Píratar XP

Velsældarsamfélagið

Betra samfélag fyrir alla

Markmið Pírata er að byggja betra samfélag fyrir alla. Til að ná því markmiði verðum við að starfa með vellíðan, jafnvægi og hagsæld frekar en hagvöxt að leiðarljósi. Loftslagskrísan og vaxandi ójöfnuður kalla á róttækar samfélagsbreytingar. Framtíðin getur ekki snúist um auðsöfnun og síaukna neyslu. Hún þarf að snúast um tilgang og réttláta og sjálfbæra velmegun.
Píratar stefna að sjálfbæru velsældarsamfélagi þar sem grunnþörfum allra er mætt. Við viljum hugsa til framtíðar og tryggja jöfn tækifæri í sjálfvirknivæddu samfélagi, þar sem skapandi lausnir ráða för í opnu, stafrænu og lýðræðislegu samfélagi. Píratar ætla að fjárfesta í fólki með því að  ýta undir nýsköpun á öllum sviðum samfélagsins, auka fjölbreytni í atvinnulífinu og bjóða upp á framtíðarmiðað og spennandi nám.

NÝSKÖPUNARLANDIÐ ÍSLAND

Píratar ætla að byggja upp sjálfbært samfélag sem getur tekist á við sjálfvirknivæðingu og fjórðu iðnbyltinguna. Píratar ætla að ná markmiðum sínum um fleiri tækifæri fyrir framtíðarkynslóðir og sjálfbærni landsins með nýsköpun í opinberri starfsemi, með samstarfi við atvinnulífið og með því að gera Ísland að alþjóðlegri þekkingarmiðstöð fyrir framtíðarsamfélagið. 

SVEIGJANLEG MENNTUN

Píratar ætla að búa menntakerfið undir þær samfélagslegu breytingar sem fram undan eru. Það gerum við með því að auka sveigjanleika og frjálsræði í menntakerfinu, setja nemandann í forgrunn, styðja við kennara og auka áherslu á færni sem nýtist í sjálfvirknivæddu samfélagi á upplýsingaöld.

ÖRUGGT HÚSNÆÐI FYRIR ÖLL

Velsæld, frelsi og öryggi fólks á að vera í fyrirrúmi á húsnæðismarkaðinum. Píratar ætla að tryggja heilnæmt og viðeigandi húsnæði fyrir öll og byggja íbúðir til þess að svara eftirspurn. Við ætlum að styrkja stöðu leigjenda, fjölga félagslegum úrræðum og óhagnaðardrifnum húsnæðisfélögum og gefa fólki þannig raunverulega frjálst val um búsetuform.

STÖNDUM MEÐ NÝJUM ÍBÚUM

Píratar ætla að taka á mismunun gagnvart innflytjendum á vinnumarkaði með róttækum aðgerðum. Gerum eftirlitsstofnunum kleift að vernda réttindi innflytjenda og taka af hörku á atvinnurekendum sem brjóta á þeim.

AFNEMUM ÓMANNÚÐLEGAR SKERÐINGAR

Píratar ætla að byggja upp nýtt velferðarkerfi sem valdeflir einstaklinga til að athafna sig á eigin forsendum. Afnemum skerðingar og tryggjum öllum mannsæmandi lífskjör, frelsi og búsetu.

LEGGJUM NIÐUR ÚTLENDINGASTOFNUN

Píratar ætla að taka vel á móti fólki á flótta með því að leggja niður Útlendingastofnun og fela öðrum embættum verkefni hennar. Þannig tryggjum við hraðari, einfaldari og notendavænni meðhöndlun umsókna um dvalarleyfi og ríkisborgararétt. Píratar ætla að vernda mannréttindi þeirra sem til Íslands leita. 

GJALDFRJÁLS HEILBRIGÐISÞJÓNUSTA

Píratar ætla að efla opinbera heilbrigðisþjónustu, byggja hana upp eftir fjársvelti síðustu áratuga og tryggja aðgengi allra að fjölbreyttri hágæða þjónustu þar sem réttindi notenda eru sett í forgang.

VALDEFLANDI GEÐHEILBRIGÐISÞJÓNUSTA

Píratar ætla að koma upp meðferðarúrræðum fyrir fólk með geðrænan vanda, sem byggjast á valdeflingu, samþykki og samvinnu í stað þvingana og frelsissviptinga.

SKAÐAMINNKUN OG AFGLÆPAVÆÐING

Píratar ætla að hætta að refsa vímuefnanotendum, draga úr einangrun jaðarsettra hópa, byggja upp stuðningsnet fyrir fólk í vanda og veita sálræna aðstoð til að vinna úr áföllum. Gerum átak í húsnæðismálum heimilislausra fíkla til að koma í veg fyrir það mikla öryggisleysi sem einkennir líf þeirra.

Nýja stjórnarskráin

Nýja stjórnarskrá sem grundvallast á tillögum stjórnlagaráðs á næsta kjörtímabili.

Efnahagskerfi 21. aldarinnar

Píratar tala fyrir nýrri hugmyndafræði í efnahagsmálum

Róttækar breytingar í sjávarútvegi

Píratar líta á sjávarauðlindina sem sameiginlega og ævarandi eign íslensku þjóðarinnar.

Umhverfis- og loftslagshugsun

Píratar eru tilbúnir í þær aðgerðir sem þarf að ráðast í til að byggja upp græna og sjálfbæra framtíð.

