Birgitta Jónsdóttir

Ég heiti Birgitta Jónsdóttir og er einn af stofnendum Pírata og hugmyndasmiðum flokksins í árdaga hans. Ég hef tekið þátt í að stofna tvo “start up” flokka síðan hrunið mikla varð árið 2008. Ég var þeirri gæfu aðnjótandi að fá tækifæri og traust til að verða þingmaður fyrir bæði Borgarahreyfinguna og Pírata og að eiga hlutdeild að því að koma jaðarflokkum á þing, sem voru nauðsynlegt þrýstiafl á örlagatímum.

Síðan Píratar urðu til árið 2012 hefur okkur áunnist mikið traust meðal þjóðarinnar sem hefur eðlisbreytt flokknum og við þurft að leggjast á allar árar til að vera undir það búin að takast á við meiri ábyrgð en fyrirséð var þegar við stofnuðum flokkinn fyrir örfáum árum síðan. Það hefur kallað á bæði yfirgripsmikla heildarsýn á hvert við ætlum okkur að stefna sem þjóð inn í framtíðina og nýja hugsun í hlutverki stjórnmálaafla við að efla hlutdeild almennings í þátttöku, ákvörðun og ábyrgð í lýðræðissamfélagi. Það hefur án efa verið hve mest gefandi í innra starfi flokksins.

Ég hef unnið við fjölbreytt störf á lífsleið minni, þ.m.t. við uppvask, fiskvinnslu, skrifstofustjórn, verslunarstörf, skipulagningu á listrænum og andófsviðburðum af ýmsu tagi, umbrot á bókum, grafík, þýðingar, blaðamennska, rithöfundur; árið 1995 fór ég að vefa ljóð á internetið og stóð fyrir fyrstu beinu myndútsendingunni á internetinu frá Íslandi árið 1996. Þá stofnaði ég líka lítið netfyrirtækið IO á þessum tíma með nokkrum frumkvöðlum sem breyttu sýn minni á hlutverki og möguleikum netsins. Ég sá strax á þeim tíma hve stórkostlegt verkfæri internetið getur verið til að gera raunheima betri.

Rauður þráður á vegferð lífs míns var ákvörðun sem ég tók ung á árum um að mér bæri að taka þátt í gera samfélag mitt betra með öllum tiltækum ráðum og berjast gegn spillingu og óréttlæti. Veit ekki hvaðan þessi þunga undiralda kom, en hygg að móðir mín Bergþóra Árnadóttir hafi átt einhvern hlut að máli 🙂

Fyrir næstu kosningar gef ég kost á mér í eitthvert af þeim þremur kjördæmum á höfuðborgarsvæðinu sem bjóða fram sameiginlega lista í prófkjöri. Ég mun í auðmýkt taka það sæti sem félagar mínir treysta mér fyrir. Ég stefni aftur á þing vegna þess að ég veit að reynsla mín á þingi undanfarin sjö ár mun nýtast nýliðunum okkar. Þingheimur og stjórnsýslan er flókinn heimur með ótal óskrifuðum lögum og hefðum sem geta orðið fjötur um fót ef engin reynsla er fyrir hendi til að miðla reynslu og þekkingu.

Ég hef líka náð að temja mér allskonar ný vinnubrögð sem hafa leitt til þess að mér tókst t.d. að ná í gegn viðamikilli heildarsýn um framtíð landsins þegar kemur að afgerandi lagalegri sérstöðu varðandi upplýsingafrelsi, tjáningarfrelsi og friðhelgi einkalífs á hinum starfrænu tímum. Það var þingsályktun sem ég fékk samþykkta einróma á alþingi árið 2010. Ég hef lagt fram allskonar ályktanir á þinginu og einhverjar þeirra hafa náð brautargegni með einróma stuðningi þingheims: eins og t.d. OPCAT, IMMI og afglæpavæðing á vímuefnaneyslu.

