REYKJAVÍK | Prófkjörsreglur

Prófkjörsreglur og leiðbeiningar fyrir framboð í prófkjöri Pírata vegna sveitarstjórnarkosninga 2022 í Reykjavík

Sveitarstjórnarkosningar fara fram á Íslandi 14. maí 2022. Stjórn Pírata í Reykjavík hefur ákveðið að fram fari prófkjör við val á framboðslista Pírata fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í Reykjavík. Hér fyrir neðan er að finna allar upplýsingar varðandi framkvæmd prófkjörsins.

Ábyrgðaraðilar prófkjörsins eru fulltrúar skipaðir af stjórn PíR; Katla Hólm Þórhildardóttir, Eiríkur Rafn Rafnsson og Elsa Kristjánsdóttir. Allar frekari upplýsingar um framkvæmd prófkjörs veitir Elsa Kristjánsdóttir, framkvæmdastýra Pírata, framkvaemdastjori@piratar.is.

Tímalína prófkjörs

Samþykkt á Félagsfundi 12.janúar 2022 að hafa nokkra daga fyrir kynningar á milli loka framboðsfrests og upphaf kosningar. Eftirfarandi er tímalína prófkjörsins:

 • Frestur til að bjóða sig fram rennur út 15. Febrúar kl.15:00
 • Kynningar frambjóðenda á vegum Pírata verða frá miðvikudegi til föstudags 16.-18. febrúar
 • Kosning hefst 19. Febrúar kl.15:00
 • Kosningu lýkur 26. Febrúar kl. 15:00
 • Niðurstöður verða birtar þá þegar.

Leiðbeiningar um þátttöku í prófkjöri

Frambjóðendur tilkynna sjálfir framboð inn á þing Pírata í Reykjavík í kosningakerfi Pírata á https://x.piratar.is ásamt því að skila inn formi til ábyrgðaraðila sveitarstjórnarkosninga.

Til þess að tilkynna framboð á kosningakerfinu þarf að:

 1. Vera skráð/ur í Pírata.
 2. Vera skráð/ur í kosningakerfi Pírata sem notandi.
 3. Smella á „Tilkynna framboð“ hnappinn.
 4. Jafnframt þarf að skila inn formlegri tilkynningu til ábyrgðaraðila sveitarstjórnarkosninga í sveitarfélaginu sem er stjórn Pírata í Reykjavík í gegnum form á netinu: https://piratar.is/pir-profkjor2022/

Sú tilkynning skal berast með öllum nauðsynlegum upplýsingum áður en framboðsfrestur rennur út þann 15. febrúar 15:00.

Sértu ekki skráð/ur í kosningakerfið þá geturðu haft samband við viðkomandi aðildarfélag eða framkvaemdastjori@piratar.is.

Ábyrgðaraðilar prófkjörs munu hafa samband símleiðis við alla þátttakendur við skráningu til að kynna ferlið framundan og athuga að skráning sé fullnægjandi.

Kynning á frambjóðendum

Kynning á frambjóðendum mun fara fram á rafrænum fundum.

Ábyrgðaraðilar prófkjörsins munu í samstarfi við starfsfólk skipuleggja kynningarfundi á netinu þar sem frambjóðendur fá fyrirfram ákveðin tíma til að kynna sig og svara spurningum frá félagsfólki. Nánari útlistun á tíma og fyrirkomulagi verður kynnt 15. febrúar þegar framboðsfrestur er liðin. Frambjóðendum er ráðlagt að undirbúa sig og vera reiðubúin. Auk þess verður útbúið kynningarefni fyrir hvern frambjóðanda sem dreift verður frá samfélagsmiðlum Pírata í Reykjavík.

Frambjóðendur eru hvattir til að svara eftirfarandi spurningum og birta svörin á Mín síða á kosningakerfi Pírata https://x.piratar.is

 1. Hvers vegna vilt þú bjóða þig fram fyrir Pírata?
 2. Hvað gerir þig að góðum kosti til að vera borgarfulltrúi í Reykjavík?
 3. Hver eru þín helstu stefnumál?
 4. Eða settu eitthvað fram sem þú heldur að gæti vakið áhuga fólks á framboði þínu.

Gleymið ekki hagsmunaskráningunni sem verður að koma fram á Mínum síðum.

Fullskipaður framboðslisti og staðfesting hans

Niðurstaða prófkjörs er bindandi. Frambjóðendur geta þó óskað eftir að taka sæti neðar á lista og færast þá aðrir frambjóðendur upp sem því nemur. Taki færri þátt í prófkjöri en taka skulu sæti á lista til framboðs munu ábyrgðaraðilar prófkjörsins raða á listann. Fullskipaður listi verður kynntur innan viku.

Sáttmáli frambjóðenda

Frambjóðendur beðnir um að hafa eftirfarandi atriði í huga í framboði sínu:

 1. Frambjóðendur í prófkjöri sýna öðrum frambjóðendum kurteisi og virðingu og koma fram af háttvísi, bæði í ræðu og riti.

