Áherslur Pírata fyrir alþingiskosningar 2021

1. Aðgerðaráætlun í efnahagsmálum

Píratar tala fyrir nýrri hugmyndafræði í efnahagsmálum. Hugmyndafræði sem vefur saman samfélag og náttúru þannig að hagkerfið taki tillit til fleiri þátta en eingöngu þeirra sem eru með verðmiða. Því stefnum við að sjálfbæru velsældarhagkerfi, samfélagi þar sem öll geta blómstrað á eigin forsendum í sátt við umhverfi sitt. Við viljum hugsa til framtíðar og tryggja jöfn tækifæri í sjálfvirknivæddu samfélagi, þar sem skapandi lausnir ráða för í opnu, stafrænu og lýðræðislegu samfélagi. Baráttan gegn spillingu, fákeppni, einokun og peningaþvætti mun leika þar lykilhlutverk.

Fyrstu skrefin

Við ætlum að skilgreina samræmda lágmarksframfærslu, í stað þess að styðjast við mismunandi tölur í mismunandi stofnunum. Þannig verður öllum ljóst hvað það raunverulega kostar að lifa sómasamlega á Íslandi. Við ætlum að hækka persónuafslátt strax og hefja undirbúning að því að hann verði útgreiðanlegur. Þá verður barnabótum breytt þannig að þær fylgi barninu, ekki tekjusögu foreldranna. 

Við viljum byggja upp framsækið skattkerfi, þar sem byrðin eykst eftir því sem bökin verða breiðari. Þannig verða skattar á lág laun, örorku- og ellilífeyrisþega og græn sprotafyrirtæki lækkaðir, en skattar á ofurauð, arð- og fjármagnstekjur og mengandi stórfyrirtæki hækkaðir. Við viljum kafa ofan í  opinber útgjöld og varpa ljósi á það hvort vel sé farið með peninga almennings.  Markmiðið verður  að skapa rými til nýrra útgjalda án þess að hækka þurfi heildarskatta eða að ríkisútgjöld vaxi óstjórnlega. 

Við viljum efla gæða- og eftirlitsstofnanirnar sem tryggja heilbrigði og sanngirni hagkerfisins. Skattrannsóknarstjóri verður tekinn úr skúffunni sem embættinu var troðið í á kjörtímabilinu og blásið til stórsóknar gegn peningaþvætti. Samkeppniseftirlitinu og Fiskistofu verður veitt fjármagn til að sinna eftirliti sínu og framtíð Neytendastofu tryggð. Umboðsmanni Alþingis verður aftur gert kleift að hefja frumkvæðisrannsóknir.

Við viljum horfa til framtíðar með nýrri atvinnustefnu þar sem áhersla verður á menntun, grunnrannsóknir, hagnýtingu rannsókna, nýsköpun og aðgerðir gegn langtímaatvinnuleysi. Fyrstu skrefin eru að tryggja nægt framboð á störfum við hæfi, valdefla einstaklinginn með tækifærum til nýsköpunar og draga úr skerðingum í almannatryggingakerfinu. Aukinn jöfnuður er lykilatriði í efnahagsaðgerðum um allan heim, nýfrjálshyggjan hefur runnið sitt skeið á enda. Efnahagsstefna verður að markast af auknum jöfnuði, enda nýtist hann hagkerfinu öllu til heilbrigðs vaxtar. Vaxtar sem er sjálfbær en ekki öfgakenndur.

Á kjörtímabilinu

Við viljum hækka persónuafsláttinn í skrefum og greiða út til þeirra sem nýta hann ekki. Að sama skapi viljum við einfalda skatta- og almannatryggingakerfin til að fækka og draga úr skerðingum. Núverandi kerfi eru flókin, ómannúðleg og full af fátæktargildrum. Við viljum tryggja gagnsæi skattkerfisins og stuðla að skilvirkni með stafrænum lausnum sem hægt er að einfalda og bæta verulega.

Við viljum tryggja að ný atvinnustefna verði innleidd á kjörtímabilinu. Í stefnunni  leggjum við höfuðáherslu á nýsköpunarlandið Ísland þar sem tækifærin er að finna hjá fólki út um allt land. Það þarf öfluga, sjálfbæra og græna innviðauppbyggingu í öllum sveitarfélögum landsins til þess að koma til móts við áskoranir framtíðarinnar. Við viljum ná markmiðum um fleiri tækifæri fyrir framtíðarkynslóðir og sjálfbærni landsins með nýsköpun í opinberri starfsemi, með samstarfi við atvinnulífið og með því að gera Ísland að þekkingarmiðstöð fyrir framtíðarsamfélagið.

Við viljum endurskoða lífeyriskerfið í heild sinni og koma af stað blöndun á gegnumstreymiskerfi og séreignarsparnaði á kjörtímabilinu, til þess að sjálfbærni lífeyrissjóðakerfisins verði tryggð. Sjálfvirknivæðingin krefst þess að rétturinn til símenntunar verði tryggður. Þá þarf að bjóða öllu fólki upp á sveigjanleg starfslok og stefna að frekari styttingu vinnuvikunnar. 

Við Píratar viljum endurhanna húsnæðiskerfið, enda húsnæðismál stærsta kjaramál flestra landsmanna og fyrir vikið gríðarstórt efnahagsmál. Í stað þess að stoppa í götin á núverandi kerfi þarf að hugsa það heildstætt og byggja upp nýtt kerfi frá grunni sem nýtist fólki, í samvinnu við sveitarfélögin. Í þeirri vinnu þarf að nýta úrbætur sem lagður hefur verið grunnur að með sérstakri áherslu á óhagnaðardrifin leigufélög. 

Píratar leggja áherslu á velsældarhagkerfið. Þess vegna vilja Píratar innleiða fleiri mælikvarða á gæði samfélagsins, í samræmi við tillögur OECD, í stað þess að láta allt snúast um hagvöxt í efnahagsmálum þjóðarinnar. 

Grænvæðing efnahagslífsins og uppbygging hringrásarsamfélags verður að vera grundvöllur efnahagsstefnu komandi ríkisstjórnar. Þessa stundina er Evrópusambandið í óðaönn að innleiða viðbætur við reglur og tilskipanir, auk nýrra reikningsskilareglna fyrir atvinnulífið, sem miða að því að auka sjálfbærni. Þetta mun hafa áhrif á alla efnahagsstefnu í okkar heimshluta og Ísland verður að vera með frá byrjun, en ekki bregðast við eftir á með hálfkáki.

Til framtíðar

Til framtíðar viljum við umbreyta stuðningskerfum ríkisins í skilyrðislausa grunnframfærslu. Fyrsta skrefið verður að greiða út persónuafslátt til hvers einstaklings, og draga úr skilyrðingum og skerðingum frá barnabótum til lífeyris. Arðurinn af auðlindum og skattlagning hagnaðar, hálauna og ofurauðs er grunnforsenda þess kerfis. 

Píratar vilja innleiða kvikara skattkerfi. Að skattar verði gerðir upp sjálfkrafa og í rauntíma. Við viljum skattleggja meira af auði og arði en minna af launum og eðlilegri neyslu. Þá verður öll mengun skattlögð í rauntíma.

Hagkerfisbreytingar snerta fleiri svið þjóðlífsins. Því viljum við innleiða sveigjanlegri atvinnu-, mennta- og heilbrigðisstefnu. Atvinnustefna og breyttir atvinnuhættir, m.a. vegna tækniþróunar og sjálfvirknivæðingar, krefjast aukinnar  sí- og endurmenntunar.

Allar efnahagsaðgerðir og öll atvinnumál þurfa að byggjast á sjálfbærni samfélagsins í heild. Loftslagsváin krefst mikilla opinberra fjárfestinga sem skapa munu tækifæri til nýsköpunar og atvinnuþróunar. Kostnaðurinn skilar sér margfalt til baka til langs tíma. 

2. Umhverfis- og loftslagsstefna

Píratar tala fyrir nýrri hugmyndafræði í efnahagsmálum. Hugmyndafræði sem vefur saman samfélag og náttúru þannig að hagkerfið taki tillit til fleiri þátta en eingöngu þeirra sem eru með verðmiða. Því stefnum við að sjálfbæru velsældarhagkerfi, samfélagi þar sem öll geta blómstrað á eigin forsendum í sátt við umhverfi sitt. Við viljum hugsa til framtíðar og tryggja jöfn tækifæri í sjálfvirknivæddu samfélagi, þar sem skapandi lausnir ráða för í opnu, stafrænu og lýðræðislegu samfélagi. Baráttan gegn spillingu, fákeppni, einokun og peningaþvætti mun leika þar lykilhlutverk.

Skýr stefna í átt að kolefnishlutleysi

Loftslagsváin kallar á miklar kerfisbreytingar. Ísland hefur alla burði til að vera í forystu þeirra ríkja sem berjast af alvöru gegn þessum breytingum með réttlátum og framsæknum aðgerðum. Lausnin er sjálfbært samfélag. Framundan eru tækifæri til að gera betur, bæði í stjórnmálum nútímans og fyrir komandi kynslóðir. Setjum metnaðarfulla aðgerðaráætlun sem bregst við yfirstandandi neyðarástandi í loftslagsmálum og hrindum henni í framkvæmd.

Græn umbreyting í allra hag

Grænna samfélag er allra hagur og mikilvægt hagsmunamál komandi kynslóða. Meginábyrgð þess að draga úr mengun og losun gróðurhúsalofttegunda liggur hjá stjórnvöldum og fyrirtækjum. Einstaklingar eiga að búa við aukið valfrelsi og fá skýrari og betri upplýsingar sem auðvelda þeim að velja umhverfisvæna valkosti, aðgengilega öllum óháð efnahag. Við þurfum í sameiningu að búa okkur undir þær áskoranir sem fylgja loftslagsbreytingum, skapa tækifæri með menntun starfsfólks í nýjum greinum og tryggja réttlát umskipti fyrir öll.

Stjórnsýsla og stjórnvöld

Vangeta núverandi valdhafa til að bregðast með fullnægjandi hætti við loftslagsvánni einkennist af vanmáttugri stjórnsýslu. Veigamiklar ákvarðanir um baráttuna gegn loftslagsbreytingum eru teknar af öðrum en þeim sem bera ábyrgð á henni. Við Píratar viljum því endurskipuleggja alla stjórnsýsluna og hefja samstarf við aðila vinnumarkaðarins um réttlátar og áhrifaríkar aðgerðir. Við viljum umhverfisráðuneyti með sterkari stöðu innan stjórnarráðsins, skrifstofu loftslagsmála þvert á ráðuneyti, öfluga Veðurstofu og loftslagsráð sem veitir stjórnvöldum virkt aðhald. Við ætlum að setja metnaðarfulla, tímasetta og fullfjármagnaða aðgerðaráætlun sem verður endurskoðuð reglulega og setjum velsældarmælikvarða í forgrunn við áætlanagerð.

Græn umbreyting atvinnulífsins

Á næstu árum verður að eiga sér stað bylting í grænni nýsköpun og framþróun. Með því að styrkja græna sprota og veita fjármunum til rannsókna í umhverfismálum tryggjum við ekki bara lífvænlega jörð fyrir komandi kynslóðir heldur er það skynsamlegasta fjárfestingin á komandi áratugum. Við þurfum að beita öflugum mótvægisaðgerðum sem ná til allra geira atvinnulífsins, búa til efnahagslega og skattalega hvata fyrir grænvæðingu atvinnulífsins og skapa hvata fyrir val á vörum sem menga minna. Við ætlum að setja fjármálakerfinu nýjar leikreglur sem koma í veg fyrir stuðning við mengandi fyrirtæki og stóriðju. Einnig viljum við móta nýja langtímastefnu fyrir vistvæna og kolefnishlutlausa matvælaframleiðslu, auk þess að girða fyrir sjálfseftirlit mengandi fyrirtækja.

Náttúruvernd

Óspillt náttúra þarf sterkan málsvara við stjórnvölinn. Við viljum tryggja vernd miðhálendisins í þágu komandi kynslóða. Við stöndum vörð um almannaréttinn og frjálsa för fólks um landið, svo lengi sem viðkvæm vistkerfi eru varin. Rammaáætlun verður áfram matstæki fyrir heildarhagsmuni við raforkuframleiðslu en verður að þróast í samræmi við aukna áherslu á náttúruvernd. Píratar vilja nota orkuna í auknum mæli í græna nýsköpun og innviði frekar en í þágu mengandi stóriðju. Tryggjum að náttúruverndarsjónarmið verði leiðandi í allri skipulagsvinnu á vegum hins opinbera og verndum náttúruna á vinsælum áfangastöðum fyrir átroðningi. Verndum og endurheimtum landvistkerfi, eflum skógrækt og landgræðslu jafnt á landbúnaðarlandi og örfoka landi. Við ætlum að endurskoða lög um villt dýr til að tryggja vernd þeirra, þar með talið sjávarspendýra.

Hringrásarsamfélag

Að byggja upp hringrásarsamfélag munum við snúa okkur frá ósjálfbæru hagkerfi sem er grundvallað á óendanlegum vexti. Við Píratar viljum setja skýra stefnu um hringrásarhagkerfi til að draga úr vistspori og sporna gegn ofneyslu og sóun. Mengandi starfsemi mun greiða sérstök gjöld og axla ábyrgð á myndun úrgangs. Við ætlum að innleiða réttinn til viðgerða og stuðla að vistvænu deilihagkerfi. Við munum hefja átak í fráveitumálum í samstarfi ríkis og sveitarfélaga og endurskipuleggja úrgangsmál frá grunni. Píratar ætla að byggja upp græna innviði um land allt fyrir vistvæna fararmáta og hefja tilraunir með samgöngur framtíðarinnar.

Valdeflum almenning

Stjórnvöld verða að axla þá ábyrgð sem fylgir valdasetu á tímum loftslagsbreytinga. Almenningur á að hafa skýra möguleika til aðhalds og eftirlits með stjórnvöldum. Þar þarf einnig að tryggja aukið samráð við almenning á öllum stigum stefnumótunar. Við ætlum að vernda hagsmuni komandi kynslóða með því að meta allar aðgerðir og útgjöld ríkisins út frá velsældarmælikvörðum og áhrifum þeirra á umhverfi og loftslag. Píratar vilja þjóðfund um sjálfbærni og loftslagsmál í upphafi hvers kjörtímabils, því þannig finnum við lausnirnar saman.

