Skip to main content

Framtíðarsýn Pírata

Ný stjórnarskrá

Virðum vilja þjóðarinnar – klárum málið!

21. aldar stjórnarskrá

Samfélagið hefur þróast hraðar en stjórnkerfið, því er þörf á nýjum samfélagssáttmála á mannamáli.

Ný stjórnarskrá Íslands:

Stjórnarskrá á mannamáli

Núgildandi stjórnarskrá er óskýr og úrelt. Þrískipting valdsins, völd forseta og pólitísk ábyrgð eru illa skilgreind og ótrygg. Stjórnskipan landsins byggist á túlkunum, hefð og jafnvel hentistefnu stjórnvalda og við þurfum stjórnarskrá sem fólk skilur og tryggir pólitíska ábyrgð.

Efnum loforðið frá lýðveldisstofnun

Þjóðinni hefur verið lofað nýrri stjórnarskrá frá árinu 1944. Nú eigum við nýja stjórnarskrá. Nú eigum við nýja stjórnarskrá. Virðum niðurstöðuna úr þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október 2012 og klárum málið.
Stefna Pírata um stjórnskipunarlög

Ísland meðal þjóða

Þjóðaratkvæðagreiðsla um áframhald viðræðna við ESB

Efnum svikin loforð og hættum að taka ákvarðanir með leynilegum bréfum. Píratar vilja færa þjóðinni valdið í reynd með því að treysta henni til að taka upplýsta ákvörðun um sameiginlega hagsmuni. Þjóðin á að ráða svona stóru máli sjálf. Stjórnvöld eru í vinnu fyrir þjóðina og eiga að fylgja fyrirmælum hennar af heilum hug – það er enginn pólitískur ómöguleiki í því.

Stefna Pírata varðandi aðildarviðræður við ESB

Tökum betur á móti innflytjendum, flóttamönnum og hælisleitendum

Landamæri þjóða eru manngerð fyrirbæri sem koma oft í veg fyrir sjálfræði fólks og jafnræði á milli fólks af ólíkum uppruna, trúarbrögðum eða stöðu að öðru leyti.

Mannúð og mannréttindi eiga að gilda um alla einstaklinga, óháð landamærum, og okkur ber siðferðisleg skylda til að hjálpa fólki í neyð. Píratar vilja að Ísland taki á móti fleiri flóttamönnum og hælisleitendum og taki almennt betur á móti fólki sem vill setjast hér að.

Setja skal upp áætlun sem felur í sér að íslensk stjórnvöld hætti að misnota Dyflinarreglugerðina til að senda hælisleitendur úr landi og endurskoða þarf vinnulag og reglur Útlendingastofnunar til að færa þær nær alþjóðlegum samþykktum, t.d. þannig að flóttamenn séu ekki sendir úr landi á meðan mál þeirra eru rekin á Íslandi.

Við viljum auk þess samræma íslenska innflytjendastefnu með það að markmiði að jafnræðis sé gætt gagnvart öllum erlendum ríkisborgurum og leitað eftir þátttöku þeirra í ákvarðanatöku sem snertir þá.

Virkt lýðræði

Þú hefur rétt á þátttöku í málum sem varða þig.
Dómgreind fjöldans skal ekki vanmetin. Saman erum við sterk.

Heilbrigt lýðræði, almenning til áhrifa

Innleiðum málskotsrétt og frumkvæðisrétt þjóðarinnar. Almenningur þarf alvöru verkfæri til að stöðva lög sem sett eru í óþökk þjóðar án þess að þurfa að fara með bænaskrá til Bessastaða eða kasta drasli í þinghúsið. Til að geta haft áhrif á forgangsröðun mála á þingi þarf almenningur að geta lagt fram mál á Alþingi. Málskotsréttur þjóðarinnar veitir aðhald og tryggir bætt vinnubrögð á þingi og frumkvæðisréttur þjóðarinnar færir vald og ábyrgð í hendur fólksins. Hvort tveggja er tryggt í nýju stjórnarskránni.

Opið og öflugt Alþingi

Alþingi nýtur afar lítils trausts meðal landsmanna og það er ein brýnasta áskorun íslenskra stjórnmála. Píratar hafa ýmsar tillögur að úrbótum á störfum þingsins sem hægt er að innleiða strax. Þeirra á meðal er að ráðherrar séu ekki þingmenn á sama tíma, að fundir fastanefnda þingsins verði að jafnaði opnir, að þingmál lifi á milli þinga í stað þess að falla niður eins og nú er og að forseti Alþingis hafi dagskrárvald í reynd, geti vísað vanbúnum málum til baka í ráðuneytin og neitað að taka þau á dagskrá. Sömuleiðis að sett verði á fót sérstök lagaskrifstofa Alþingis sem og ný þverpólitísk þingmannanefnd (Framtíðarnefndin) þar sem unnið verði markvisst að langtímamarkmiðum og stefnum.

Eflum vitund um lýðræði og þjóðfélagsmál með þjálfun í gagnrýnni hugsun

Lýðræði gerist ekki sjálfkrafa. Samfélagssáttmálinn byggist á samtali, samþykki og samvinnu. Eflum kennslu um lýðræði, heimspeki og samfélagsmál og þjálfun í gagnrýnni hugsun og lýðræðislegum vinnubrögðum á öllum skólastigum.

