Píratar XP

Hampur á Íslandi

Þessa dagana erum við Píratar að dreifa um allt land hampkortum, póstkortum sem fjalla um tækifærin sem felast í ræktun iðnaðarhamps. Með þeim fylgja auðvitað nokkur hampfræ, því við viljum endilega gefa sem flestum tækifæri til ræktunar á þessari fallegu plöntu. Ef þig langar að nálgast hampkort eru þau fáanleg á öllum viðburðum Pírata fram að kosningum á meðan birgðir endast.

HAMPFRÆIN

Fræin sem við Píratar erum að gefa eru af gerðinni Cannabis Sativa Finola. Þau geymast vel á þurrum og köldum stað í vetur. Við vonum að sem flest nýti svo tækifærið næsta vor og prófi að rækta upp nokkrar plöntur. Einnig er tilvalið að rækta hamp innandyra. Hægt er að nýta hamp á fjölmarga vegu heima fyrir, en einnig er markaður fyrir plöntur sem keyptar eru til frekari vinnslu. Fyrir frekari leiðbeiningar og heilræði bendum við á heimasíðu Hampfélagsins.

HINN UNDRAVERÐI HAMPUR

Hampur er merkileg planta sem samofin er sögu mannkynsins. Fornleifarannsóknir sýna að maðurinn hefur nýtt sér plöntuna í að minnsta kosti tólf þúsund ár. Plantan vex hratt og er trefjarík sem gerir hampinn góðan í textílgerð. Trefjarnar hafa verið notaðar í gegnum aldirnar í vefnaðarvöru eins og föt og segl, pappír og reipi. Fræ plöntunnar eru olíurík og hægt að nota til matar eða nýta olíuna í margvíslegan iðnað.

Cannabis plantan skiptist í tvær undirtegundir: C. sativa og C. indica, en sativa-tegundin (hampur) var upprunalega þróuð til að nota til textílgerðar en indica-tegundin (kannabis) sem vímugjafi.

Hampur var fyrst ræktaður á Íslandi á 17. öld. Ræktunarskilyrði hér á landi eru ágæt, enda hampur harðgerður og sprettur hratt. Síðastliðin tvö sumur hafa bændur í öllum landshlutum stundað hampræktun með ágætum árangri.

Sérstaklega hefur ræktun Cannabis Sativa Finola plöntunar gengið vel hér á landi, en plantan á ættir að rekja til Finnlands og er sérstaklega hönnuð fyrir stutt sumur og vindasamt veður.

HAMPUR Á ÍSLANDI

Píratar hefja nú herferð í að kynna iðnaðarhampinn fyrir öllum Íslendingum. Liður í þeirri herferð er að dreifa hampfræjum um land allt. Fræin eru af gerðinni Cannabis Sativa Finola, en það yrki þykir henta einstaklega vel til ræktunar á norðlægum slóðum.

Fyrir tveimur árum hefði þessi litla sending verið ólögleg. Iðnaðarhampur var ólöglegur á Íslandi í marga áratugi því reglugerð um ávana- og fíkniefni gerði engan greinarmun á Cannabis sativa, plöntunni sem er notuð í framleiðslu iðnaðarhamps, og Cannabis indica, sem er aðallega notuð til að framleiða vímuefni. 

Lögleiðing iðnaðarhamps hefur verið kappsmál okkar Pírata á Alþingi á þessu kjörtímabili. Við höfum lagt fram þingsályktunartillögur, haldið fjöldann allan af ræðum, fundað með hagsmunaaðilum og vakið máls á kostum iðnaðarhamps á öllum vígstöðvum. Það var svo loks nú á árinu 2021 sem Alþingi lögleiddi ræktun iðnaðarhamps í samræmi við frumvarp heilbrigðisráðherra.

TÆKIFÆRI Í UMHVERFISMÁLUM, LANDBÚNAÐI, NÝSKÖPUN

Ástæða þess að Píratar setja svona mikla orku í að fá að rækta hamp hér á landi er að ræktun hamps mun hafa víðtæk og jákvæð áhrif á fjölmargar hliðar íslensks samfélags.

  • Hampur bindur koltvísýring í andrúmslofti mjög hratt og hefur þannig bein áhrif á skuldbindingar Íslands til að sporna við hlýnun lofthjúpsins.

  • Iðnaðarhampur er ekki kenndur við iðnað upp úr þurru. Trefjarnar í stofninum er hægt að nýta til framleiðslu á trefjaplötum, reipi, pappír, klæðnaði, innréttingum og steypu, svo fátt eitt sé nefnt. Fjölmargir möguleikar eru einnig til matvæla- og lyfjaframleiðslu með hampi.