Aðgerðir á alþjóðasviðinu

Víðtæk alþjóðleg samvinna er nauðsynleg ef nást á að halda hnattrænni hlýnun innan 1,5° C marka Parísarsamningsins. Mörg þeirra ríkja sem eiga aðild að Parísarsamningnum munu að öllum líkindum ekki geta staðið við skuldbindingar sínar án þess að stórauka aðgerðir. Ísland á að nota rödd sína á alþjóðavettvangi til að beita sér í þágu umhverfis- og loftslagsmála til að sporna gegn óafturkræfum skaða á vistkerfum heimsins. Píratar ætla að stuðla að auknu alþjóðlegu samstarfi til að ná kolefnishlutleysi og leggja áherslu á ákvæði um loftslagsmál í öllum milliríkjasamningum Íslands. Við munum hafa framgöngu um gerð nýrra alþjóðlegra árangursmælikvarða sem ráðast að rótum frekar en einkennum loftslagsvandans. Einnig munum við styðja þróunarríki í aðgerðum sínum og axla þá ábyrgð sem fylgir stöðu Íslands sem eitt af auðugari ríkjum heims.

Loftslagsaðlögun

Við Píratar vitum að undirbúa þarf samfélagið undir óhjákvæmilegar afleiðingar loftslagsbreytinga. Stjórnvöld verða að gera áætlun til að tryggja áframhaldandi velferð og öryggi landsbúa, dýra og gróðurs á meðan afleiðingar loftslagshlýnunar ganga yfir. Slíkar áætlanir þurfa að taka mið af öllum sviðsmyndum, þannig að hlýnun geti orðið talsvert umfram markmið Parísarsáttmálans. Þær þurfa einnig að innihalda áhættumat sem byggir á heildstæðu og ítarlegu mati færustu sérfræðinga.

Slíkt viðbragð felur í sér að auka fæðuöryggi á Íslandi og hvetja til fjölbreyttrar og sjálfbærrar matvælaframleiðslu, að efla vísindalegar grunnrannsóknir og þróun á sjálfbærri innlendri framleiðslu, að efla rannsóknir er varða endurvinnslu, hringrásarhagkerfið og líftækni. Við munum kanna hvernig hægt verður að bregðast við breyttum sviðsmyndum á vöruflutningum til að tryggja velferð og öryggi landsbúa.

Verndun hafsins

Píratar ætla að vernda lífríki sjávar gegn ofveiði, ágangi og mengun. Til þess nýtum við bestu fáanlegu tækni við veiðar og vinnslu og uppfyllum ákvæði alþjóðasamninga í öllum málum er varða hafið umhverfis Ísland og auðlindir þess. Við ætlum að efla hagræna hvata til að minnka losun þrávirkra lífrænna efna og óniðurbrjótanlegra agna frá íbúabyggð og starfsemi í landi, svo sem plastagna. Starfsemi sem ógnar vernd hafsins á að skylda í umhverfismat og draga úr umhverfismengun frá skipum í íslenskri landhelgi.

Skip sem leggjast við höfn á Íslandi á að tengja við íslenskt rafmagn svo þau brenni ekki svartolíu. Við ætlum að stefna að aukningu friðlýstra svæða á hafi til verndar hrygningarsvæðum og viðhalds líffræðilegrar fjölbreytni. Við munum verja hafsbotninn gegn mannvirkjum og veiðarfærum sem geta valdið þar óafturkræfum spjöllum og hyggjumst  banna olíuleit og olíuvinnslu í íslenskri landhelgi.

3. Nýja stjórnarskráin

Við viljum innleiða nýja stjórnarskrá sem grundvallast á tillögum stjórnlagaráðs á næsta kjörtímabili, líkt og þjóðin kvað á um þann 20. október 2012. Alþingi á að virða vilja þjóðarinnar og efna loforðið frá lýðveldisstofnun um að íslenska þjóðin fái nýja stjórnarskrá. Píratar munu einungis taka þátt í myndun ríkisstjórnar sem skuldbindur sig til þess að kjósa um nýju stjórnarskrána á næsta kjörtímabili.

Klárum stjórnarskrána á kjörtímabilinu 

Við viljum að Alþingi samþykki nýju stjórnarskrána á kjörtímabilinu og efni til þjóðaratkvæðagreiðslu til staðfestingar á henni í kjölfarið, samhliða þarnæstu alþingiskosningum. Tillögur stjórnlagaráðs verða lagðar til grundvallar allri þessari vinnu, sem og sú vinna sem lögð hefur verið í þær tillögur síðan og birtist m.a. í þeim frumvörpum sem þingmenn Pírata hafa lagt fram á Alþingi undanfarin ár. Sú nýja stjórnarskrá hefur hlotið stuðning þjóðarinnar, var skrifuð á mannamáli af fjölbreyttum hópi fólks í lýðræðislegu og gagnsæju ferli. Nýja stjórnarskráin tekur af ríkjandi vafa um valdmörk og ábyrgð valdhafa, festir nútímaleg mannréttindi í sessi, tryggir náttúruauðlindir í þjóðareign og eflir lýðræði, náttúruvernd og gagnsæja stjórnsýslu án þess að kollvarpa stjórnskipan landsins.

Ríkt almenningssamráð og vönduð vinnubrögð 

Öll umræða um möguleg frávik frá tillögum stjórnlagaráðs skal fara fram í víðtæku og opnu samráði við almenning og eftir atvikum í samráði við fyrrum fulltrúa í stjórnlagaráði. Tillögur stjórnlagaráðs eiga að vera útgangspunkturinn og breytingar eiga að ná markmiðum eða anda þeirra. Alþingi ætti að taka nýju stjórnarskrána og einstök ákvæði hennar til umræðu á hverju þingi næsta kjörtímabils, til að varpa ljósi á einstök efnisleg ágreiningsatriði og veita öllum á þingi svigrúm til að tjá skoðanir sínar á málinu.

4. Barátta gegn spillingu

Spilling á hvorki að líðast í stjórnkerfinu né annars staðar í samfélaginu. Í fámennu samfélagi eins og Íslandi er mikil hætta á frændhygli, hagsmunaárekstrum og greiðasemi sem er þjóðhagslega mikilvægt að girða fyrir. Spilling kostar samfélagið háar fjárhæðir á hverju ári og leiðir til þess að almannagæði eru færð úr sameiginlegum sjóðum í vasa hinna fáu. Á undanförnum árum hefur íslenskum stjórnvöldum ítrekað verið bent á fjölmarga galla í stjórnkerfi og löggjöf landsins og að ekki hafi verið gert nóg til að koma í veg fyrir spillingu og efla heilindi hjá æðstu valdhöfum. Við Píratar viljum grípa til fjölþættra og tafarlausra aðgerða til að efla varnir og berjast gegn spillingu.

Varnir gegn hagsmunaárekstrum

Píratar ætla að endurskoða siðareglur ráðherra og starfsfólks stjórnarráðsins, setja á fót sjálfstætt eftirlit með þeim og innleiða viðurlög við alvarlegum brotum. Samræma þarf reglur um hagsmunaárekstra opinberra starfsmanna og kjörinna fulltrúa, bæði á þingi og í sveitarstjórnum, til að koma í veg fyrir óæskileg áhrif hagsmunaaðila á opinbera ákvarðanatöku. Við ætlum að taka lög um varnir gegn hagsmunaárekstrum hjá æðstu handhöfum framkvæmdarvalds til heildarendurskoðunar og stoppa í þau göt sem núverandi stjórnarmeirihluti skildi eftir.

Tengslin upp á borð

Við munum tryggja að hagsmunaskrár valdhafa séu réttar, tæmandi og aðgengilegar og viljum setja viðurlög við rangri hagsmunaskráningu, auk þess að útvíkka skilgreiningu hugtaksins hagsmunavörður. Við viljum einnig lækka lágmarks andvirði gjafa sem skrá þarf í opinbera hagsmunaskrá og samræma reglur sem gilda um gjafir til þingmanna og æðstu stjórnenda innan stjórnarráðsins.

Endurskoðum reglur um útboð

Innleiða þarf skýrar og samræmdar reglur um framkvæmd útboða. Setjum hámark á hversu mikið má versla við einstaka aðila án útboðs og komum þannig í veg fyrir ítrekuð viðskipti rétt undir útboðsmörkum.

Eftirlit og rannsóknir

Eftirlitsstofnanir eiga að hafa valdheimildir, mannskap og fjármagn til að taka á valdníðslu og spillingu, jafnt hjá hinu opinbera sem og í einkageiranum. Við munum byggja upp eftirlitsstofnanir eftir markvisst niðurrif undanfarinna ríkisstjórna, með sérstaka áherslu á stofnanir sem rannsaka spillingu, efnahagsbrot, skattsvik, samkeppnisbrot og peningaþvætti. Við viljum auka fjárveitingar til héraðssaksóknara og efla einnig stofnanir á borð við Samkeppniseftirlitið, Ríkisendurskoðanda, Fiskistofu, umboðsmann Alþingis, Persónuvernd, Skattinn, Neytendastofu og endurreisa Rannsóknarstofu byggingariðnaðarins og sjálfstæðan skattrannsóknarstjóra. Rannsóknir á fjárfestingaleið Seðlabanka Íslands og spillingu í íslenskum sjávarútvegi, hérlendis og erlendis, geta ekki beðið lengur. 

Uppljóstranir

Við ætlum að efla vernd uppljóstrara með endurskoðun á núgildandi lögum, þar sem íþyngjandi skilyrði gagnvart uppljóstrurum eru felld úr gildi. Við ætlum að koma í veg fyrir að þau sem ljúka störfum hjá eftirlitsstofnunum fari beint til starfa fyrir þær stofnanir og fyrirtæki sem þau höfðu eftirlit með.

Gagnsæi

Píratar vilja heildstæða stefnu um aukið gagnsæi í opinberri stjórnsýslu, þar sem m.a. verði kveðið á um skipan embættis gagnsæisfulltrúa. Öll gögn hins opinbera sem snerta ekki persónugreinanlega hagsmuni einstaklinga ættu að vera aðgengileg og ókeypis hverjum sem er.

Upplýsingagjöf hins opinbera

Innleiðum upplýsingahyggju í stað leyndarhyggju hjá hinu opinbera. Stjórnvöld eiga að svara spurningum samkvæmt upplýsingalögum og leggja áherslu á meira gagnsæi en minna. Stjórnvöld eiga að útvega fjölmiðlum þær upplýsingar sem þeir kalla eftir, þegar þeir kalla eftir þeim. Endurskoðum og samræmum starfsreglur upplýsingafulltrúa hins opinbera í þá vegu.

Gjaldfrjálsar upplýsingar

Höldum áfram að auka aðgengi að opinberum skrám ríkisins, t.d. fyrirtækjaskrá og hluthafaskrá, og gerum þær aðgengilegar öllum án endurgjalds. Aðgangur að Stjórnartíðindum og Lögbirtingarblaði á að vera án endurgjalds.

Eftirlitshlutverk Alþingis

Festa þarf  í lög sannleiksskyldu ráðherra og setja viðurlög við því að ljúga að þinginu eða að halda frá því upplýsingum og skýrslum af ásettu ráði. Við viljum gera nefndarfundi Alþingis opna að jafnaði og gefa fastanefndum þingsins heimild til að kveða fólk til skýrslugjafar. Fjölga þarf aðhaldsverkfærum Alþingis með störfum ráðherra. Við viljum tryggja fjármagn til umboðsmanns Alþingis fyrir frumkvæðisrannsóknir, aukum vægi eftirlitsheimilda umboðsmanns og gefa honum heimild til að beina fyrirmælum til stjórnvalda.

Aðskilnaður löggjafar- og framkvæmdavalds

Ráðherrar ættu ekki sitja á þingi á meðan þeir gegna ráðherraembætti. Við Píratar ætlum að sjá til þess að samskipti ráðherra, eins og símtöl og fundir, séu skráð og að fundardagbækur ráðherra séu uppfærðar í rauntíma. Snúa þarf við þróun undanfarinna ára þar sem Alþingi hefur í auknum mæli starfað sem stimpilstofnun ríkisstjórnarinnar, frekar en sjálfstæður handhafi löggjafarvalds. Við ætlum einnig að vinna að því að brot ráðherra í starfi sæti rannsókn frá handhöfum ákæru- eða lögregluvalds.

Einkaaðilar

Koma þarf í veg fyrir spillandi áhrif fjársterkra einkafyrirtækja á valdhafa. Við Píratar viljum auka eftirlit og efla spillingarvarnir til að stöðva mútubrot og tryggja að til staðar séu skýr viðurlög fyrir greiðasemi í þágu einstakra fyrirtækja. Við leggjum til auknar gagnsæiskröfur á fyrirtæki utan markaðar sem ná ákveðinni skilgreindri lágmarksstærð. Auka skal gagnsæi um samninga einkafyrirtækja við íslenska ríkið með því að setja á fót óháð endurskoðunarferli.

Löggæsla

Píratar vilja  nægjanlegt og fyrirsjáanlegt fjármagn til lögreglu. Einnig þarf nægjanlegt fjármagn til varnar spillingu og hagsmunaárekstrum innan lögregluembætta. Stöðva skal pólitísk afskipti af störfum lögreglu og auglýsa allar stöður innan lögreglu og ráðið sé í stöður byggt á hæfni. Við viljum setja gagnsæja ferla í kringum endurráðningar og innleiðum reglur gagnvart lögreglumönnum sem koma í veg fyrir að lögreglumenn verði strax ráðnir til starfa hjá aðilum þar sem hætta er á hagsmunaárekstrum.

Eftirlit með löggæslu

Við Píratar teljum að ráðast eigi í endurskoðun á siðareglum lögreglu til þess að þær nái betur yfir hagsmunaárekstra og stjórnmálaþáttöku. Við viljum einnig efla þjálfun og fræðslu um siðareglurnar með hagnýtum dæmum og aðgangi að ráðgjöf undir nafnleynd. Við viljum setja á fót raunverulegt sjálfstætt eftirlit með störfum lögreglu og setja skýr lög um uppljóstraravernd innan lögreglunnar. Endurskoða þarf lögreglulög með það að markmiði að tryggja að beiting þeirra brjóti ekki á rétti almennings til friðsamra mótmæla.