Veitum stjórnvöldum meira aðhald

Valdi fylgir ábyrgð. Grunnurinn að góðu samfélagi er skiljanleg stjórnarskrá þar sem allir geta skilið rétt sinn og ábyrgð valdhafa. Óháðir fjölmiðlar eru nauðsynlegur hluti þess að fylgjast með valdinu. Gagnsæ stjórnsýsla er nauðsynleg til þess að fjölmiðlar og almenningur geti sinnt lýðræðislegu hlutverki sínu.

Lýðræðið þarf að iðka á milli kosninga

Lýðræði er miklu meira en kosningar, það snýst um stjórnarfar og tækifæri til þátttöku. Stjórnvöld eiga að bjóða borgurum til þátttöku á öllum stigum mála; frá skilgreiningu vandans til lausnar á honum. Virkjum upplýsingatæknina, borgarafundi og annars konar nýsköpun lýðræðis til að efla almannavald á milli kosninga.

Í nýrri stjórnarskrá segir: “Með lögum skal tryggja almenningi aðgang að undirbúningi ákvarðana sem hafa umtalsverð áhrif á umhverfi og náttúru svo og heimild til að leita til hlutlausra úrskurðaraðila.”

Gagnsæi og upplýsingafrelsi

Þetta kemur þér víst við!

Gagnsæ og opin stjórnsýsla

Gagnsæi er nauðsynleg forsenda fyrir ábyrgð og fyrir upplýstri þátttöku almennings í lýðræðinu. Til að fyrirbyggja spillingu þarf ábyrgðin að vera skýr og upplýsingar um ákvarðanir aðgengilegar öllum. Valdeflum einstaklinga með betra aðgengi og betri upplýsingum. Upplýsingar þurfa að vera aðgengilegar og skiljanlegar, þ.e. bæði á mannamáli og á opnu, tölvutæku sniði.
Í nýrri stjórnarskrá segir: “Upplýsingar og gögn í fórum stjórnvalda skulu vera tiltæk án undandráttar og skal með lögum tryggja aðgang almennings að þeim.”

Lögfestum samning SÞ gegn spillingu

Vinnum gegn spillingu og notum til þess alþjóðlega viðurkenndar og sannreyndar lausnir. Með aðild Íslands að samningi Sameinuðu þjóðanna gegn spillingu fyrir 6 árum samþykkti Alþingi að slíkar lausnir skyldi setja í lög – það þarf að klára.

Nútímaleg vernd höfundaréttar

Höfundar eiga rétt á að njóta ágóða af verkum sínum. Lög um höfundarétt þarf að endurskoða til að þau taki betur mið af þróun samfélagsins og upplýsingatækninnar, með það að markmiði að gera höfundum kleift að afla tekna af verkum sínum án þess að framfylgni laganna bitni á almannahagsmunum, borgararéttindum eða hefðbundnum ferlum réttarríkisins.

Leita skal leiða til að styrkja rétt höfunda, sérstaklega gagnvart milliliðum, á sama tíma og tjáningarfrelsi, netfrelsi og friðhelgi einkalífs borgaranna er virt.

Endurskoða og samræma þarf löggjöf um höfundarétt innan evrópska efnahagssvæðisins og á alþjóðavísu; svo sem lög um gildistíma höfundaréttar, sæmdarrétt, höfundarétt í almenningsrýmum (e. freedom of panorama), undanþágur vegna skopstælinga (e. freedom of parody), notkun hugverka í menntatilgangi, leyfi til gagnaúrvinnslu, stafræna útgáfu verka o.fl.

Upplýsingafrelsi – Upplýsingar eru forsenda upplýsingar

Forsenda heilbrigðs lýðræðis er aðgengi almennings að upplýsingum og réttur okkar til að safna og skiptast á upplýsingum án afskipta stjórnvalda. Stjórnvöld eiga að beita upplýsingatækni í mun ríkari mæli til að koma gögnum á framfæri, sinna þjónustu og hafa samráð við borgarana.

Í nýrri stjórnarskrá segir:
“Öllum er frjálst að leita eftir, taka við, safna og miðla upplýsingum og hugmyndum.”

Netfrelsi – Friðhelgi einkalífsins gildi líka á netinu

Tryggjum friðhelgi einkalífs alls staðar. Afnemum gagnageymd og heimildir til að safna og selja persónuupplýsingar einstaklinga. Fólk ráði sjálft með hvaða hætti það birtist samfélaginu.

Beitum okkur gegn ritskoðun og brotum gegn friðhelgi einkalífs, t.d. almennu rafrænu eftirliti. Áfram verði þó hægt að beita sértækum aðgerðum gegn einstaklingum, með dómsúrskurði, þegar rökstuddur grunur er um lögbrot, sérstaklega þegar kemur að barnavernd.

Tjáningarfrelsi

Stjórnvöld skulu stefna að því að Ísland verði leiðandi aðili í vernd upplýsinga- og tjáningarfrelsis á alþjóðavísu. Refsiréttarákvæði um meiðyrði falli niður og þau færð í einkarétt, með tilheyrandi niðurfellingu fangelsisrefsingar. Meiðyrðalöggjöf verði almennt endurskoðuð til að vernda betur tjáningarfrelsi hinna valdaminni í samfélaginu.

