Skip to main content

Suðurkjördæmi 2017

Tilkynning um prófkjör:
Prófkjör Pírata í Suðurkjördæmi mun fara fram dagana 23. til 30. september.

Reglur um prófkjör Pírata fyrir alþingiskosningar 2017 og skyldur frambjóðenda í prófkjöri Pírata í Suðurkjördæmi.

 • Frambjóðandi skal vera skráður í Pírata.
 • Frambjóðandi skal tilkynna framboð með tölvupósti til kjördæmaráðs á profkjor2017@piratar.is .
 • Frambjóðandi skráir sig einnig í prófkjörið á viðeigandi undirþingi í kosningakerfi Pírata á x.piratar.is.
 • Kosning hefst kl. 15:00  þann 23. september 2017 og lýkur klukkan 15:00 laugardaginn 30. september.
 • Öllum skráningum skal lokið fyrir kl 15:00 laugardaginn 23. september. Frambjóðendur þurfa að framkvæma þessar skráningar í tæka tíð svo framboðið teljist löglegt.
 • Allir sem eru skráðir í Pírata fyrir 24. ágúst 2017 og með kosningarétt í Suðurkjördæmi í alþingiskosningum 2017, eða væru með kosningarétt ef þeir hefðu aldur til, eru með atkvæðisrétt í prófkjöri Pírata í Suðurkjördæmi.

Með framboðsskráningu samþykkir frambjóðandi að hann hafi kynnt sér eftirfarandi kvaðir sem fylgi framboðinu og samþykki þær

 1. Frambjóðandi skal tilgreina í hvaða kjördæmi hann gefur kost á sér í titli og setja eftirfarandi upplýsingar á kynningarsíðu sína í kosningakerfinu (skv. landslögum til framboðs til Alþingis):
 • Nafn frambjóðanda
 • Kennitala
 • Staða eða starfsheiti
 • Heimili
 1. Frambjóðandi þarf að koma sömu upplýsingum til kjördæmaráðs, ásamt  símanúmeri og netfangi þar sem hægt sé að ná sambandi við hann í undirbúningi prófkjörs eða kosninga, en þær upplýsingar fara ekki með í opinbera kynningu. Póstfang kjördæmaráðs er profkjör2017@piratar.is
 2. Frambjóðandi samþykkir með undirskrift endanlegt sæti á lista og gefur hann einnig samþykki fyrir umboðsmönnum listans. Þetta skal gert eigi síður en 4 dögum áður en frestur til að skila listanum rennur út, ellegar er heimilt að fella hann af lista.
 3. Með yfirlýsingu um framboð í prófkjöri í kosningakerfi Pírata telst frambjóðandi lýsa því yfir að hann hafi kjörgengi í Alþingiskosningum á Íslandi.
 1. Framboðslistum verður raðað samkvæmt úrslitum forgangskosningar með Schulze-aðferð eftir kosningu í kosningakerfi Pírata. Þó skal frambjóðendum heimilt að víkja sæti og taka lægra sæti á lista en kjör hans segir til um, og færast þá aðrir frambjóðendur ofar á lista með einfaldri færslu. Hafni frambjóðandi sæti eða verði ófær um að taka því skal samkvæmt lögum Pírata endurtelja atkvæði að þeim brottfelldum.
 1. Allir félagsmenn sem skráðir hafa verið í Pírata í 30 daga eða lengur munu hafa kosningarétt í prófkjöri Pírata í Suðurkjördæmi. Dæmi: Þau sem skráðu sig í Pírata 23. ágúst hafa kosningarétt alla dagana en þeir sem skráðu sig í Pírata 30. ágúst hafa kosningarétt 30. september.

 

Vinsamleg tilmæli til frambjóðenda í prófkjöri

 1. Frambjóðendur eru eindregið hvattir til að bjóða sig ekki fram nema þeir hafi fullan hug á að taka sæti á lista, jafnvel neðar en þeir hefðu óskað sér, sökum þeirrar vinnu og óvissu sem það getur skapað að hafna sæti. Jafnframt er þeim tilmælum eindregið beint til frambjóðenda að lækka sig frekar en segja sig af lista, geti þeir ekki hugsað sér að vera í því sæti sem þeim býðst.
 2. Vegna þeirrar miklu vinnu sem felst í söfnun undirskrifta til staðfestingar lista fyrir kosningar er mælst til þess að frambjóðendur safni tíu til tuttugu undirskriftum sem merki um góðvilja frambjóðenda til framkvæmdaraðila framboðsins, sem munu starfa undir mikilli pressu með svo stuttan fyrirvara að kosningum. Þess er ekki krafist, en þetta eru tilmæli til allra frambjóðenda.