5. Sjávarútvegsstefna

Píratar telja að sjávarauðlindin sé sameiginleg og ævarandi eign íslensku þjóðarinnar. Enginn getur fengið fiskveiðiheimildir, eða réttindi tengd þeim, til eignar eða varanlegra afnota og aldrei má selja þær eða veðsetja. Þjóðin skal njóta auðlindarentu af sjávarauðlindinni. Tryggja þarf jafnt aðgengi að tímabundnum fiskveiðiheimildum, nauðsynlega nýliðun í greininni í gegnum uppboð veiðiheimilda og frjálsar handfæraveiðar. Við Píratar viljum sjálfbæran sjávarútveg, öflugar rannsóknir og eftirlit. Mikilvægt er að skýr lína sé dregin í stjórnkerfinu á milli rannsókna á náttúruauðlindum, ákvarðana um nýtingu og eftirlits. Við viljum fjölbreytt útgerðarform og sjávarútvegsfyrirtæki í stað samþjöppunar og einsleitni. Píratar vilja efla nýsköpun í matvælaframleiðslu og efla lítil og meðalstór fyrirtæki um land allt. Sjávarútvegur er grundvöllur byggðar um allt land og því verðum við standa vörð um lífríki hafsins. Nýting auðlindarinnar skal grundvallast á vísindalegum og óháðum rannsóknum.

Eignarhald

Við viljum að kveðið sé á um með skýrum hætti í stjórnarskrá að íslenska þjóðin sé réttmætur eigandi sjávarauðlindarinnar og enginn geti hagnýtt sér hana án þess að þjóðin njóti sanngjarnrar auðlindarentu. Píratar telja því að taka ætti upp ákvæði nýju stjórnarskrárinnar um náttúruauðlindir, en upphaf þess er svohljóðandi: „Auðlindir í náttúru Íslands, sem ekki eru í einkaeigu, eru sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar. Enginn getur fengið auðlindirnar, eða réttindi tengd þeim, til eignar eða varanlegra afnota og aldrei má selja þær eða veðsetja.”

Tímabundin nýtingarleyfi og auðlindarentan til þjóðarinnar

Við viljum að íslenska ríkið bjóði upp aflaheimildir til leigu á opnum markaði fyrir hönd eiganda auðlindarinnar, íslensku þjóðarinnar. Aflaheimildir skulu vera tímabundnar og leigugjald þeirra renna að fullu til réttmæts eiganda auðlindarinnar í samræmi við. 34. gr. í tillögum stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá.

Allur afli á markað

Allur afli skal upphaflega fara í gegnum innlendan fiskmarkað. Útgerðir með eigin vinnslu og/eða sölufyrirtæki hérlendis eða erlendis, útgerðum með vinnslu um borð o.fl. verði gert skylt að tryggja fyrstu viðkomu afla á innlendum markaði. Þannig fæst eðlilegt markaðsverð á öllu sjávarfangi. Þetta bætir hag sjómanna og gerir sjálfstæðum fiskframleiðendum kleift að útvega hráefni. Þetta tryggir gagnsæi í viðskiptum með sjávarútvegsafurðir sem gagnast öllum, ekki síst fyrirtækjum sem vilja vinna og þróa fiskafurðir. 

Frjálsar handfæraveiðar

Við ætlum að gera handfæraveiðar frjálsar öllum sem stunda þær til atvinnu. Ein kennitala verði afmörkuð við einn handfærabát, tekið verði tillit til tengdra aðila og gripið til fleiri aðgerða til að girða fyrir misnotkun á frjálsum handfæraveiðum, þannig að einn aðili eða tengdir aðilar geti ekki gert út fjölda handfærabáta. Þetta verði gert í áföngum.  Þá viljum við stefna að rafvæðingu smábátaflotans við Íslandsstrendur.

Sjálfbærni, gagnsæi og eftirlit

Við Píratar viljum tryggja sjálfbærar veiðar með vísindalegri ráðgjöf. Það þarf að koma í veg fyrir pólitísk afskipti af rannsóknum, veiðiráðgjöf og eftirliti. Þá þarf einnig að koma í veg fyrir að hafrannsóknir, vísindaleg veiðiráðgjöf, framkvæmd og eftirlit með sjávarútvegi séu á sömu hendi innan atvinnuvegaráðuneytisins. Tryggja þarf gagnsæi í störfum Hafrannsóknastofnunar, nægt fjármagn til hafrannsókna og efla rannsóknir á sviði veiðiaðferða og veiðarfæra. Við viljum tryggja sjálfstæði og faglega starfsemi eftirlitsaðila eins og Fiskistofu og Landhelgisgæslunnar. Við ætlum að efla eftirlitshlutverk Samkeppniseftirlitsins í sjávarútvegi og stórefla Landhelgisgæsluna að mannafla og búnaði til eftirlits og þjónustu við sjávarútveginn. Öll tölfræði og gögn er varða sjávarútveginn skulu vera opinber.

Réttindi sjómanna

Við ætlum að leggja niður verðlagsstofu skiptaverðs og fella úr gildi lagabókstaf henni tengdri. Píratar telja rétt að raunvirði afurða upp úr sjó myndist á frjálsum fiskmörkuðum hérlendis, frekar en að ríkistofnanir gefi afslátt af afurðum með ógagnsæjum aðferðum. Núverandi fyrirkomulag bitnar ekki síst á sjómönnum. Gert verði refsivert að láta sjómenn taka þátt í kaupum og/eða leigu á aflaheimildum.

6. Atvinnumál og nýsköpunarstefna

Við Píratar viljum sjálfbært samfélag sem getur tekist á við sjálfvirknivæðingu og fjórðu iðnbyltinguna. Við leggjum höfuðáherslu á nýsköpunarlandið Ísland, því tækifærin er að finna hjá fólki út um allt land. Það þarf öfluga, sjálfbæra og græna, innviðauppbyggingu í öllum sveitarfélögum landsins til þess takast á við áskoranir framtíðarinnar. Við ætlum að skapa fleiri tækifæri fyrir framtíðarkynslóðir, með nýsköpun á öllum sviðum og með því að gera Ísland að þekkingarmiðstöð fyrir framtíðarsamfélagið. Koma þarf í veg fyrir langtímaatvinnuleysi með því að tryggja störf og nám við allra hæfi, efla nýsköpun og fjölga undirstöðum íslensks iðnaðar. Við Píratar viljum sjálfbæran sjávarútveg, öflugar rannsóknir og eftirlit. Mikilvægt er að skýr lína sé dregin í stjórnkerfinu á milli rannsókna á náttúruauðlindum, ákvarðana um nýtingu og eftirlits. Við viljum fjölbreytt útgerðarform og sjávarútvegsfyrirtæki í stað samþjöppunar og einsleitni. Píratar vilja efla nýsköpun í matvælaframleiðslu og efla lítil og meðalstór fyrirtæki um land allt. Sjávarútvegur er grundvöllur byggðar um allt land og því verðum við standa vörð um lífríki hafsins. Nýting auðlindarinnar skal grundvallast á vísindalegum og óháðum rannsóknum.

Nýsköpun

Meiri áhersla á nýsköpun er lykillinn að því að takast á við síbreytilegan heim. Við þurfum að byggja upp aðstöðu til nýsköpunar um allt land í náinni samvinnu við sveitarfélög og frumkvöðla. Það þarf að einfalda stofnun, skipulag og fjármögnun nýsköpunarfyrirtækja. Það þarf að huga að nýsköpun á mun breiðari grunni en hingað til og setja þarf skýrari stefnu varðandi græna nýsköpun. Píratar vilja stórauka styrki til nýsköpunar, með sérstaka áherslu á græna sprota. Áherslur nýsköpunar þurfa að ná inn í menntakerfið og allan opinberan rekstur.

Grænir og öruggir innviðir

Það þarf að ljúka ljósleiðaravæðingu allra byggðakjarna landsins og tryggja örugg fjarskipti á ferð um landið. Við Píratar viljum að dreifing þriggja fasa raforku sé tryggð óháð veðurfari og að við notum umhverfisvæna orku í umhverfisvænan og sjálfbæran iðnað. Við viljum skilvirkar og umhverfisvænar samgöngur með öflugri og fullfjármagnaðri samgönguáætlun þar sem hver landshluti hefur miklu meiri áhrif á forgangsröðun samgangna á sínu svæði og þar sem almenningssamgöngur og virkir ferðamátar eru skilgreindar sem hluti af grunnneti samgangna. Við viljum umhverfisvæna uppfærslu í frárennslis-, endurvinnslu- og úrgangsmálum um allt land í samvinnu við sveitarfélögin. Styðjum við bindingu og föngun gróðurhúsalofttegunda og stefnum á stórátak í orkuskiptum.

Ísland sem miðstöð þekkingar

Við viljum að Ísland taki forystu með stofnun alþjóðlegs þekkingar- og nýsköpunarseturs á sviði umhverfis- og loftslagsmála. Þar yrði aukin samvinna við háskóla innan lands og utan með áherslu á kennslu, rannsóknir og nýsköpun. Samhliða þeirri starfsemi yrðu settir upp alþjóðlegir nýsköpunarhraðlar og fjárfestingarsjóðir í samvinnu við íslenskt og alþjóðlegt atvinnulíf.

Ferðaþjónusta

Ferðaþjónustan er nýjasta efnahagsstoð Íslands og í henni felast mörg tækifæri. Tryggja þarf öfluga viðspyrnu í kjölfar heimsfaraldurs og mynda breiða samstöðu og samstarf um markaðssetningu Íslands á erlendri grund. Nauðsynlegt er að veita árlega auknu fjármagni til verndar, uppbyggingar og úrbóta á vinsælum áfangastöðum og ferðamannastöðum í náttúrunni óháð eignarhaldi.

Verkalýðsmál

Með aukinni sjálfvirknivæðingu og grænni umbyltingu hagkerfisins munu verkalýðsmál verða enn mikilvægari en áður. Við viljum styrkja stöðu og efla samráð við verkalýðsfélög um atvinnumál. Þau eru lykillinn að því að við getum tekist á við áskoranirnar sem fylgja sjálfvirknivæddum heimi, til að tryggja réttlát umskipti og sanngjarna skiptingu auðs og gæða. Við viljum lýðræðisvæða fyrirtæki með því að gera fulltrúum starfsfólks kleift að taka sæti í stjórn þeirra.

Sjálfbær iðnaðarstefna

Við Píratar ætlum að framfylgja ályktun Alþingis um heildstæða iðnaðarstefnu fyrir Ísland, en Píratar áttu einmitt frumkvæði að þeirri ályktun. Ný iðnaðarstefna mun setja sjálfbæra þróun í forgang og taka tillit til aðstæðna á Íslandi. Við styðjum við fjölbreyttan iðnað og viljum fjölga stoðum íslensks efnahags.

7. Menntastefna

Menntun er undirstaða framfara. Til að tryggja framfarir til framtíðar þarf menntakerfið að vera búið undir þær samfélagslegu breytingar sem fram undan eru. Það gerum við með því að auka sveigjanleika og frjálsræði í menntakerfinu, setja nemandann í fyrsta sæti, styðja við starfsfólk og auka áherslu á færni sem nýtist í sjálfvirknivæddu samfélagi á upplýsingaöld.

Gagnrýnin hugsun og upplýsingalæsi

Stuðla skal að gagnrýnni hugsun nemenda og efla læsi þeirra í víðum skilningi; til að mynda upplýsinga-, fjölmiðla- og fjármálalæsi, ásamt því að auka getu nemenda til að meta trúverðugleika heimilda. Í öllum námsgreinum á öllum skólastigum á kennsla að taka mið af nýjustu þekkingu og vísindum.

Uppfærum menntakerfið

Endurskoðun aðalnámskrár á að fara fram í breiðu samráði við nemendur, kennara og aðra í skólasamfélaginu og leggja áherslu á nám á forsendum nemandans. Við viljum byggja upp menntakerfi sem miðar að samvinnu frekar en samkeppni. Við viljum einnig auka aðgengi að verknámi um allt land og vinna að því að endurskoðuð námskrá endurspegli breytingarnar sem fram undan eru, svo sem í atvinnuháttum og iðnaði vegna sjálfvirknivæðingar og loftslagsbreytinga.

Aukinn sveigjanleiki

Gerum skólatíma nemenda sveigjanlegri með tilliti til heilsu þeirra og velferðar. Skilin milli skólastiga (leik-, grunn-, framhalds- og háskóla) eiga að vera sveigjanleg, svo nemendur geti fengist við það nám sem hentar þroska þeirra og menntun hverju sinni án þess að skipta um skólastig. Við ætlum að tryggja og auka aðgang að sí- og endurmenntun samhliða sjálfvirknivæðingu og breyttum starfsháttum.

Nemandinn í fyrsta sæti

Menntakerfið á fyrst og fremst að þjóna menntun hvers nemanda, í samræmi við áhuga hans og getu. Við viljum að skólar á öllum skólastigum leitist við að kynna fjölbreytt menntunarsvið fyrir nemendum sínum, örvi áhuga þeirra og styðji þá í að læra á eigin forsendum. Menntakerfið á að stuðla að góðri heilsu og velferð nemenda, bæði líkamlegri og andlegri; til að mynda með námsframboði, því að tryggja aðgengi að sálfræði- og læknisaðstoð og taka tillit til veikindatengdrar fjarveru við námsmat. Við viljum tryggja heilnæmt og öruggt umhverfi fyrir alla nemendur og aðgengi að námi fyrir öll, óháð aðstæðum þeirra. Við viljum sérstaklega gæta að aðgengi fatlaðs fólks að námi og eins byggja upp nauðsynleg stuðningskerfi fyrir fólk með annað móðurmál á öllum námsstigum. Við Píratar ætlum að auka aðgengi að háskólanámi með því að gera nám sveigjanlegra, svo fólk geti nálgast það í sinni heimabyggð.

Færri próf og minni utanbókarlærdómur

Tæknin hefur gert mannkyninu kleift að fletta upp öllum heimsins fróðleik með örfáum smellum. Þessi þróun mun halda áfram og menntakerfið verður að taka mið af því. Við viljum því draga úr vægi utanbókarlærdóms og prófa í menntakerfinu en leggja þess í stað aukna áherslu á símat, reynslumiðað nám og reglulega endurgjöf. Nemendur á eldri skólastigum hafa þannig meira val um það hvort þeir þreyti próf eða sæti símati.

Frjálst, opið og lýðræðislegt menntakerfi

Skólar og kennarar eiga að hafa frelsi til að móta kennslu sína innan víðs ramma aðalnámskrár. Píratar vilja að nemendur taki þátt í mótun eigin námskrár eftir því sem þeir hafa þroska til og festa í sessi samráð við ungmennafélög og hagsmunafélög stúdenta. Aukum lýðræðislega ákvarðanatöku nemenda, kennara og forráðamanna í skólastarfi. Námsefni allra skólastiga ætti að vera opið menntaefni og aðgengilegt á netinu eins og kostur er, á notendavænu formi og nemendum að kostnaðarlausu. Námsefni og námsgögn í skyldunámi skulu undantekningarlaust standa nemendum til boða án endurgjalds.

