Höfundaréttur

Á Höfundaréttur.is er skrifað: “Höfundaréttur fjallar um vernd hugverka. Þessi réttindi geta verið ýmiskonar, lista- og bókmenntaverk og önnur tengd réttindi. Verndin/einkarétturinn er síðan afmarkaður með lögum. Ákvæði laga á sviði höfundaréttar fela í sér einkarétt eiganda þessara réttinda á að nota umrædd verk í atvinnuskyni.”

Þessu til viðbótar má útskýra höfundarétt sem tvískipt réttindi, annars vegar sæmdarrétt og hins vegar fjárhagsleg höfundaréttindi.

Sæmdarréttur er réttur höfundar til þess að njóta viðurkenningar fyrir verk sín. Hann er óframseljanlegur og varanlegur réttur höfundar. Sæmdarréttur er oftast persónubundinn réttur höfundurinn til að vera nafngreindur höfundur verks, ráða frumbirtingu þess og taka það úr umferð, ásamt því að hafa um það að segja hvort breyting á verkinu skaði höfundaheiður hans.

Fjárhagsleg höfundaréttindi (copyright) fela í sér einkarétt til þess að gefa út og dreifa efni. Höfundar geta framselt afritunarrétt og útgáfurétt til þriðja aðila. Fjárhagslegu réttindin geta erfst til afkomenda höfundarins í samræmi við höfundaréttarlög. Nú á dögum skipta fjárhagsleg höfundaréttindi gríðarlegu máli þar sem miklir hagsmunir í húfi.

Ekki þarf að sýna fram á fjárhagslegt tjón þegar farið er fram á bætur fyrir brot á sæmdarrétti, líkt og þarf að gera þegar um brot gegn fjárhagslegum höfundarétti er að ræða. Algengast er að dæmdar séu bætur fyrir brot á sæmdarrétti vegna ritstuldar þar sem höfundar er ekki getið með réttum hætti.

Miklar framfarir hafa orðið á síðustu árum þegar kemur að möguleikum til fjöldaframleiðslu verka ásamt því að almenningur á nú mun auðveldara að koma sínu efni eða annarra á framfæri. Að sama skapi hafa dreifingarleiðir um internetið og aðra miðla bæði aukið dreifingu höfundaréttarvarins efnis á sama tíma og erfiðara verður að innheimta fjármuni fyrir höfunda og útgáfuaðila.

Höfundaréttarlög sem gilda á Íslandi voru sett árið 1972 og einnig er í gildi Bernarsáttmálinn sem segir að gildistími höfundaréttar skuli haldast í minnst 50 ár eftir lát höfundar. Mörgum finnst að endurskoða þurfi höfundaréttarlög með tilliti til tækniframfara og aðstæðna sem gera eftirlitsaðilum nær ógjörlegt að framfylgja stórum hluta laganna.

Ítarefni um höfundarétt  og sæmdarrétt af Wikipedia.