Í nýrri stjórnarskrá segir: “Með lögum skal tryggja aðstæður til opinnar og upplýstrar umræðu. Óheimilt er að takmarka aðgang að netinu og upplýsingatækni nema að uppfylltum skilyrðum 29. gr.”

Klárum IMMI (Icelandic Modern Media Initiative)

Árið 2011 samþykkti Alþingi einróma þingsályktunartillögu um að Ísland skyldi skapa sér afgerandi lagalega sérstöðu varðandi vernd tjáningar- og upplýsingafrelsis.

Í þessu felst m.a. að tryggja betur vernd afhjúpenda, fjölmiðla og heimildarmanna þeirra; að fyrirbyggja lögbann á útgáfu og að tryggja réttlátari málsmeðferð gagnvart sakborningum í meiðyrðamálum.

Almennt er stefnt að því að gera öll skjöl aðgengileg öllum á netinu og að erlendir fjölmiðlar og samtök geti haft rafrænt aðsetur hér á landi í skjóli þessa umhverfis. Píratar vilja fylgja þessu máli í höfn af festu og lögfesta þau frumvörp sem hafa verið lögð fram á grundvelli IMMI.

Mannréttindi og jafnrétti

Upprætum mismunun á öllum sviðum

Píratar vilja berjast gegn allri mismunun gagnvart einstaklingum; hvort sem hún er á grundvelli kyns, kynhneigðar, kynvitundar, aldurs, trúarbragða, uppruna, litarháttar, lífskoðana, fötlunar eða annarra persónueinkenna. Enn eru mörg verk óunnin á sviði jafnréttis og margt sem þarf að gera til að jafna stöðu ólíkra hópa samfélagsins. Þar á meðal er lögfesting Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem hrinda verður í framkvæmd eins fljótt og auðið er.

Píratar vilja tryggja að íslenskt samfélag verði ekki aðeins umburðarlynt heldur séu allir einstaklingar samþykktir, metnir að verðleikum og fái jöfn tækifæri til að njóta sín, vaxa og dafna. Ofbeldi skal aldrei líðast, hvorki andlegt né líkamlegt. Píratar vilja huga sérstaklega að stöðu ólíkra hópa og sníða fræðslu, forvarnir og meðferðarúrræði að ólíkum aðstæðum fólks. Við munum hvetja til opinnar og upplýstrar umræðu um jafnréttismál á breiðum grunni.

Lögfestum Samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks

Píratar stefna að lögfestingu Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks eins fljótt og verða má. Píratar fagna því að Alþingi hafi fullgilt samninginn eftir margra ára töf en eru meðvitaðir um að enn er langt í land að lögfestingu samningsins. Brýnustu úrbætur sem þörf er á eru að afnema allar heimildir í lögum til frelsissviptingar og þvingaðrar meðferðar á grundvelli fötlunar. Sjálfsákvörðunarréttur fatlaðs fólks skal virtur í hvívetna. Leggja verður niður staðgengilsákvarðanatökukerfi núverandi lögræðislaga (lögræðissviptingar/lögráðamenn) og bjóða þess í stað upp á stuðning við ákvarðanatöku. Bann við mismunun á grundvelli fötlunar skal lögfesta í jafnréttislögum. Mannréttindi og mannhelgi fatlaðs fólks skulu vernduð og virt bæði í lögum og framkvæmd. Réttur fatlaðs fólks til þess að lifa sjálfstæðu lífi utan frelsisskerðandi stofnana skal tryggður með lögum. Stórefla verður forvarnir gegn fordómum á grundvelli fötlunar í samfélaginu öllu. Vinna skal markvisst að því að efla náms- og atvinnuþáttöku fatlaðs fólks.

Upprætum staðalmyndir

Píratar vilja leita leiða til að sporna við og uppræta staðalímyndir og aðrar ranghugmyndir sem geta orðið til þess að einstaklingum sé mismunað eða frelsi þeirra skert. Samhliða því að nám verði einstaklingsmiðaðra viljum við að markvisst verði unnið að því innan menntakerfisins að draga úr kynbundnum hindrunum við val á námi og starfssviði. Píratar telja ekki síður mikilvægt að vinna gegn hindrunum og fordómum byggðri á fötlun einstaklinga í námi og starfi. Píratar vilja koma á fót jafnréttisfræðslu innan grunnskóla samhliða kynfræðslu og að fræðsluefni taki mið af því að vinna á móti fordómum og staðalímyndum almennt. Auk þess viljum við sporna við neikvæðum áhrifum kláms á kynhegðun og kynjaímyndir, ekki síst á börn og unglinga með því að stuðla að öflugri fræðslu og þjóðfélagsumræðu sem miðar að því að vekja fólk til umhugsunar um eðli kláms og áhrif þess.

Upprætum kynbundinn launamun

Píratar vilja að unnið verði að breytingum á kjarasamningum til að tryggja launajafnrétti óháð kyni. Stuðla ætti að gagnsæi og sanngirni í launamálum með því að skylda fyrirtæki og stofnanir til að gera öllu starfsfólki aðgengilegar nákvæmar og réttar upplýsingar um launakjör alls starfsfólks. Vinnuveitendum verði gert skylt að upplýsa starfsfólk um lagaleg réttindi þess og skyldur við ráðningu. Séð verði til þess að eftirlitsaðili hafi heimild til þess að rannsaka launamál fyrirtækja til að leita skýringa á óútskýrðum launamun.