Virkar varnir gegn spillingu

Píratar ætla að virkja öflugar varnir gegn spillingu með eflingu eftirlitsstofnana

Velsældar-samfélagið

Markmið Pírata er að byggja betra samfélag fyrir alla.

Velsældarsamfélagið

STEFNA PÍRATA 2021

Atvinna og nýsköpun í sjálfvirku og sjálfbæru samfélagi

Við Píratar viljum sjálfbært samfélag sem getur tekist á við sjálfvirknivæðingu og fjórðu iðnbyltinguna. Við leggjum höfuðáherslu á nýsköpunarlandið Ísland, því tækifærin er að finna hjá fólki út um allt land. Það þarf öfluga, sjálfbæra og græna, innviðauppbyggingu í öllum sveitarfélögum landsins til þess takast á við áskoranir framtíðarinnar. Við ætlum að skapa fleiri tækifæri fyrir framtíðarkynslóðir, með nýsköpun á öllum sviðum og með því að gera Ísland að þekkingarmiðstöð fyrir framtíðarsamfélagið. Koma þarf í veg fyrir langtímaatvinnuleysi með því að tryggja störf og nám við allra hæfi, efla nýsköpun og fjölga undirstöðum íslensks iðnaðar.

Nýsköpun

Meiri áhersla á nýsköpun er lykillinn að því að takast á við síbreytilegan heim. Við þurfum að byggja upp aðstöðu til nýsköpunar um allt land í náinni samvinnu við sveitarfélög og frumkvöðla. Það þarf að einfalda stofnun, skipulag og fjármögnun nýsköpunarfyrirtækja. Það þarf að huga að nýsköpun á mun breiðari grunni en hingað til og setja þarf skýrari stefnu varðandi græna nýsköpun. Píratar vilja stórauka styrki til nýsköpunar, með sérstaka áherslu á græna sprota. Áherslur nýsköpunar þurfa að ná inn í menntakerfið og allan opinberan rekstur.

Grænir og öruggir innviðir

Það þarf að ljúka ljósleiðaravæðingu allra byggðakjarna landsins og tryggja örugg fjarskipti á ferð um landið. Við Píratar viljum að dreifing þriggja fasa raforku sé tryggð óháð veðurfari og að við notum umhverfisvæna orku í umhverfisvænan og sjálfbæran iðnað. Við viljum skilvirkar og umhverfisvænar samgöngur með öflugri og fullfjármagnaðri samgönguáætlun þar sem hver landshluti hefur miklu meiri áhrif á forgangsröðun samgangna á sínu svæði og þar sem almenningssamgöngur og virkir ferðamátar eru skilgreindar sem hluti af grunnneti samgangna. Við viljum umhverfisvæna uppfærslu í frárennslis-, endurvinnslu- og úrgangsmálum um allt land í samvinnu við sveitarfélögin. Styðjum við bindingu og föngun gróðurhúsalofttegunda og stefnum á stórátak í orkuskiptum.

Ísland sem miðstöð þekkingar

Við viljum að Ísland taki forystu með stofnun alþjóðlegs þekkingar- og nýsköpunarseturs á sviði umhverfis- og loftslagsmála. Þar yrði aukin samvinna við háskóla innan lands og utan með áherslu á kennslu, rannsóknir og nýsköpun. Samhliða þeirri starfsemi yrðu settir upp alþjóðlegir nýsköpunarhraðlar og fjárfestingarsjóðir í samvinnu við íslenskt og alþjóðlegt atvinnulíf.

Ferðaþjónusta

Ferðaþjónustan er nýjasta efnahagsstoð Íslands og í henni felast mörg tækifæri. Tryggja þarf öfluga viðspyrnu í kjölfar heimsfaraldurs og mynda breiða samstöðu og samstarf um markaðssetningu Íslands á erlendri grund. Nauðsynlegt er að veita árlega auknu fjármagni til verndar, uppbyggingar og úrbóta á vinsælum áfangastöðum og ferðamannastöðum í náttúrunni óháð eignarhaldi.

Verkalýðsmál

Með aukinni sjálfvirknivæðingu og grænni umbyltingu hagkerfisins munu verkalýðsmál verða enn mikilvægari en áður. Við viljum styrkja stöðu og efla samráð við verkalýðsfélög um atvinnumál. Þau eru lykillinn að því að við getum tekist á við áskoranirnar sem fylgja sjálfvirknivæddum heimi, til að tryggja réttlát umskipti og sanngjarna skiptingu auðs og gæða. Við viljum lýðræðisvæða fyrirtæki með því að gera fulltrúum starfsfólks kleift að taka sæti í stjórn þeirra.

Sjálfbær iðnaðarstefna

Við Píratar ætlum að framfylgja ályktun Alþingis um heildstæða iðnaðarstefnu fyrir Ísland, en Píratar áttu einmitt frumkvæði að þeirri ályktun. Ný iðnaðarstefna mun setja sjálfbæra þróun í forgang og taka tillit til aðstæðna á Íslandi. Við styðjum við fjölbreyttan iðnað og viljum fjölga stoðum íslensks efnahags.

