Í jákvæðum réttindum felst skylda yfirvalda til þess að aðhafast eitthvað ákveðið til þess að tryggja réttindi fólks. Réttur allra til bestu mögulegu heilsu er dæmi um jákvæð réttindi. Sá réttur skyldar ríki heims að tryggja aðgang fólks að heilbrigðisþjónustu og öðrum mikilvægum úrræðum, til dæmis með því að byggja heilsugæslustöðvar og spítala. Dæmi um önnur jákvæð réttindi eru rétturinn til menntunar. Ríkjum ber skylda til þess að tryggja aðgang fólks að menntun með því að byggja skóla, ráða kennara og setja sér stefnu í menntamálum.
Andstæðan við jákvæð réttindi eru neikvæð réttindi sem skylda ríki til að aðhafast ekki eitthvað. Dæmi um neikvæð réttindi er bann við pyntingum; ríki heims skuldbinda sig til þess að pynta ekki fólk. Annað dæmi um neikvæð réttindi er tjáningarfrelsi, þar sem ríki skuldbinda sig til að stöðva ekki tjáningu fólks og refsa fólki ekki fyrir að tjá sig.
Mannréttindi geta falið í sér bæði jákvæð og neikvæð réttindi. Dæmi um þetta er bannið gegn pyntingum: Ríki mega ekki undir nokkrum kringumstæðum pynta borgara sína (neikvæð réttindi) og þeim ber skylda til þess að rannsaka allar ásakanir borgaranna um að pyntingar hafi átt sér stað (jákvæð réttindi). Tjáningarfrelsið felur einnig í sér jákvæð réttindi: Ríkinu ber að tryggja að tjáning manna sé ekki notuð til þess að rægja fólk eða hvetja til ofbeldis svo dæmi séu nefnd.