Upprætum kynbundið ofbeldi

Píratar vilja tryggja að kynfrelsi njóti fullrar og ótvíræðar lagaverndar. Auka ætti fjármagn til Neyðarmóttöku Landsspítalans fyrir þolendur kynferðisofbeldis, svo bæta megi þjónustu við þolendur og koma á fót sérstakri þjónustu fyrir karlkyns þolendur kynferðisofbeldis.

Bjóða skal þolendum aukna sálfræðiþjónustu strax í upphafi kæruferlis eða málsmeðferðar, svo einstaklingurinn geti tekist betur á við það sem fylgir því að kæra kynferðisafbrot. Ákveðnar fjárupphæðir verði eyrnamerktar til rannsókna á kynferðisafbrotamálum, til þess að vega upp á móti lágum forgangi þeirra í kerfinu sökum lágrar sakfellingartíðni.

Sömuleiðis ætti að efla fyrirbyggjandi aðgerðir, m.a. með því að þessi málaflokkur verði tekinn sérstaklega fyrir í kynfræðslu i skólum og stuðlað verði að opinni umræðu um kynferðisbrot bæði á þeim vettvangi og í samfélaginu almennt.

Menntun, endurmenntun og starfsþjálfun þeirra fagstétta sem vinna með þolendum kynferðisofbeldis innihaldi sértækt efni um kynferðisofbeldi, afleiðingar þess, einkenni og fleira. Huga þarf sérstaklega að góðri og viðeigandi meðferð á málum er varða kynferðisbrot gegn fötluðu fólki.

Efla verður fræðslu allra fagstétta sem koma að kynferðisbrotamálum til þess að tryggja að fatlað fólk njóti sannmælis, á þau sé hlustað til jafns við aðra og að þau hljóti viðhlítandi stuðning á meðan mál þeirra eru til meðferðar.

Virðum fjölbreytta kynvitund

Auka ætti sjálfsákvörðunarrétt einstaklingsins í lögum nr. 57/2012 þannig að ákvörðun um kynleiðréttandi aðgerðir verði í meira mæli á valdi einstaklingsins sjálfs. “Þriðja kynið” verði lögformlega viðurkennt í opinberum skráningum, svo sem í vegabréfum. Núgildandi skylda til nafnbreytingar samhliða leiðréttingu á ytri kynfærum skv. 8. gr. laga nr. 57/2012 verði afnumin.

Breyta ætti samsetningu sérfræðinefndar um kynáttunarvanda þannig að einn nefndarmanna verði sérfræðingur í kynjafræði og/eða hinsegin fræðum og að skipaður sé fulltrúi transfólks. Breyta ætti reglugerð nr. 722/2009 til að jafna rétt fólks af öllum kynjum til niðurgreiðslu á lyfjum og aðgerðum.

Tryggjum réttindi fanga

Tryggja ætti rétt allra fanga til betrunarúrræða, afþreyingar og þeirra félagslegu úrræða og réttinda sem föngum ber. Efla þarf betrun í formi launaðrar vinnu og allur ágóði af atvinnustarfsemi fanga í fangelsum skal renna til fanganna sjálfra.Tryggja á rétt fanga til þess að virkja innra eftirlit eða koma kvörtunum á framfæri án ótta við eftirköst, þeir skulu eiga rétt á trúnaði í samskiptum við kjörna og skipaða fulltrúa. Fangar geti kosið sér ytri talsmann og hagsmunasamtök fanga geti átt samskipti á milli fangelsa. Auka þarf gegnsæi í öllu er lýtur að fangelsismálum.

Aðskilnaður ríkis og kirkju

Píratar vilja stefna að fullum og algjörum aðskilnaði ríkis og kirkju, jafnri stöðu allra trúar- og lífsskoðunarfélaga og endurskoðun samninga ríkisins við Þjóðkirkjuna um kirkjujarðir (frá 1997) og prestsetur (frá 2006). Þó er ljóst samkvæmt bæði núverandi stjórnarskrá og nýrri stjórnarskrá að slík ákvörðun Alþingis mundi fara í bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu til staðfestingar.

Sjávarútvegsmál

Kerfisbreyting án kollsteypu – Auðlind í almannaeigu.

Allar aflaheimildir á uppboð

Íslenska ríkið, fyrir hönd þjóðarinnar, á að bjóða aflaheimildir upp til leigu á opnum markaði og skal leigugjaldið renna í ríkissjóð. Skulu öll úrslit uppboða vera opinberar upplýsingar. Með þessum hætti væri jafnræði, nýliðun og sanngjarn arður þjóðarinnar af fiskveiðiauðlind hennar tryggður.

Í nýrri stjórnarskrá segir:
“Auðlindir í náttúru Íslands, sem ekki eru í einkaeigu, eru sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar. Enginn getur fengið auðlindirnar, eða réttindi tengd þeim, til eignar eða varanlegra afnota og aldrei má selja þær eða veðsetja.”

Allur afli á markað

Allur afli skal fara á markað til að gera viðskipti með sjávarútvegsafurðir eðlilegri og bæta hag sjómanna, minni sjávarútvegsfyrirtækja og annarra fyrirtækja sem vinna með aukaafurðir. Þetta myndi stuðla að eðlilegri verðmyndun á afurðum, jafna möguleika fiskvinnslna í landinu og tryggja að arðurinn af auðlindinni sé ekki fluttur úr landi.