Stuðningur við starfsfólk

Við Píratar ætlum að styðja við starfssamfélög kennara og starfið sem þar á sér stað. Við viljum langtímaáætlun í menntamálum og uppbyggingu menntainnviða, svo sem bygginga, námsgagna og launastefnu, og endurskoðun hennar reglulega. Viðurkenna skal verðmætið sem felst í störfum kennara þannig að laun og önnur kjör þeirra endurspegli samfélagslegt mikilvægi.

Framfærsla nemenda

Píratar ætla að tryggja öllum möguleika á að stunda það nám sem hver ræður við, án tillits til efnahags, búsetu og aldurs. Halda skal áfram að færa okkur úr námslánakerfi yfir í styrkjakerfi. Tryggjum stúdentum viðeigandi framfærslu sem tekur mið af raunverulegum aðstæðum námsfólks þannig að þau þurfi ekki að hafa áhyggjur af framfærslu sinni.

Öryggi frá ofbeldi og áreitni

Á sama hátt og börnum ber skylda til að sækja skóla þá ber stjórnvöldum skylda til að tryggja öryggi barna og að þau verði ekki fyrir skaða af sinni skólagöngu. Við Píratar leggjum áherslu á að til staðar séu verkferlar til að fást við úrlausn ágreiningsmála og að í öllum skólum séu virkar viðbragðsáætlanir við einelti. Samhliða þessu þarf að styrkja samstarf milli heimilisins og skólans.

Brúum bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla

Ríki og sveitarfélög eiga að vinna saman að því að pláss á leikskóla standi til boða strax að loknu fæðingarorlofi svo hægt sé að lögfesta leikskóla sem valkost fyrir öll börn frá 12 mánaða aldri.

Metum menntunina

Fólk af erlendum uppruna á að fá menntun sína og starfsréttindi viðurkennd hér á landi. Að sama skapi skal sjá til þess að þekking nemenda af erlendum uppruna komi fram í hæfnismati, óháð móðurmáli þeirra.

8. Húsnæðismál

Öruggt húsaskjól er grunnþörf. Píratar telja að stjórnvöld eigi að beita sér af krafti í húsnæðismálum og sjá til þess að landsmenn hafi þak yfir höfuðið. Píratar vilja tryggja fólki raunverulegt val um búsetu sína; hvort sem það er í gegnum eign, leigu eða úrræði á vegum hins opinbera. Því þarf að stórefla stöðu leigjenda, byggja ódýrar íbúðir fyrir ungt fólk og aðra utan húsnæðismarkaðar og tryggja hvata fyrir fólk til að setjast að í dreifðari byggðum landsins. Gætum sérstaklega að húsnæðisöryggi þeirra sem Covid-19 hafði mikil áhrif á.

Húsnæðismarkaður í jafnvægi

Verðþróun á húsnæðismarkaði hefur lengi einkennst af framboðsskorti sem hefur orsakað miklar verðhækkanir á húsnæði. Við ætlum að laga húsnæðismarkaðinn og koma böndum á fasteignaverð og leiguverð með því að tryggja að lágmarki 2000 nýjar íbúðareignir á ári til ársins 2040 í samræmi við fyrirséða þörf. Einnig þarf að vinna upp núverandi óuppfyllta íbúðaþörf með því að tryggja stofnframlög til byggingu a.m.k. 5000 íbúða til viðbótar. Ný ferðamannabylgja sem fylgir afléttingu sóttvarnaraðgerða er líkleg til þess að valda álagi á húsnæðismarkað aftur og er því enn mikilvægara að bregðast strax við þeim húsnæðisvanda sem enn er til staðar.

Húsnæði fyrir námsfólk

Auka þarf möguleika ungs fólks á að finna sér húsnæði við hæfi með því að auka framlög til byggingu íbúða fyrir námsfólk um allt land. Tryggjum einnig möguleikann á heimavist fyrir framhaldsskólastigið um allt land, þar á meðal á höfuðborgarsvæðinu.

Húsnæði fyrir öll sem þurfa

Réttinn til viðeigandi og öruggs húsnæðis fyrir öll sem þurfa þarf að tryggja. Píratar munu vinna að því að fjölga búsetuúrræðum sem koma til móts við þarfir mismunandi hópa sem á þurfa að halda og vinna að fjölgun almennra íbúa. Við ætlum að leita leiða til að horfa meira til raunverulegrar þarfar við val á félagslegu húsnæðisformi og styðja sveitarfélögin til að axla ábyrgð gagnvart notendum. Efla þarf stuðning við óhagnaðardrifin leigufélög. Styðjum við frekari uppbyggingu á vegum húsnæðissjálfseignarstofnanna með því að tryggja áfram vel fjármögnuð lán á hagstæðum kjörum.

Eflum réttindavernd á leigumarkaði

Húsaleigulög þarf að endurskoða frá grunni með það að markmiði að tryggja réttindi leigjenda og stuðla að heilbrigðari og sanngjarnari leigumarkaði. Styrkjum leigjendasamtök til að aðstoða leigjendur við að komast að réttarstöðu sinni og veita upplýsingar til almennings um samningagerð og lög og réttindi leigjenda. Búum til efnahagslega hvata fyrir langtímaleigusamninga og bönnum tengingu verðtryggingar í leigusamningum.

Skylduhlutfall félagsíbúða í sveitarfélögum

Félagsbústaðir eiga að vera valkostur fyrir öll sem þurfa í sveitarfélögum landsins. Við viljum láta sveitarfélögin axla jafna ábyrgð á félagslegum úrræðum og skilyrða lágmarkshlutfall félagsíbúða í sveitarfélögum yfir tiltekinni lágmarksstærð.

Heilnæmt húsnæði

Húsnæði á að vera griðastaður fyrir okkur öll. Grípum til aðgerða til að tryggja að allt íbúðarhúsnæði sé heilnæmt og brugðist sé hratt við þegar út af ber. Við ætlum að koma upp miðlægum gagnagrunni um ástand og viðhald fasteigna og tryggja að reglur um byggingu og viðhald þeirra taki mið af íslensku veðurfari. Einnig ætlum við að gera átak í endurbótum á því húsnæði sem er útsett fyrir rakaskemmdum og myglu.

9. Málefni innflytjenda

Píratar vilja nýja nálgun í málefnum innflytjenda á Íslandi. Í stað hindrana, tortryggni og andúðar þarf nálgun sem byggir á mannúð, virðingu og einlægum vilja til að taka vel á móti fólki sem vill setjast hér að. Einföldum regluverkið og tryggjum fullnægjandi aðbúnað og umgjörð þegar umsóknarferli er í gangi og ekki síður eftir að dvalarleyfi hefur verið veitt. Gagnkvæm menningarleg aðlögun er lykillinn að velgengni innflytjenda á Íslandi og farsælu fjölmenningarsamfélagi.

Útlendingastofnun verði lögð niður

Píratar vilja leggja niður Útlendingastofnun í núverandi mynd og fela verkefni stofnunarinnar öðrum embættum, svo sem Þjóðskrá og sýslumönnum. Leggjum áherslu á hraðari, einfaldari og notendavænni meðhöndlun umsókna um dvalarleyfi og ríkisborgararétt.

Flóttafólk

Ísland verður að axla ríkari ábyrgð þegar kemur að fólki á flótta. Bæði þarf að taka á móti fleiri einstaklingum og bæta móttökuferlið til muna. Taka þarf mið af aukinni mannúð, skilningi og virðingu fyrir umsækjendum um alþjóðlega vernd þegar beita á matskenndum ákvæðum útlendingalaga. Umsóknir eiga almennt að vera teknar til efnismeðferðar. Brottvísanir til óöruggra ríkja innan Evrópu, þar með talið Grikklands og Ungverjalands, eru ólíðandi og þær ber að stöðva án tafar. Ákvörðun um frestun réttaráhrifa skal tekin af dómara en ekki kærunefnd útlendingamála. Í öllum tilvikum skal skilgreina málsmeðferðartíma frá upphafi umsóknar og þangað til að einstaklingur er fluttur úr landi. Brottvísanir þeirra sem hafa aðlagast hér á landi, sérstaklega barna, eru ómannúðlegar og þeim skal hætt án tafar. Íslensk stjórnvöld verða að standa við skuldbindingar sínar á grundvelli Samnings Evrópuráðsins um aðgerðir gegn mansali og tryggja að fórnarlömbum mansals verði veittur viðeigandi stuðningur og hjálp.

Réttindi erlends verkafólks

Á Íslandi viðgangast víðtæk brot á erlendu launafólki, þrátt fyrir að lög og kjarasamningar tryggi réttindi óháð þjóðerni. Það birtist meðal annars í greiðslu rangra launa en einnig í leiguokri á óíbúðarhæfu húsnæði. Oft er um að ræða fólk í viðkvæmri stöðu sem hingað leitar í von um betra líf, þekkir réttindi sín illa og hefur ekki sterkt bakland. Eflum fræðslu fyrir þennan hóp og aðgang að upplýsingum á móðurmáli og styrkjum heimildir eftirlitsaðila, þ.m.t. stéttarfélaga, til að afla gagna Skýrum og bætum refsiheimildir  gagnvart brotlegum atvinnurekendum og setjum í lög viðurlög eins og févíti þegar uppvíst verður um brot. Útvíkkum skilgreininguna á vinnumansali þannig að hún nái utan um öll tilvik þess og tryggjum öruggt húsnæði fyrir erlent verkafólk.

Atvinnuleyfi fylgi veitingu dvalarleyfis

Öllum tegundum dvalarleyfa á almennt fylgja atvinnuleyfi. Þannig getum við ýtt undir sjálfsbjargarviðleitni þeirra sem hér setjast að í stað þess að festa fólk í viðjum opinberrar aðstoðar.

Menntun

Við viljum að einstaklingar með erlendan bakgrunn hafi aðgang að fjölbreyttum menntaúrræðum sem henta þeirra þörfum. Nám í íslensku ætti að vera aðgengilegt öllum, án tillits til aldurs, uppruna, eða fjárhagslegrar stöðu. Slíkt nám ætti að vera í boði á öllum færnistigum og ætti að búa nemandann undir líf í íslensku samfélagi. Efla á íslenskukennslu á leikskólastigi og bjóða börnum á öllum skólastigum, sem ekki hafa öðlast færni í íslensku, einstaklingsmiðaða kennslu án almennrar aðgreiningar frá öðrum nemendum. Hlúum að móðurmálskennslu barna af erlendum uppruna og auðveldum öllum að fá nám sitt í útlöndum metið að verðleikum. 

Menningarleg aðlögun

Við viljum hjálpa útlendingum betur að aðlagast íslenskri menningu og gefa þeim tækifæri á að verða hluti af íslensku samfélagi. Við viljum efla fjölmenningarsetur og taka vel á móti innflytjendum með fjölbreyttan bakgrunn. Við ætlum að grípa til aðgerða gegn fordómum og útlendingahatri og byggja upp samfélag sem byggir á samkennd og samhug, með sérstöku samfélagsátaki.

10. Málefni öryrkja og fatlaðs fólks

Við Píratar trúum því að allir eigi skilið sömu tækifæri. Því viljum við endurhugsa samfélagsleg kerfi þannig að þau valdefli einstaklinga til að athafna sig á eigin forsendum. Víðtækar skerðingar og hindranir í núverandi kerfum skapa samfélagslegt tap og glutra niður tækifærinu til að fjárfesta í fólki. Aðlögum samfélagið að þörfum hvers og eins. Lífsgæði fatlaðs fólks skulu vera eins góð og þau geta verið miðað við aðstæður hvers og eins. Fatlaðir einstaklingar eiga að fá að lifa án mismununar, fordóma, og hvers kyns misréttis. Við viljum tryggja rétt allra sem þurfa til framfærslu vegna örorku og endurhæfingar og miða við að hún dugi til nægjanlegrar framfærslu og mannsæmandi búsetu. Sá réttur á ekki að vera takmarkaður af hjúskaparstöðu, búsetu eða öðrum aðstæðum. Afnemum skerðingar og eflum mannúðlegri stuðningskerfi hins opinbera.

Úrbætur í almannatryggingakerfinu

Við Píratar viljum að örorku- og endurhæfingarlífeyrir standi öllum til boða frá 16 ára aldri til eftirlaunaaldurs. Takmörkuð búseta á Íslandi á ekki skerða bótarétt og hætta skal strax öllum búsetuskerðingum. Við viljum afnema skilyrði til uppbóta á lífeyri og vinna að því að fjarlægja skilyrði og skerðingar úr almannatryggingakerfinu. Breyta á lögum um almannatryggingar svo að fjárhæð örorku- og endurhæfingarlífeyris fylgi almennri launaþróun og breytingar á lífeyri verði aldrei lakari en breytingar á lágmarkslaunum. Við ætlum að fá óháða sérfræðinga til að reikna út kjaragliðnun lífeyris undanfarinna ára og vinna hana upp með reglubundnum hækkunum á fjárhæðum örorku- og endurhæfingarlífeyris á kjörtímabilinu.

Leyfum lífeyrisþegum að afla tekna

Píratar vilja hækka og lögfesta varanlegt frítekjumark vegna atvinnutekna öryrkja og auka þannig möguleika öryrkja til tekjuöflunar meðfram lífeyrisgreiðslum án víðtækra skerðinga. Við viljum tryggja að eignir lífeyrisþega valdi ekki skerðingum á lífeyrisgreiðslum. Píratar stefna að afnámi skerðinga vegna tekna úr lífeyrissjóðum.

Endurhugsum kerfið frá grunni

Hefja skal strax heildarendurskoðun almannatryggingakerfisins með það að leiðarljósi að búa til gagnsætt, notendavænt og mannúðlegt framfærslukerfi sem tryggir öllum framfærslu sem þurfa. Markmið kerfisins á að vera að tryggja öllum mannsæmandi búsetu og lífskjör og efla fólk á einstaklingsgrundvelli. Við erum ósammála hugmyndafræðinni um starfsgetumat og munum standa með öryrkjum gegn innleiðingu þess.

Endurskoðum umsóknarferlið

Tökum umsóknarferlið um örorku- og endurhæfingarlífeyri í gegn til að einfalda það, gera það notendavænna og auka gagnsæi í meðferð umsókna. Við viljum að ríkið standa straum af öllum kostnaði við mat á örorku og endurhæfingu.

