Ásta Helgadóttir

Ég heiti Ásta Guðrún Helgadóttir. Ég er 26 ára gömul og er sitjandi þingmaður Pírata fyrir Reykjavíkurkjördæmi suður. Á Alþingi hef ég beitt mér fyrir ýmsum málum á fjölmörgum sviðum, m.a. hef ég tekið upp málstað námsmanna gagnvart LÍN og látið að mér kveða varðandi eignarhald á Landsbankanum. Auk þess hef ég haldið utan um höfundarréttarmál fyrir þingflokk Pírata og hef ég verið í nánu samstarfi við Juliu Redu Evrópuþingmann Pírata frá Þýskalandi sem heldur utan um breytingar á höfundarréttarlögum í Evrópusambandinu. Í stuttu máli hef ég undanfarin ár helgað mig vinnu sem tengist á einn eða annan hátt lýðræði, tjáningafrelsi og breytingum á stjórnskipan til þess að hún endurspegli lýðræðissamfélag 21. aldarinnar betur.

Ég hef komið víða við undanfarin ár – en síðan 2012 hef ég reynt að helga líf mitt lýðræðisbaráttu, tjáningafrelsi með áherslu á misjafnar tegundir ritskoðunar og upplýsingaöryggi. Á náms- og starfsferli mínum hef ég búið í fjölmörgum löndum, Danmörku, Noregi, Þýskalandi, Póllandi, Bretlandi, Belgíu og Íran. Þar kynntist ég ólíkum menningarheimum sem hafa veitt mér aukna víðsýni og umburðarlyndi sem ég hefur verið ómetanlegt í starfi mínu sem þingmaður.

Ég er sagnfræðingur að mennt og hefur sú menntun gefið mér sérstaka innsýn inn í þau fjölmörgu málefni sem Píratar standa fyrir. Auk þess að hafa gefið mér tæki og tól til þess að hafa yfirsýn yfir stór málefni og það að gera frumrannsóknir á málum.

Í störfum mínum á Alþingi hef ég einsett mér að vanda til verka með því að velja mér ákveðin málefni til þess að fylgjast vel með og kafa djúpt ofan í. Ég er ‘nörd’ þegar það kemur að málefnum. Ég læri heima, kryf málin og verð mjög áhugasöm um ákveðin málefni. Það hefur sína kosti og galla. Mér finnst oft eins og ógjörningur sé að komast yfir allt enda ákaflega mikið af efni sem fer í gegnum þingið á hverjum degi en kostirnir við mína vinnnuaðferð mína er að ég er alltaf vel upplýst um málefnin, en auk þess ég hef ávallt grunnstefnu Pírata til hliðsjónar við vinnu mína á Alþingi.

Ég hef skoðanir á…

lýðræði

Lýðræði er miklu meira en bara kosningar á  fjögura ár afresti. Lýðræði er möguleiki á aðkomu að stjórnmálum á öllum stigum. Lýðræði er gagnsæi í bókhaldi ríkis og sveitarfélaga og það er að stjórnvöld spyrji þig álits. Lýðræði er hugsjón og markmið en ekki einhver ein kosningaaðferð eða eitt málefni – umfram allt þarf lýðræði að vera traust á þeim ferlum sem við búum til.

nýrri stjórnarská

Núverandi stjórnarskrá átti að vera bráðabirgðastjórnarskrá. Það liggur beint við að við þurfum nýja stjórnarskrá sem lýsir lýðræðislegu samfélagi 21. aldarinnar og setur skýr valdmörk og valdheimildir þeirra fulltrúa sem við kjósum til verka.

menntamálum

Ég tel menntun vera forsendu lýðræðissamfélags. Við þurfum að styrkja einstaklinga á öllum aldri til þess að geta sótt sér menntun við hæfi – bókmenntun, iðnmenntun eða hvað þetta nú allt heitir á að vera metið jafnt.

sérstaklega málefnum Lánasjóðs íslenskra námsmanna

Breytingar á LÍN eru nauðsynlegar, m.a. verður að hætta að greiða út námslán eftir á og koma í veg fyrir að íslenskir námsmenn neyðist til þess að taka yfirdrátt til að fjármagna nám sitt. Það þarf umtalsvert meiri stöðugleika varðandi úthlutunarreglur LÍN en núna breytast þær árlega og geta farið upp eða niður um allt að 34% á námstímanum. Meira um það hér.

umhverfismálum

Við eigum að skila landinu til afkomenda okkar þannig að þeir verði stoltir af okkur. Okkar kynslóð hefur ekki rétt til að virkja allt eða gera stórkostlegar óafturkræfar breytingar á landslaginu bara fyrir stundargróða.