Frjálsar handfæraveiðar

Handfæraveiðar verði frjálsar og gerðar aðgengilegar þeim sem kjósa að stunda þær til atvinnu. Tilgangurinn er að stuðla að nýliðun og sjálfbærri nýtingu sjávar ásamt kærkominni búbót fyrir gjörvallt landið. Kerfið verði einfaldað og sveigjanleiki aukinn til að auðvelda nýjum aðilum að stofna og reka útgerð. Handfæraveiðar skulu háðar skynsamlegum takmörkunum og fjölda leyfa á einstaklinga, lögaðila og eftir tegundum báta.

Umhverfismál

Sjálfbærni sem leiðarstef.

Ísland verði í fararbroddi í umhverfismálum

Á undanförnum áratugum hefur orðið ljóst að mannkynið er að ganga verulega á auðlindir jarðar og náttúru með fyrirsjáanlega hrikalegum afleiðingum fyrir komandi kynslóðir. Ábyrg umgengni við náttúruna og sjálfbær nýting auðlinda eru nauðsynleg forgangsmál. Tökum fullt tillit til alþjóðaviðmiða og samninga í umhverfismálum og leyfum náttúrunni að njóta vafans. Framfylgja skal megingildum sjálfbærrar þróunar í verki.

Í nýrri stjórnarskrá segir:
“Náttúra Íslands er undirstaða lífs í landinu. Öllum ber að virða hana og vernda. Í því felst að fjölbreytni lands og lífríkis sé viðhaldið og náttúruminjar, óbyggð víðerni, gróður og jarðvegur njóti verndar. Fyrri spjöll skulu bætt eftir föngum. Nýtingu náttúrugæða skal haga þannig að þau skerðist sem minnst til langframa og gildi náttúrunnar og hagsmunir komandi kynslóða séu virt.”

Ísland verði leiðandi í loftslagsmálum

Loftslagsbreytingar og þær áskoranir sem þeim fylgja eru eitt allra mikilvægasta verkefnið sem stjórnmál samtímans standa frammi fyrir. Það hvaða leiðir verða valdar til þess að koma í veg fyrir frekari óafturkræf áhrif á lífríki jarðar og lífsgæði okkar skipta verulegu máli.

Útrýming dýrategunda, viðvarandi þurrkar og veðurfarsbreytingar sem áhrif hafa á uppskeru og öryggi í heiminum eru m.a afleiðingar loftslagsbreytinga sem þarf að halda í skefjum.

Píratar vilja að Ísland taki skýra afstöðu gegn frekari olíuleit og olíuvinnslu í efnahagslögsögunni, vilja að mengandi starfsemi greiði sérstaka mengunarrentu umfram hefðbundna skatta og að nýta skuli hagræna hvata til þess að draga úr útstreymi mengunar í umhverfið.

Píratar vilja að Ísland verði leiðandi í loftslagsmálum, grípi til aðgerða sem uppfylla skilyrði Parísarsamningsins og setji fordæmi fyrir aðrar þjóðir að gera slíkt hið sama.

Hálendisþjóðgarður – Verndum viðkvæma náttúru miðhálendisins

Miðhálendið er ein dýrmætasta perla landsins. Þar má finna eldfjöll, jökla, vatnsmiklar ár og fossa, litrík háhitasvæði, víðfeðm hraun og svartar sandauðnir sem kallast á við viðkvæmar gróðurvinjar. Saman mynda þessi náttúrufyrirbæri stórbrotnar landslagsheildir á einum stærstu víðernum Evrópu. Þessa þjóðargersemi þarf að vernda til framtíðar.

Í nýrri stjórnarskrá segir:
“Með lögum skal tryggja að allir hafi aðgang að óspilltri náttúru.”

Styðjum við rafbílavæðingu

Píratar vilja stuðla að rafbílavæðingu Íslands, m.a. með því að huga að innviðum og með fjárhagslegum ívilnunum sem stefni að því að auka hlutfall rafbíla. Almenn orkumála- og umhverfisstefna ætti að innihalda markmið um rafbílavæðingu og gera nauðsynlegar ráðstafanir til að ná þeim markmiðum.

Efnahagsmál

Upplýst nálgun

Markmið efnahagsstefnu er að styðja við virka samkeppni, nýsköpun og hagvöxt sem staðið geta undir velferð og grunnstoðum samfélagsins. Píratar “trúa” hvorki á einkarekstur né opinberan rekstur, heldur vilja beita því sem best hefur reynst á hverju sviði fyrir sig.

Skattheimta standi undir grunnstoðum

Það er ekki sjálfstætt markmið Pírata að hækka eða lækka skatta, heldur er markmið skattheimtu ríkisins að hið opinbera geti tryggt grunnstoðir samfélagsins; svo sem heilbrigðiskerfi, menntakerfi, almannatryggingakerfi, löggæslu, vegakerfi o.s.frv., þar sem megináherslan er lögð á gæði og jafnt aðgengi.

