Skip to main content

Andrés Helgi ValgarðssonÉg heiti Andrés og ég er pírati. Ég er nörd, ég er trans-kona og ég hef ákveðið að gefa kost á mér í prófkjöri Pírata fyrir komandi alþingiskosningar.
Ég hyggst sækjast eftir 2.-5. sæti í öðru hvoru Reykjavíkurkjördæminu, en mun taka hvaða það sæti sem félagsmenn kjósa að raða mér í.

Síðan ég gekk til liðs við Pírata fyrir rúmum tveimur árum hef ég tekið eftir því hvað þetta er innilega góður hópur fólks. Þarna hef ég kynnst mörgum góðum vinum og í fyrsta skipti fundið virkilegan samhljóm með fólki sem vill frekar vinna að lausnum á vandamálunum en að finna hverjum þau væru að kenna. Vildi frekar ræða málin en að skammast. Þetta er nálgun sem vantar í íslensk stjórnmál og ég hef orðið betri og jákvæðari við að vinna með þessum hóp.
Ég hef starfað í stjórn Pírata í Reykjavík núna í rúmt hálft ár og hefur það verið gífurlega verðmæt reynsla; bæði út af starfinu sjálfu, og af því það hefur gefið mér tækifæri til að kynnast fólki og taka þátt í starfi sem eflaust hefði annars farið framhjá mér. Í þessu starfi hef ég lært margt og þar endurspeglast hvernig ég vil vinna að stjórnmálum.

Ég tel að ákvarðanir eigi að taka með þrennt að leiðarljósi umfram annað. Að notast við bestu mögulegu upplýsingar og rannsóknir á hverjum tíma, í samræmi lýðræðislegan vilja og að það sé gert af einlægni og heiðarleika.
Enda er það stefna pírata og það er hugsjón sem ég trúi á. Ég trúi því að ég geti verið góður fulltrúi þessarar hugsjónar á þingi, annars væri ég ekki að bjóða mig fram.

Ég trúi á mannfólk, og ég trúi því að það besta sem við gerum í lífinu sé að hjálpa öðrum, að stundum þurfi maður að hafa hugrekkið sem þarf til að hjálpa, jafnvel þó því gæti fylgt áhætta eða tilkostnaður. Ég hafna fordómum gegn útlendingum og innflytjendum og tel eins og margir að stærsta verkefni komandi tíma sé að finna leið til að sætta ólík sjónarmið í því efni.

Ég trúi á jafnrétti og einstaklingsfrelsi, og veit að þar á ég góða samleið með pírötum, en þeir hafa tekið fagnandi öllum sem vilja ganga til liðs við hópinn.
Ég hef trú á nýju stjórnarskránni. Ég tel að hún muni bæta stöðu mannréttinda og færa okkur meira og beinna og skýrara lýðræði. Mér finnst það óskiljanlegt að Alþingi telji það siðferðislega verjandi að sniðgangi vilja kjósenda eins gróflega og það hefur gert.

Svo ef þið viljið hafa mig sem ykkar fulltrúa, þá er ég boðinn og búinn til þess. En hvar sem ég lendi mun ég halda áfram að starfa fyrir Pírata af stolti og gleði af því ég trúi því að við getum virkilega breytt samfélaginu til hins betra.

Ferilskrá:

Tæknileg Aðstoð hjá Símanum
Starfsmaður á frístundaheimili
Aðstoðarmaður sendiherra Kanada
Nemandi í stjórnmálafræði við HÍ
Ótrúlega margt, frá garðvinnu, til umönnunar til pítsasendinga