Gunnar Hrafn Jónsson

Gunnar er 35 ára og hefur starfað sem blaðamaður stóran hluta ævinnar. Hann hefur lokið BSc í Félagsvísindum og búið í Bretlandi, Hollandi, Kína og Þýskalandi, auk Íslands.

Eftir að hann flutti heim árið 2006 var hann blaðamaður hjá Reykjavík Grapevine og síðan fréttamaður á RÚV. Gunnar á eina dóttur sem er á þriðja ári og er algjör snúður en sjálfur sigraði hann uppistandskeppnina fyndnasti maður Íslands árið 2012.

“Stefnumál mín, eins og annarra frambjóðenda Pírata, eiga sér náttúrulega grunn í því lýðræðislega ferli sem er til staðar innan flokksins. Grasrótin ákveður stefnuna í meginatriðum, ekki einhver reykfyllt herbergi eða útvaldir fulltrúar.

Það er þó nauðsynlegt fyrir hvern og einn að forgangsraða til að heildin komist yfir sem mest.

Sjálfur mun ég, í stuttu máli, leggja mesta áherslu á:

-Að koma heilbrigðiskerfinu til bjargar (ekki síst geðheilbrigðiskerfinu) eftir áratuga niðurskurð og bæta þær óboðlegu aðstæður sem starfsfólk og sjúklingar búa við
-Að koma á beinna lýðræði og raunverulegu þingræði með því að aðskilja framkvæmdar- og löggjafarvald. Ráðherrar eiga ekki að sitja á þingi.
-Að afgreiða nýja stjórnarskrá byggða á tillögum sem voru samþykktar í þjóðaratkvæðagreiðslunni um árið
-Að tryggja að menntakerfið, LÍN þar með talinn, geri fólki kleift að öðlast þá menntun sem það sækist eftir – það borgar sig alltaf fyrir samfélagið til lengri tíma litið
-Að fara gagngert yfir þáttöku Íslands í alþjóðasamstarfi og setja skýr markmið um hvernig við ætlum að beita okkar rödd á alþjóðavettvangi í samræmi við þau gildi sem við aðhyllumst sem friðsöm og herlaus þjóð í lýðræðislegu samfélagi.