Bindum enda á skattaundanskot og þunna eiginfjármögnun

Við viljum leita uppi fjársjóði Íslendinga í skattaskjólum og tryggja að alþjóðleg fyrirtæki sem starfa á Íslandi greiði skatta á Íslandi, með því að koma í veg fyrir að hagnaði þeirra sé komið úr landi sem vaxtagreiðslur til móðurfyrirtækis.

Fjármál hins opinbera verði opin, tölvutæk, gagnsæ og sundurliðuð

Bókhald ríkissjóðs og ríkisstofnana skal gert aðgengilegt á tölvutæku formi að því marki sem sjónarmið persónuverndar leyfa. Við alla álagningu skatta skal áhersla lögð á að skatturinn sé sýnilegur og skiljanlegur greiðanda. Afurðir sem tengjast verkefnum fjármögnuðum af opinberu fé skulu almennt vera í almannaeigu og þar með opin og aðgengileg öllum. Eignarhald lögaðila skal vera opið og rekjanlegt.

Ábyrg efnahagsstjórn

Alþingi á að setja langtímaáætlun í opinberri þjónustu og hvorki að skila afgangi né safna skuldum nema í samræmi við langtímaáætlanir. Til að tryggja hagsmuni almennings skulu ábyrgð, stöðugleiki, sjálfbærni og langtímamarkmið vera skýr í öllum efnahagsmálum.

Heilbrigðismál

Örugg heilbrigðisþjónusta án endurgjalds.

Endurreisum gjaldfrjálsa heilbrigðisþjónustu

Við eigum öll rétt á fullnægjandi heilbrigðisþjónustu; jafnt aðgengi að heilbrigðisþjónustu eru grundvallarmannréttindi sem allir skulu njóta. Stefnt skal að því að heilbrigðisþjónusta og nauðsynleg lyfjakaup verði gjaldfrjáls. Aðbúnaður og kjör heilbrigðisstarfsfólks verði bætt verulega og fjársvelti heilbrigðiskerfisins hætt. Uppboð ríkisins á tímabundnum afnotum af sjávarauðlind landsmanna getur tryggt endurreisn heilbrigðisþjónustunnar og gjaldfrelsi hennar um fyrirséða framtíð.

Í nýrri stjórnarskrá segir:

“Öllum skal með lögum tryggður réttur til að njóta andlegrar og líkamlegrar heilsu að hæsta marki sem unnt er, þ.m.t. réttur á heilnæmu umhverfi, fersku vatni og ómenguðu andrúmslofti. Öllum skal með lögum tryggður réttur til aðgengilegrar, viðeigandi og fullnægjandi heilbrigðisþjónustu.”

Átak í geðheilbrigðismálum – Þjónusta sálfræðinga verði hluti af sjúkratryggingum

Geðheilbrigði er eitt brýnasta viðfangsefni okkar tíma og stjórnvöld þurfa að gera mun betur í að styðja við gjaldfrjálsa geðheilbrigðisþjónustu. Sérstaklega er mikilvægt að ungmenni með geðrænar raskanir fái viðeigandi og fullnægjandi aðstoð. Stefnt skal að því að þjónusta sálfræðinga verði hluti af sjúkratryggingum.

Afglæpavæðing vímuefna

Refsistefnan hefur brugðist. Vímuefnamisnotkun er heilbrigðisvandamál sem þarf að leysa sem slíkt. Nálgumst fíkn sem heilsufarslegt og félagslegt vandamál frekar en sem glæp og veitum vímuefnaneytendum í vanda aðstoð í stað þess að refsa þeim.

Þjónusta tannlækna verði hluti af sjúkratryggingum

Tannheilsa er órjúfanlegur þáttur í heilsu einstaklinga og engin ástæða til að aðskilja hana sérstaklega frá annarri heilbrigðisþjónustu. Stefnt skal að því að þjónusta tannlækna verði hluti af sjúkratryggingum.

Nýr spítali á góðum stað til framtíðar

Píratar vilja halda áfram þeirri uppbyggingu sem hafin er við Landspítalann við Hringbraut; viðhaldi, endurnýjun á tækjakosti og byggingu sjúkrahótels. Á sama tíma viljum við setja af stað faglega, óháða staðarvalsgreiningu á helstu mögulegum staðsetningum nýja Landspítalans á höfuðborgarsvæðinu. Þeirri úttekt ætti að vera lokið innan árs og ætti að taka mið af svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins og þróun íslenskrar heilbrigðisþjónustu til framtíðar. Í kjölfarið verði landsmönnum falið að velja milli helstu valkosta í vandaðri viðhorfskönnun eða þjóðaratkvæðagreiðslu.

Menntamál

Menntun er grunnstoð samfélagsins.

Tryggjum öllum aðgengi að námi óháð efnahag og búsetu

Aðgangur allra að menntun eru mikilvæg mannréttindi sem stuðla að jafnari tækifærum allra til að nýta hæfileika sína og ná markmiðum sínum. Vel menntaðir borgarar stuðla að upplýstara samfélagi. Píratar vilja tryggja landsmönnum réttindi til menntunar samkvæmt grein nýrrar stjórnarskrár.

Í nýrri stjórnarskrá segir: “Öllum skal í lögum tryggður réttur til almennrar menntunar og fræðslu við sitt hæfi. Öllum þeim sem skólaskylda nær til skal standa til boða menntun án endurgjalds.
Menntun skal miða að alhliða þroska hvers og eins, gagnrýninni hugsun og vitund um mannréttindi, lýðræðisleg réttindi og skyldur.”

