Skip to main content

Halldóra Jónasdóttir

SuðvesturkjördæmiHver er píratinn og af hverju er hún hér?

Hver er Píratinn og afhverju er hún hér?

Svo hljóðar fyrsta spurningin til frambjóðenda og ég átti svakalega erfitt með að svara henni. Afhverju er ég að bjóða mig fram?

Ég er ekki hefðbundinn pólitíkus og mun aldrei verða. Mér leiðist innantómur virðuleiki og refskákir, undirferli og hroki, fals og eigingirni, spilling og deilur.
Lélegt skipulag sem þjónar fáum, óskilvirkni og tregða í samvinnu og samskiptum er eins og eitur í mínum beinum.
Satt að segja hefur mín upplifun af stjórnmálum gert það að verkum að ég hef litið á það sem eitt ömurlegasta starf í heimi að vera þingmaður, allavega fyrir mig.
Ég hef nákvæmlega engan áhuga á því að læra að fúnkera í kerfum sem mér finnst handónýt, umgangast fólk sem talar ekki við né hlustar á fólkið í landinu, upplifa vanmáttinn við að koma litlu sem engu í verk og síðast en ekki síst, vonbrigði þjóðarinnar.

Ég heiti Halldóra Jónasdóttir og ólst upp á heimili þar sem pólitík var borin fram með morgunmatnum, faðir minn hefur verið einn af þekktustu samfélagsrýnum landsins í áratugi með sínum beittu pistlum, móðir mín var ein af þingkonum Kvennalistans mestan part lífstíma hans en sá flokkur minnir mig að mörgu leiti á Pírata í dag.

Það hefur varla farið fram hjá neinum að femínískar byltingar hafa átt sér stað undanfarin ár og orðræðan í samfélaginu hefur breyst í kjölfarið. Fólk sættir sig ekki lengur við yfirgang af neinu tagi; valdhöfum sem misnota vald sitt, hvort svo sem það er í opinberum stjórnarstöðum eða í persónulegum samskiptum, líðst ekki lengur að þagga niður í þeim sem fyrir þeim verða.

Ég er aðgerðasinni sem þráir umbætur og læt verkin tala.
Ég hef tekið ríkan þátt í aktivisma og stýrt mörgum hópum því tengdu á netinu undanfarin ár.
Ég hef mikla réttlætiskennd, er gagnrýnin en samvinnufús.
Ég er almennt næm á fólk, góð í að leysa deilur og halda fólki við efnið.
Ég hef góða aðlögunarhæfileika eftir að hafa búið víða erlendis og umgengist fjölbreytta flóru mannlífsins.
Ég þekki það að glíma við fjárhagsörðugleika, hef tekið margar glímur við heilbrigðiskerfið, upplifað misrétti á eigin skinni á margan hátt sem og fleira sem tilheyrir því að standa höllum fæti í samfélaginu.

Ég er með atvinnuflugmannsréttindi. Sem flugmaður er ég vön að hugsa í lausnum, hafa yfirsýn, bregðast fljótt við. Ég flýg eftir reglum sem eiga að hámarka skilvirkni og öryggi þeirra sem ég ber ábyrgð á.
Ásamt nýrri stjórnarskrá er grunnstefna Pírata það sem við þurfum á að halda núna til að uppræta spillingu og hleypa lítilmagnanum að borðinu.

Píratar eru stjórnmálaaflið sem getur fært okkur virkara lýðræði og sanngjarnara þjóðfélag, aukin lífsgæði og réttlátari dreifingu arðs af auðlindum þjóðarinnar, meira gagnsæi og minni spillingu, ásamt skilvirkara kerfi þar sem hver og einn fær aðstoð við að skilja það og fá þær upplýsingar og aðgengi sem viðkomandi þarf. Ég mun vinna í anda Pírata og eftir grunnstefnunni okkar alla leið.

Ég hrífst af Pírötum vegna þess sem þeir standa fyrir eins og þegar hefur komið fram, en líka vegna þess hversu auðvelt er að hafa rödd þar og taka þátt. Ef eitthvað er manni hugleikið þá er auðvelt að finna því farveg innan Pírata.

Ég stýri með öðrum og/eða hef stofnað málefnahópa um ýmis mál, m.a. fíknimeðferðarúrræði, dýravelferð, femínisma, jafnréttismál og kynferðisofbeldi. Þátttaka mín í Pírötum hefur hingað til að miklu leyti verið á netinu en ég hef einnig skipulagt og/eða tekið þátt í málefnafundum í kjötheimum um ýmis mál, svo sem um dýravelferð og einelti.

Réttlætiskennd og skynsemi minni er ofboðið, það er eitthvað mikið að í samfélaginu okkar og ég vil taka þátt í að breyta því. Hugmyndafræði Pírata og verk þeirra hafa sannfært mig um að það sé fært með þingmennsku, þess vegna er ég hér, í framboði.

Hvaða stefnumál, úr samþykktum stefnum Pírata, þykja þér mikilvægust fyrir komandi kjörtímabil?

Á forsíðu piratar.is er farið yfir áherslumál og framtíðarsýn Pírata, í stuttu máli sagt þá tek ég undir allt sem þar kemur fram.

Ég vil að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá og tel það stefnumál Pírata eitt það mikilvægasta á komandi kjörtímabili.

Það sem brennur að öðru leyti mest á mér eru velferðarmál, bæði manna og dýra, mannréttindi og jafnréttismál.

Ég vil að tekið sé sérstaklega og fljótt á þeirri vá sem kynferðisbrot eru í okkar samfélagi. Síðasta stjórn féll vegna kynferðisbrotamála, samfélagið sættir sig ekki lengur við að tekið sé á þeim málaflokki með hangandi hendi og af lítilli alvöru og virðingu fyrir alvarleika þeirra, umfangi og afleiðingum.

Önnur mál sem eru mér hugleikin eru umhverfisverndar- og loftslagsmál, skaðaminnkandi vímuefnastefna og fíknimeðferðarúrræði, gagnsæi í eignarhaldi fyrirtækja og aflandsfélaga í eigu Íslendinga, betrunarstefna fanga og húsnæðismál.

Nánar um áherslumál mín er að finna hér, neðst í framboðslýsingu minni: https://x.piratar.is/accounts/profile/Dora7/

Vilt þú að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá?

Já, hiklaust eins og kemur fram hér að ofan.

Með hvaða hætti telur þú líklegast að Píratar geti fengið málum sínum framgengt á þingi?

Píratar hafa sannað sig á þingi í stjórnarandstöðu með heiðarleika og festu að vopni, málflutningur þeirra er sannfærandi og þeir hafa hrist upp í kerfinu, þrýst á þá þröskulda sem þeir hafa mætt og krafist réttlætis og sanngirnis.
Ég tel líklegast að Píratar nái sínum málum fram í stjórn með öðrum flokkum sem deila helstu áhersluatriðum.

Myndir þú segja af þér þingmennsku ef þú sæir þér ekki fært um að vinna með þingflokki pírata?

Ég lít svo á að á þingsæti Pírata séu flokksins en ekki einstaklinga, ég mundi víkja fyrir varamanni.

Ferilskrá frambjóðanda: 

Ferilskrá frambjóðanda (á pdf formi)

Síða frambjóðandans á kosningavef Pírata