Skip to main content

Valgeir Skagfjörð

SuðvesturkjördæmiHver er píratinn og af hverju er hann hér?

Valgeir Skagfjörð. Af því að mig langar til að leggja mitt af mörkum til að breyta samfélagi okkar til hins betra. Í stað þess að sitja með hendur í skauti og tuða um það sem aflaga hefur farið þá hef ég ákveðið að standa upp og láta til mín taka að svo miklu leyti sem ég er hæfur til.

Hvaða stefnumál, úr samþykktum stefnum Pírata, þykja þér mikilvægust fyrir komandi kjörtímabil?

Að við fáum nýjan samfélagssáttmála til að hægt verði að koma á kerfisbreytingum og breytingum á stjórnskipan landsins. Að arður af náttúruauðlindum landsins verði öllum landsmönnum til hagsbóta og að hægt verði að boða til þjóðaratkvæðagreiðslu um mikilvæg mál sem varða hag almennings og sjálfstæði þjóðarinnar.

Vilt þú að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá?

Já eins og 81% þjóðarinnar sem kaus um þær.

Með hvaða hætti telur þú líklegast að Píratar geti fengið málum sínum framgengt á þingi?

Með því að starfa með þeim stjórnmálaflokkum sem brenna fyrir sömu hugsjónum og þar fyrir utan að þingmenn Pírata séu duglegir að láta í sér heyra og leyfa almennningi að fylgjast með því sem er að gerast á þinginu. Vera hávær um þær kröfur sem Píratar vilja setja á oddinn og starfa að heiðarleika, einurð, samviskusemi með hag almennings að leiðarljósi. Með því að viðhafa gagnsæi og heiðarleika í hvítvetna er hægt að ávinna sér traust almennings og á sama hátt hvetja almenning til að taka þátt í stjórnmálum og sýna ávallt út á við að Píratar séu traustsins verðir. Ég tel að frumlegar lausnir og hugmyndir ættu að vera aðalsmerki Pírata og þeir eiga að vera alls ófeimnir við að kynna þær.

Myndir þú segja af þér þingmennsku ef þú sæir þér ekki fært um að vinna með þingflokki pírata?

Þetta er erfið spurning og varðar aðstæður sem ég mögulega gæti staðið frammi fyrir í ókominni framtíð. Þingmenn eiga að starfa samkvæmt samvisku sinni og í stjórnmálaflokkum og samtökum er ólíkt fólk með ólíkar skoðanir. Ólíkar skoðanir ólíkra einstaklinga rúmast innan hvers stjórnmálaflokks og þær ber að skilyrðislaust að virða. Ef um væri að ræða einfaldan skoðanaágreining þá þyrfti það ekki sjálfu sér að þýða að ég sæi mér ekki fært að vinna með þingflokknum ef fólk á samleið í þeim málum sem mikilvægust teldust á hverjum tíma. En í grundvallaratriðum, ef hvergi er snertiflötur með neinu gagnvart þingflokknum þá teldi ég eðlilegast að segja af mér þingmennsku – já. Á Íslandi er óþarflega mikið umburðarlyndi gagnvart því hvernig þingmenn og aðrir sem starfa að stjórnmálum haga sínum störfum þegar upp koma hneykslismál og menn verða vísir að vanhæfni.

Ferilskrá frambjóðanda: 

Menntaður leikari frá Leiklistarskóla Íslands. Tók framhaldsnámskeið í leikstjórn og leikritun. Lauk námi í kennslufræði frá LHÍ og markþjálfanámi frá Evolvia. Ég hef verið sjálfstætt starfandi listamaður frá 1987 fyrir utan að hafa starfað sem kennari í leiklist og tónmennt í Álftanesskóla frá 2004-2008. Ég hef unnið við leikhús, sjónvarp, útvarp og kvikmyndagerð, skrifað bækur, leikrit og samið tónlist og texta og hlotið verðlaun og viðurkenningar fyrir verk mín. Ég kom inn sem varaþingmaður fyrir Hreyfinguna á sumarþinginu 2009 og svo aftur 2013.
Ég hef unnið trúnaðarstörf fyrir Kópavogsbæ, setið í stjórnum og ráðum. Ég var formaður Regnbogabarna, samtökum áhugafólks um einelti frá 2006-2010. Í dag starfa ég sem framhaldsskólakennari hjá Fjölsmiðjunni í Kópavogi (frá 2015) sem er vinnustetur fyrir ungt fólk á aldrinum 16-24 ára.

Síða frambjóðandans á kosningavef Pírata

Hagsmunaskráning frambjóðanda:

Ég er launþegi og hef engar eignir sem ber að skrá.