atvinnufrelsi, m.a. með heimild til frjálsra handfæraveiða
 • Styrkja nýsköpun í lýðræði með stafrænum lausnum og öðrum verkfærum upplýsingasamfélagsins

Endurvekjum traust og tæklum spillingu

Píratar álíta gagnsæi nauðsynlega forsendu ábyrgrar stjórnsýslu og upplýstrar þátttöku almennings í lýðræðinu. Við viljum stórauka aðgengi almennings að upplýsingum um ákvarðanatöku hins opinbera. Með því að gera þjóðinni kleift að veita aðhald og benda á spillingu eða óeðlilega stjórnsýslu aukum við traust á stjórnkerfinu. Píratar vilja styrkja þær stofnanir sem gæta hagsmuna almennings og fyrirbyggja spillingu og misbeitingu valds. Þannig viljum við efla samkeppniseftirlitið, neytendum til hagsbóta, styrkja Umboðsmann Alþingis til að vernda réttindi borgara í samskiptum sínum við stjórnsýsluna og koma á fót sjálfstæðu eftirliti með störfum lögreglu til að vernda borgararéttindi einstaklinga, svo fáein dæmi séu nefnd.

Píratar trúa því að aukið upplýsingafrelsi, tjáningarfrelsi og fjölmiðlafrelsi verði hornsteinn betra lýðræðis á traustum grunni. Til þess að almenningur geti veitt stjórnvöldum nauðsynlegt aðhald þarf fólk að hafa frelsi til að tjá sig um aðgerðir þeirra, án þess að þurfa að óttast ómaklegar afleiðingar. Við viljum að Ísland skapi sér afgerandi lagalega sérstöðu varðandi vernd tjáningar- og upplýsingafrelsis eins og þingsályktun Alþingis um IMMI segir fyrir um. Einnig er brýnt að tryggja að yfirvöld virði rétt borgara til friðhelgi einkalífs, líka á netinu. Mikilvægt skref í þá átt er að afnema gagnageymd og heimildir yfirvalda og fyrirtækja til að safna og selja persónuupplýsingar einstaklinga.

Píratar vilja:

 • Stórefla upplýsingarétt borgaranna með gagnsærri stjórnsýslu
 • Opna bókhald hins opinbera fyrir almenningi
 • Styrkja þær stofnanir er standa vörð um hagsmuni almennings
 • Afnema gagnageymd og heimildir yfirvalda og fyrirtækja til a safna og selja persónuupplýsingar einstaklinga
 • Að Ísland verði leiðandi aðili í vernd upplýsinga- og tjáningarfrelsis á alþjóðavísu