Lögfestum samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks

Ísland hefur fullgilt samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks en hann hefur ekki verið lögfestur í heild sinni hér á landi. Svo að fatlað fólk geti sótt rétt sinn í stjórnsýslu og fyrir dómstólum á grundvelli samningsins er mikilvægt að hann verði lögfestur og hljóti formlegt gildi.

Fjölgum NPA samningum

Afnema þarf kvóta ríkisins gagnvart fjármögnun samninga um notendastýrða persónulega aðstoð og tryggja að öll sem þurfi þjónustuna hafi völ á henni.

Frelsi til búsetu

Píratar ætla að standa vörð um rétt fatlaðs fólks til að velja það búsetuform og þá búsetu sem hentar þeim. Fatlað fólk á að fá að velja sér að búa á landinu þar sem þau vilja um leið og stjórnvöld eiga að tryggja aðgengi að þjónustu í nærsamfélaginu.

Starfsendurhæfing

Við stöndum vörð um starfsemi félaga og samtaka sem bjóða starfsendurhæfingu eftir sjúkdóma eða slys þannig að fólk hafi tækifæri til að ná aftur fyrri getu.

Samráð

Hafa skal ríkt samráð við fulltrúa öryrkja og fatlaðs fólks við allar ákvarðanir sem varða hag þeirra.

11. Heilbrigðismál

Við Píratar setjum forvarnir, fyrirbyggjandi aðgerðir, velferð sjúklinga og réttindi notenda heilbrigðisþjónustu í forgang. Við viljum að sjúklingurinn njóti vafans, ekki kerfi eða kostnaður. Langtíma heilbrigðisáætlun á að stuðla að mannúðlegu viðmóti og nærgætni í heilbrigðiskerfinu, lausu við fordóma. Við viljum stefna að gjaldfrjálsri heilbrigðisþjónustu og tryggja aðgengi okkar allra að fjölbreyttri hágæða þjónustu þar sem réttindi notenda eru sett í forgang.

Rekstrarform

Við ætlum að standa vörð um opinbera heilbrigðisþjónustu og koma í veg fyrir einkavæðingu sem setur ofurgróða einkaaðila ofar heilsu landsmanna og veldur óskilvirkni í kerfinu. Einkarekstur í fjölbreyttum rekstrarformum á rétt á sér en þó með þeim skilyrðum að aðgengi allra sé tryggt og að efnahagur ákvarði ekki umfang og gæði þeirrar þjónustu sem hver einstaklingur á rétt á. Við viljum vinna að auknu gagnsæi og draga úr miðstýringu heilbrigðiskerfisins. Heilbrigðisáætlun skal ná til stoðaðila við heilbrigðisþjónustu, svo sem sjúkraflutninga, slökkviliðs, björgunarsveita, neyðarlínu, sjúkraflugs og þyrluþjónustu.

Góð og örugg þjónusta um allt land

Undirfjármagnað heilbrigðiskerfi bitnar á landsmönnum öllum, sérstaklega á landsbyggðinni. Við viljum bæta þjónustu þar og snúa við þeirri þróun sem hefur einkennst af fjársvelti og uppsöfnun viðhaldskostnaðar. Allir íbúar landsins eiga að hafa aðgengi að góðri alhliða heilbrigðisþjónustu sem stuðlar að andlegu og líkamlegu heilbrigði. Byggjum upp fjarheilbrigðisþjónustu sem raunhæfan kost og hvetjum til stöðugrar símenntunar og endurmenntunar allra sem starfa við heilbrigðisþjónustu.

Sjúklingar beri ekki þyngstu byrðina

Við Píratar viljum að opinber heilbrigðisþjónusta verði gjaldfrjáls. Fyrstu skrefin verða að auka kostnaðarþátttöku ríkisins í meðferðarúrræðum og draga úr lyfjakostnaði notenda, sérstaklega þegar kemur að langvarandi og dýrum lyfjameðferðum. Við ætlum að tryggja niðurgreiðslu á sálfræðiþjónustu, tannlækningum, augnlækningum, sjúkraþjálfun, sérfræðilækningum og annarri heilbrigðisþjónustu óháð samningum við veitendur þjónustu.

Stöndum vörð um réttindi sjúklinga og aðstandenda

Við viljum stofna embætti umboðsmanns sjúklinga. Hann verður eftirlitsaðili og upplýsingamiðlari fyrir sjúklinga og aðstandendur, ásamt því að aðstoða og leiðbeina varðandi réttindi notenda og veita kerfinu aðhald fyrir hönd sjúklinga, aðstandenda og notenda heilbrigðisþjónustu. Við stöndum vörð um réttindi sjúklinga með því að tryggja auðveldan aðgang notenda heilbrigðisþjónustu að eigin sjúkraskrá og upplýsingum um hvernig hún er notuð, ásamt því að tryggja vernd persónuupplýsinga þeirra. Notendur eiga að fá aðkomu að ákvarðanatöku og upplýsingum varðandi eigin meðferðarúrræði og við ætlum að leyfa þeim að vera þátttakendur í eigin heilbrigðisþjónustu.

12. Geðheilbrigðismál

Við Píratar lítum á geðheilbrigði sem eina af grunnstoðum samfélagsins. Geðheilbrigði varðar ekki einungis heilsu og velferð einstaklingsins heldur er geðheilbrigði ákveðinn mælikvarði á heilbrigði samfélagsins sem við búum í. Geðheilbrigði snertir í raun öll svið samfélagsins, allt frá því hvernig búið er að velferð barna á heimilum og í skólakerfinu yfir í hvernig hugað er að jafnvægi milli vinnu og fjölskyldulífs hjá fullorðnum. Hugum sérstaklega að geðheilbrigðismálum vegna Covid.

Fullfjármögnum og forgangsröðum

Geðheilbrigðiskerfið er vanfjármagnað og þar verður að gefa í. Þetta á ekki síður við í kjölfar heimsfaraldurs. Við viljum tryggja að fjármagnið nýtist vel með því að sjá til þess að í geðheilbrigðisþjónustu sé lögð áhersla á forvarnir, fyrirbyggjandi aðgerðir og snemmtæka íhlutun. Horfa þarf heildrænt á stefnu og aðgerðir stjórnvalda með tilliti til áhrifa á geðheilsu almennings.

Valdefling, samþykki og samvinna

Við Píratar viljum draga úr þvingunum og sviptingum vegna geðrænna vandkvæða. Koma þarf upp meðferðarúrræðum sem byggjast á valdeflingu, samþykki og samvinnu. Tryggja þarf að neytendur geti leitað réttar síns vegna ákvarðana um þvinganir og sviptingar. Notendur og fyrrum notendur skulu hafðir með í ráðum í stefnumótun á sviði geðheilbrigðisþjónustu og við útfærslu þjónustunnar.

Niðurgreiðum sálfræðiþjónustu

Við viljum niðurgreiða sálfræðiþjónustu og viðurkenndar samtalsmeðferðir. Við viljum tryggja réttindi og fjárhagslegan stuðning einstaklinga til að fá bestu gagnreyndu þjónustu sem stendur til boða.

Sálfræðiþjónusta og fræðsla fyrir nemendur

Píratar hyggjast tryggja aðgengi nemenda á öllum skólastigum að sálfræðiþjónustu. Útfæra ætti í aðalnámskrám hæfniviðmið um þekkingu á geðheilbrigði og einkennum algengra geðkvilla.

Stoppum í aðgengisgötin 

Við viljum tryggja aðgengi allra að geðheilbrigðisþjónustu óháð búsetu. Við hugum sérstaklega að hópum sem falla á milli kerfa eða vantar sérhæfða þjónustu, svo sem fólk með tvígreiningu, einhverfa og fólk sem glímir við átröskun.

Sérhæfð bráðaþjónusta

Bráðaþjónusta við fólk sem á við geðrænar áskoranir að stríða er mjög sérhæft úrlausnarefni og því eðlilegt  að hún sé aðskilin annarri bráðaþjónustu og aðgengileg allan sólarhringinn allt árið um kring. Heilbrigðismenntaðir viðbragðsaðilar eiga að bregðast við neyðarútköllum þar sem ætla má að geðræn veikindi séu til staðar.

Búsetuúrræði við hæfi 

Við viljum tryggja öllum sem eru með geðfötlunargreiningu búsetu við hæfi og notendastýrðri eftirfylgni eftir að formlegri meðferð lýkur.

Stuðningur og fræðsla fyrir aðstandendur 

Aðstandendum, sér í lagi börnum foreldra með geðrænan vanda, skal tryggja viðeigandi þjónustu og fræðslu.

13. Skaðaminnkun

Við eigum að koma fram við notendur vímuefna sem manneskjur, ekki sem glæpamenn. Fólk með fíknivanda ber að nálgast af nærgætni, virðingu og með skaðaminnkun að leiðarljósi. Skaðaminnkun vísar til stefnu, úrræða og aðgerða sem vinna að því að minnka neikvæð heilsufarsleg, félagsleg og efnahagsleg áhrif af neyslu vímuefna í stað þess að reyna að leysa vandamálin með bönnum og refsingum. Píratar hafa frá upphafi barist fyrir skaðaminnkun, enda skilar hún árangri.

Afglæpavæðing neysluskammta

Núverandi refsistefna eykur á jaðarsetningu vímuefnanotenda, sem ýtir undir aukinn fíknivanda þeirra. Við viljum afglæpavæða neysluskammta vímuefna og endurskoða refsingar vegna vímuefnabrota á grundvelli mannréttinda, mannhelgi og mannúðar og í takt við nýjustu þekkingu. Viðurkennum að fíknisjúkdómar eru heilbrigðisvandi sem þarfnast meðhöndlunar sem slíkur. Tökum tillit til nýrrar þekkingar um félagslegar aðstæður fólks sem á við fíknivanda að stríða, ekki síst þá staðreynd að getan til heilbrigðrar tengslamyndunar sé ein af meginforsendum bata til lengri tíma. Þannig auðveldum við þeim að enduraðlagast samfélaginu.

Fræðsla og forvarnir

Við Píratar viljum draga úr eftirspurn eftir vímuefnum með gagnreyndum forvörnum, fræðslu, viðhalds- og meðferðarúrræðum ásamt réttindavernd og réttindaaukningu vímuefnanotenda. Mikilvægt er að huga að áhrifaþáttum fíknar, svo sem áfalla í æsku og öðrum félagslegum þáttum. Við viljum setja nýja og mannúðlega stefnu í áfengis- og vímuvörnum samhliða afglæpavæðingu neysluskammta, þar sem áhersla verður lögð á skaðaminnkun, fræðslu og forvarnir. Engin slík stefna er í gildi hjá stjórnvöldum sem stendur.

Hugum að viðkvæmum hópum

Jaðarhópar eru sérstaklega líklegir til þess að ofnota vímuefni og ánetjast þeim. Veita þarf jaðarhópum sérstaka athygli við stefnumótun í þessum málaflokki. Í þeim hópi eru fangar, einstaklingar með geðröskun eða geðfötlun, þolendur mansals, fólk sem starfar í kynlífsiðnaði o.s.frv. Píratar ætla að tryggja lagalegan grundvöll fyrir rekstri neyslurýma og auka aðgengi að öðrum skaðaminnkandi úrræðum á borð við nálaskiptaþjónustu. Við megum ekki gleyma því að hanna skaðaminnkunarúrræði með þarfir ungs fólks sérstaklega í huga. Við viljum vinna að því að draga úr einangrun jaðarsettra hópa, byggja upp stuðningsnet fyrir fólk í vanda og veita sálræna aðstoð til að vinna úr áföllum. Einnig þarf að gera átak í húsnæðismálum heimilislausra til að koma í veg fyrir það mikla öryggisleysi sem einkennir lífi þeirra.

Heilbrigðiskerfi allra

Píratar vilja afnema alla mismunun gagnvart vímuefnanotendum í heilbrigðiskerfinu. Bjóða á upp á fleiri og fjölbreyttari meðferðarúrræði handa þeim sem á þurfa að halda vegna vímuefnaneyslu sinnar. Stuðla skal að frekari rannsóknum á fíkn og undirliggjandi vanda henni tengdri. Við viljum leggja áherslu á að bæta hag þeirra sem eiga við tvíþættan eða margþættan vanda að stríða.

Tökum afstöðu til regluvæðingar

Meðal nágrannaþjóða okkar, ekki síst vestanhafs, hafa orðið stórstígar breytingar í átt að regluvæðingu vímuefna á undanförnum árum. Með regluvæðingu myndu svipaðar reglur gilda um önnur vímuefni og nú gilda um áfengi og tóbak, að framleiðsla og sala verði leyfð samkvæmt ákveðnum skaðaminnkandi reglum. Íslensk stjórnvöld þurfa fyrr eða síðar að taka afstöðu til regluvæðingar og vilja Píratar undirbúa slíka ákvörðun með því að kanna kosti og galla mismunandi leiða.

14. Regnbogasamfélagið

Grunnstefna Pírata, sem allar áherslur flokksins byggja á, hverfist um jafnrétti alls fólks. Píratar beita sér fyrir eflingu og verndun borgararéttinda allra og vita að réttur hvers og eins er jafn sterkur. Píratar taka afstöðu með hinum valdaminni gegn hinum valdameiri, berjast gegn mismunun og vita að margt er enn óunnið í jafnréttisbaráttunni. Við viljum að öll svið hins opinbera samrýmist þessari hugsjón, að Ísland nýti rödd sína á alþjóðavettvangi í þessa veru og taki sér afgerandi forystu í jafnréttismálum á heimsvísu.

Hinsegin grunnreglur

Píratar hafa gert skýlausa kröfu um að innleiða nýju stjórnarskrána á næsta kjörtímabili. Sjötta grein hennar kveður á um jafnrétti allra fyrir lögum. Upptalningin á mismunabreytum í ákvæðinu er þó barn síns tíma. Píratar telja, í ljósi þess að ákvæðið tiltekur að öll séu jöfn fyrir lögum, að Alþingi uppfæri upptalningu ákvæðisins til að auka réttindi borgaranna og endurspegla betur þá mismunun sem hinsegin fólk og aðrir jaðarsettir hópar verða fyrir.

Hinsegin metnaður

Píratar beita sér fyrir eflingu og verndun borgararéttinda, þegar kemur að réttindum hinsegin fólks vita Píratar að enn er langt í land. Við viljum ekki sætta okkur við að Ísland mælist rétt um miðbik Regnbogakorts ILGA-Europe. Á næsta kjörtímabili vilja Píratar stofna starfshóp stjórnvalda, samtaka hinsegin fólks, aðila vinnumarkaðarins og fræðasamfélagsins með skýrt markmið: Að styrkja réttindi hinsegin fólks og að Ísland nái þannig toppeinkunn á Regnbogakortinu.

