Áherslur Pírata fyrir alþingiskosningar 2017

Heilbrigðismál

Heilbrigðismálin fyrst og fremst

Framsýn stjórnvöld tryggja að allir fái bestu mögulegu heilbrigðisþjónustu þegar þörf krefur, óháð efnahag og óháð búsetu. Andleg heilsa er ekki síður mikilvæg en líkamleg. Andleg umönnun og sálfræðiþjónusta er hluti af heilbrigðisþjónustunni.

Komum geðheilbrigðisþjónustunni okkar í lag!

Í framtíðinni okkar er engum refsað fyrir að vera fíkill. Allir sem þurfa á hjálp að halda að eiga að fá viðeigandi aðstoð án tafar. Af því að heilbrigðisþjónustan snýst um fólk en ekki kerfi.

Húsnæðismál

Byggjum fyrir framtíðina

Stjórnvöld þurfa að taka húsnæðismálin alvarlega. Byggjum upp ný heimili um allt land. Ódýrar íbúðir handa þeim sem eru að feta sín fyrstu skref í lífinu, fjölskylduvænar íbúðir og íbúðir til langtímaleigu fyrir þá sem vilja frelsi og sveigjanleika. Setjum öryggi og réttindi leigjenda í forgang.

Persónuafsláttur, skerðingar og borgaralaun

Hækkum persónuafslátt

Sanngjarnasta leiðin til að lækka skatta er að hækka persónuafslátt. Píratar vilja hækka persónuafslátt strax á næsta ári um 7.000 kr. á mánuði. Takmarkið er að ná fram hækkun á afslættinum sem nemur 26.000 kr á kjörtímabilinu þannig að hann fylgi almennri launaþróun, og verður þá við lok kjörtímabilsins tæpar 78 þúsund krónur á mánuði. Það munar um minna.

Drögum úr skerðingu- allir mega vinna

Hækkun örorkulífeyris og lækkun krónu-á-móti-krónu skerðingar eru réttlætismál. Sama gildir um rétt aldraðra til að vinna án þess að missa áunnin réttindi. Nýtum reynslu og þekkingu í framtíðinni – þar sem hana vantar. Ríkið á ekki að segja eldri borgurum hvar, hvort og hvernig þeir eigi að vinna, lifa eða njóta í ellinni.

Könnum borgaralaun til framtíðar

Skoðum leiðir til að tryggja öllum borgurum landsins skilyrðislausa grunnframfærslu í framtíð sem mun mótast af tækniþróun og sjálfvirknivæðingu. Allir eiga rétt á grundvallarlífsgæðum og tækifærum og það er á okkar ábyrgð að finna bestu leiðirnar til að tryggja öllum borgurum þessi sjálfsögðu réttindi.

Menntamál

Fyrirframgreidd námslán og einstaklingsmiðað nám

Menntun er lykillinn að framtíðarsamfélaginu. Jafnt aðgengi allra að námi á öllum stigum er markmið okkar. Námslán þurfa að greiðast fyrirfram, svo að námsfólk skuldi ekki yfirdrátt, og lánin þurfa að tryggja grunnframfærslu. Byggja þarf fleiri íbúðir fyrir námsfólk í gegnum byggingarfélög stúdenta og einnig þarf að byggja nýjan listaháskóla. Nám framtíðarinnar er einstaklingsmiðað, sveigjanlegt, skapandi og frjálst. Þannig búum við okkur undir störf 21. aldarinnar.

HÚSNÆÐISMÁL

Byggjum fyrir framtíðina

Stjórnvöld þurfa að taka húsnæðismálin alvarlega.

Byggjum upp ný heimili um allt land. Ódýrar íbúðir handa þeim sem eru að feta sín fyrstu skref í lífinu, fjölskylduvænar íbúðir og íbúðir til langtímaleigu fyrir þá sem vilja frelsi og sveigjanleika.

Setjum öryggi og réttindi leigjenda í forgang.

Látum það ekki bíða lengur.

Réttindi fólks með fötlun

Lögfestum NPA

Hættum að tefja fyrir réttindum fólks með fötlun. Lögfestum notendastýrða persónulega aðstoð (NPA) strax og höldum áfram að vinna að úrbótum í málefnum fólks með fötlun og skerta starfsgetu.