Ég hef líka lagt áherslu á alþjóðastarf og orðið margs vísari og látið að mér kveða á þeim vettvangi á vegum þingsins. Þá er helst að nefna að ég náði því í gegn fyrst íslenskra þingmanna að skrifa ályktun fyrir Alþjóðaþingmannasambandið (IPU) sem 166 þjóðir eiga aðild að. Sú ályktun fjallaði um praktískar lausnir til að m.a. að auka gagnsæi, mannréttindi, vernda friðhelgi einkalífs og jafnt aðgengi að internetinu. Ályktunin var samþykkt einróma. Það er mitt mat að nauðsynlegt sé að vinna náið með sérfræðingum og áhugamönnum á þeim sviðum sem við höfum sérhæft okkur í og lúta að tilveru okkar í hinum stafrænu heimum.

Ég hef viðað að mér mjög mögnuðu tengslaneti sem ég veit að mun koma okkur að góðum notum ef við fáum tækifæri til að breyta einhverju hér heima. Það er nefnilega þannig að fólk út um allan heim er að gera frábærar tilraunir til að laga samfélög sín og stjórnsýslu og alger óþarfi að finna upp hjólið.

Við lifum á einstökum tímum í heimssögunni, þar sem gríðalegar hraðar umbreytingar eiga sér stað og því mjög mikilvægt að byggja á traustum grunni. Píratar hafa einbeitt sér að því að móta stefnu á nýjum grunni þar sem þung áhersla er lögð á aukna aðkomu almennings að ákvarðanatöku og eftirliti með verkefnum kjörinna fulltrúa og leiðum til að kalla fólk til ábyrgðar með verkfærum sem hafa nú þegar verið mótuð í nýrri stjórnarskrá sem var samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu ári 2011 en var aldrei gerð gild vegna ótta hagsmunaafla í landinu við að missa þau tök sem þeir hafa alltaf haft á öllum helstu þáttum samfélagsins.

Það traust sem okkur hefur verið sýnt í skoðanakönnunum er mikilsvert og kallar á auðmýkt og mikla vinnu til að viðhalda og sýna í verki um að það sé hægt að breyta til langtíma samfélagsgerð okkar. Það er hægt með raunsæum kerfisbreytinum sem nú þegar hafa verið í umræðunni. Ef okkur tækist t.d. að tryggja að FYRIR kosningar lægu fyrir drög að stjórnarsáttmála þeirra sem vilja vinna saman eftir kosningar, myndi það breyta stjórnmálunum til langtíma og verða vonandi til þess að fólk fái á ný aukið traust á Alþingi.

Ég hef mikinn áhuga á að breyta starfsháttum á Alþingi og auka ábyrgð þess. Það gengur ekki lengur að þingið sé svona máttlaust gagnvart framkvæmdavaldinu. Ég hef áhuga á að setja á fót fastanefnd á þinginu: Framtíðarnefnd þar sem mótuð væri í þverpólitískri sátt, langtímamarkmið, eins og t.d. endurreisn heilbrigðiskerfisins, breytingar á menntastefnu í anda þeirrar finnsku, lífeyrir, sjálfbærni og raf/metanbílavæðing.

Mörg verkefni bíða allra flokka sem hafa áhuga á að vinna að því að móta nýja Ísland. Skotgrafir gamla Íslands eru bæði tilgangslausar og hundleiðinlegar. Ef við viljum stöðva flæði fólks frá landinu, þá þurfum við að nútímavæða landið og gefa ungu fólki kost á að spreyta sig í að axla ábyrgð í samfélginu. Píratar eru sá flokkur sem hefur hve mestan fjölda af ungu fólki sem hefur lýst sig reiðubúið að taka þátt í móta samfélagið sitt. Það er stórkostlegt ævintýr að eiga smá í að hafa verið með í að búa til þannig pólitískt afl að það vekur upp von og kraft til að vera með í róttækum kerfisbreytingum sem munu þýða tilfærslu á auði þjóðar til þjóðar en ekki fárra útvalda. Þessi vegferð kallar á langtímasýn og áætlun og við þurfum að gefa okkur tíma til að sjá hverju við viljum áorka ef við hefðum til þess stuðning á næstu tíu árum.

Við þurfum ekki bara að endurræsa Ísland, við þurfum fyrst að vera búin að hanna nýtt stýrikerfi (stjórnarskrá; samfélagssáttmáli) og helling af smáforritum (kerfis og stefnubreytingar) til að hjálpa okkur sem þjóð inn í framtíð sem við tökum þátt í að móta og þróa saman.

Með björtum kveðjum
Birgitta, þingskáld