Eva Pandora Baldursdóttir

Ég heiti Eva Pandora Baldursdóttir og er fædd á Sauðárkróki árið 1990. Ég er með BSc gráðu í Viðskiptafræði frá Háskóla Íslands, lauk einu ári í MA námi í Menningarstjórnun við Háskólann á Bifröst og er nú í MPA námi í Opinberri Stjórnsýslu við Háskóla Íslands. Ég tilkynni hér með framboð mitt á lista Pírata í Norðvestur kjördæmi. Ég er tilbúin að taka að mér það sæti á lista sem mér býðst.

Ég hef búið í Skagafirði stærsta hluta ævi minnar og var, eins og flestir Skagfirðingar, skráð í Framsóknarflokkinn frá 16 ára aldri þegar ég byrjaði að fá áhuga á stjórnmálum. Seinna meir þegar ég fór að spá af alvöru og með gagnrýnni hugsun í stjórnmál komst ég að því að mín gildi og skoðanir samhæfðust ekki þeim flokki sem ég var skráð í og gekk ég þar af leiðandi úr flokknum. Ég kynntist Pírötum nokkrum mánuðum fyrir seinustu alþingiskosningar þegar ég fór að kynna mér þá flokka sem voru í framboði og sá strax að stefna og gildi Pírata áttu vel við mig. Síðan þá hefur áhugi minn á stjórnmálum vaxið og dafnað og er ég ein þeirra Íslendinga sem er ósátt við stöðu mála í þjóðfélaginu í dag.

Þau mál sem helst eru í brennidepli hjá mér eru:

Heilbrigðismál. Það hefur orðið mikil afturför í heilbrigðismálum á Íslandi, og þá sérstaklega á landsbyggðinni, á seinustu árum. Heilbrigðismál eru helsta grunnstoð samfélagsins og því verða þau að vera í forgangi.

Menntamál. Þegar kemur að menntamálum tel ég að betur þurfi að styðja við íslenska námsmenn og þá helst með því að breyta núverandi námslánakerfi og auðvelda fólki bæði að fara í nám og að haldast í námi. Einnig er mikilvægt að fólk sem lokið hefur námi fái viðeigandi störf á Íslandi og að það verði eftirsóknarvert að starfa hér á landi í stað þess að flytjast erlendis með menntunina.

Húsnæðismál. Húsnæðismarkaðurinn í dag er langt frá því að vera áskjósanlegur og helst það í hendur við aðgengi ungs fólks að námi.

Spilling er eitt helsta mein samfélagsins bæði í stjórnsýslunni og atvinnulífinu. Ég tel að auka þurfi gegnsæi á öllum stigum stjórnsýslunnar og auðvelda aðgengi upplýsinga eins og kostur er til þess að sporna við þessari þróun.

Einnig vil ég stuðla að aukningu beins lýðræðis í landinu á sem bestan hátt ásamt innleiðingu nýrrar stjórnarskrár.

Önnur mál sem mér eru hugleikin eru:

Landbúnaðar- og dýraverndunarmál þar sem ég tel að þurfi að endurskoða núverandi styrktarkerfi og gera það fýsilegra fyrir unga bændur að koma sér inn í greinina og þar af leiðandi halda bændastéttinni á Íslandi lifandi. Einnig tel ég að þurfi sterka löggjöf og eftirlit með gæludýra- og búfjáreftirliti þar sem lögð er áhersla á mannúðlega meðferð dýra.

Jafnréttismál þar sem ég tel að sporna verði á móti mismunun einstaklinga, hvort sem er á grundvelli kyns, kynhneigðar, trúarbragða, uppruna eða annarra þátta.