Réttlæti fyrir þolendur

Í framtíðinni okkar hafa þolendur rödd

Bætum meðferð kynferðisbrotamála í samráði við þolendur. Gefum þolendum aukna aðkomu og aðild að kærumálum sínum og eflum sálrænan og félagslegan stuðning. Aukum forvarnir með víðtækri fræðslu um upplýst samþykki og persónuréttindii allra. Eflum meðferðarúrræði fyrir gerendur og endurskoðum veitingu starfsréttinda með hagsmuni barna í huga.

Auðlindir Íslands

Kvótann á uppboð og frjálsar handfæraveiðar

Í sjávarútvegsmálum er mikilvægt að samfélagið fái fullt gjald fyrir þessa verðmætu auðlind þjóðarinnar. Píratar vilja að stjórnvöld bjóði fiskveiðikvótann upp í skrefum, að allur afli fari á markað og að handfæraveiðar verði gefnar frjálsar, til að tryggja nýliðun í greininni og atvinnuöryggi um allt land.

Nærum framtíð ferðaþjónustunnar

Við viljum gera langtímaáætlun um skipulag og uppbyggingu ferðamannaþjónustu. Í þeirri vinnu þarf virkt samtal við fólkið í nærsamfélaginu og að sjá til þess að tekjur af ferðamönnum fari í uppbyggingu um allt land. Hugsum lengra, hugsum til framtíðarinnar og framkvæmum svo.

NÝSKÖPUN, SAMGÖNGUR OG ATVINNULÍF

Tengjum Ísland og fjármögnum samgönguáætlun

Til að atvinnulíf um allt land blómstri og allir njóti tækifæra þarf að uppfæra tengingar. Tengjum Ísland með þriggja fasa rafmagni, betri samgöngum milli landshorna og virkri nettengingu um allt land. Píratar skilja að góð nettenging er grunnstoð fyrir atvinnulíf um allt land.

Atvinnulíf framtíðarinnar

Píratar vilja gera nýskráningu fyrirtækja einfalda og ódýra. Stuðlum að nýsköpun með því að leyfa skuldabréfum í sprotafyrirtækjum að breytast í hlutafé. Þannig eflum við þá sem hugsa út fyrir boxið og finna ný sóknarfæri. Íslenskt hugvit er dýrmæt auðlind.

STJÓRNSÝSLA, SJÓRNARSKRÁ OG BORGARRÉTTINDI

Borgararéttindi og tjáningarfrelsi

Vald þarf aðhald. Píratar munu alltaf standa gegn þeirri algengu tilhneigingu stjórnvalda að takmarka borgaraleg réttindi. Borgararnir eiga skilið sterkan málsvara gegn stjórnlyndi og við erum reiðubúin að axla þá ábyrgð.

Tryggjum rétt blaðamanna að upplýsingum og verndum þá gegn lögsóknum.

Tryggjum gagnsærri stjórnsýslu

Þegar almenningur óskar eftir upplýsingum ber honum að fá þær. Stjórnsýslan á ekki að fela brúnegg eða valinkunnar undirskriftir heldur starfa með gagnsæi og heiðarleika að leiðarljósi.

Nýja stjórnarskráin og betra stjórnkerfi

Stjórnsýsla á Íslandi þarfnast uppfærslu í takt við tímann. Núverandi stjórnarskrá býður okkur upp á óstöðugt stjórnarfar þar sem ráðherrar fara sínu fram án samráðs við almenning.

Samþykkjum nýja stjórnarskrá, útrýmum leyndarhyggju og leyfum almenningi að ráða för.

UMHVERFISMÁL

Ísland verði í fararbroddi í umhverfismálum

Á undanförnum áratugum hefur orðið ljóst að mannkynið er að ganga verulega á auðlindir jarðar og náttúru með fyrirsjáanlega hrikalegum afleiðingum fyrir komandi kynslóðir. Ábyrg umgengni við náttúruna og sjálfbær nýting auðlinda eru nauðsynleg forgangsmál. Tökum fullt tillit til alþjóðaviðmiða og samninga í umhverfismálum og leyfum náttúrunni að njóta vafans. Framfylgja skal megingildum sjálfbærrar þróunar í verki.

