Opinn og frjáls hugbúnaður

Píratar nota frjálsan og opinn hugbúnað. Kostirnir við að nota frjálsan og opinn hugbúnað er lægra verð, eykur öryggi notenda, stöðugleiki hugbúnaðar eykst og það gefur notendum meiri stjórn á eigin vélbúnaði.

Frjáls hugbúnaður

Frjáls hugbúnaður (e. free software) snýr að frelsi notenda Notendur frjáls hugbúnaðar hafa frelsi til þess að nota, kynna sér, aðlaga, dreifa og bæta hugbúnaðinn. Hugbúnaður telst vera frjáls ef eftirfarandi á við:

  • Frelsi til að nota hugbúnaðinn á þann hátt sem notandinn sjálfur kýs.
  • Frelsi til að kynna sér hugbúnaðinn og aðlaga hann að sínum þörfum.
  • Frelsi til að dreifa hugbúnaðinum til þess að hjálpa náunganum.
  • Frelsi til að bæta hugbúnaðinn og dreifa breytingunum svo að samfélagið njóti góðs af þeim.
  • Aðgangur að frumþulu (e. source code) er nauðsynlegur til þess að notendur hafi frelsi 1 og 3. Án frumþulu er hvorki hægt að kynna sér, aðlaga né betrumbæta hugbúnaðinn.

Notendur frjáls hugbúnaðar, hvort sem þeir kaupa eða fá afrit af hugbúnaðinum, verða eigendur hugbúnaðareintaksins í stað þess að hafa afnotaleyfi eins og flestir notendur séreignarhugbúnaðar (þessum áhrifum er oftast náð fram með sérstöku hugbúnaðarleyfi). Sem eigendur hugbúnaðareintaksins hafa notendur frjáls hugbúnaðar sömu réttindi og eigendur annarra manngerðra hluta eins og tölvunnar sem hugbúnaðurinn er settur upp á. Eigandi tölvu er ekki neyddur samkvæmt samningi til þess að nota hana á þann hátt sem framleiðandi tölvunnar óskar, eigandinn gæti allt eins notað tölvuna sem skraut. Eigandinn má einnig aðlaga tölvuna með því að skipta út skjá eða bæta tölvuna með því að bæta við öðrum skjá. Tölvueigandi getur einnig látið aðra fá tölvuna sína eða hluta úr henni, án þess að spyrja tölvuframleiðandann, og þannig dreift tölvunni sinni til þess að hjálpa náunganum.

Þetta er hugsjónin sem ríkir hjá þróunaraðilum frjáls hugbúnaðar, framleiðandi tölvu getur ekki hindrað tölvueigendum að nota, aðlaga, endurselja, gefa eða bæta tölvuna og það sama á að gilda um eigendur hugbúnaðareintaka. Eðli hugbúnaðar, það að hugbúnaður er afurð hugans og afritun er auðveldari en afritun áþreifanlegra hluta, skiptir ekki máli í hugum fylgjenda frjáls hugbúnaðar. Það sem skiptir máli er að frelsi notenda og eigenda hugbúnaðareintaks sé sama frelsi og fylgir öðrum eigulegum vörum. Fylgjendur frjáls hugbúnaðar telja það ómögulegt að ákveðinn aðili geti verið eigandi hugbúnaðar og sem slíkur stjórnað öllum ákvörðunum varðandi hugbúnaðinn og aðeins gefið notendum leyfi til þess að nota hann en ekki eiga hann. Þegar notandi fær í hendurnar hugbúnað fær hann ekki hugbúnaðinn sjálfan heldur einungis eintak af hugbúnaðinum og sem eigandi eintaks af hugbúnaði ætti notandinn að hafa sama frelsi og eigandi eintaks af tölvu.

Opinn hugbúnaður

Opinn hugbúnaður (e. open source software) og frjáls hugbúnaður voru upphaflega samheiti en hugtakinu opinn hugbúnaður var ætlað að fanga betur athygli viðskiptamanna. Enska hugtakið yfir frjálsan hugbúnað, „free software“, getur fælt viðskiptamenn frá hugbúnaðinum þar sem „free“ getur bæði þýtt frjáls og ókeypis. Opinn hugbúnaður var því upphaflega ekkert annað en nokkurs konar markaðssetning á frjálsum hugbúnaði. Aftur á móti snerist markaðssetningin ekki um frelsi notenda heldur ákveðna þróunaraðferð sem einkennir ýmsan frjálsan hugbúnað og leiðir oft á tíðum til betri og öflugari hugbúnaðar en ella.