 2. Frambjóðendur koma heiðarlega fram, eru sannsöglir og málefnalegir.

 3. Frambjóðendur gæta þess að sýna auðmýkt gagnvart ábyrgð sinni og valdi sem frambjóðendur Pírata.

 4. Frambjóðendur hafa í huga að ekki er hefð fyrir kostuðum auglýsingum frambjóðenda í prófkjörum Pírata. Ekki er hægt að banna frambjóðendum fjárútlát til að koma framboði sínu á framfæri en þeim er engu að síður upp á lagt að halda þeim í hófi. Ágætt viðmið er að fara ekki yfir 25 þús. kr. í auglýsingakostnað.

Prófkjörsreglur fyrir sveitarstjórnarkosningar í Reykjavík 2022

Frambjóðandi skal tilkynna framboð með innsendingu forms á slóðinni https://piratar.is/pir-profkjor2022/. Þar þarf að koma fram eftirfarandi:

 • Fullt nafn (samkvæmt þjóðskrá)

 • Kennitala

 • Staða, starfsheiti eða lífsköllun

 • Lögheimili

 • Símanúmer og netfang sem einungis eru nýtt fyrir samskipti vegna framboðs og verður ekki birt almenningi

 • Ljósmynd sem má nota á samfélagsmiðlum Pírata sem og í fjölmiðlum

Með framboðsskráningu samþykkir frambjóðandi að hann hafi kynnt sér eftirfarandi kvaðir sem fylgir framboðinu og samþykki þær:

 1. Frambjóðandi skal vera skráður í Pírata sem og aðildarfélagið Píratar í Reykjavík. (sjá https://x.piratar.is)

 2. Frambjóðandi skal gera grein fyrir kjörgengi skv. 6. gr. kosningalaga nr. 112/2021.

 3. Frambjóðandi útvegar stjórn Pírata í Reykjavík allar nauðsynlegar upplýsingar sem koma fram í þessum reglum og leiðbeiningum.

 4. Frambjóðandi samþykkir með undirskrift endanlegt sæti á lista og gefur hann einnig samþykki fyrir umboðsmönnum listans. Þetta skal gert eigi síður en fjórum dögum áður en frestur til að skila listanum rennur út, ellegar er heimilt að fella frambjóðanda af lista.

 5. Framboðslistum verður raðað samkvæmt úrslitum forgangskosningar með Schulze aðferð eftir kosningu í kosningakerfi Pírata. Þó skal frambjóðendum heimilt að víkja sæti og taka lægra sæti á lista en kjör hans segir til um, og færast þá aðrir frambjóðendur ofar á lista. Starfsfólki Pírata er ekki heimilt að taka fyrsta eða annað sæti. Hafni frambjóðandi sæti eða geti af öðrum sökum ekki tekið því skal afmá nafn hans af listanum og færa þá sem á eftir koma upp um eitt sæti. Nægi fjöldi frambjóðenda að þessum breytingum loknum ekki lögbundnu lágmarki fyrir fullskipaðan framboðslista er ábyrgðaraðila listans heimilt að bæta nöfnum þeirra sem það samþykkja í sæti á eftir þeim sem kjörnir hafa verið á framboðslistann.

 6. Allir félagsmenn Pírata í Reykjavík sem skráðir hafa verið í Pírata í 30 daga eða lengur munu hafa kosningarétt í prófkjöri Pírata í Reykjavík. Lokadagsetning til að skrá sig í Pírata og hafa atkvæðisrétt er á miðnætti þann 27. janúar n.k. eða 30 dögum áður en kosningum lýkur.

 7. Ef frambjóðandi er ekki kjörgengur er heimilt að víkja honum af lista svo listinn sé löglegur. Ábyrgðaraðilum prófkjörs ber að athuga kjörgengi frambjóðenda áður en fullbúinn listi er kynntur.

 8. Frambjóðendur gera grein fyrir öllum þeim hagsmunum sem gætu skipt máli við framboðið. Hagsmunaskráningu skal lokið áður en kosning hefst þann 15. febrúar. Skrá skal hagsmuni inn á Mínum síðum frambjóðanda í kosningakerfi Pírata (https://x.piratar.is) Hagsmunaskráning skal fylgja reglum Reykjavíkurborgar um hagsmunaskráningu kjörinna fulltrúa. Reglur um hagsmunaskráningu borgarfulltrúa: https://reykjavik.is/sites/default/files/reglur_um_skraningu_fjarhagslegra_hagsmuna_samthykktar_3._mars_2020_0.pdf

 9. Sé greitt fyrir auglýsingar til kynningar framboði í prófkjöri verður að gera grein fyrir þeim fjárútlátum. Þetta er samkvæmt landslögum og má finna leiðbeiningar hér.

Allt um prófkjör Pírata