Menntastefna

Menntun er undirstaða framfara. Til að tryggja framfarir til framtíðar þarf menntakerfið að vera búið undir þær samfélagslegu breytingar sem fram undan eru. Það gerum við með því að auka sveigjanleika og frjálsræði í menntakerfinu, setja nemandann í fyrsta sæti, styðja við starfsfólk og auka áherslu á færni sem nýtist í sjálfvirknivæddu samfélagi á upplýsingaöld.

Gagnrýnin hugsun og upplýsingalæsi

Stuðla skal að gagnrýnni hugsun nemenda og efla læsi þeirra í víðum skilningi; til að mynda upplýsinga-, fjölmiðla- og fjármálalæsi, ásamt því að auka getu nemenda til að meta trúverðugleika heimilda. Í öllum námsgreinum á öllum skólastigum á kennsla að taka mið af nýjustu þekkingu og vísindum.

Uppfærum menntakerfið

Endurskoðun aðalnámskrár á að fara fram í breiðu samráði við nemendur, kennara og aðra í skólasamfélaginu og leggja áherslu á nám á forsendum nemandans. Við viljum byggja upp menntakerfi sem miðar að samvinnu frekar en samkeppni. Við viljum einnig auka aðgengi að verknámi um allt land og vinna að því að endurskoðuð námskrá endurspegli breytingarnar sem fram undan eru, svo sem í atvinnuháttum og iðnaði vegna sjálfvirknivæðingar og loftslagsbreytinga.

Aukinn sveigjanleiki

Gerum skólatíma nemenda sveigjanlegri með tilliti til heilsu þeirra og velferðar. Skilin milli skólastiga (leik-, grunn-, framhalds- og háskóla) eiga að vera sveigjanleg, svo nemendur geti fengist við það nám sem hentar þroska þeirra og menntun hverju sinni án þess að skipta um skólastig. Við ætlum að tryggja og auka aðgang að sí- og endurmenntun samhliða sjálfvirknivæðingu og breyttum starfsháttum.

Nemandinn í fyrsta sæti

Menntakerfið á fyrst og fremst að þjóna menntun hvers nemanda, í samræmi við áhuga hans og getu. Við viljum að skólar á öllum skólastigum leitist við að kynna fjölbreytt menntunarsvið fyrir nemendum sínum, örvi áhuga þeirra og styðji þá í að læra á eigin forsendum. Menntakerfið á að stuðla að góðri heilsu og velferð nemenda, bæði líkamlegri og andlegri; til að mynda með námsframboði, því að tryggja aðgengi að sálfræði- og læknisaðstoð og taka tillit til veikindatengdrar fjarveru við námsmat. Við viljum tryggja heilnæmt og öruggt umhverfi fyrir alla nemendur og aðgengi að námi fyrir öll, óháð aðstæðum þeirra. Við viljum sérstaklega gæta að aðgengi fatlaðs fólks að námi og eins byggja upp nauðsynleg stuðningskerfi fyrir fólk með annað móðurmál á öllum námsstigum. Við Píratar ætlum að auka aðgengi að háskólanámi með því að gera nám sveigjanlegra, svo fólk geti nálgast það í sinni heimabyggð.

Færri próf og minni utanbókarlærdómur

Tæknin hefur gert mannkyninu kleift að fletta upp öllum heimsins fróðleik með örfáum smellum. Þessi þróun mun halda áfram og menntakerfið verður að taka mið af því. Við viljum því draga úr vægi utanbókarlærdóms og prófa í menntakerfinu en leggja þess í stað aukna áherslu á símat, reynslumiðað nám og reglulega endurgjöf. Nemendur á eldri skólastigum hafa þannig meira val um það hvort þeir þreyti próf eða sæti símati.

Frjálst, opið og lýðræðislegt menntakerfi

Skólar og kennarar eiga að hafa frelsi til að móta kennslu sína innan víðs ramma aðalnámskrár. Píratar vilja að nemendur taki þátt í mótun eigin námskrár eftir því sem þeir hafa þroska til og festa í sessi samráð við ungmennafélög og hagsmunafélög stúdenta. Aukum lýðræðislega ákvarðanatöku nemenda, kennara og forráðamanna í skólastarfi. Námsefni allra skólastiga ætti að vera opið menntaefni og aðgengilegt á netinu eins og kostur er, á notendavænu formi og nemendum að kostnaðarlausu. Námsefni og námsgögn í skyldunámi skulu undantekningarlaust standa nemendum til boða án endurgjalds.

Stuðningur við starfsfólk

Við Píratar ætlum að styðja við starfssamfélög kennara og starfið sem þar á sér stað. Við viljum langtímaáætlun í menntamálum og uppbyggingu menntainnviða, svo sem bygginga, námsgagna og launastefnu, og endurskoðun hennar reglulega. Viðurkenna skal verðmætið sem felst í störfum kennara þannig að laun og önnur kjör þeirra endurspegli samfélagslegt mikilvægi.

Framfærsla nemenda

Píratar ætla að tryggja öllum möguleika á að stunda það nám sem hver ræður við, án tillits til efnahags, búsetu og aldurs. Halda skal áfram að færa okkur úr námslánakerfi yfir í styrkjakerfi. Tryggjum stúdentum viðeigandi framfærslu sem tekur mið af raunverulegum aðstæðum námsfólks þannig að þau þurfi ekki að hafa áhyggjur af framfærslu sinni.