Opinn hugbúnaður er þróaður með aðferð sem nýtir dreifða rýni og gegnsætt ferli. Með dreifðri rýni er átt við að í hvert skipti sem breytingar eða viðbætur eru gerðar á frumþulu hugbúnaðarins getur hver sem er kynnt sér breytingarnar og rýnt þær. Hver sem er getur sent inn breytingar og viðbætur á hugbúnaðinum sem verða hluti af sjálfum hugbúnaðinum ef þær komast í gegnum rýnisferlið. Þátttakendur í rýnisferli hugbúnaðarins eru ekki sérstaklega útvaldir heldur getur hver sem er tekið þátt í ferlinu, líkt og hver sem er getur sent inn breytingar. Þátttakendur í innsendingar- og/eða rýnisferlinu eru ýmist notendur, áhugamenn um þróunina eða þróunaraðilar annarra hugbúnaðarverkefna sem reiða sig á opna hugbúnaðinn í sinni þróun. Í stærri opnum hugbúnaðarverkefnum geta þátttakendur hlaupið á tugum þúsunda.

Opna hugbúnaðarþróun mætti því mögulega kalla lýðræðislega þróun hugbúnaðar því þróunin sjálf byggir á þátttöku almennings í ákvarðanatöku á vegum verkefnisins. Með því móti er talið að hugbúnaðurinn muni geta þjónað þörfum sem flestra sem nota hugbúnaðinn með einhverju móti. Gegnsætt og lýðræðislegt þróunarferli er talið, af fylgjendum opins hugbúnaðar, tryggja betri gæði og hraðari þróun á hugbúnaðinum sem hefur sýnt sig í verkefnum eins og Apache vefþjóninum og Linux stýrikerfiskjarnanum. Lögmálið sem hér liggur að baki er vel þekkt meðal fylgjenda opins hugbúnaðar og segir að nógu mörg augu geta fundið alla galla.

Frjáls og opinn hugbúnaður

Það má segja til einföldunar að frjáls hugbúnaður veitir notendum sínum frelsisþættina fjóra sem fylgir frjálsum hugbúnaði og aðeins notendur hugbúnaðarins hljóta það frelsi. Þannig gæti eintak af frjálsum hugbúnaði verið selt og kaupandinn einn hlýtur frelsið til að nota, aðlaga, dreifa og bæta hugbúnaðinn. Opinn hugbúnaður skilgreinir aftur á móti allan heiminn sem notendur sína og alla notendur sína sem þróunaraðila. Þar með getur hver sem er tekið þátt í því að útbúa hugbúnaðarlausn sem hentar stórum, alþjóðlegum notendahópi.

Þó svo að upphaflega hafi opinn hugbúnaður og frjáls hugbúnaður verið samheiti, sem kom til vegna fælni viðskiptamanna gagnvart enska orðinu „free“, er blæbrigðamunur á þessum tveimur hugtökum. Frjáls hugbúnaður snýst um frelsi notenda en opinn hugbúnaður um opna og lýðræðislega þróunaraðferð. Stærstur hluti frjálsra hugbúnaðarverkefna getur einnig talist vera opinn hugbúnaður en slíkur hugbúnaður eru gjarnan nefndur „frjáls og opinn hugbúnaður“ (e. free and open source software) og skammstafaður FOSS eða F/OSS. Þannig nær hugtakið frjáls og opinn hugbúnaður yfir lýðræðislega þróaðan hugbúnað sem veitir notendum sínum frelsi til þess að ráða yfir sínum eigin hugbúnaði.

Er frjáls og opinn hugbúnaður verri hugbúnaður?

Frjáls og opinn hugbúnaður er samtvinnaður viðskiptalíkani alþjóðlegra stórfyrirtækja. Fyrirtækin leggja mikla peninga og verðmætan tíma í áframhaldandi þróun og viðhald hugbúnaðarins sem eykur gæði hugbúnaðarins og brýtur á bak mýtuna um að hugbúnaðurinn sé verri en séreignarhugbúnaður.

Frjáls hugbúnaður er stundum seldur og í þeim tilvikum ættu sömu lögmál að gilda hvað varðar gæði og gilda um séreignarhugbúnað, þróunaraðilum er borgað fyrir að þróa gæðahugbúnað. Aftur á móti hafa kaupendur frjáls hugbúnaðar aðgang að frumþulu hugbúnaðarins og geta þannig tryggt gæðin sjálfir, til dæmis með hjálp óháðra aðila. Samkvæmt skilgreiningu opins hugbúnaðar geta notendur hugbúnaðarins í nær öllum tilfellum nálgast hugbúnaðinn ókeypis. Það mætti því spyrja sig hvort opinn hugbúnaður sé verri en annar hugbúnaður vegna þess að notendur opins hugbúnaðar borga ekki þróunaraðilum hugbúnaðarins sérstaklega fyrir þá vinnu sem þeir hafa lagt í þróunina.

Auðvitað er til frjáls og opinn hugbúnaður sem er slakur og illa gerður, alveg eins og það er til lélegur séreignarhugbúnaður. Þó standa mörg frjáls og opinn hugbúnaðarverkefni mun framar en séreignarhugbúnaður á sama sviði og það eru einmitt þessi verkefni sem fyrirtæki á borð við Google og IBM reiða starfsemi sína á.