Leiðréttum grunnframfærslu LÍN

Grunnframfærsla LÍN skal leiðrétt og miðuð við eðlilegar fjárþarfir fólks í námi. Stefnt skal að afnámi tekjuskerðingar námslána og því að LÍN veiti nemendum lán við upphaf náms, svo að þeir þurfi ekki að leita til einkaaðila á þeim tímapunkti. Leita þarf leiða til þess að hluti af námslánum verði styrkur.

Förum finnsku leiðina

Tökum okkur finnska menntakerfið til fyrirmyndar í auknum mæli. Stefnum að fjölbreyttara námsmati, auknu jafnvægi á milli bóknáms, verknáms, listnáms og annarra greina, minna heimanámi, smærri bekkjum o.fl.

Velferðarmál

Virðum rétt allra til að lifa með reisn.

Afnemum tekjuskerðingar

Afnemum öll skilyrði á borð við fyrirkomulag búsetuforms, hjúskaparstöðu, tekjuskerðingar, tekjutengingar og tímamörk lífeyrisbóta og innleiðum þess í stað viðmiðunarfjárhæð sem telst nægjanleg til framfærslu og mannsæmandi lífs. Heimila skal tekjur meðfram bótum án þess að bætur skerðist, þeir sem vilja og geta eiga rétt á því að taka þátt í atvinnulífinu án þess að vera refsað fyrir það. Allir hafa rétt á að bæta aðstæður sínar með eigin athafnasemi og örorka á ekki að vera sjálfkrafa dómur um líf á lágmarksframfærslu.

Bætum kjör aldraðra

Ísland var áður land yngri kynslóðanna þar sem hlutfallslega voru miklu fleiri ungir en eldri. Nú er að myndast jafnvægi í fólksfjöldadreifingu milli yngri og eldri Íslendinga og vegna þess verðum við að byggja upp lífeyriskerfi sem virkar fyrir núverandi aldurssamsetningu samfélagsins. Búsetuúrræði fyrir aldraða þarf að bæta og starfslok þurfa að vera sveigjanlegri en nú er.

Lögfestum lágmarksframfærsluviðmið

Allir eiga rétt á mannsæmandi framfærslu í auðugu landi. Lágmarksframfærsluviðmið eru nauðsynleg til þess að tryggja það að allir geti lifað með reisn.

Í nýrri stjórnarskrá segir: “Öllum skal með lögum tryggður réttur til lífsviðurværis og félagslegs öryggis.”

Einföldum framfærslukerfið

Píratar vilja einfalda og straumlínulaga öll framfærslukerfin svo að réttindi allra borgara til lágmarksframfærslu og tækifæra séu virt með skilvirkum hætti. Viðmót þjónustustofnana miðist við þarfir notandans; ferlið sé einfaldað, komið í veg fyrir tvíverknað og eyðublaðaburð á milli stofnana. Leitast skal við að samræma félagsbætur, atvinnuleysisbætur, örorkubætur, barnabætur, fæðingarorlof, námslán og önnur stuðningskerfi hins opinbera til að einfalda yfirsýn og tryggja sömu réttindi milli ólíkra hópa.

Lýðræðislegir lífeyrissjóðir

Lífeyrissjóðakerfið verði lýðræðisvætt. Stjórn lífeyrissjóða verði í höndum sjóðsfélaga, sem kjósi alla stjórnarmeðlimi í lýðræðislegum kosningum.

Stefna Pírata um lýðræðisvæðingu lífeyrissjóðanna

 

Skjól fyrir alla

Á Íslandi er kalt og veðrasamt og það er öllum lífsnauðsynlegt að hafa þak yfir höfuðið. Öruggt húsaskjól eru mannréttindi sem tryggja ber öllum borgurum, hvort sem það er í gegnum eign, leigu eða úrræði á vegum hins opinbera. Píratar vilja styðja við leigjendasamtök og fjölbreytt úrval búsetukosta. Píratar vilja grípa til aðgerða til að bregðast við aukinni eftirspurn um húsnæði og standa vörð um réttindi bæði eigenda og leigjenda.

Í nýrri stjórnarskrá segir: “Öllum skal með lögum tryggður réttur til lífsviðurværis og félagslegs öryggis.”

Leiðréttum stöðuna fyrir leigjendur

Stjórnvöld þurfa að setja hagsmuni leigjenda í forgang með stöðugum og regluvörðuðum leigumarkaði. Auka þarf framboð og bæta inn hvötum til langtímaleigu, að þýskri fyrirmynd . Þannig komum við í veg fyrir miklar sveiflur á húsnæðismarkaði og bjóðum fólki upp á aukinn sveigjanleika og öryggi. Það þýðir að fólk geti valið að leigja til lengri eða skemmri tíma án þess að óttast að vera sagt upp húsnæði með litlum fyrirvara. Möguleikinn á að leigja til langframa nýtist bæði þeim sem vilja spara fyrir eigin húsnæði og þeim sem hugnast ekki að kaupa húsnæði. Við viljum bjóða fólki upp á öryggi og frelsi.

Styttum vinnudaginn

Breyta skal lögbundinni vinnuviku úr 40 tímum í 35 tíma. Að tveimur árum liðnum skuli áhrifin af þeirri breytingu metin og ákvörðun tekin um framhaldið.

