Halldóra Mogensen

Ég heiti Halldóra Mogensen og er þingkona Pírata i Reykjavíkurkjördæmi Norður.

Djúpstæð réttlætiskennd og löngun mín til að vera samfélaginu til gagns hefur alltaf verið ríkjandi drifkraftur í lífinu. Mér þykir vænt um meðbræður mínar og systur og það er mér hjartans mál að við búum öll við jöfn tækifæri og öll vinna í þá átt veitir mér innblástur og gleði.

Þessi löngun var m.a. ástæða þess að ég leitaði uppi Pírata sumarið 2012. Ég heillaðist af þeim markmiðum sem hópurinn hugðist vinna að og tók virkann þátt í allri þeirri uppbyggingu sem fólst í því að stofna nýjann stjórnmálaflokk. Þegar að við komum saman þessi litli hópur fólks sem kallaði sig Pírata og skrifuðum grunngildi þessara hreyfingar sá ég skýrt og greinilega leiðina að því samfélagi sem mig hafði lengi dreymt um, en hafði fyrir þann tíma ekki séð nægilega vel hvernig hægt væri að gera að veruleika. Píratar voru og eru með leiðarvísirinn að þessari framtíð og ég vil nýta tækifærið til að leggja mitt af mörkum og taka þátt í starfi sem ég tel skipta sköpum og vera samfélaginu til bóta. Starf mitt með Pírötum fram til þessa hefur verið mér mikill gleðigjafi og veitt mér innblástur og von þegar ég horfi í átt til framtíðar. Það væri mér mikill heiður að fá að halda áfram að vera til gagns

Sem varaþingkona Pírata hef ég fjórum sinnum fengið að upplifa það ævintýri að taka sæti á Alþingi. Á þessum tíma fékk ég tækifæri til að leggja fram þingmál og fyrirspurnir, taka þátt í umræðum á þingi og sitja nefndarfundi. Þetta er búið að vera lærdómsríkt ferðalag og hefur opnað augu mín fyrir þeim mörgu göllum sem fylgja þessu úrelta lýðræðiskerfi sem við búum við í dag. Sú sýn staðfestir trú mína á hversu mikilvægt það er að við höfum raunverulegt lýðræðisafl eins og Píratahreyfinguna inn á Alþingi.

Af þeirri vinnu sem ég hef unnið fyrir hönd Pírata er ég stoltust af þingsályktunartillögunni um skilyrðislausa grunnframfærslu sem ég lagði fram þann 6. október, 2014 og svo aftur með breytingum, þann 18. nóvember, 2015. Tillagan er nú loks komin í ferli og hefur farið í umræðu inn í Velferðarnefnd. Skilyrðislaus grunnframfærsla snýst fyrst og fremst um að skapa það raunverulega frelsi sem felst í jöfnum tækifærum fyrir alla og er að mínu mati grunnurinn að því að byggja upp lýðræðislegra samfélag, þar sem einstaklingar hafa bæði meiri tíma, sem og tækifæri til að vera raunverulegir þátttakendur í uppbyggingu nýs samfélags.

Mín helstu baráttumál snúast um að útrýma fátækt og skapa jöfn tækifæri til þess að einstaklingurinn geti verið raunverulega frjáls. Það brennur á mér að koma að nauðsynlegum stjórnarskrárbreytingum og uppfæra kerfin okkar í takt við þau tækifæri sem tækniframfarir bjóða upp á. Ég legg áherslu á að skoða allt heildrænt, hvernig hlutir tengjast svo hægt sé að ráðast á rót vandamála og finna góðar lausnir. Ég tel að með aukinni aðkomu almennings að stefnumótun og ákvarðanatökum sé hægt að uppræta þá skammtíma- og hagsmuna hugmyndafræði sem virðist ráða ríkjum í núverandi kerfi og leggja grunn að nýrri hugmyndafræði, þar sem horft er til framtíðar og sá heimur skoðaður sem við viljum skapa fyrir ókomnar kynslóðir.

Ég býð krafta mína fram til þess að taka þátt í þessari vinnu.