Skip to main content

Þingflokkur Pírata

Þingflokkur Pírata samanstendur af 10 frábærum þingmönnum eftir Alþingiskosningarnar 2016 þar sem Píratar fengu 14,5% kjörinna atkvæða.

Þingmenn Pírata eru Ásta Guðrún Helgadóttir, Birgitta Jónsdóttir, Einar Brynjólfsson, Eva Pandora Baldursdóttir, Björn Leví Gunnarsson, Gunnar Hrafn Jónsson, Halldóra Mogensen, Jón Þór Ólafsson, Smári McCarthy og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.

Þingmál Pírata fylgja grunnstefnu flokksins en einnig er unnið öflugt málefnastarf í grasrótinni sem veitir þingflokknum stuðning.

Þingflokkur Pírata 2016 hefur skipað í allar helstu stöður innan þingflokksins eftir kosningar. Birgitta Jónsdóttir var kjörinn þingflokksformaður, Ásta Guðrún Helgadóttir sem varformaður og Einar Brynjólfsson er ritari.

Hlutkesti var varpað um stöðu formanns Pírata og varð Þórhildur Sunna Ævarsdóttir hlutskörpust. Formennska í Pírötum er eingöngu formlegs eðlis vegna þinglegra reglna og hefur ekki í för með sér nein sérstök valdsvið eða ábyrgð. Samkvæmt lögum Pírata ber að hafna sérstöku 50% launaálagi formanns sem Alþingi greiðir formönnum sem ekki gegna samtímis ráðherraembætti. Píratar telja að slíkar álagsgreiðslur vegna flokksstarfs séu á ábyrgð flokkanna en ekki Alþingis.

Þingflokkurinn hefur ráðið Jón Þórisson tímabundið sem aðstoðarmann þingflokksins. Þar að auki hefur Oktavía Hrund Jónsdóttir verið ráðin tímabundinn ráðgjafi þingflokksins og ber meðal annars ábyrgð á mótun ferla og verklags.

Þingmennirnir hafa með sanni ekki setið auðum höndum síðan þeim var falin sú mikla ábyrgð að vera fulltrúar kjósenda sinna á Alþingi. Sóttir hafa verið fundir, málstofur, þingsköp rýnd, grunnur að siðareglum settar saman og handbók um faglega lagasetningu krufin. Þá stóð grasrót Pírata fyrir Framtíðarsmiðju nýverið sem var mjög vel sótt af nýliðum, sjálfboðaliðum og nýjum þingmönnum.

 

Um Pírata

Tuttugasta og fyrsta öldin gefur áður óþekkt tækifæri fyrir almenning til að koma beint að ákvarðanatöku í samfélaginu, en á sama tíma eru til staðar sterk öfl sem hafa hag af því að hindra að þessir möguleikar raungerist. Píratar standa staðfastlega gegn þeim öflum, og jafn staðfastlega við hlið almennings.

Píratar eru ungt, alþjóðlegt stjórnmálaafl sem berst fyrir raunverulegu gegnsæi og ábyrgð í stjórnkerfinu, auknu aðgengi að upplýsingum, beinu lýðræði, upplýsingafrelsi og endurskoðun höfundarréttar. Það hefur lengi verið mikil þörf á nýjum flokki sem leggur áherslu á upplýsingamál, tæknimál, friðhelgi einkalífsins og tjáningarfrelsi út frá samtíma okkar.

Alþjóðleg, pólitísk hreyfing Pírata var stofnuð í Svíþjóð árið 2006 og í kjölfarið hafa verið stofnaðir flokkar Pírata í yfir sextíu löndum. Frá stofnun hefur Píratahreyfingin fengið síaukið vægi í hugum og hjörtum almennings enda nota flestir netið í sínu daglega lífi og eiga þar sitt annað lögheimili.

Löggjöf um stafrænt frelsi hefur ekki haldist í hendur við þann veruleika að persónulegar upplýsingar og netnotkun spila sífellt stærra hlutverk í lífi hvers og eins. Því er mikilvægt að verndun mannréttinda í net- og raunheimum haldist í hendur, og ekki síður að Internetið fái að blómstra sem það umbótaafl á sviði mannréttinda sem það hefur alla möguleika á að vera.

Píratapartýið er vettvangur fyrir alla sem vilja taka þátt í að móta samfélag sitt í átt til aukins lýðræðis og borgararéttinda, bæði í raun- og netheimum, og ræða breytingar á frjálsan og óheftan hátt með aðstoð tækninnar fyrir opnum tjöldum.

Meira um sögu Pírata