Metáhorf á uppljóstranir Jóhannesar

Á fimmta þúsund manns horfðu á beina útsendingu Pírata

Þúsundir fylgdust með samtali þeirra Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur, þingmanns Pírata, og Jóhannesar Stefánssonar, uppljóstrara í Samherjamálinu, sem sent var út í beinni útsendingu í gær.

Spjallinu, sem bar yfirskriftina Sannleikurinn um Samherja, var streymt víða. Þannig var útsendingin á piratar.tv og piratar.is, ásamt YouTube-rás Pírata, Vimeo-rás Pírata, Twitch-rás Pírata, Facebooksíðu-Pírata, Facebooksíðu-þingflokks og Pírataspjallinu á Facebook.

Ljóst er að mikill áhugi er á Samherjamálinu því að áhorfið sprengdi öll fyrri met. Þannig horfðu á fimmta þúsund manns á útsendinguna meðan á henni stóð. Þar með er þó ekki öll sagan sögð. Eftir að útsendingu lauk hafa rúmlega þúsund manns horft á upptökuna af uppljóstrunum. Samanlagt hafa því á sjöunda þúsund horft á viðburðinn – og er þeim enn að fjölga.

Óvenjuleg og óvænt netnokun
Í ljósi þessa gríðarlega áhuga var hvimleitt að tæknivandamál hafi sett svip á útsendinguna. Þrátt fyrir mikið áhorf og mikið álag stóðst tækjabúnaður Pírata áhlaupið auðveldlega og því ljóst að vandamálið lá annars staðar.

Netþjónustufyrirtæki Pírata fann fljótt hvar hundurinn lá grafinn. Tenging fyrirtækisins til útlanda hrundi óvænt – út af netnotkun eins viðskiptavinar. Fyrir vikið hrundi netið hjá öllum sem voru að hlaða upp stórum gögnum eða streyma, eins og Píratar í gær. Að sögn netþjónustufyrirtækisins er þetta mjög óvenjulegt, slíkt netáhlaup eigi sér stað aðeins á nokkurra ára fresti.

Þrátt fyrir þetta var útsendingin, fram að truflunum, vel heppnuð og upplýsandi um starfsemi Samherja. Jóhannes var mjög ómyrkur í máli, eins og má lesa um hér, en útsendinguna má jafnframt sjá efst í fréttinni.

Nýjustu myndböndin