Skip to main content

Jón ÞórissonÉg heiti Jón Þórisson og gef kost á mér í prófkjöri Pírata í Reykjavík.

Eins og margir Íslendingar vaknaði ég upp við vondan draum í hruninu haustið 2008. Síðan hef ég beitt mér með ýmsum hætti í þjóðfélagsmálum sem aktívisti, skrifað greinar og verið í viðtölum í sjónvarpi og útvarpi, bæði í búsáhaldabyltingunni og eftir hana.

Ég átti frumkvæði að því að bjóða Evu Joly til Íslands um það leyti sem rannsóknin á bankahruninu var að hefjast og var aðstoðarmaður hennar þann tíma sem hún var ráðgjafi Sérstaks saksóknara. Samstarf okkar Evu Joly hefur haldið áfram í ýmsum málum er varða baráttuna gegn skattaskjólum, spillingu, aukið netfrelsi og vernd uppljóstrara.

Ég hef setið sem varamaður í nefnd um erlenda fjárfestingu fyrir hönd Pírata síðan 2013.

Helstu baráttumál mín eru:
– Ný stjórnarskrá
– Að tryggja sameign þjóðarinar á öllum auðlindunum og að sanngjarnt gjald af nýtingu þeirra renni í sameiginlega sjóði
– Að endurreisa heilbrigðiskerfið og tryggja ókeypis heilsugæslu fyrir alla
– Að tryggja sameiginlegan rekstur grunninnviða samfélagsins, s.s. menntastofnana, samgöngukerfis, fjarskipta og orkuöflunar og dreifingar
– Vinna gegn spillingu og sérhagsmunum með auknu gagnsæi og opinni stjórnsýslu
– Virk náttúru- og umhverfisvernd
– Bann við notkun skattaskjóla og afnám leyndar um raunverulega eigendur fyrirtækja og fjárfestingasjóða
– Aðskilanður fjárfestinga- og viðskiptabanka

Menntun og reynsla:
Eftir stúdentspróf nam ég arkitektúr og skipulagsfræði við Arkitektaskólann í Kaupmannahöfn og lauk námi þaðan 1983. Ég hef unnið í mínu fagi bæði sem sjálfstætt starfandi sérfræðingur og hjá ríki og sveitarfélögum á Íslandi og í Hollandi. Ég hef alla tíð haft breitt áhugasvið og tekið þátt í verkefnum á sviði bókaútgáfu, myndlistar og kvikmyndagerðar og búið meira en tuttugu ár ævi minnar erlendis, m.a. í Bandaríkjunum, Danmörku, Hollandi og Þýskalandi og tala fjögur tungumál.

Hagsmunir:
Eigandi Green Man ehf.
Hluthafi í bókaútgáfunni Art Editions Ltd

Fjölskylduhagir:
Ég á tvö uppkomin börn og þrjú barnabörn