  • Í blómum hamps er að finna virka efnið CBD, en CBD-olía hefur margvíslegt notagildi, meðal annars við ýmsum taugasjúkdómum, flogaveiki og langvarandi verkjum. Það eru einnig vísbendingar um að það hjálpi með kvíðaraskanir og svefnleysi.

  • CBD er ekki ávanabindandi og gefur enga vímu, svo það er enginn möguleiki á misnotkun.

  • Hampfræ eru einnig mjög holl og hafa verið notuð í matargerð um langt skeið. Engu síðra er hampte, en nýlega hófst sala á íslensku hampte í helstu verslunum.

  • Á heimsvísu var markaðsvirði iðnaðarhamps tæpir 600 milljarðar króna árið 2020 og áætlað að virðið muni aukast í 1800 milljarða króna árið 2026.

 

GRÆN UMBREYTING FYRIR FRAMTÍÐINA

Hampur er prýðilega fín birtingarmynd á fjölmörgum stefnumálum Pírata. Hann talar inn í efnahagsstefnu Pírata, umhverfis- og loftslagsstefnuna sem og landbúnaðar- og byggðastefnur.

Umhverfi og loftslag

Heimsbyggðin öll þarf að minnka útblástur gróðurhúsalofttegunda og binda mikið magn af koltvísýringi sem nú þegar er kominn út í andrúmsloftið. Hampurinn bindur um 22 tonn af koltvísýringi á hvern hektara og er því fullkominn til kolefnisbindingar. Það þýðir að hampurinn er áhrifaríkari en flest tré. Í ofanálag þarf plantan lítinn áburð og vex mjög hratt og nær því fullri stærð og CO2-nýtni hratt. Framleiðsla afurða úr hampi getur einnig dregið úr innflutningi til Íslands og þannig minnkað útblástur.

NÝSKÖPUN

Rannsóknir og þróun á hamptengdum vörum eru í gríðarlegum vexti. Vörutegundirnar er nú þegar rúmlega 20 þúsund talsins og úrvalið eykst dag frá degi. Þannig má nota þetta umhverfisvæna hráefni, í stað kolefnislosandi hráefna, í framleiðslu á plasti, eldþolinni steypu og etanól sem eldsneyti svo eitthvað sé nefnt. Hér eru fjölmörg stór tækifæri til nýsköpunar, en nýsköpunarstefna Pírata leggur einmitt áherslu á umhverfisvæna nýsköpun. „Það þarf að huga að nýsköpun á mun breiðari grunni en hingað til og setja þarf skýrari stefnu varðandi græna nýsköpun. Píratar vilja stórauka styrki til nýsköpunar, með sérstaka áherslu á græna sprota. Áherslur nýsköpunar þurfa að ná inn í menntakerfið og allan opinberan rekstur.“

LANDBÚNAÐUR

Nú þegar hafa nokkrir bændur hérlendis tekið af skarið og farið í tilraunaræktun á iðnaðarhampi sem gengið hefur mjög vel. Hægt er að versla hampafurðir í matvöruverslunum og hefur hampteið verið eitt söluhæsta teið í Krónunni síðan það birtist í hillunum. Markmið frumkvöðlanna í Gautavík var að sýna fram á að hægt sé að rækta hamp með góðum árangri hér á landi og er nú komin góð reynsla og þekkingarbrunnur fyrir aðra hampræktendur. ​​„Við erum óhrædd við að taka skrefin inn í framtíðina með ríka áherslu á menntun í landbúnaði og nýsköpun fyrir bændur.“

BYGGÐAMÁL

Sjálfbærni hampplöntunnar getur stuðlað að vænlegri afkomu hvar á landinu sem er. Bændur hafa kost á því að stórauka sjálfbærni á fjölmörgum sviðum vegna þess að ræktun plöntunnar er auðveld. Það þarf ekki að nota eiturefni á hana, hampurinn vex hratt og þolir vel íslenskar aðstæður. „Við leggjum höfuðáherslu á nýsköpunarlandið Ísland, því tækifærin er að finna hjá fólki út um allt land. Það þarf öfluga, sjálfbæra og græna, innviðauppbyggingu í öllum sveitarfélögum landsins til þess takast á við áskoranir framtíðarinnar.“​​

EFNAHAGUR

Hamprækt og hampvöruþróun er raunhæfur kostur í grænvæðingu efnahagslífsins. Tækifærin eru gríðarleg og á mörgum mörkuðum. „Píratar tala fyrir nýrri hugmyndafræði í efnahagsmálum. Hugmyndafræði sem vefur saman samfélag og náttúru þannig að hagkerfið taki tillit til fleiri þátta en eingöngu þeirra sem eru með verðmiða. Því stefnum við að sjálfbæru velsældarhagkerfi, samfélagi þar sem öll geta blómstrað á eigin forsendum í sátt við umhverfi sitt. ​​„

X
X