Þórhildur Sunna Ævarsdóttir

Þórhildur Sunna

Ég er 29 ára lögfræðingur, blaðamaður og Pírati. Lögfræðina lærði ég í fjórum háskólum víðsvegar um Evrópu (Þýskalandi, Grikklandi og Hollandi), þar sem ég sérhæfði mig í alþjóðalögum, Evrópulögum, mannréttindum og alþjóðlegum refsirétti. Frá því að ég útskrifaðist með mastersgráðu frá háskólanum í Utrecht árið 2013 hef ég búið hér heima og aðallega unnið sem blaðamaður og við ritstörf tengd mannréttindum.

Pírötum kynntist ég í janúar 2015 í gegnum Smára McCarthy, sem bauð mér í kaffibolla eftir að hafa lesið nokkrar greinar eftir mig. Kaffibollinn breyttist reyndar í bjór og síðan í matarboð til Evu Þuríðardóttur og fleiri valinkunnra Pírata og eftir það var ekki aftur snúið. Ég var komin heim. Eftir því sem ég sótti fleiri fundi á vegum Pírata kynntist ég fleira fólki sem hafði sömu hugsjónir og ég sjálf. Úr varð að ég bauð mig fram í framkvæmdaráð Pírata. Píratar sýndu mér það traust að kjósa mig í ráðið og sat ég í því sem alþjóðafulltrúi þar til nýtt framkvæmdaráð tók við í júní síðastliðnum. Sú reynsla var mér dýrmæt og lærdómsrík og nýtist vel í núverandi stöðu minni sem nefndarmaður í úrskurðanefnd Pírata.

Mannréttindi minnihlutahópa og jaðarsettra einstaklinga eru mér sérstaklega hugleikin. Í störfum mínum hef ég einbeitt mér að réttindum flóttamanna, fatlaðs fólks, fanga og vímuefnanotenda, ásamt réttindum fólks með geðraskanir og geðfötlun. Ég tel mikilvægt að styrkja réttarstöðu og -vernd þessara hópa til muna og hef fullan hug á að vinna áfram að því markmiði. Besti staðurinn til þess er Alþingi.

Það eru þó ekki einungis mannréttindi minnihlutahópa sem eiga undir högg að sækja hér á Íslandi. Sem dæmi má nefna að tjáningarfrelsinu eru settar óhóflegar skorður með úreltum meiðyrðalögum og málflutningi óábyrgra stjórnmálamanna sem hóta gagnrýnum fjölmiðlum niðurskurði. Dómstólar standa ekki vörð um friðhelgi einkalífs með fullnægjandi hætti og gefa lögreglu allt of rúmar heimildir til að hlera símtöl og leita í húsakynnum og vösum borgaranna. Réttur okkar allra til bestu mögulegu heilsu er veginn og léttvægur fundinn af núverandi ríkisstjórn, sem sér ekkert athugavert við að horfa upp á heilbrigðiskerfið okkar hrynja. Þessi mál og fleiri verða í forgangi hjá mér á næsta kjörtímabili.

Ég hef kynnt mér íslenska stjórnsýslu og réttarfar nokkuð vel í gegnum árin. Mér þykir augljóst að breyta þarf stjórnarskránni, stjórnsýslulögum og lögum um opinbera starfsmenn til þess að byggja hér upp gott réttarkerfi sem allir geta stólað á. Eins þarf að stórefla þær stofnanir sem fara með eftirlitshlutverk gagnvart hinu opinbera. Mér finnst sérstaklega mikilvægt að koma á fót sjálfstæðu eftirliti með störfum lögreglu ásamt því að setja á fót sérstaka stofnun eða deild innan embættis ríkissaksóknara sem rannsakar spillingu og brot opinberra starfsmanna í starfi.

Mér finnst mikilvægt að Ísland taki skýra afstöðu gegn stríði og standi þess í stað með friði og mannréttindum á alþjóðavettvangi. Það krefst einnig hugrekkis til að standa með sannfæringu okkar þegar á reynir. Ísland hefur að mörgu leyti staðið sig vel í þessum efnum, til dæmis með því að viðurkenna sjálfstæði Palestínu. En betur má ef duga skal. Til þess að gerast trúverðugir boðberar friðar þurfum við fyrst að horfa inn á við og viðurkenna aðild okkar að stríðsglæpum og glæpum gegn mannkyni.