Afglæpavæðing

Píratar aðhyllast afglæpavæðingu vímuefnaneyslu á þeim forsendum að núverandi stefna, sem er stundum kölluð refsistefnan, geri beinlínis meira ógagn en gagn. Óháð skaðsemi vímuefna er ljóst að sú aðferðafræði að refsa neytendum dregur hvorki úr neyslu né neikvæðum áhrifum vímuefnamisnotkunar.

Píratar vilja leitast við að hjálpa þeim sem eiga við vímuefnavanda að stríða á mannúðlegan hátt. Í stað þess að beina fíklum inn í dómskerfið viljum við taka þá inn í heilbrigðiskerfið, hjálpa þeim að takast á við fíknina og að verða aftur heilbrigðir þátttakendur í samfélaginu.

Píratar líta á fíkn sem heilbrigðisvandamál sem beri að leysa sem heilbrigðisvandamál frekar en með ofsóknum á hendur þeim sem eiga við stærstu vandamálin að stríða.

Hugtakaskilgreining: Í grófum dráttum má segja að afglæpavæðing fíkniefna feli í sér að litið verði á fíkniefnaneyslu sem heilbrigðisvanda sem meðhöndla þurfi í heilbrigðiskerfinu frekar en dómskerfinu. Í stað þess að dæma þá sem brjóta lögin í fangelsi yrði þeim því gert að sækja meðferðarúrræði eða greiða sekt.

Með lögleiðingu fíkniefna er hins vegar átt við að lög sem banna vörslu og neyslu fíkniefna yrðu felld úr gildi sem myndi gera ríkisvaldinu kleift að hafa eftirlit með og skattleggja sölu og notkun þeirra líkt og gert er með áfengi.