Öryggi frá ofbeldi og áreitni

Á sama hátt og börnum ber skylda til að sækja skóla þá ber stjórnvöldum skylda til að tryggja öryggi barna og að þau verði ekki fyrir skaða af sinni skólagöngu. Við Píratar leggjum áherslu á að til staðar séu verkferlar til að fást við úrlausn ágreiningsmála og að í öllum skólum séu virkar viðbragðsáætlanir við einelti. Samhliða þessu þarf að styrkja samstarf milli heimilisins og skólans.

Brúum bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla

Ríki og sveitarfélög eiga að vinna saman að því að pláss á leikskóla standi til boða strax að loknu fæðingarorlofi svo hægt sé að lögfesta leikskóla sem valkost fyrir öll börn frá 12 mánaða aldri.

Metum menntunina

Fólk af erlendum uppruna á að fá menntun sína og starfsréttindi viðurkennd hér á landi. Að sama skapi skal sjá til þess að þekking nemenda af erlendum uppruna komi fram í hæfnismati, óháð móðurmáli þeirra.

Húsnæðismál

Öruggt húsaskjól er grunnþörf. Píratar telja að stjórnvöld eigi að beita sér af krafti í húsnæðismálum og sjá til þess að landsmenn hafi þak yfir höfuðið. Píratar vilja tryggja fólki raunverulegt val um búsetu sína; hvort sem það er í gegnum eign, leigu eða úrræði á vegum hins opinbera. Því þarf að stórefla stöðu leigjenda, byggja ódýrar íbúðir fyrir ungt fólk og aðra utan húsnæðismarkaðar og tryggja hvata fyrir fólk til að setjast að í dreifðari byggðum landsins. Gætum sérstaklega að húsnæðisöryggi þeirra sem Covid-19 hafði mikil áhrif á.

Húsnæðismarkaður í jafnvægi

Verðþróun á húsnæðismarkaði hefur lengi einkennst af framboðsskorti sem hefur orsakað miklar verðhækkanir á húsnæði. Við ætlum að laga húsnæðismarkaðinn og koma böndum á fasteignaverð og leiguverð með því að tryggja að lágmarki 2000 nýjar íbúðareignir á ári til ársins 2040 í samræmi við fyrirséða þörf. Einnig þarf að vinna upp núverandi óuppfyllta íbúðaþörf með því að tryggja stofnframlög til byggingu a.m.k. 5000 íbúða til viðbótar. Ný ferðamannabylgja sem fylgir afléttingu sóttvarnaraðgerða er líkleg til þess að valda álagi á húsnæðismarkað aftur og er því enn mikilvægara að bregðast strax við þeim húsnæðisvanda sem enn er til staðar.

Húsnæði fyrir námsfólk

Auka þarf möguleika ungs fólks á að finna sér húsnæði við hæfi með því að auka framlög til byggingu íbúða fyrir námsfólk um allt land. Tryggjum einnig möguleikann á heimavist fyrir framhaldsskólastigið um allt land, þar á meðal á höfuðborgarsvæðinu.

Húsnæði fyrir öll sem þurfa

Réttinn til viðeigandi og öruggs húsnæðis fyrir öll sem þurfa þarf að tryggja. Píratar munu vinna að því að fjölga búsetuúrræðum sem koma til móts við þarfir mismunandi hópa sem á þurfa að halda og vinna að fjölgun almennra íbúa. Við ætlum að leita leiða til að horfa meira til raunverulegrar þarfar við val á félagslegu húsnæðisformi og styðja sveitarfélögin til að axla ábyrgð gagnvart notendum. Efla þarf stuðning við óhagnaðardrifin leigufélög. Styðjum við frekari uppbyggingu á vegum húsnæðissjálfseignarstofnanna með því að tryggja áfram vel fjármögnuð lán á hagstæðum kjörum.

Eflum réttindavernd á leigumarkaði

Húsaleigulög þarf að endurskoða frá grunni með það að markmiði að tryggja réttindi leigjenda og stuðla að heilbrigðari og sanngjarnari leigumarkaði. Styrkjum leigjendasamtök til að aðstoða leigjendur við að komast að réttarstöðu sinni og veita upplýsingar til almennings um samningagerð og lög og réttindi leigjenda. Búum til efnahagslega hvata fyrir langtímaleigusamninga og bönnum tengingu verðtryggingar í leigusamningum.

Skylduhlutfall félagsíbúða í sveitarfélögum

Félagsbústaðir eiga að vera valkostur fyrir öll sem þurfa í sveitarfélögum landsins. Við viljum láta sveitarfélögin axla jafna ábyrgð á félagslegum úrræðum og skilyrða lágmarkshlutfall félagsíbúða í sveitarfélögum yfir tiltekinni lágmarksstærð.

Heilnæmt húsnæði

Húsnæði á að vera griðastaður fyrir okkur öll. Grípum til aðgerða til að tryggja að allt íbúðarhúsnæði sé heilnæmt og brugðist sé hratt við þegar út af ber. Við ætlum að koma upp miðlægum gagnagrunni um ástand og viðhald fasteigna og tryggja að reglur um byggingu og viðhald þeirra taki mið af íslensku veðurfari. Einnig ætlum við að gera átak í endurbótum á því húsnæði sem er útsett fyrir rakaskemmdum og myglu.

