Skip to main content

Þór Saari

SuðvesturkjördæmiHver er píratinn og af hverju er hann hér?

Píratinn er hér vegna þess að honum finnst samfélagið vera á rangri leið á mörgum sviðum. Stjórnmálin eru hrunin og eina vonin til að bæta þar úr eru Píratar og ný stjórnarskrá.

Hvaða stefnumál, úr samþykktum stefnum Pírata, þykja þér mikilvægust fyrir komandi kjörtímabil?

Ný stjórnarskrá.

Vilt þú að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá?

Já.

Með hvaða hætti telur þú líklegast að Píratar geti fengið málum sínum framgengt á þingi?

Með því að vera í meirihluta og vinna málefnalega og af yfirvegun.

Myndir þú segja af þér þingmennsku ef þú sæir þér ekki fært um að vinna með þingflokki pírata?

Það fer nú svolítið eftir því hvers eðlis þær aðstæður væru sem sköpuðu slíkt. Hafandi verið kosin á þing á sínum tíma fyrir Borgarhreyfinguna sem sagði svo skilið við stefnumálin sem þingmennirnir voru kosnir út á, var okkur ekki annars kostar auðið en að segja skilið við Borgarahreyfinguna og stofna Hreyfinguna. Ég mun einfaldlega standa í lappirnar vegna þess sem ég er kosin til, sem er stefnuskrá Pírata fyrir kosningarnar.

Ferilskrá frambjóðanda

Þór Saari, hagfræðingur, M.A., kt. 090660-8299, Breiðabólsstöðum, 225 Garðabær.

Fæddur í Miami Bandaríkjun 1960 og flutti til Íslands sex ára, Saari eftirnafnið er finnskt. Fór til sjós sextán ára og var háseti og bátsmaður á skipum Eimskips í tíu ár.

Fór þaðan í háskólanám (B.Sc. Cum Laude) í markaðsfræði (Marketing) í Suður Karólínu í Bandaríkjunum. Fór þaðan til Barcelona og kenndi ensku við hótel- og ferðamálaskóla og hjá spænska símanum (Telefónica) í tæpt ár. Fór þaðan til New York í framhaldsnám í hagfræði (M.A.) og var á Manhattan við nám og störf, meðal annars hjá Sameinuðu þjóðunum, í tæp sex ár.

Flutti aftur til Íslands 1997 og vann á tölfræðisviði Seðlabankans í um fimm ár við söfnun tölfræðiupplýsinga og uppsetningu á gagnagrunnskerfi fyrir Seðlabankann, Fjármálaráðuneytið og Þjóðhagsstofnun. Fór þaðan til Lánasýslu ríkisins sem sá meðal annars um skuldastýringu fyrir ríkissjóð og ríkisábyrgðir og var þar í um fimm ár. Samhliða þessu náði ég mér í kennsluréttindi fyrir framhaldsskólastig við Háskólann á Akureyri og starfaði við kennslu í í hagfræði í hlutastarfi hjá Tækniskólanum.

Fór þaðan í ráðgjafastarf fyrir OECD í París og starfaði við verkefni varðandi skuldastýringu ríkissjóða OECD ríkja og síðar við verkefni varðandi skuldastýringu ríkissjóða Afríkuríkja í samvinnu við fjármálaráðuneyti Suður-Afríku.. Kjörinn á Alþingi árið 2009 fyrir Borgarahreyfinguna (síðar Hreyfinguna) í kjölfar Búsáhaldabyltingarinnar.

Á Alþingi frá 2009-2013 sem var að mörgu leiti ágætt en samt ekki, og skrifaði bók um fyrirbærið sem kom út í mars og heitir „Hvað er eiginlega að þessu Alþingi?“ og er greining á vanda Alþingis og lýðræðisins í landinu.
Er fráskilinn og á eina dóttur sem er að verða átján ára og einn kött. Hef áhuga á náttúru, stangveiði (silung), lýðræði, mannréttindum og heimsspeki.

Ég hef verið aktívisti alla mína ævi, allt frá því að þegar ég sextán ára labbaði inn á skrifstofu Sjómannafélags Reykjavíkur og heimtaði hærra kaup. Var þar í trúnaðarráði og tók virkan þátt kjarabaráttu sjómanna í nærri tíu ár. Aktívur í Amnesty International í um tuttugu ár, þar af í erfiðri baráttu gegn dauðarefsingum í suðurríkjum Bandaríkjanna (oftast einn) árin 1987-1991. Staðið framarlega í baráttu gegn stríðum um allan heim, Persaflóastriðinu 1990-1991 og Íraksstríðinu 2003 svo fátt eitt sé nefnt. Einnig mjög aktívur í aðdraganda Hrunsins og Búsáhaldabyltingunni og framhaldi hennar. Ætlaði svo að hætta að rífa kjaft eftir þingsetuna 2009-2013, en komst að því að það bara er ekki í boði.

Síða frambjóðandans á kosningavef Pírata

Hagsmunaskráning frambjóðanda:

Á fyrirtæki, Jóhannes ehf. sem er í ferðaþjónustu og ráðgjöf á sviði efnahagsmála.