Píratar XP

Halldóra Mogensen

1. sæti í Reykjavík norður

Þingflokksformaður Pírata | f. 11. júlí 1979

Ég er 42 ára, þingflokksformaður Pírata og leiði nú listann fyrir komandi kosningar í Reykjavíkurkjördæmi norður.

Ég hef flakkað mikið um ævina og ólst upp í Bretlandi og Bandaríkjunum. Ég fann mig ekki í skóla eftir að ég flutti heim til Íslands í 10. bekk og heltist úr námi 17 ára og fór að vinna. Um 23 ára aldur lærði ég fatahönnun á Ítalíu og hélt svo námi mínu áfram í LHÍ en kláraði ekki. Ég hef unnið mestmegnis við þjónustustörf um ævina, í verslunum, á veitingastöðum, börum og svo við ferðaþjónustu í nokkur ár áður en ég kom á þing.

Ég og maðurinn minn búum saman með 8 mánaða gömlum syni okkar og 10 ára dóttur minni úr fyrra sambandi.

Mín áherslumál

Síðan að ég hóf þingstörf hef ég lagt fram og barist fyrir málum sem ég brenn fyrir. Það er einstök tilfinning sem fylgir því að setja allt sitt í baráttu sem maður virkilega trúir að geti breytt samfélaginu til hins betra. Að finna meðbyrinn og stuðninginn og hvað þá að finna fyrir málunum þokast áfram í rétta átt. Að ná árangri. Ég finn þetta með borgaralaunin, afnám skerðinga lífeyrisþega, hugmyndir um breytt hagkerfi, afglæpavæðinguna, iðnaðarhampinn, CBD og fleiri mál.

Ég hef lagt áherslu á þann auð sem felst í einstaklingum, fólkinu í landinu og þann kraft sem hægt er að leysa úr læðing með réttum aðgerðum. Ég hef talað fyrir því að uppræta fátækt með því að fjárfesta í fólki, skapa efnahagslegan sveigjanleika til að lifa og dafna á eigin forsendum, út frá eigin ástríðu. Slík fjárfesting skilar sér í aukinni þátttöku og trausti í samfélaginu og lýðræðinu, aukinni framsýni og hugrekki til breytinga og nýsköpunar.

Framtíðarsýn

Markmiðið er að byggja betra samfélag fyrir alla. Til að ná því markmiði verðum við að starfa með vellíðan, jafnvægi og hagsæld frekar en hagvöxt að leiðarljósi. Framtíðin getur ekki snúist um auðsöfnun og síaukna neyslu. Hún þarf að snúast um tilgang og réttláta og sjálfbæra velmegun. Sú framtíðarsýn krefst annars konar hagkerfis sem veitir komandi kynslóðum tilgang og snýr við þeirri hættulegu þróun í átt að aukinni skammsýni og eiginhagsmunagæslu, sem núverandi kerfi hvetur til og er rótin að stærstu vandamálum nútímans, misskiptingu gæða og loftslagskrísunni.

Píratar munu beita sér fyrir því að skoða fjárlög heildrænt. Þannig sjáum við betur að viss útgjöld eru í raun fjárfesting og niðurskurður oft hreinn kostnaður. Sparnaður í félags-, mennta- og umhverfismálum felur í sér aukinn kostnað í heilbrigðis- og refsivörslukerfinu. Fjármagnið sem við nýtum til að stuðla að heilbrigðara samfélagi með betri skólum, bættri heilsu, félagslegri samheldni og dafnandi vistkerfi er fjárfesting í hamingjusamara samfélagi sem skilar sér margfalt til baka.

Af hverju ertu Pírati?

Ég gaf mig alla í það verkefni að stofna þessa mikilvægu hreyfingu og koma fyrsta þingflokknum okkar á þing. Ég var varaþingmaður frá árinu 2013 þar til ég hlaut kosningu 2016. Ég hef sinnt ýmsum hlutverkum á þessum tæpu 5 árum og má þar nefna formennsku í velferðarnefnd og þingflokksformennsku í kjölfarið.