Hinsegin vernd

Píratar eru friðsamir og hafna öllu ofbeldi. Við leitum því leiða til að sporna við og uppræta staðalímyndir og ranghugmyndir sem geta orðið til þess að einstaklingum sé mismunað eða frelsi þeirra skert. Lögregla, ákæruvald og dómstólar þurfa fræðslu og lagaleg úrræði til að greina og vinna gegn hatursglæpum og hatursáróðri, sérstaklega sem beinist gegn hinsegin fólki. Samhliða því er nauðsynlegt að ráðast í fræðslu og forvarnir um allt samfélag, með sérstakri áherslu á skólakerfið. Píratar telja jafnframt að nauðsynlegt sé að greina á milli ærumeiðinga, hatursáróðurs, og brota gegn friðhelgi einkalífsins í hegningarlögum og að hver þessara flokka verðskuldi sjálfstæða meðferð í lögum. 

Hinsegin heilbrigðiskerfi

Píratar berjast fyrir fordómalausu heilbrigðiskerfi án þvingana. Ofbeldi eða mismunun innan þess skal aldrei líðast; hvorki þegar kemur að blóðgjöf, skaðlegum bælingarmeðferðum eða öðrum aðgerðum. Huga þarf sérstaklega að stöðu ólíkra hópa og sníða fræðslu, forvarnir og meðferðarúrræði að ólíkum aðstæðum fólks. Ákvarðanir innan heilbrigðiskerfisins skulu ætíð hvíla á nýjustu þekkingu og vísindum, ekki síst þegar hinsegin fólk er annars vegar. Notendur heilbrigðisþjónustu skulu njóta líkamlegrar friðhelgi, þeir eiga að fá aðkomu að ákvarðanatöku, upplýsingar varðandi eigin meðferðarúrræði og möguleiki þeirra á að leita réttar síns vegna ákvarðana um þvinganir og sviptingar skal alltaf vera tryggður.

Hinsegin stjórnsýsla

Íslensk stjórnsýsla er enn föst í viðjum kynjatvíhyggjunnar og forskrift kjarnafjölskyldunnar. Píratar beita sér fyrir því að kerfi hins opinbera viðurkenni regnbogafjölskyldur á grunni réttarins til fjölskyldulífs; hvort sem kemur að ættleiðingum, hjúskap, skilnaði eða skráningu fjölskyldutengsla. Til að standa enn betur vörð um þau réttindi er mikilvægt að koma á fót sjálfstæðri innlendri mannréttindastofnun sem hefði m.a. hinsegin málefni á sinni könnu. Þá telja Píratar rétt að leggja niður mannanafnanefnd og treysta fullorðnu fólki til að velja nöfn á sig og börn sín. Við höfum sýnt þennan vilja í verki með baráttu okkar fyrir því að nafnbreytingar og breytingar á skráningu kyns yrðu gjaldfrjálsar.

Hinsegin fræðsla

Píratar vilja skipuleggja skólastarf á þann hátt að það ýti undir jafnrétti. Kynfræðsla skuli þannig taka tillit til kynferðis, kynhneigðar, kyntjáningar, kynvitundar eða kyngervis og þá skuli starfsfólki bjóðast fræðsla um jafnrétti, svo sem í kynjuðum orðaforða og hvernig megi vinna gegn staðalímyndum. Jafnframt skuli huga að ólíkum þörfum kynjanna í námi svo að sum kyn verði ekki kerfislega útundan og nemendum á öllum skólastigum tryggður aðgangur að sálfræðiþjónustu. Píratar hafa lengi haft samþykkta stefnu um að styrkja og styðja við grasrótar- og félagsstarfsemi hér á landi sem ýtir undir jafnrétti allra, sem við höfum sýnt í verki þar sem við höfum verið í meirihluta. Þar er jafnframt leitast eftir samstarfi við sveitarfélög við rekstur slíkrar starfsemi.

Hinsegin útlendingamál

Píratar vilja að Ísland axli ríkari ábyrgð þegar kemur að fólki á flótta. Við ætlum að leggja niður Útlendingastofnun og breyta lögum og allri nálgun í málaflokknum til að auka mannúð, skilning og virðingu fyrir umsækjendum um vernd. Umsóknir um hæli skulu almennt vera teknar til efnismeðferðar. Sérstaklega verði staðið vörð um flóttafólk í viðkvæmri stöðu, t.a.m. þeirra sem eru í hættu vegna kynhneigðar, kyneinkenna eða kynvitundar.

Hinsegin utanríkismál

Út um allan heim berjast afturhaldsöfl gegn jafnrétti í öllum myndum – hvort heldur sem er rétti til þungunarrofs, rétti fólks til að skilgreina kyn sitt sjálft eða rétti hinsegin fólks til að lifa og starfa í samfélaginu. Píratar berjast fyrir mannréttindum alls fólks, hvar sem er í heiminum, og þykir mikilvægt að berjast gegn þessum afturhaldsöflum. Ísland verður að beita sér á alþjóðavettvangi fyrir vernd mannréttinda, bæði á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, í alþjóðlegum stofnunum sem það á aðild að og í milliríkjasamningum sem það undirritar.

15. Ungt fólk og framtíðin

Við Píratar leggjum áherslu á málefni ungs fólks. Við viljum efla lýðræðisvitund ungs fólks og virða rétt barna og ungmenna til að koma að ákvörðunum um eigin hagsmuni og kynslóða framtíðarinnar. Bætum kjör yngra fólks sem hefur setið eftir á undanförnum áratugum.

Lækkum kosningaaldur

Við viljum lækka kosningaaldur og færa öllum þeim sem verða 16 ára á árinu kosningarétt í öllum kosningum. Ef fólk borgar skatta á það að geta sagt skoðun sína á því hvernig þeim er varið. Samhliða því þarf að efla menntakerfið, t.d. veita kennslu um lýðræði og kosningar.

Hlustum á og valdeflum yngri kynslóðir

Við Píratar ætlum að setja á fót virkan samráðsvettvang fyrir ungmennaráð þar sem ungu fólki gefst færi á að koma skoðunum sínum á framfæri við valdhafa. Við viljum fleiri þingfundi ungmenna, þar sem ráðamenn þjóðarinnar fara í hlutverk áheyrenda og tryggjum að eftir þá taki við ferli sem vinni úr niðurstöðum fundanna. Samráð og samtal verður líka að leiða til alvöru viðbragða frá valdhöfum og stjórnvöld þurfa að sýna hvernig þau vinna úr hugmyndum samráðsins.

Bregðumst við ákalli um samfélagslegar umbætur

Á undanförnum árum hefur ungt fólk sýnt fádæma frumkvæði með mikilli þátttöku í samfélagsumræðunni, sem endurspeglast m.a. í loftslagsverkföllum, baráttunni fyrir nýrri stjórnarskrá, kröfum um umbætur í menntakerfinu og framfærslu á meðan námi stendur. Við eigum að taka kröfur þeirra alvarlega og fagna frumkvæðinu með samstarfi og aðgerðum.

Bætt kjör fyrir yngra fólk

Hærri útgreiðanlegur persónuafsláttur, námsstyrkir og aukin áhersla á nýsköpun gagnast yngra fólki sérstaklega vel. Það þýðir lægri skuldir að loknu námi og fleiri tækifæri í kjölfarið. Við viljum að ungt fólk geti tekið fyrstu skrefin án íþyngjandi skuldbindinga.

Barnasáttmálinn verði virtur

Höfum barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna að leiðarljósi í öllu starfi sem varðar börn. Þannig ættu grunnskólar að innleiða barnasáttamála Sameinuðu þjóðanna í starfi sínu.

Persónuafsláttur

Við viljum greiða út persónuafsláttinn til þeirra sem nýta hann ekki. Þannig bætum við kjör ungs fólks og þeirra sem minnstar tekjur hafa.

Tækifæri fyrir ungt fólk um allt land

Við þekkjum mikilvægi þess að ungt fólk alls staðar á landinu búi við tækifæri. Við viljum auka aðgengi að menntun í nærsamfélaginu og leggja áherslu á nýsköpunarlandið Ísland þar sem tækifærin er að finna hjá fólki út um allt land.

Spornum við atvinnuleysi ungs fólks

Við Píratar viljum skapa fleiri og fjölbreyttari tækifæri á vinnumarkaði fyrir ungt fólk; jafnt hjá hinu opinbera, í einkageiranum og við frumkvöðlastarf. Tryggja þarf nemendum jafnframt atvinnuleysisbætur þegar framboð á sumarvinnu fyrir námsfólk algjörlega þrýtur. Stúdentar greiða í atvinnuleysistryggingasjóð og því eðlilegt að þeir geti sótt í hann þegar á reynir. Enginn á að missa réttindi við það eitt að mennta sig.

Geðheilbrigði ungs fólks

Kannanir sýna að geðheilsu ungs fólks hefur hrakað á undanförnum árum. Við því þarf að bregðast strax, enda mun sinnuleysi kosta okkur meira til framtíðar. Fræðsla um líðan og umræða um geðheilbrigði þarf að eiga sér stað strax á fyrstu stigum skólakerfisins, auk þess sem sálfræðingar eiga að vera til taks á öllum skólastigum

Viðráðanlegt húsnæði

Húsnæðiskostnaður er ein stærsta hindrunin í vegi þeirra sem vilja koma undir sig fótunum. Skilvirk leið til þess að bæta úr því er að auka framboð af íbúðum fyrir ungt fólk, jafnt námsfólk sem og önnur. Það má t.d. gera í samstarfi við óhagnaðardrifin leigufélög, eins og Félagsstofnun stúdenta og Bjarg.

Ungir foreldrar

Það getur verið stórt og krefjandi skref að verða ungt foreldri. Aukin útgjöld og aukið álag koma sérstaklega niður á ungum foreldrum, sem að jafnaði eru tekjulítil og í óðaönn að leggja grunn að framtíð sinni. Raunverulegt fæðingarorlof fyrir námsfjölskyldur, hærri fæðingarstyrkir, hærri barnabætur og sveigjanlegra fæðingarorlofskerfi eru meðal þess sem þarf að ráðast í, til að létta ungum foreldrum uppeldið.

16. Málefni eldra fólks

Eldra fólk hefur búið við ósanngjarnt lífeyriskerfi og ófullnægjandi þjónustu allt of lengi. Við viljum koma fram við fullorðið fólk eins og fullorðið fólk, það fái að ráða sínu eigin lífi en sé ekki fast í boðum, bönnum og skerðingum. Við viljum tryggja framfærslu þeirra sem eru komin á efri ár, viðunandi heilbrigðis- og velferðarþjónustu og öryggi í húsnæðismálum. Meginstef Pírata í málefnum eldra fólks eru velsæld, öryggi, samráð og virðing.

Ellilífeyrir fylgi launaþróun

Útrýmum fátækt eldra fólks sem reiðir sig einvörðungu á lögbundinn ellilífeyri. Það verður einungis tryggt með því að lögbundinn ellilífeyrir og frítekjumark fylgi almennri launaþróun, þó þannig að breytingar á ellilífeyri verði aldrei lakari en breytingar á lágmarkslaunum. Lífeyrir á að duga fyrir framfærslu allra sem hann þiggja. Við viljum óháða sérfræðinga til að reikna út kjaragliðnun ellilífeyris undanfarinna ára og vinna hana upp með reglubundnum hækkunum á kjörtímabilinu.

Sveigjanleiki við töku ellilífeyris

Við Píratar viljum standa vörð um rétt eldra fólks til að hætta að vinna við 67 ára aldur. Á sama tíma viljum við tryggja valfrelsi til að vinna lengur og fresta töku ellilífeyris án þess að hann skerðist. Starfslok eiga að vera á forsendum fólks og færni, ekki aldurs.

Lífeyrissjóðsgreiðslur og atvinnutekjur skerði ekki lögbundinn ellilífeyri

Við viljum lögfesta lágmarksframfærsluviðmið fyrir alla íbúa landsins, hækka frítekjumark ellilífeyris í lágmarksframfærslu og afnema skerðingar. Brýnast er að afnema skerðingar vegna atvinnutekna.

Efling þjónustu í nærsamfélaginu

Tryggja á húsnæði og þjónustu við hæfi í heimahéraði, koma í veg fyrir hreppaflutninga og að hjónum sé stíað í sundur. Píratar vilja efla heimaþjónustu til að gera eldra fólki kleift að búa sem lengst á eigin heimili kjósi það svo. Jafnframt þarf að byggja upp fjölbreytt húsnæði þannig að eldra fólk geti valið sér búsetu eftir persónuleika og áhuga, hvort sem það vill búa nálægt iðandi mannlífi eða í rólegri sveitasælu.

Millistig milli heimilis og hjúkrunarheimilis

Við tökum undir ályktun Landsambands eldri borgara um að víða vanti millistig milli búsetu á eigin heimili og hjúkrunarheimili. Brýnt er að byggja upp fjölbreytt búsetuform til hagsbóta fyrir eldra fólk. Fjármunum Framkvæmdasjóðs aldraðra á einungis að verja til byggingar stofnana fyrir aldraða og til að mæta kostnaði við nauðsynlegar breytingar og endurbætur á húsnæði sem notað er til þjónustu við þá eins og kveðið er á um í lögum.

Fjölbreytt úrræði og samráð við eldra fólk

Við Píratar viljum koma á gjaldfrjálsri heilbrigðisþjónustu. Við viljum auka félagslegan stuðning við eldra fólk með aðgerðum til að draga úr einangrun og auka virkni. Einnig viljum við styrkja fjölbreytt félagsstarf þvert á kynslóðir og efla stuðning til sjálfshjálpar. Allt verði þetta gert í samráði og samstarfi við eldra fólk, enda er aðkoma fólks að eigin málefnum lýðræðisleg, valdeflandi og í anda Pírata. Þannig tryggjum við einnig að fjármunir í málaflokknum nýtist sem best, eldra fólki öllu til hagsbóta.

17. Lífeyrissjóðir

Enginn á að þurfa að líða skort, allra síst á efri árum. Lífeyrissjóðirnir gegna mikilvægu hlutverki í íslensku samfélagi en lífeyriskerfið er ófullkomið, eins og sést á stöðugum hækkunum á iðgjaldi og áhrifum á samkeppni. Við viljum meira gagnsæi í starfsemi lífeyrissjóða, meira lýðræði og aðhald með stjórn þeirra og skoða alvarlega hvort núverandi kerfi geti staðið undir sér til framtíðar.

