Skip to main content

Björn Leví GunnarssonÁður en ég tók til starfa á Alþingi Íslendinga þá vann ég sem hugbúnaðarsérfræðingur hjá Menntamálastofnun. Menntun mín er á sviði upplýsingatækni í námi (online social learning) — það þýðir að ég skoða hvernig samskipti fólks á netinu hafa áhrif á nám. Ég er menntaður í kerfisgreiningu og hvernig/af hverju þau virka eða ekki. Ég berst gegn notkun rökvillna í stjórnmálum sem og annars staðar. Ég tek þátt í stjórnmálum af því að ég lít á þau sem kerfi sem virkar ekki og sem ég vil laga. Ég lít á þingið og stjórnkerfið sem þjónustutæki en ekki stjórntæki. Lýðræði kemur frá fólkinu en ekki til fólksins.

Ég hef lifað og starfað út um allt. Ég hef búið á Norðurlandi, Vesturlandi, Suðurlandi, höfuðborgarsvæðinu og erlendis. Ég hef unnið í sveit, fiskvinnslu, byggingarvinnu, opinberri þjónustu, tölvuþjónustu, við gæðastjórnun í alþjóðlegu leikjafyrirtæki og kennt í leik- og grunnskóla.

Markmið mitt í stjórnmálum er að búa til betra; sanngjarnara, heiðarlegra og mannlegra kerfi. Ég geri mér fulla grein fyrir því að slíkt kerfi verður aldrei tilbúið vegna þess að samfélagið þróast og breytist. En það er nákvæmlega ástæðan fyrir því að það þarf svo nauðsynlega á uppfærslu að halda í dag. Þær breytingar sem hafa orðið á samskiptum manna á milli með nýrri tækni til þess að tjá og skilja hafa haft gríðarleg áhrif á það hvernig samfélagið í heild hagar sér. Samfélagið býst við meiri ábyrgð, meiri upplýsingum, meiri samvinnu. Kerfið verður ekki sanngjarnara nema fólk beri ábyrgð. Kerfið verður ekki heiðarlegra nema með því að allir fái aðgang að upplýsingum. Kerfið verður ekki mannlegra nema með meiri samvinnu.

Stjórnmál hafa hingað til snúist að miklu leyti til um völd. Nálgun Pírata er hins vegar valddreifing. Með valddreifingu næst samvinna. Upplýsingar eru líka valdatæki fyrir þá sem búa yfir þeim. Með dreifingu upplýsinga er völdum dreift. Valdbeiting er ekki sanngjörn. Vald spillir.

Þingferill

Fæddur í Reykjavík 1. júní 1976. Foreldrar: Gunnar Þorsteinsson (fæddur 7. september 1956) múrari og Fanney Gunnarsdóttir (fædd 2. apríl 1959). Maki: Heiða María Sigurðardóttir (fædd 3. nóvember 1982). Foreldrar: Sigurður H. Magnússon og Ásdís Birna Stefánsdóttir. Börn: Alexander Arnar (2009), Ársól Ísafold (2015).

Stúdentspróf FÁ 1992. BS-próf í tölvunarfræði HÍ 2008. MA-próf í tölvunarfræði frá Brandeis University, Waltham MA 2010.

Starfsmaður í leikskólunum Staðarborg og Jörfa. Kerfisstjóri hjá LÍN. Hugbúnaðarþjónusta hjá Hugvit hf. Kennari við Foldaskóla. Gæðaeftirlit hjá CCP. Hugbúnaðarsérfræðingur hjá Meniga. Hugbúnaðarsérfræðingur hjá Menntamálastofnun og Námsmatsstofnun.

Formaður framkvæmdaráðs Pírata 2013–2014.

Varaþingmaður Suðvesturkjördæmis mars og október 2014, október–nóvember 2015 og desember 2015 (Píratar).

Alþingismaður Reykjavíkurkjördæmis norður síðan 2016 (Píratar).

Æviágripi síðast breytt 3. nóvember 2016.