Hálendisþjóðgarður – Verndum viðkvæma náttúru miðhálendisins

Miðhálendið er ein dýrmætasta perla landsins. Þar má finna eldfjöll, jökla, vatnsmiklar ár og fossa, litrík háhitasvæði, víðfeðm hraun og svartar sandauðnir sem kallast á við viðkvæmar gróðurvinjar. Saman mynda þessi náttúrufyrirbæri stórbrotnar landslagsheildir á einum stærstu víðernum Evrópu. Þessa þjóðargersemi þarf að vernda til framtíðar.

Styðjum við rafbílavæðingu

Píratar vilja stuðla að rafbílavæðingu Íslands, m.a. með því að huga að innviðum og með fjárhagslegum ívilnunum sem stefni að því að auka hlutfall rafbíla. Almenn orkumála- og umhverfisstefna ætti að innihalda markmið um rafbílavæðingu og gera nauðsynlegar ráðstafanir til að ná þeim markmiðum.

Framtíðin okkar

Framundan eru miklar breytingar á heiminum og það skiptir máli hvernig við bregðumst við þeim.

Síðustu tíu ár hefur stjórnmálaumræða á Íslandi snúist um að taka heiðurinn af því að fjölgun ferðamanna eða stækkun makrílstofnsins auki hagvöxt, en að forðast aftur á móti ábyrgð þegar kerfislægir brestir valda efnahagshruni eins og gerðist 2008.

Það er nauðsynlegt að við lögum ólíðandi kerfisgalla og horfum fram á við til að búa okkur undir nýja tíma. Til þess þurfum við að fá betri stjórnarskrá, tryggja að auðlindir séu í þjóðareigu, tryggja að almenningur geti haft áhrif og hugsa fram á við.

Á þessari öld verða gífurlegar framfarir á sviði líf- og tölvutækni, matvælaframleiðslu og alls iðnaðar. Á sama tíma munu allir jöklar á eyjunni okkar skreppa saman í takt við hlýnun jarðar og yfirborð sjávar mun hækka. Stjórnmálahreyfingar sem hugsa af ábyrgð hugsa ekki bara um hvernig eigi að koma í veg fyrir mistök fortíðarinnar endurtaki sig, heldur líka hvernig eigi að búa þjóðina undir framtíðina. Rétt eins og fyrsta iðnbyltingin umbreytti öllu skólakerfi og byggðum Evrópu munu byltingar framtíðarinnar umbreyta því hvernig við vinnum, lifum og jafnvel hugsum. Það verður okkar verkefni að vinna úr þessum breytingum í sameiningu, forðast hætturnar og finna tækifærin.

Framtíðin er okkar ef við tökum hana í okkar hendur.

Kjósum Pírata og sköpum framtíðina saman.
PERSÓNUAFSLÁTTUR, SKERÐINGAR OG BORGARALAUN

Hækkum persónuafslátt

Sanngjarnasta leiðin til að lækka skatta er að hækka persónuafslátt. Píratar vilja hækka persónuafslátt strax á næsta ári um 7.000 kr. á mánuði. Takmarkið er að ná fram hækkun á afslættinum sem nemur 26.000 kr á kjörtímabilinu þannig að hann fylgi almennri launaþróun, og verður þá við lok kjörtímabilsins tæpar 78 þúsund krónur á mánuði. Það munar um minna.

Drögum úr skerðingu – allir mega vinna

Hækkun örorkulífeyris og lækkun krónu-á-móti-krónu skerðingar eru réttlætismál. Sama gildir um rétt aldraðra til að vinna án þess að missa áunnin réttindi. Nýtum reynslu og þekkingu í framtíðinni – þar sem hana vantar.

Ríkið á ekki að segja eldri borgurum hvar, hvort og hvernig þeir eigi að vinna, lifa eða njóta í ellinni.

Könnum borgaralaun til framtíðar

Skoðum leiðir til að tryggja öllum borgurum landsins skilyrðislausa grunnframfærslu í framtíð sem mun mótast af tækniþróun og sjálfvirknivæðingu. Allir eiga rétt á grundvallarlífsgæðum og tækifærum og það er á okkar ábyrgð að finna bestu leiðirnar til að tryggja öllum borgurum þessi sjálfsögðu réttindi.