Málefni innflytjenda

Píratar vilja nýja nálgun í málefnum innflytjenda á Íslandi. Í stað hindrana, tortryggni og andúðar þarf nálgun sem byggir á mannúð, virðingu og einlægum vilja til að taka vel á móti fólki sem vill setjast hér að. Einföldum regluverkið og tryggjum fullnægjandi aðbúnað og umgjörð þegar umsóknarferli er í gangi og ekki síður eftir að dvalarleyfi hefur verið veitt. Gagnkvæm menningarleg aðlögun er lykillinn að velgengni innflytjenda á Íslandi og farsælu fjölmenningarsamfélagi.

Útlendingastofnun verði lögð niður

Píratar vilja leggja niður Útlendingastofnun í núverandi mynd og fela verkefni stofnunarinnar öðrum embættum, svo sem Þjóðskrá og sýslumönnum. Leggjum áherslu á hraðari, einfaldari og notendavænni meðhöndlun umsókna um dvalarleyfi og ríkisborgararétt.

Flóttafólk

Ísland verður að axla ríkari ábyrgð þegar kemur að fólki á flótta. Bæði þarf að taka á móti fleiri einstaklingum og bæta móttökuferlið til muna. Taka þarf mið af aukinni mannúð, skilningi og virðingu fyrir umsækjendum um alþjóðlega vernd þegar beita á matskenndum ákvæðum útlendingalaga. Umsóknir eiga almennt að vera teknar til efnismeðferðar. Brottvísanir til óöruggra ríkja innan Evrópu, þar með talið Grikklands og Ungverjalands, eru ólíðandi og þær ber að stöðva án tafar. Ákvörðun um frestun réttaráhrifa skal tekin af dómara en ekki kærunefnd útlendingamála. Í öllum tilvikum skal skilgreina málsmeðferðartíma frá upphafi umsóknar og þangað til að einstaklingur er fluttur úr landi. Brottvísanir þeirra sem hafa aðlagast hér á landi, sérstaklega barna, eru ómannúðlegar og þeim skal hætt án tafar. Íslensk stjórnvöld verða að standa við skuldbindingar sínar á grundvelli Samnings Evrópuráðsins um aðgerðir gegn mansali og tryggja að fórnarlömbum mansals verði veittur viðeigandi stuðningur og hjálp.

Réttindi erlends verkafólks

Á Íslandi viðgangast víðtæk brot á erlendu launafólki, þrátt fyrir að lög og kjarasamningar tryggi réttindi óháð þjóðerni. Það birtist meðal annars í greiðslu rangra launa en einnig í leiguokri á óíbúðarhæfu húsnæði. Oft er um að ræða fólk í viðkvæmri stöðu sem hingað leitar í von um betra líf, þekkir réttindi sín illa og hefur ekki sterkt bakland. Eflum fræðslu fyrir þennan hóp og aðgang að upplýsingum á móðurmáli og styrkjum heimildir eftirlitsaðila, þ.m.t. stéttarfélaga, til að afla gagna Skýrum og bætum refsiheimildir  gagnvart brotlegum atvinnurekendum og setjum í lög viðurlög eins og févíti þegar uppvíst verður um brot. Útvíkkum skilgreininguna á vinnumansali þannig að hún nái utan um öll tilvik þess og tryggjum öruggt húsnæði fyrir erlent verkafólk.

Atvinnuleyfi fylgi veitingu dvalarleyfis

Öllum tegundum dvalarleyfa á almennt fylgja atvinnuleyfi. Þannig getum við ýtt undir sjálfsbjargarviðleitni þeirra sem hér setjast að í stað þess að festa fólk í viðjum opinberrar aðstoðar.

Menntun

Við viljum að einstaklingar með erlendan bakgrunn hafi aðgang að fjölbreyttum menntaúrræðum sem henta þeirra þörfum. Nám í íslensku ætti að vera aðgengilegt öllum, án tillits til aldurs, uppruna, eða fjárhagslegrar stöðu. Slíkt nám ætti að vera í boði á öllum færnistigum og ætti að búa nemandann undir líf í íslensku samfélagi. Efla á íslenskukennslu á leikskólastigi og bjóða börnum á öllum skólastigum, sem ekki hafa öðlast færni í íslensku, einstaklingsmiðaða kennslu án almennrar aðgreiningar frá öðrum nemendum. Hlúum að móðurmálskennslu barna af erlendum uppruna og auðveldum öllum að fá nám sitt í útlöndum metið að verðleikum. 

Menningarleg aðlögun

Við viljum hjálpa útlendingum betur að aðlagast íslenskri menningu og gefa þeim tækifæri á að verða hluti af íslensku samfélagi. Við viljum efla fjölmenningarsetur og taka vel á móti innflytjendum með fjölbreyttan bakgrunn. Við ætlum að grípa til aðgerða gegn fordómum og útlendingahatri og byggja upp samfélag sem byggir á samkennd og samhug, með sérstöku samfélagsátaki.

