Borgararéttindi

Borgararéttindi eru flokkur mannréttinda sem almennt má segja að tryggi jafnan rétt allra til þáttöku í lýðræðislegu þjóðfélagi. Tjáningarfrelsi, félagafrelsi, trúfrelsi, rétturinn til sanngjarnrar málsmeðferðar, réttur til frelsis, eignarréttur, friðhelgi einkalífsins og jöfn réttarstaða borgaranna eru meðal þeirra réttinda sem teljast til borgararéttinda í hefðbundnum skilningi. Hugmyndir manna um þessi mikilvægu réttindi má rekja aftur til tíma upplýsingarinnar og eru þau meðal annars útlistuð í frönsku stjórnarskránni frá 1791 og í viðaukum bandarísku stjórnarskránnar sem samþykktir voru sama ár. Sum borgararéttindi má þó rekja alla leið aftur til bresku Magna Carta laganna frá árinu 1215.

Með auknu jafnrétti borgaranna bættust við borgararéttindi svokölluð stjórnmálaleg réttindi. Má þar nefna réttinn til þess að bjóða sig fram í opinber embætti sem og réttinn til þess að kjósa og til jafns atkvæðavægis. Á tímum upplýsingarinnar nutu konur ekki kosningaréttar né kjörgengis til jafns við karla. Því var þessum réttindum skipt upp í stjórnmálaleg og borgaraleg réttindi. Konur nutu ákveðinna borgaralegra réttinda en ekki stjórnmálalegra. Nú á dögum teljast stjórnmálaréttindi hluti borgararéttinda þar sem aðgreiningin var aðallega notuð til þess að aðgreina þá þjóðfélagshópa er nutu þeirra.

Alþjóðlega viðurkennd mannréttindi

Borgararéttindi urðu fyrst að alþjóðlega viðurkenndum mannréttindum í mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna árið 1945. Evrópuþjóðir samþykktu stuttu síðar að gangast undir Mannréttindasáttmála Evrópu sem samanstendur af 14 borgararéttindum.  Borgararéttindi urðu síðan bindandi fyrir þær þjóðir er gengu að alþjóðasamningi Sameinuðu þjóðanna um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi frá árinu 1966.  

Oft er talað um að borgararéttindi megi skilgreina sem réttindi sem veita borgurunum frelsi frá afskiptum ríkisvaldsins á einn eða annan hátt. Sem dæmi má nefna að tjáningarfrelsið felst í frelsi borgaranna til þess að tjá sig án afskipta og ofsókna ríkissvaldsins. Félagafrelsi felur sömuleiðis í sér frelsi borgaranna til þess að stofna og ganga í félög án afskipta ríkisins. Eins eru borgararéttindi flest skilgreind sem neikvæð réttindi.  Í því felst að ríkinu ber skylda til þess að aðhafast ekki eitthvað. Borgararéttindi má aðgreina frá svokölluðum félagslegum réttindum.

Takmarkanir

Borgararéttindi ber þó ekki að skilja á þá leið að í þeim felist algjört frelsi borgaranna eða takmarkalaus réttur. Ríkisvaldinu er heimilt að setja lög og reglur sem takmarka borgararéttindi til verndar réttinda annarra. Þannig er ríkisvaldinu heimilt að setja tjáningarfrelsinu skorður með lögum gegn meiðyrðum eða hótunum. Eins má ríkið skerða eignarrétt borgaranna undir vissum kringumstæðum, til dæmis með því að halda skrár yfir eignir einstaklinga og lögaðila og setja skatt á sölu þeirra og leigu.