Íslensk náttúra er einstök og viðkvæm og það átti ekkert að vera róttækt að benda á að hana beri að vernda. Maðurinn er helsta hætta náttúrunnar, ekki síst eftir aukningu á komu ferðamanna til landsins. Kynna þarf ferðamönnum sérstöðu íslenskrar náttúru áður en þeir halda af stað út á land. Í því samhengi þarf að friðlýsa fleiri staði á landinu til þess að vernda þá, t.a.m. Látrabjarg.

Auðvitað á Ísland að fremst í flokki í notkun á endurnýjanlegum orkugjöfum og gera sitt allra besta til þess að ná öllum loftlagsviðmiðum. Við eigum bara eina jörð svo það er eins gott að hún endist.

samgöngumálum

Efla þarf almenningssamgöngur um allt land – ekki bara á höfuðborgarsvæðinu heldur um land allt. Þjóðvegir landsins eiga allir að vera jafngóðir og -öryggir. Það á ekki að skipta máli hvort við erum að reyna að komast frá Reykjavík til Patreksfjarðar eða Þórshafnar, þjóðvegurinn á að vera jafngóður og jafnöruggur alla leið.

Það þarf að útrýma einbreiðum brúm – það er óforskammarlegt að við lagðir séu nýir vegir en brýrnar látnar standa einbreiðar eftir. Samgönguáætlun á ekki að vera kjördæmapot – allir þjóðvegir landsins eiga skilið sömu virðingu og uppbyggingu frá ríkinu, sama hvar þeir eru.

efnahagsmálum

Byggja þarf traust milli ríkis og þjóðar í efnahagsmálum. Halda þarf áfram þeirri vinnu sem tvær fyrri ríkisstjórnir hafa unnið við íslenska skattkerfið og hvernig það beri að breyta því, m.a. með tilliti til þess að stækka auðlindaskatt sem skattstofn.

Það þarf að auka gagnsæi í ríkisfjármálum til þess að auka traust á skattheimtu og fjárútlátum ríksins. Það er hægt að gera á marga vegu. Meðal annars með því að tryggja opna ferla, gefa út gögn á opnu formi til þess að aðrir geta unnið úr þeim og að hafa aðhald varðandi útboð á vegum ríkisins – þau þurfa að vera opin og öllum aðgengileg.

heilbrigðis- og félagsmálum

Það þarf að vera forgangsmál að koma heilbrigðiskerfinu á réttan kjöl eftir áralangt fjársvelti. Kannanir þingflokks Pírata hafa ítrekað sýnt að Íslendingar vilja að skattfé sínu sé varið í heilbrigðisþjónustu.

Það þarf að lækka greiðslubyrði öryrkja og ellilífeyrisþega í heilbrigðiskerfinu – það þarf að gera þeim kleift að lifa sómasamlegu lífi. Í kerfinu eru of margar flækjur til þess að það sé skilvirkt og nýtist þeim sem á því þurfa að halda. (((Það er mikið af flækjum sem er algjörlega óþarfi að sé til staðar, annað en að einhver innan kerfisins geti sagt “computer says no”???))))

Evrópusambandinu

Ég tel að þjóðin eigi að fá að kjósa um áframhaldandi viðræður við Evrópusambandið. Ef þjóðin samþykkir áframhaldandi viðræður í kosningum, þá á að ljúka viðræðunum og setja samninginn aftur í þjóðaratkvæðagreiðslu. Skoðanir mínar á  Evrópusambandinu litast af því að ég hef unnið  innan þess og utan þess við ýmis störf. Þar af leiðandi hef ég ýmsar skoðanir á Evrópusambandinu – en ég tel sambandið fyrst og fremst vera tilraun til þess að stofna til friðar í Evrópu með jöfnuð og samvinnu að leiðarljósi.

og mörgu fleiru sem skiptir máli og ekki máli