Landbúnaður

Markaðsfrelsi með stuðningi.

Endurskoðum búvörusamninga hið fyrsta

Stefna Pírata er að nýsamþykktir búvörusamningar skuli aflagðir og nýju landbúnaðarkerfi komið á. Stjórnvöld skuli leita leiða til endurskoðunar samninganna hið fyrsta, í samráði við bæði bændur og neytendur.

Afnemum tolla á landbúnaðarvörum í skrefum

Tollar á matvæli og innflutningshömlur, aðrar en af heilbrigðisástæðum, lækki í áföngum og falli að lokum niður.

Afnemum undanþágur matvælafyrirtækja frá samkeppnislögum

Undanþágur frá samkeppnislögum varðandi vinnslu og dreifingu búvara falli niður og framleiðsla, vinnsla, dreifing og sala matvæla falli undir samkeppnislög.

Skynsamlegur stuðningur gagnast bæði bændum og neytendum

Virkir bændur sem viðhafa viðurkenndar starfsaðferðir eiga rétt á grunnstuðningi. Grunnstuðningi er ætlað að tryggja afkomuöryggi bænda. Stjórnvöldum ber að skilgreina hvað telst virkur bóndi og upphæð fulls grunnstuðnings. Viðurkenndar starfsaðferðir teljast varða fæðuöryggi, dýravelferð, velferð plantna, sjálfbæra landnýtingu, loftslagsvernd, vatnsvernd, ástand ræktaðs lands og fleira. Sérstakur stuðningur ætti að bjóðast ungum bændum og fyrir valkvæð verkefni sem stuðla að vernd loftslags og umhverfis, dýravelferð, vöruþróun, tækniþróun, upprunamerkingu o.fl.

Eflum byggðir

Styrkjum sveitarfélögin

Grunnstoðir handa öllum, alls staðar

Til þess að það sé raunverulega hægt að búa um allt land þarf grunnþjónusta að vera til staðar fyrir alla landsmenn og sveitarfélög þurfa aukið fjármagn til að geta sinnt sínum lögbundnu skyldum. Ákveðið hlutfall skatta af rekstri og störfum fyrirtækja skal renna beint til þess sveitarfélags þar sem starfsemi eða verslun fer fram. Tryggt skal að farið sé að lögum sem þegar eru í gildi um fjármögnun þeirra verkefna sem hafa verið færð frá ríki til sveitarfélaga. Ætíð skal gera ráð fyrir að breytingar séu gerðar í samráði við heimamenn og að ákvarðanavald sé í höndum nærsamfélagsins.

Í nýrri stjórnarskrá segir: “Á hendi sveitarfélaga skulu vera þeir þættir opinberrar þjónustu sem best þykir fyrir komið undir staðbundinni stjórn þeirra svo sem nánar skal kveðið á um í lögum.”

Í nýrri stjórnarskrá segir: http://www.stjornlagarad.is/starfid/frumvarp/grein/item35400/

 

Almennilegar almenningssamgöngur

Tryggðar verði viðunandi almenningssamgöngur til allra þéttbýlisstaða á landinu.

Ísland sem áfangastaður

Sjálfbær og sterk ferðaþjónusta til framtíðar.

Ferðaþjónusta til framtíðar

Ferðaþjónusta er orðin einn allra mikilvægasti atvinnuvegur landsins og auðsýnt að ferðamennskan auðgar mannlífið. Uppbygging ferðaþjónustunnar krefst skýrrar stefnumótunar, þar sem sjálfbærni og fagmennska eru höfð að leiðarljósi við uppbyggingu á þjónustu, samgöngum og aðbúnaði á viðkomustöðum ferðamanna. Tryggja þarf viðhald og uppbyggingu á innviðum landsins samhliða auknum ferðamannastraumi og dreifa álagi af viðkvæmum svæðum. Aukinn hluti hagnaðar vegna ferðaþjónustu á hverjum stað verði eftir í nærsamfélaginu. Framkvæmdir verði afturkræfar, falli að staðháttum og spilli ekki upplifun gesta eða réttindum komandi kynslóða.

Gistináttagjaldið til sveitarfélaganna

Gistináttagjald verði notað til að fjármagna betur uppbyggingu innviða í ferðaþjónustu. Gjaldið renni í auknum mæli til sveitarfélaga á starfssvæði gistiþjónustunnar og verði prósentuhlutfall af verði gistingar, frekar en föst upphæð.

Langtímaáætlun með öryggi og umhverfisvernd að leiðarljósi

Gerð verði langtímaáætlun um skipulag og uppbyggingu ferðaþjónustu á Íslandi. Sú langtímaáætlun miði m.a. að því að tryggja vernd íslenskrar náttúru, efla samráð ólíkra aðila í ferðaþjónustu, styðja við sjálfsákvörðunarrétt nærsamfélaga, tryggja fullnægjandi menntun í ferðaþjónustu, tryggja öryggi ferðamanna, auka framlög til björgunarsveita og dreifa álagi vegna ferðamannastraums á fleiri staði á landinu.

Áherslumál

Við leggjum áherslu á nýja stjórnarskrá, auðlindir í almannaþágu, gjaldfrjálsa heilbrigðisþjónustu, þáttöku í ákvarðanatöku og átak gegn spillingu.

Lesa meira