Lýðræðislegra lífeyriskerfi

Við Píratar viljum að sjóðsfélagar lífeyrissjóða kjósi alla stjórnarmeðlimi í lýðræðislegum kosningum.

Gagnsæi og aðhald

Við viljum auka gagnsæi í starfsemi lífeyrissjóða þannig að lífeyrissjóðir þurfi að gera upplýsingar um fjárfestingar og rekstur sjóðanna aðgengilegri. Veita þarf fólki ítarlegar upplýsingar um starfshætti og stefnu lífeyrissjóðanna á auðskiljanlegu máli við ákvörðun um val á lífeyrissjóði.

Grænvæðing í fjárfestingarstefnu

Píratar vilja styðja lífeyrissjóði í mótun grænnar fjárfestingarstefnu og búa til hvata til fjárfestinga í grænum verkefnum frekar en í óumhverfisvænum iðnaði. Skylda þarf lífeyrissjóði til að veita upplýsingar um kolefnisspor fjárfestinga sinna.

Bregðumst við ósjálfbærni og stöðugum iðgjaldshækkunum

Það er kominn tími á heildarendurskoðun lífeyriskerfisins. Einnig þarf að undirbúa blöndun á gegnumstreymiskerfi og séreignarsparnaði á kjörtímabilinu, til þess að sjálfbærni lífeyrissjóðakerfisins verði tryggð.

18. Byggðir og valdefling nærsamfélaga

Allar stefnur Pírata eru byggðastefna. Píratar stefna að sjálfbærum sveitarfélögum, íbúum sem njóti grunnþjónustu sem þeir eiga rétt á og að aðstæðum sem auka nýsköpun og framleiðslu í heimahögum. Við viljum draga úr miðstýringu valds, færa ákvarðanatöku í málefnum byggða og sveitarfélaga í auknum mæli til nærsamfélagsins og tryggja að stærra hlutfall skatttekna svæðisbundinnar starfsemi renni beint til sveitarfélaganna. Aukið íbúalýðræði í nærsamfélagi er grundvöllur fyrir sterku og valdeflandi samfélagi.

Fólk á að ráða sér sjálft

Við Píratar teljum að draga þurfi úr miðstýringu valds á öllum sviðum og efla beint lýðræði. Við viljum þannig leyfa fólki að taka þátt í ákvörðunum sem varða það beint. Þetta á ekki síst við þegar ákvarðanirnar snúa að nærsamfélaginu.

Skatttekjur til nærsamfélaga

Hluti af eflingu nærsamfélagsins felst í að hluti af fjármagnstekjuskatti og virðisaukaskatti renni beint til sveitarfélaga. Skatttekjur sem myndast vegna seldrar vöru og þjónustu eiga að efla samfélagið sem skapaði þær. Þess vegna ætti gistináttagjald að renna að fullu til sveitarfélaganna.

Sterka innviði út um allt land

Píratar vilja tryggja trausta innviði sem styðja við framþróun um allt land. Þar á meðal frjálst internet um ljósleiðara, þriggja fasa rafmagn og öruggar samgöngur.

Aðgengi að þjónustu

Útvega á öllum aðgengi að félagslegum stuðningi, heilbrigðisþjónustu (þ.m.t. geðheilbrigðisþjónustu), íbúðarhúsnæði og menntun við hæfi. Búseta á ekki að koma í veg fyrir að fólk hafi aðgengi að nauðsynlegri þjónustu.

Valdið til fólksins

Til að tryggja vönduð vinnubrögð sveitarfélaga þarf að færa meira vald til fólksins og gefa því verkfæri til aðhalds og eftirfylgni. Aukum gagnsæi í stjórnsýslu sveitarfélaganna öllum til gagns. Við viljum breyta sveitarstjórnarlögum þannig að lægra hlutfall íbúa þurfi til að boða til borgarafundar eða óska eftir íbúakosningu um einstök mál. Þá þarf að auka aðgengi íbúa að upplýsingum og almennt lækka þröskuldinn fyrir lýðræðislega þátttöku íbúa.

19. Orkumál

Við Píratar teljum að auðlindir Íslands og arður þeirra eigi að vera samfélaginu öllu til hagsbóta. Nýting orkuauðlinda á að vera sjálfbær, í samræmi við lög og alþjóðasáttmála og til þess fallnar að ná markmiðum Íslands um kolefnishlutleysi sem fyrst. Við eigum öll að hafa aðgang að ódýrri, vistvænni orku óháð efnahag. Stefna ætti að kolefnishlutlausum samgöngum eins fljótt og fýsilegt er og draga stórkostlega úr þörf okkar fyrir innflutning á orku.

Orkustefna

Við viljum setja Íslandi metnaðarfulla orkustefnu sem grundvallast á virðingu við hringrás náttúrunnar og tekur mið af þeirri öru þróun sem er að eiga sér stað á alþjóðlegum vettvangi. Auka þarf orkunýtni á Íslandi, minnka sóun og styðja duglega við nýsköpun, framþróun og þekkingaröflun í orkugeiranum á Íslandi.

Þjóðin fái auðlindarentu

Innheimtum sanngjarna auðlindarentu af nýtingu orkuauðlinda t.d. með útgáfu orkunýtingarleyfa, með orkuflutningsgjöldum eða með tekjuskatti vegna orkusölu. Gagnsæi og jafnræði þarf að ríkja við verðmyndun, gögn skulu gerð aðgengileg og opinber. Rammaáætlun verður áfram matstæki fyrir heildarhagsmuni við raforkuframleiðslu en verður að þróast í samræmi við aukna áherslu á náttúruvernd.

Vistvæn orka um allt land

Nýtum orkuauðlindir okkar til að efla sjálfbæra framleiðslu, t.d. með styrkjum til ylræktar. Ljúkum við hringtengingu Landsnets þannig að allt landsfólk hafi sömu tækifæri til hagnýtingar vistvænnar orku. Tryggjum gæði orkunnar með því að auka aðgengi að þriggja fasa rafmagni um allt land.

Sjálfbærni til framtíðar

Við Píratar viljum stuðla að sjálfbærni í orkunotkun, sjálfbærri nýtingu orkuauðlinda og að samgöngur verði vistvænar. Við þurfum að efla fjárhagslega hvata fyrir einstaklinga og smáfyrirtæki til framleiðslu á endurnýjanlegri og vistvænni orku til eigin nota og styðja við framþróun og rannsóknir á sviði endurnýjanlegra og vistvænna orkugjafa ásamt tækni til bættrar orkunýtingar. Styðjum við nýsköpun í öllum sjálfbærum orkugjöfum, hvort sem um ræðir rafmagn, vetni, metan eða aðra nýja tækni.

Raforkuþörf

Nýting orku á Íslandi á að vera sjálfbær og öll framleiðsla á að miða að sjálfbærri nýtingu orkuauðlinda. Á Íslandi er næg raforka framleidd fyrir neyslu okkar. Við ættum því að leggja áherslu á að byggja upp dreifikerfi raforku þannig að sú orka komist til allra íbúa.

Hverfum frá stóriðjustefnunni

Gerum raunhæfa áætlun um orkuþörf til framtíðar og hverfum frá ósjálfbærri stóriðjustefnu. Búið er að virkja nóg í þágu mengandi stóriðju á Íslandi. Forgangsröðum smærri notendum og nýtum orkuna til uppbyggingar grænnar nýsköpunar.

20. Landbúnaður

Landbúnaður í heiminum stendur frammi fyrir umbyltingu. Neysluvenjur eru að breytast í kjölfar grænna umskipta samfélagsins samhliða miklum framförum í ylrækt og kjötrækt. Í slíkum breytingum felast bæði áskoranir og tækifæri. Við erum óhrædd við að taka skrefin inn í framtíðina með ríka áherslu á menntun í landbúnaði og nýsköpun fyrir bændur. Við ætlum að endurskoða landbúnaðarstefnu stjórnvalda, tryggja velferð dýra, auka aðgengi að dýralæknum og efla náttúru- og umhverfisvernd. Við viljum sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda og fjölbreytta matvælaframleiðslu. Þannig fá bændur meira svigrúm til þess að dafna og framleiða samkeppnishæfar og heilnæmar matvörur fyrir neytendur.

Sjálfbær matvælastefna

Við Píratar viljum sjálfbært samfélag en þar gegnir sjálfbær framleiðsla á matvælum meginhlutverki. Við viljum hvetja til grænna umskipta í matvælaframleiðslu. Við ætlum að efla framleiðslu á matvælum með lægra vistspor. Styðja þarf við tækniframfarir í landbúnaði svo sem kjötrækt og ylrækt. Fæðuöryggi á að tryggja á umhverfisvænan hátt með því að styrkja rannsóknir og framleiðslu sem nýtir bestu fáanlegu tækni á sjálfbæran máta og dregur úr kolefnisfótspori innfluttra og innlendra afurða. Píratar vilja auka gagnsæi vegna losunar gróðurhúsalofttegunda og annarra umhverfisáhrifa með því að veita neytendum meiri og betri upplýsingar. Við viljum grípa tækifærin sem felast í tækniframförum og grænum umskiptum og gerum betur, jafnt fyrir bændur og fyrir neytendur.

Nýsköpun fyrir bændur

Hvergi eru eins mikil tækifæri til nýsköpunar og í landbúnaði á komandi árum. Píratar vilja hjálpa bændum að sækja hvatastyrki til að ná árangri í að skapa blómlegan landbúnað og öflugan matvælamarkað fyrir neytendur á Íslandi. Tryggjum réttlát umskipti með grunnframfærslu til einstaklinga sem vinna við landbúnað og leysum úr læðingi þann kraft sem býr í bændum út um allt land. Auðveldum nýliðun í landbúnaði með aðgengi að endurmenntun, fjárhagslegum hvötum og stuðningi.

21. Fiskeldi

Fiskeldi er áhættusöm atvinnugrein sem getur haft neikvæð áhrif á vistkerfi, og þá sérstaklega í sjókvíaeldi. Gæta þarf sérstaklega að áhrifum fiskeldis á umhverfið. Við viljum að ítrustu varúðar sé gætt, að eftirlit sé stóraukið, að strangar kröfur verði um aðbúnað fiska og að náttúran fái að njóta vafans. Fiskeldi er tímabundin lausn í matvælaframleiðslu þangað til kjötrækt verður samkeppnishæf. Við teljum ekki góðar forsendur fyrir því að auka fiskeldi í sjó og viljum að það sjókvíaeldi sem fyrir er fari fram í lokuðum kvíum.

Forsendur fyrir fiskeldi

Við Píratar viljum að allt fiskeldi fylgi ströngum reglum um mengunarvarnir, heilbrigði dýra, sjúkdómavarnir og náttúruvernd. Leiki vafi á því hjá óháðum sérfræðingum hvort gætt sé fyllstu varúðar og reglum ber að grípa til aðgerða án tafa til að koma í veg fyrir umhverfistjón, útbreiðslu sjúkdóma eða önnur mögulega neikvæð áhrif fiskeldis. Við viljum hvetja til umhverfisvænni leiða við daglegan rekstur á fiskeldi. Reglur um stærð kvía og fjölda fiska skulu ráðast af velferð eldisfiska. Eftirlit með fiskeldi þarf að vera virkt og óháð fiskeldisfyrirtækjum. Ef fyrirtæki eru brotleg þarf að beita þau viðeigandi viðurlögum. Ítrekuðum og alvarlegum brotum ber að refsa með sviptingu starfsleyfis.

Við viljum lögbinda leyfisþak í fiskeldi, rétt eins og gert er með fiskveiðiheimildir, þannig að enginn einstaklingur eða tengdir aðilar ráði yfir of stórum hluta fiskeldis á Íslandi. Samþjöppun og einsleitni eru hvorki æskileg né þjóðinni til hagsbóta.

Við ætlum að tryggja gagnsæi og jafnræði við úthlutun tímabundinna heimilda í fiskeldi, ásamt því að innheimta fullt auðlindagjald. Samningar sveitarfélaga við fyrirtæki í fiskeldi skulu vera samfélaginu öllu til góða og byggja á sanngirni og fyrirsjáanleika fyrir alla. Við ætlum einnig að sjá til þess að skilyrði leyfisveitinga séu fyrirsjáanleg og leyfisveitingar fari fram í gagnsæju og skilvirku ferli. Stjórnsýsla fiskeldismála þarf að vera leiðandi í faglegum og framsýnum vinnubrögðum. Við Píratar munum aldrei sætta okkur við að hagnaði af auðlindum Íslands sé komið úr landi í krafti þunnrar eiginfjármögnunar.

Fiskeldi á landi

Nýjustu rannsóknir sýna að fiskeldi á landi hefur lítil sem engin áhrif á lífríki í næsta nágrenni, svo lengi sem fráveitu- og skólpmál séu í lagi. Til þess að koma í veg fyrir mengun og áhrif á villta náttúru viljum við því frekar styðja við fiskeldi á landi svo lengi sem fæði fiskanna sé heilnæmt og umhverfisvænt. Markmið okkar er að hagkvæmara verði að stunda fiskeldi á landi en í sjó. Við munum tryggja að löggjöf um fiskeldi á landi verði einföld og skilvirk.

Fiskeldi í sjó

Fiskeldi í sjókvíum er hagkvæmt en einungis vegna þess að ekki er verið að greiða fyrir möguleg neikvæð umhverfisáhrif. Í samræmi við varúðarregluna viljum við því frekar beina fiskeldi upp á land. Ljóst er þó að afkoma fjölmargra Íslendinga byggir á því sjókvíeldi sem nú þegar hefur byggst upp við landið. Við hyggjumst ekki kollvarpa þeim rekstri sem nú þegar er kominn á laggirnar, en gerum kröfu um að fiskeldið fari fram í lokuðum kvíum. Við munum einbeita okkur að því að gera fiskeldi á landi hagkvæmara en fiskeldi í sjó.

Til að tryggja að ekki verði óafturkræfur skaði á lífríki sjávar og lands skal veita heimildir til fiskeldis í sjó þrepaskipt eftir burðarþolsmati Hafrannsóknarstofnunar. Þannig væri aðeins hægt að veita rekstrarleyfi fyrir 25% af burðarþoli í fyrstu og ekki væri hægt að auka við það fyrr en eftir ítarlegar rannsóknir á áhrifum fiskeldisins á lífríki.

Upprunamerkingar eldisfisks

Við viljum standa vörð um hagsmuni neytenda þegar kemur að upplýsingagjöf og gagnsæi. Við gerum þá kröfu við merkingar matvæla að það komi fram hvort fiskurinn sé úr eldi eða villtur, af landi eða úr sjó.