Málefni öryrkja og fatlaðs fólks

Við Píratar trúum því að allir eigi skilið sömu tækifæri. Því viljum við endurhugsa samfélagsleg kerfi þannig að þau valdefli einstaklinga til að athafna sig á eigin forsendum. Víðtækar skerðingar og hindranir í núverandi kerfum skapa samfélagslegt tap og glutra niður tækifærinu til að fjárfesta í fólki. Aðlögum samfélagið að þörfum hvers og eins. Lífsgæði fatlaðs fólks skulu vera eins góð og þau geta verið miðað við aðstæður hvers og eins. Fatlaðir einstaklingar eiga að fá að lifa án mismununar, fordóma, og hvers kyns misréttis. Við viljum tryggja rétt allra sem þurfa til framfærslu vegna örorku og endurhæfingar og miða við að hún dugi til nægjanlegrar framfærslu og mannsæmandi búsetu. Sá réttur á ekki að vera takmarkaður af hjúskaparstöðu, búsetu eða öðrum aðstæðum. Afnemum skerðingar og eflum mannúðlegri stuðningskerfi hins opinbera.

Úrbætur í almannatryggingakerfinu

Við Píratar viljum að örorku- og endurhæfingarlífeyrir standi öllum til boða frá 16 ára aldri til eftirlaunaaldurs. Takmörkuð búseta á Íslandi á ekki skerða bótarétt og hætta skal strax öllum búsetuskerðingum. Við viljum afnema skilyrði til uppbóta á lífeyri og vinna að því að fjarlægja skilyrði og skerðingar úr almannatryggingakerfinu. Breyta á lögum um almannatryggingar svo að fjárhæð örorku- og endurhæfingarlífeyris fylgi almennri launaþróun og breytingar á lífeyri verði aldrei lakari en breytingar á lágmarkslaunum. Við ætlum að fá óháða sérfræðinga til að reikna út kjaragliðnun lífeyris undanfarinna ára og vinna hana upp með reglubundnum hækkunum á fjárhæðum örorku- og endurhæfingarlífeyris á kjörtímabilinu.

Leyfum lífeyrisþegum að afla tekna

Píratar vilja hækka og lögfesta varanlegt frítekjumark vegna atvinnutekna öryrkja og auka þannig möguleika öryrkja til tekjuöflunar meðfram lífeyrisgreiðslum án víðtækra skerðinga. Við viljum tryggja að eignir lífeyrisþega valdi ekki skerðingum á lífeyrisgreiðslum. Píratar stefna að afnámi skerðinga vegna tekna úr lífeyrissjóðum.

Endurhugsum kerfið frá grunni

Hefja skal strax heildarendurskoðun almannatryggingakerfisins með það að leiðarljósi að búa til gagnsætt, notendavænt og mannúðlegt framfærslukerfi sem tryggir öllum framfærslu sem þurfa. Markmið kerfisins á að vera að tryggja öllum mannsæmandi búsetu og lífskjör og efla fólk á einstaklingsgrundvelli. Við erum ósammála hugmyndafræðinni um starfsgetumat og munum standa með öryrkjum gegn innleiðingu þess.

Endurskoðum umsóknarferlið

Tökum umsóknarferlið um örorku- og endurhæfingarlífeyri í gegn til að einfalda það, gera það notendavænna og auka gagnsæi í meðferð umsókna. Við viljum að ríkið standa straum af öllum kostnaði við mat á örorku og endurhæfingu.

Lögfestum samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks

Ísland hefur fullgilt samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks en hann hefur ekki verið lögfestur í heild sinni hér á landi. Svo að fatlað fólk geti sótt rétt sinn í stjórnsýslu og fyrir dómstólum á grundvelli samningsins er mikilvægt að hann verði lögfestur og hljóti formlegt gildi.

Fjölgum NPA samningum

Afnema þarf kvóta ríkisins gagnvart fjármögnun samninga um notendastýrða persónulega aðstoð og tryggja að öll sem þurfi þjónustuna hafi völ á henni.

Frelsi til búsetu

Píratar ætla að standa vörð um rétt fatlaðs fólks til að velja það búsetuform og þá búsetu sem hentar þeim. Fatlað fólk á að fá að velja sér að búa á landinu þar sem þau vilja um leið og stjórnvöld eiga að tryggja aðgengi að þjónustu í nærsamfélaginu.

Starfsendurhæfing

Við stöndum vörð um starfsemi félaga og samtaka sem bjóða starfsendurhæfingu eftir sjúkdóma eða slys þannig að fólk hafi tækifæri til að ná aftur fyrri getu.

Samráð

Hafa skal ríkt samráð við fulltrúa öryrkja og fatlaðs fólks við allar ákvarðanir sem varða hag þeirra.

Heilbrigðismál

Við Píratar setjum forvarnir, fyrirbyggjandi aðgerðir, velferð sjúklinga og réttindi notenda heilbrigðisþjónustu í forgang. Við viljum að sjúklingurinn njóti vafans, ekki kerfi eða kostnaður. Langtíma heilbrigðisáætlun á að stuðla að mannúðlegu viðmóti og nærgætni í heilbrigðiskerfinu, lausu við fordóma. Við viljum stefna að gjaldfrjálsri heilbrigðisþjónustu og tryggja aðgengi okkar allra að fjölbreyttri hágæða þjónustu þar sem réttindi notenda eru sett í forgang.

Rekstrarform

Við ætlum að standa vörð um opinbera heilbrigðisþjónustu og koma í veg fyrir einkavæðingu sem setur ofurgróða einkaaðila ofar heilsu landsmanna og veldur óskilvirkni í kerfinu. Einkarekstur í fjölbreyttum rekstrarformum á rétt á sér en þó með þeim skilyrðum að aðgengi allra sé tryggt og að efnahagur ákvarði ekki umfang og gæði þeirrar þjónustu sem hver einstaklingur á rétt á. Við viljum vinna að auknu gagnsæi og draga úr miðstýringu heilbrigðiskerfisins. Heilbrigðisáætlun skal ná til stoðaðila við heilbrigðisþjónustu, svo sem sjúkraflutninga, slökkviliðs, björgunarsveita, neyðarlínu, sjúkraflugs og þyrluþjónustu.

