
Fljótandi lýðræði (liquid democracy) er sú hugmynd að brúa megi bilið milli beins lýðræðis (þar sem allir kjósa um allt) og fulltrúalýðræðis (þar sem allir kjósa sér fulltrúa, sem svo kjósa um allt), með því að taka upp beint lýðræði ásamt þeim möguleika á að velja sér fulltrúa til lengri eða skemmri tíma.
Fjöldamargar leiðir eru til að útfæra fljótandi lýðræði. Einfaldasta nálgunin væri að í hvert skipti sem kemur upp mál megi allir kosningabærir ýmist kjósa beint eða framvísa atkvæði sínu til einhvers annars sem einnig er kosningabær. Ef Arnar framvísar atkvæði sínu til Berglindar, þá hefur Berglind tveggja atkvæða vægi í kosningunum. Ef hún framvísar atkvæði sínu til Daníels, þá fer Daníel með þrjú atkvæði: Berglindar, Arnars, og sitt eigið.
Það væri samt frekar tilgangslaust að framvísa atkvæðinu sínu í hvert einasta skiptið; þá er alveg eins gott að kjósa bara beint. Því er eðlilegara að Arnar geti framvísað atkvæði sínu til Berglindar þangað til hann ákveður að hætta því, og hún hefur þá aukið atkvæðavægi þangað til.
Til að svona kerfi gangi upp þarf nokkkrar reglur. Í fyrsta lagi mega ekki vera framvísanahringir. Það er að segja, ef Arnar vísar á Berglindi, og Berglind á Daníel, þá má Daníel ekki framvísa atkvæði sínu til Arnars, því þá kæmi upp hringur og ekkert atkvæðanna myndi nýtast. Það má koma í veg fyrir það með ýmsum móti. Önnur regla er að kjósendur verða að mega breyta framvísun sinni sé hún til staðar, og geta jafnvel gripið framfyrir tilvísun til að kjósa sjálft í málum. Helst ætti það að vera hvenær sem er, en það væri mögulegt að hafa það háð einhverjum takmörkunum.
Eins og með öll önnur form lýðræðis, þá er hugmyndin einföld, en útfærsluatriðin eru mýmörg, flókin, og hafa víðtæk áhrif á útkomuna.
Kynntu þér málið betur hér.