Persónuafsláttur, skerðingar og borgaralaun
Hækkum persónuafslátt
Sanngjarnasta leiðin til að lækka skatta er að hækka persónuafslátt. Píratar vilja hækka persónuafslátt strax á næsta ári um 7.000 kr. á mánuði. Takmarkið er að ná fram hækkun á afslættinum sem nemur 26.000 kr á kjörtímabilinu þannig að hann fylgi almennri launaþróun, og verður þá við lok kjörtímabilsins tæpar 78 þúsund krónur á mánuði. Það munar um minna.
Drögum úr skerðingu- allir mega vinna
Hækkun örorkulífeyris og lækkun krónu-á-móti-krónu skerðingar eru réttlætismál. Sama gildir um rétt aldraðra til að vinna án þess að missa áunnin réttindi. Nýtum reynslu og þekkingu í framtíðinni – þar sem hana vantar. Ríkið á ekki að segja eldri borgurum hvar, hvort og hvernig þeir eigi að vinna, lifa eða njóta í ellinni.
Könnum borgaralaun til framtíðar
Skoðum leiðir til að tryggja öllum borgurum landsins skilyrðislausa grunnframfærslu í framtíð sem mun mótast af tækniþróun og sjálfvirknivæðingu. Allir eiga rétt á grundvallarlífsgæðum og tækifærum og það er á okkar ábyrgð að finna bestu leiðirnar til að tryggja öllum borgurum þessi sjálfsögðu réttindi.
Menntamál
Fyrirframgreidd námslán og einstaklingsmiðað nám
Menntun er lykillinn að framtíðarsamfélaginu. Jafnt aðgengi allra að námi á öllum stigum er markmið okkar. Námslán þurfa að greiðast fyrirfram, svo að námsfólk skuldi ekki yfirdrátt, og lánin þurfa að tryggja grunnframfærslu. Byggja þarf fleiri íbúðir fyrir námsfólk í gegnum byggingarfélög stúdenta og einnig þarf að byggja nýjan listaháskóla. Nám framtíðarinnar er einstaklingsmiðað, sveigjanlegt, skapandi og frjálst. Þannig búum við okkur undir störf 21. aldarinnar.