Góð og örugg þjónusta um allt land

Undirfjármagnað heilbrigðiskerfi bitnar á landsmönnum öllum, sérstaklega á landsbyggðinni. Við viljum bæta þjónustu þar og snúa við þeirri þróun sem hefur einkennst af fjársvelti og uppsöfnun viðhaldskostnaðar. Allir íbúar landsins eiga að hafa aðgengi að góðri alhliða heilbrigðisþjónustu sem stuðlar að andlegu og líkamlegu heilbrigði. Byggjum upp fjarheilbrigðisþjónustu sem raunhæfan kost og hvetjum til stöðugrar símenntunar og endurmenntunar allra sem starfa við heilbrigðisþjónustu.

Sjúklingar beri ekki þyngstu byrðina

Við Píratar viljum að opinber heilbrigðisþjónusta verði gjaldfrjáls. Fyrstu skrefin verða að auka kostnaðarþátttöku ríkisins í meðferðarúrræðum og draga úr lyfjakostnaði notenda, sérstaklega þegar kemur að langvarandi og dýrum lyfjameðferðum. Við ætlum að tryggja niðurgreiðslu á sálfræðiþjónustu, tannlækningum, augnlækningum, sjúkraþjálfun, sérfræðilækningum og annarri heilbrigðisþjónustu óháð samningum við veitendur þjónustu.

Stöndum vörð um réttindi sjúklinga og aðstandenda

Við viljum stofna embætti umboðsmanns sjúklinga. Hann verður eftirlitsaðili og upplýsingamiðlari fyrir sjúklinga og aðstandendur, ásamt því að aðstoða og leiðbeina varðandi réttindi notenda og veita kerfinu aðhald fyrir hönd sjúklinga, aðstandenda og notenda heilbrigðisþjónustu. Við stöndum vörð um réttindi sjúklinga með því að tryggja auðveldan aðgang notenda heilbrigðisþjónustu að eigin sjúkraskrá og upplýsingum um hvernig hún er notuð, ásamt því að tryggja vernd persónuupplýsinga þeirra. Notendur eiga að fá aðkomu að ákvarðanatöku og upplýsingum varðandi eigin meðferðarúrræði og við ætlum að leyfa þeim að vera þátttakendur í eigin heilbrigðisþjónustu.

Geðheilbrigðismál

Við Píratar lítum á geðheilbrigði sem eina af grunnstoðum samfélagsins. Geðheilbrigði varðar ekki einungis heilsu og velferð einstaklingsins heldur er geðheilbrigði ákveðinn mælikvarði á heilbrigði samfélagsins sem við búum í. Geðheilbrigði snertir í raun öll svið samfélagsins, allt frá því hvernig búið er að velferð barna á heimilum og í skólakerfinu yfir í hvernig hugað er að jafnvægi milli vinnu og fjölskyldulífs hjá fullorðnum. Hugum sérstaklega að geðheilbrigðismálum vegna Covid.

Fullfjármögnum og forgangsröðum

Geðheilbrigðiskerfið er vanfjármagnað og þar verður að gefa í. Þetta á ekki síður við í kjölfar heimsfaraldurs. Við viljum tryggja að fjármagnið nýtist vel með því að sjá til þess að í geðheilbrigðisþjónustu sé lögð áhersla á forvarnir, fyrirbyggjandi aðgerðir og snemmtæka íhlutun. Horfa þarf heildrænt á stefnu og aðgerðir stjórnvalda með tilliti til áhrifa á geðheilsu almennings.

Valdefling, samþykki og samvinna

Við Píratar viljum draga úr þvingunum og sviptingum vegna geðrænna vandkvæða. Koma þarf upp meðferðarúrræðum sem byggjast á valdeflingu, samþykki og samvinnu. Tryggja þarf að neytendur geti leitað réttar síns vegna ákvarðana um þvinganir og sviptingar. Notendur og fyrrum notendur skulu hafðir með í ráðum í stefnumótun á sviði geðheilbrigðisþjónustu og við útfærslu þjónustunnar.

Niðurgreiðum sálfræðiþjónustu

Við viljum niðurgreiða sálfræðiþjónustu og viðurkenndar samtalsmeðferðir. Við viljum tryggja réttindi og fjárhagslegan stuðning einstaklinga til að fá bestu gagnreyndu þjónustu sem stendur til boða.

Sálfræðiþjónusta og fræðsla fyrir nemendur

Píratar hyggjast tryggja aðgengi nemenda á öllum skólastigum að sálfræðiþjónustu. Útfæra ætti í aðalnámskrám hæfniviðmið um þekkingu á geðheilbrigði og einkennum algengra geðkvilla.

Stoppum í aðgengisgötin 

Við viljum tryggja aðgengi allra að geðheilbrigðisþjónustu óháð búsetu. Við hugum sérstaklega að hópum sem falla á milli kerfa eða vantar sérhæfða þjónustu, svo sem fólk með tvígreiningu, einhverfa og fólk sem glímir við átröskun.