Framtíð matvælaframleiðslu á sjávarfangi

Við Píratar teljum að fiskeldi, hvort sem er í sjó eða á landi, muni víkja á næstu árum og áratugum fyrir betri og umhverfisvænni valkostum. Við hvetjum til rannsókna og þróunar á matvælum án aðkomu dýra og teljum Ísland vel til þess fallið að vera þar í fararbroddi á heimsvísu.

22. Aðgengi að réttlæti

Við viljum tryggja jafnan aðgang fólks að réttarkerfinu. Það gerum við með því að gera einstaklingum kleift á að sækja rétt sinn og verja sig án þess að kostnaður eða flækjustig séu veruleg hindrun.

Smákröfudómstóll

Við viljum setja á fót smákröfudómstól þar sem hægt verður  að útkljá ágreining um kröfur upp að ákveðinni fjárhæð án verulegra fjárútláta.

Eflum Neytendasamtökin

Við viljum efla starf Neytendasamtakanna, ekki síst við að leysa ágreining milli leigutaka og leigusala. Tryggja þarf að allir málsaðilar skilji rétt sinn og að tungumálaerfiðleikar valdi því ekki að fólk verði af réttindum sínum.

Bætur til þolenda afbrota

Við viljum að ríkið tryggi bætur til þolenda ofbeldisglæpa óháð fjárhæð.

Lögskilnaður

Einstaklingur í hjónabandi eða skráðri sambúð á að hafa rétt á að fá lögskilnað/slíta samvistum án biðtíma eða samþykkis annars aðila eða stofnunar.

Bætum stjórnsýslu í forsjár- og umgengnismálum

Píratar ætla að tryggja réttindi barna og þolenda í fjölskyldu-, forsjár- og umgengnismálum. Tryggja skal vernd barna samkvæmt ákvæðum Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og virða gæðaviðmið stjórnsýslu. Styttum málsmeðferðartíma með skýrari reglum, aukum fjárveitingar til málaflokksins og  lögfestum hámark á málsmeðferðartíma forsjármála Taka þarf brot gegn nálgunarbanni alvarlega og tryggja vernd fyrir þolendur ofbeldis í nánum samböndum. Við ætlum að gera ráðstafanir til að tryggja að börn hvorki verði fyrir né séu vitni að ofbeldi á heimili.

Gjafsókn

Endurskoðum reglur um gjafsókn með það að markmiði að öll hafi aðgang að réttarkerfinu, óháð efnahagslegum aðstæðum.

Ráðgjafastofa almennings

Píratar vilja að komið verði á fót óhagnaðardrifinni sjálfstæðri stofnun sem hefði það hlutverk að segja fólki hvar það getur  leyst úr málefnum stórum og smáum. 

Úrbætur á fasteignamarkaði

Aukum valfrelsi fólks á fasteignamarkaði með því að tryggja frjálst val kaupenda á fasteignasala. Athugum hvort æskilegt sé að senda smávægilegan ágreining í fasteignamálum til smákröfudómstóls til að forðast óhófleg útgjöld í deilumálum.

Meiðyrðamál

Við viljum stytta  málsmeðferð meiðyrðamála og draga úr réttarfarslegum hindrunum fyrir þau sem eru sökuð  um meiðyrði. Stöndum vörð um tjáningarfrelsið þannig að fólk þurfi ekki að hræðast endurteknar málshöfðanir.

23. Fjölmiðlar

Óháðir fjölmiðlar gegna lykilhlutverki í því að veita stjórnvöldum aðhald, miðla upplýsingum til almennings og veita vettvang fyrir upplýsta þjóðmálaumræðu. Við viljum tryggja fjölmiðlafrelsi með því að bæta réttarvernd blaðamanna, tryggja rekstrarlegt og lagalegt umhverfi fjölmiðla og auka möguleika þeirra til tekjuöflunar, meðal annars með því að taka RÚV af auglýsingamarkaði.

Heildarstefnumótun á laga- og rekstarumhverfi fjölmiðla

Við Píratar ætlum að framkvæma heildarstefnumótun til að styrkja fjölmiðla á Íslandi og auðvelda þeim aðhalds- og eftirlitshlutverk sitt með stjórnvöldum. Gerð heildstæðrar stefnu er forsenda breytinga í málaflokknum, því bútasaumslausnir síðustu ára hafa hyglað stærri fjölmiðlum. Stefnan mun taka tillit til allra þátta í lagalegu og fjárhagslegu umhverfi fjölmiðla af öllum stærðum.

RÚV af auglýsingamarkaði

Vera Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði er ekki í samræmi við hlutverk þess og veikir tekjuöflunarmöguleika annarra fjölmiðla. Tökum RÚV af auglýsingamarkaði og tryggjum þess í stað næg framlög til að standa straum af innlendri dagskrárgerð, öryggishlutverki (meðal annars fyrir sjófarendur), menningar- og menntahlutverki og rekstri fréttastofu. Afnemum nefskattinn sem leggst hlutfallslega þyngst á þau sem minnst hafa og fjármögnum RÚV þess í stað með hefðbundnum sköttum.

Stöndum vörð um réttindi blaðamanna

Við ætlum að halda áfram vinnunni sem hafin var með þingsályktun um að Ísland skapi sér afgerandi lagalega sérstöðu varðandi vernd tjáningar- og upplýsingafrelsis. Við munum draga úr réttarfarslegum hindrunum á tjáningarfrelsinu með því að gefa jafnan áfrýjunarrétt í tjáningarfrelsismálum og aukum gagnsæi um málskostnað þegar fjölmiðlar eru látnir bera kostnaðinn af málshöfðunum gegn þeim.

Skattlagning netrisa

Stærstu iðnríki heims hafa náð samkomulagi um að skattleggja netrisa, sem taka til sín sífellt meira auglýsingafé á ári hverju. Ísland á að feta í sömu fótspor og fjármagna þannig stuðning til íslenskra fjölmiðla.

Upplýsingafulltrúar beri nafn með rentu

Taka þarf hlutverk upplýsingafulltrúa á vegum hins opinbera til endurskoðunar. Setja þarf upp stöðu gagnsæisfulltrúa, samræma starfsreglur upplýsingafulltrúa og sjá til þess að þeir útvegi fjölmiðlum allar þær upplýsingar sem þeir kalla eftir, þegar þeir kalla eftir þeim, í samræmi við upplýsingaskyldu stjórnvalda.

24. Internet og netfrelsi

Við Píratar viljum að aðgangur fólks að internetinu sé án hindrana, enda er netið ein af grunnstoðum samfélagsins. Tryggjum öllum á Íslandi alhliða, frjálst, opið og óskert internet á viðráðanlegu verði. Píratar vilja ná fram réttarúrbótum í netfrelsi almennings og standa vörð um réttarstöðu borgara, fjölmiðla, heimildamanna, uppljóstrara og upplýsingafrelsi á netinu.

Internetið meðal grunninnviða

Við Píratar teljum internetið til grunnstoða samfélagsins. Tryggja á fólki aðgengi að stafrænum samskiptum óháð búsetu og metum internetið til jafns við aðrar samgöngur. Píratar skilja samfélagslegt mikilvægi þess að byggja upp stafrænar lausnir til framtíðar og við viljum auka aðgengi að atvinnu og þjónustu hvar sem hún er veitt. Með því eykst frelsi til að velja sér búsetu sem hentar, hvar sem er á landinu.

Ljósleiðaravæðing

Píratar ætla að koma á háhraða ljósleiðara í allar byggðir og vinna að því að auka aðgengi í dreifbýli á viðráðanlegu verði. Ljósleiðaravæðing er mikilvægt skref en í auknum mæli eru 5G og gervihnattatengingar að verða samkeppnishæfar við ljósleiðara og kunna að bjóða ódýrari kost í dreifbýli. Notum því tæknina sem á best við á hverjum stað. Setjum eigendastefnu fyrir FarICE-sæstrenginn sem tryggir lág verð og aðkomu ríkisins í fjármögnun sé þess þörf.

Netfrelsi og jafnræði í aðgengi

Við viljum tryggja jafnræði í aðgengi að internetinu fyrir alla samfélagshópa, óháð efnahag, þjóðfélagsstöðu, kyni- og kynhneigð og gerum öllum kleift að njóta ásættanlegs aðgengis, skilyrðislaust. Aðgengi að internetinu er víðtækt hugtak sem snýr ekki bara að tæknilegum atriðum heldur einnig félagslegum og efnahagslegum veruleika notenda. Tryggjum að öll hafi aðgengi að stafrænni þjónustu á vegum stjórnvalda, óháð bakgrunni og tækniþekkingu.

Aðgangur að upplýsingum

Við viljum standa vörð um upplýsingarétt almennings og tryggja aðgengi borgaranna að öllum þeim gögnum sem þeir eiga rétt á. Ísland á að halda áfram vinnu við að skapa sér afgerandi lagalega sérstöðu varðandi vernd tjáningar- og upplýsingafrelsis. Notum internetið til að efla gagnsæi í störfum stjórnvalda með því að gera öll gögn þeirra opinber eftir fremsta megni á tölvutækan hátt í opnum gagnagáttum og á opnum gagnasniðum.

Réttindavernd á internetinu

Internetið skal vera eitt markaðssvæði og þurfum við að tryggja neytendavernd samkvæmt því. Við viljum að friðhelgi einkalífs sé virt og stuðla að virkri persónuvernd fyrir notendur á netinu. Koma þarf í veg fyrir almenna vöktun einstaklinga og/eða hópa á netinu. Við Píratar ætum að vernda friðhelgi einkalífs með því að afnema skyldu íslenskra fyrirtækja til að geyma gögn einstaklinga. Skylda á hið opinbera til að fara vel með gögn einstaklinga, sérstaklega þegar um er að ræða viðkvæmar persónuupplýsingar. Við styðjum skilyrðislausan rétt almennings til að vernda sín gögn og samskipti yfir netið, m.a. með dulkóðun.

Ísland verði framsækið stafrænt land

Ísland á að vera í fararbroddi þegar kemur að stafrænni löggjöf. Við viljum hvetja til stafrænna umbreytinga og tryggja að hið opinbera nýti frjálsan og opinn hugbúnað hvar sem því verður við komið, ekki síst í náms- og menntastofnunum. Námsgögn skulu ávallt vera aðgengileg þeim sem nota frjálsan og opinn hugbúnað. Þá viljum við tryggja öflugar fjarskiptaleiðir til og frá landinu og skilgreina fjarskiptanet sem innviði sem eiga að þjóna almannahagsmunum.

25. Utanríkismál

Ísland hefur sterka rödd á alþjóðasviðinu. Við Píratar viljum nýta hana til að fara fram með góðu fordæmi. Ísland á að beita sér fyrir eflingu og verndun mannréttinda í alþjóðasamstarfi og vera leiðandi í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Píratar vilja tryggja að allir milliríkjasamningar séu opnir og aðgengilegir og beint lýðræði verði haft að leiðarljósi við meiriháttar ákvarðanir um utanríkismál.

Evrópusamstarf

EES-samningurinn hefur verið mikilvægur fyrir íslenska þjóð og efnahag landsins undanfarna áratugi og er árangursríkt áframhaldandi samstarf mikið hagsmunamál Íslands. Ísland á að taka sér allt það rými sem það getur á vettvangi EES til að tryggja stöðu og hagsmuni almennings. Aðildarviðræður við Evrópusambandið varða heildarhagsmuni allrar þjóðarinnar og því mikilvægt að stjórnvöld fylgi vilja almennings hvað varðar aðild að ESB. Við viljum hvorki hefja aðildarviðræður, né ljúka þeim, án þjóðaratkvæðagreiðslna þar sem fram fari hlutlaus og heildstæð kynning á kostum og göllum aðildar.

NATO

Þjóðin hefur aldrei verið spurð um veru landsins í NATO. Því er mikilvægt er að rödd hennar fái að heyrast. Á meðan Ísland er aðili að bandalaginu á það að tala fyrir friði á virkan hátt innan NATO og annars staðar á alþjóðavettvangi. Íslendingar eiga að beita sér gegn hvers kyns hernaðaruppbyggingu í Norður-Atlantshafi og á norðurslóðum. 

Loftslagsmál

Ísland á að nota rödd sína á alþjóðavettvangi til að beita sér í þágu umhverfis- og loftslagsmála til að sporna gegn óafturkræfum skaða á vistkerfum heimsins. Stuðlum að auknu alþjóðlegu samstarfi til að ná kolefnishlutleysi og leggjum áherslu á ákvæði um loftslagsmál í öllum milliríkjasamningum Íslands. Höfum framgöngu um gerð nýrra alþjóðlegra árangursmælikvarða sem ráðast að rótum frekar en einkennum loftslagsvandans. Við viljum styðja þróunarríki í aðgerðum sínum og öxlum þá ábyrgð sem fylgir stöðu okkar sem einu af auðugri ríkjum heims.

Ísland í alþjóðasamfélaginu

Ísland á að gerast aðili að Evrópsku geimvísindastofnuninni (ESA) og Kjarnrannsóknastofnun Evrópu (CERN). Setja skal á fót á Íslandi alþjóðlega miðstöð þekkingar, rannsókna, kennslu og nýsköpunar í umhverfis- og loftslagsmálum í samvinnu við alþjóðlegar stofnanir og fyrirtæki. Við viljum setja á fót alþjóðlegan fjárfestingasjóð á sviði nýsköpunar í loftslags- og umhverfismálum. Byggja skal upp skattalegt umhverfi sem hvetur erlenda aðila til þess að setja upp græna fjárfestingar- og nýsköpunarsjóði á Íslandi.

Mannréttindi á alþjóðavettvangi

Ísland verður að beita sér á alþjóðavettvangi fyrir vernd mannréttinda, bæði á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, í alþjóðlegum stofnunum sem það á aðild að og í milliríkjasamningum sem það undirritar. Píratar vilja aukið eftirlit með brotum gegn mannréttindaákvæðum í fríverslunarsamningum.

Gagnsæi í utanríkismálum

Við mótun stefnu Íslands um samskipti við önnur lönd, milliríkjasamninga, aðrar alþjóðlegar skuldbindingar og varnarmál Íslands á almenningur að hafa aðgengi að upplýsingum og ákvarðanatöku eins og hægt er. Birta á opinbera skrá yfir þá alþjóðasamninga sem Ísland er aðili að, stöðu þeirra innan kerfisins ásamt upplýsingum um hver ber ábyrgð á framkvæmd og framfylgd þeirra.

BEINT AÐ EFNINU