Lögreglan var með mikla viðveru á Secret Solstice-hátíðinni síðastliðna helgi. Einkennisklæddir lögreglumenn gengu um svæðið en einnig var töluverður fjöldi óeinkennisklæddra lögreglumanna á svæðinu. Auk þess var lögreglan með eftirlitsmyndavélar áfastar á lögreglubíl sem var staðsettur við hátíðarsvæðið. Engin merki eða skilti tilkynntu hátíðargestum um að lögreglan væri að fylgjast með þeim með eftirlitsmyndavélum eins og lögreglu ber skylda til að koma fyrir við slíkar aðgerðir. Þá var lögreglan með fíkniefnaleitarhund inni á svæðinu, en Gunnar Hilmarsson aðalvarðstjóri tjáði undirritaðri að lögreglan ætlaði sér einungis að vera með hundinn fyrir utan hátíðarsvæðið. Gunnar Hilmarsson minntist ekki á að lögreglan hygðist vakta hátíðargesti með eftirlitsmyndavélum þegar undirrituð spurði hann hvers konar eftirliti lögreglan hygðist beita gagnvart hátíðargestum helgina sem leið.
Meðlimir Snarrótarinnar – samtaka um borgaraleg réttindi voru í Laugardalnum síðustu helgi að fylgjast með störfum lögreglu. Þau tóku meðal annars upp myndband af óeinkennsiklæddum lögreglumanni að framkvæma það sem virðist vera ólögmæt leit á einum hátíðargesta Secret Solstice-hátíðarinnar. Þau tóku einnig mynd af lögreglubílnum með eftirlitsmyndavélunum. Myndina má sjá hér að neðan og myndbandið má nálgast hér.
Engin heimild – engin skýrsla
Á myndbandinu sést hvernig óeinkennisklæddur lögreglumaður veður í vasa hátíðargests án þess að hafa fengið til þess leyfi og án þess að hafa heimild frá dómara. Lögreglan hefur ekki heimild til þess að gera slíkt nema í undantekningartilfellum. Þá sést lögreglumaðurinn ganga frá manninum að leitinni lokinni án þess að skrifa skýrslu um málið eins og honum ber skylda til þess að gera. Einnig má sjá hvernig lögreglumaðurinn kallar til hund til þess að þefa af manninum, hundurinn er ítrekað látinn hnusa af manninum en sýnir honum þó engan áhuga.
Hér sést óeinkennisklæddi lögreglumaðurinn líta í myndavélina
Vinstra megin við hátíðargestinn sést Björgvin Mýrdal, ritari Snarrótarinnar, ræða við lögreglu um stjórnarskrárbrotið sem verið er að fremja með leitinni. Björgvin kvað lögreglumanninn hafa svarað sér með dónaskap og spurt hvort hann kynni stjórnarskrána utan að. Þá hafi lögreglumaðurinn sagst vera að framkvæma öryggisleit á manninum en hana má lögregla ekki framkvæma nema við handtöku eða aðra frelsissviptingu einstaklinga (skv. 1. mgr. 17. gr. lögreglulaga). Sú staðhæfing lögreglumannsins er því augljóslega röng. Þá sést það einnig á myndbandinu að lögreglumaðurinn heldur í hendur mannsins. Að sögn Björgvins árreitti lögreglumaðurinn hátíðargestinn ítrekað með því að rífa hendur hans úr vösunum. Björgvin sagði lögreglumanninn hafa sagt að hátíðargesturinn gæti verið að teygja sig í vopn og að hann mætti ekki hafa hendur í vösum. Hátíðargesturinn svaraði því til að honum væri kalt, því vildi hann hafa hendur í vösum.
Ólíklegt að upptaka lögreglu hafi verið lögmæt
Hvað varðar eftirlitsmyndavélarnar sem lögreglan hafði á svæðinu ber þess að geta að lögreglu ber skylda til þess að setja upp skýr merki sem gera fólki viðvart um að löggæsla fari fram með eftirlitsmyndavélum. Því var ekki til að skipta á hátíðinni og því líklegt að lögreglan hafi með þessu verið að brjóta lög. Í reglugerð um meðferð lögreglu á persónuupplýsingum segir:11. gr. Rafræn vöktun. Þegar löggæsla fer fram með rafrænni vöktun á almannafæri skal með merki eða á annan áberandi hátt gera glögglega viðvart um þá vöktun.
Lögreglubíll með eftirlitsmyndavélaturn