Skip to main content

Elsa NoreElsa heiti ég, 38 ára, sænsk að uppruna og leikskólakennari að mennt. Fyrrverandi fósturbarn og pönkari í sál og hjarta, þó hárið sé ekki lengur litað eða sett upp í hanakamb. Og fötin ekki neitt rosalega rifin heldur…

Ég bý í leiguhúsnæði í vesturbæ Reykjavíkur og á 12 ára son sem er hjá mér aðra hverja viku.

Þessa stundina vinn ég sem leikskólakennari í fullu starfi og meðfram því stunda ég aukastarf í NPA, eða notendastýrði persónulegri aðstoð í tæplega hálfu stöðugildi.

Áður hef ég unnið við ýmis störf sem tengjast dýrum, bæði á bóndabæjum og í Húsdýragarðinum. Ég hef einnig unnið við afgreiðslu í búð og við ræstingar á gistiheimili. Frá því ég var unglingur hefur leikskólastarfið heillað mig og ég var leiðbeinandi á leikskóla í rúm fimm ár, fyrst í Svíþjóð og svo hérlendis, áður en ég sótti um í Kennaraháskólanum.

Ég hef ekki alltaf verið virk í pólitík en hef alltaf haft sterkar skoðanir á því hvernig samfélagi ég vilji búa í. Fyrstu Alþingiskosningarnar þar sem ég hafði kosningarétt voru árið 2013, ári eftir að ég öðlaðist ríkisborgarrétt. Það tók mig ekki langan tíma að hallast að Pírötum og eftir að hafa mætt á nokkra fundi stuttu eftir kosningar heillaðist ég af samskiptunum milli þingmanna og grasrótar. Þá ákvað ég að fara að taka virkan þátt í starfinu. Á aðalfundi Pírata árið 2014 var ég kjörin í framkvæmdaráð og síðasta haust var ég svo valin til að sitja í trúnaðarráði Pírata.

Fyrir utan allt skemmtilega og bráðgáfaða fólkið sem ég hef kynnst í flokknum, þá er það hugmyndafræðin sem heillar mig. Að hver sem er geti tekið þátt í að móta stefnu. Að valdið komi að neðan en ekki að ofan.

Mín von og ósk er að þjóðin fái vald og að Alþingi og ríkisstjórnin hlusti á rödd hennar, ekki bara á fjögurra ára fresti, heldur líka á milli kosninga. Ég vil nýta mannauðinn sem við eigum í íslensku þjóðinni. Ekki skortir okkur tæknina eða þekkinguna. Það eina sem vantar er að virkja það sem við höfum.

Ástæðan fyrir því að ég býð mig fram í þessu prófkjöri er sú að ég hef trú á þeim kerfisbreytingum sem Píratar standa fyrir hvað varðar lýðræði og valdeflingu þjóðarinnar.

Mér finnst ekki nóg að kjósa fólk Á þing á fjögurra ára fresti. Við verðum líka að geta kosið fólk AF þingi ef það er ekki að standa sig. Þar kemur gagnsæi sterkt inn. Ef þjóðin sér HVERNIG ákvörðun var tekin, ekki bara HVAÐA ákvörðun var tekin. Ef hún fær að heyra rökin fyrir henni, þá ber hún væntanlega meira traust til þeirra sem tóku ákvörðunina. Loforð í kosningarbáráttu eiga að skipta máli og það að komast til valda á fölskum forsendum ætti að hafa afleiðingar.

Annað baráttumál mitt er velferð barna, vernd þeirra og réttindi. Til dæmis að tryggja rétt barna til sambands við bæði foreldri sín eftir skilnað. Að börn með sérþarfir fái þann stuðning og meðferð sem þau þurfa. Þar vona ég að reynsla mín bæði sem leikskólakennari og sem fyrrverandi fósturbarn geti komið að gagni.

Einnig vil ég berjast fyrir réttindum fatlaðs fólks. Fötlun á ekki að koma í veg fyrir að fólk geti lifað lífinu eins og það kýs. Sá sem þarf á þjónustu að halda á að geta ráðið því sjálfur hvernig þeirri þjónustu er háttað. Einungis þannig er reisn þeirra sem þurfa að þiggja þjónustu tryggð. Enda veit hann best sjálfur hvað hann getur og hvað hann þarf.

Sama í hvaða sæti ég enda í í prófkjörinu þá hlakka ég til að vinna með Pírötum. Hvort sem það er á þingi, í nefndum eða í grasrót. Ég hef þegar lært rosalega margt innan Pírata og hlakka mikið til að læra ennþá meira.