Þeir píratar sem bjóða sig fram á lista til prófkjörs í Suðurkjördæmi samþykkja eftirfarandi:

Siðareglur

Að sýna öðrum frambjóðendum kurteisi og virðingu og koma fram af háttvísi.

Að vera sannsöglir, málefnalegir, koma heiðarlega fram og vera öðrum fyrirmynd.

Að sýna einlægan áhuga á hag og hug annarra, hafa vilja til að sinna öðrum, sinna sjálfsþekkingu og auðmýkt.

Að fara ekki niðrandi orðum um meðframbjóðendur, hvort sem er í ræðu eða riti. Þetta þarf að skoða með tilliti til réttmætrar gagnrýni sem gæti verið skotin niður með óhóflegri ritskoðun.

Að hygla sér ekki umfram aðra frambjóðendur með því að greiða fyrir auglýsingar eða fyrir birtingu greina, blogg eða innlegg í öllum hugsanlegum miðlum.

Að stunda ekki kosningasmölun og bjóða ekki kjósendum efnisleg gæði eða greiða í skiptum fyrir atkvæði þeirra.
Að halda engu óeðlilega leyndu hvað varðar fjármál eða persónulegar hagsmunatengingar.

Að ráðfæra sig við kjördæmisráð, ef vafaatriði koma upp.
Kjördæmisráð skal kynna frambjóðendur á miðlum á vegum Pírata, og standa fyrir kynningarfundum, þar sem öllum gert jafn hátt undir höfði.

Brjóti frambjóðandi gegn ofangreindum siðareglum, er kjördæmisráði heimilt að ávíta viðkomandi með opinberum hætti.

Við prófkjör verður hægt að kynna sér hvaða frambjóðendur hafa kvittað við siðareglur Pírata í kjördæminu og hverjir hafa skrifað undir valfrjálst heiðursmannasamkomulag.

Heiðursmannasamkomulag

Allir sem gefa kost á sér á lista til prófkjörs Pírata í Suðurkjördæmi ættu að skrifa undir heiðursmannasamkomulag þetta.

Í tilfelli þeirra þingmanna sem komast á Alþingi fyrir Pírata, þá er þeim valfrjálst að skrifa undir slíkan saming við Pírata en þeir sem kjósa að gera það gangast undir þá undir það loforð að víkja til hliðar sem þingmaður og láta varamann taka við ef kemur upp mál sem snertir beina hagsmuni þess þingmanns eða nánustu ættingja hans.

Frambjóðandi sem gengst undir heiðursmannasamkomulagið samþykkir að haga störfum sínum í hvívetna í samræmi við Grunnstefnu Pírata og með aðrar samþykktar stefnur flokksins að leiðarljósi. Heiðursmannasamkomulag þýðir ekki að allir kjörnir fulltrúar þurfi að kjósa eins og hinir eða að fólk geti ekki myndað sér eigin skoðun. Þingmenn eru eftir sem áður aðeins bundnir af eigin sannfæringu. Ef upp koma vafatilvik um hvort heiðurssamkomulag hafi verið brotið er hægt að leita eftir úrskurði frá trúnaðarráði Pírata.

Þingmaður sem brýtur heiðursmannasamkomulag sitt við Pírata verður beðinn um að fara eftir heiðursmannasamkomulaginu og segja af sér. Í sérstökum tilfellum, neiti þingmaður að fara eftir samkomulaginu og segja af sér, geta Píratar, að undangenginni kosningu í kosningakerfi flokksins, lýst yfir vantrausti flokksins á þingmanninn og þannig krafið hann afsagnar. Með þessu reynir þannig á siðferði hvers og eins þingmanns til hins ítrasta.