Þegar ég byrjaði að huga að stjórnmálum, fannst mér pólitíkina skorta nauðsynlegt hugrekki, framsýni og heildræna nálgun til að takast á við þær risastóru samfélagsbreytingar sem þegar voru hafnar. Áskoranirnar og tækifærin sem samfélagið okkar stóð frammi fyrir eftir hrun og stendur frammi fyrir enn, krefjast samvinnu og nýsköpunar, krefjast þess að við höfum öll efnahagslegt frelsi til þátttöku. Við stofnun flokksins sameinuðust við Píratar um ákveðin grunngildi sem hafa þjónað okkur sem leiðarvísir í átt að þeirri nauðsynlegu valdeflingu almennings sem þörf er á til að tryggja að allir hafi jöfn tækifæri til að nýta sköpunarkraftin og hafi þor og getu til að prófa sig áfram í takt við þær hröðu samfélags- og tæknibreytingar sem samfélög heims eru að ganga í gegnum.

Af hverju að kjósa Pírata?

Vegna þess að breyttir tímar kalla á nýjar lausnir og nýja hugsun, ekki plástra á úrelt kerfi. Píratar fagna nýjum hugmyndum og nýrri nálgun og eru ekki hræddir við breytingar. Breytingar eru óhjákvæmilegar og nauðsynlegar fyrir framþróun samfélagsins. Skilningur okkar á heiminum er í stanslausri þróun og hver kynslóð kemur með nýja sýn og nýjar væntingar.

Píratar er hreyfing fólks sem trúir á mikilvægi lýðræðisins, valddreifingar og að fólk eigi að geta haft áhrif á ákvarðanir sem hafa áhrif á líf sitt. Leiðarstef Pírata er gagnsæi, ábyrgð, gagnrýnin hugsun og upplýstar ákvarðanir. Þetta er allt í grunnstefnunni ásamt því að byggja ákvarðanir á gögnum og rökræðu en ekki sérhagsmunum.

Píratar hafa frá upphafi barist fyrir nýju stjórnarskránni. Grundvöllurinn að lýðræðislegu samfélagi er að almenningur séu þátttakendur í samfélaginu og skiptir því öllu að þegar þjóðin er spurð að vilji hennar sé virtur. Píratar hafa beitt sér gegn spillingu og barist fyrir breyttu hagkerfi, alvöru aðgerðum í loftslagsmálum, styttingu vinnuvikunnar, afnámi ósanngjarnra skerðinga og félagslegu réttlæti, því að til að vera þátttakendur þarf fólk að hafa tækifæri og tíma. Tækifæri til þátttöku verða ekki raunveruleg fyrr en grunnþörfum fólks er mætt og þær tryggðar.

Píratar horfa framávið, nálgast vandamál og lausnir heildrænt og vinna að því að framtíðin sé okkar allra.

Ofurkraftar?

Ég hef skrifað ljóð frá unga aldri en varð ástfangin af slam ljóðlist þegar ég kynntist ljóðum Saul Williams í bíómyndinni „Slam”. Ég flutti til Washington DC til að taka þátt í senunni. Þá fór nördisminn á alvöru flug þar sem flestar vangaveltur urðu að rímum sem fylltu endalaust af blöðum, post-it-notes og servíettum sem fylla skápana mína enn þann daginn í dag í fullkomnri ringulreið.

Bóka viðtalstíma

Greinar eftir mig

Lýðræði er miklu meira en bara kosningar

Slagorð Pírata fyrir alþingiskosningarnar er „Lýðræði - ekkert kjaftæði“ og ekki að ástæðulausu.  Píratar voru stofnaðir til þess að innleiða virkt lýðræði á Íslandi. Grunnstefna...

Þrettán orð sem breyttu öllu

„Andstæðan við fíkn er ekki að vera allsgáður. Andstæðan við fíkn eru tengsl.“ Þessi þrettán orð Johann Hari breyttu því hvernig ég hugsaði um vímuefnavanda...

Mælum það sem skiptir máli

Formenn Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna héldu sitthvora ræðuna um helgina. Formaður Sjálfstæðisflokksins sagði að komandi kosningar snúist um að láta hans stefnu ráða för...

Skiljum fortíðina og sköpum framtíðina

Opnunarræða á aðalfundi Pírata, 21. ágúst.Síðustu 18 mánuðir hafa einkennst af umróti. Daglegu lífi hefur verið snúið á hvolf, ekki bara á Íslandi heldur...
X
X