Sérhæfð bráðaþjónusta

Bráðaþjónusta við fólk sem á við geðrænar áskoranir að stríða er mjög sérhæft úrlausnarefni og því eðlilegt  að hún sé aðskilin annarri bráðaþjónustu og aðgengileg allan sólarhringinn allt árið um kring. Heilbrigðismenntaðir viðbragðsaðilar eiga að bregðast við neyðarútköllum þar sem ætla má að geðræn veikindi séu til staðar.

Búsetuúrræði við hæfi 

Við viljum tryggja öllum sem eru með geðfötlunargreiningu búsetu við hæfi og notendastýrðri eftirfylgni eftir að formlegri meðferð lýkur.

Stuðningur og fræðsla fyrir aðstandendur 

Aðstandendur, sér í lagi börnum foreldra með geðrænan vanda, skal tryggja viðeigandi þjónustu og fræðslu.

Skaðaminnkun

Við eigum að koma fram við notendur vímuefna sem manneskjur, ekki sem glæpamenn. Fólk með fíknivanda ber að nálgast af nærgætni, virðingu og með skaðaminnkun að leiðarljósi. Skaðaminnkun vísar til stefnu, úrræða og aðgerða sem vinna að því að minnka neikvæð heilsufarsleg, félagsleg og efnahagsleg áhrif af neyslu vímuefna í stað þess að reyna að leysa vandamálin með bönnum og refsingum. Píratar hafa frá upphafi barist fyrir skaðaminnkun, enda skilar hún árangri.

Afglæpavæðing neysluskammta

Núverandi refsistefna eykur á jaðarsetningu vímuefnanotenda, sem ýtir undir aukinn fíknivanda þeirra. Við viljum afglæpavæða neysluskammta vímuefna og endurskoða refsingar vegna vímuefnabrota á grundvelli mannréttinda, mannhelgi og mannúðar og í takt við nýjustu þekkingu. Viðurkennum að fíknisjúkdómar eru heilbrigðisvandi sem þarfnast meðhöndlunar sem slíkur. Tökum tillit til nýrrar þekkingar um félagslegar aðstæður fólks sem á við fíknivanda að stríða, ekki síst þá staðreynd að getan til heilbrigðrar tengslamyndunar sé ein af meginforsendum bata til lengri tíma. Þannig auðveldum við þeim að enduraðlagast samfélaginu.

Fræðsla og forvarnir

Við Píratar viljum draga úr eftirspurn eftir vímuefnum með gagnreyndum forvörnum, fræðslu, viðhalds- og meðferðarúrræðum ásamt réttindavernd og réttindaaukningu vímuefnanotenda. Mikilvægt er að huga að áhrifaþáttum fíknar, svo sem áfalla í æsku og öðrum félagslegum þáttum. Við viljum setja nýja og mannúðlega stefnu í áfengis- og vímuvörnum samhliða afglæpavæðingu neysluskammta, þar sem áhersla verður lögð á skaðaminnkun, fræðslu og forvarnir. Engin slík stefna er í gildi hjá stjórnvöldum sem stendur.

Hugum að viðkvæmum hópum

Jaðarhópar eru sérstaklega líklegir til þess að ofnota vímuefni og ánetjast þeim. Veita þarf jaðarhópum sérstaka athygli við stefnumótun í þessum málaflokki. Í þeim hópi eru fangar, einstaklingar með geðröskun eða geðfötlun, þolendur mansals, fólk sem starfar í kynlífsiðnaði o.s.frv. Píratar ætla að tryggja lagalegan grundvöll fyrir rekstri neyslurýma og auka aðgengi að öðrum skaðaminnkandi úrræðum á borð við nálaskiptaþjónustu. Við megum ekki gleyma því að hanna skaðaminnkunarúrræði með þarfir ungs fólks sérstaklega í huga. Við viljum vinna að því að draga úr einangrun jaðarsettra hópa, byggja upp stuðningsnet fyrir fólk í vanda og veita sálræna aðstoð til að vinna úr áföllum. Einnig þarf að gera átak í húsnæðismálum heimilislausra til að koma í veg fyrir það mikla öryggisleysi sem einkennir lífi þeirra.

Heilbrigðiskerfi allra

Píratar vilja afnema alla mismunun gagnvart vímuefnanotendum í heilbrigðiskerfinu. Bjóða á upp á fleiri og fjölbreyttari meðferðarúrræði handa þeim sem á þurfa að halda vegna vímuefnaneyslu sinnar. Stuðla skal að frekari rannsóknum á fíkn og undirliggjandi vanda henni tengdri. Við viljum leggja áherslu á að bæta hag þeirra sem eiga við tvíþættan eða margþættan vanda að stríða.

Tökum afstöðu til regluvæðingar

Meðal nágrannaþjóða okkar, ekki síst vestanhafs, hafa orðið stórstígar breytingar í átt að regluvæðingu vímuefna á undanförnum árum. Með regluvæðingu myndu svipaðar reglur gilda um önnur vímuefni og nú gilda um áfengi og tóbak, að framleiðsla og sala verði leyfð samkvæmt ákveðnum skaðaminnkandi reglum. Íslensk stjórnvöld þurfa fyrr eða síðar að taka afstöðu til regluvæðingar og vilja Píratar undirbúa slíka ákvörðun með því að kanna kosti og galla mismunandi leiða.

X
X