Þó svo við legðum okkur fram, þá yrði eflaust erfitt að gleyma árinu sem nú er að líða – hinu leiðinlega en lærdómsríka ári 2020. Árinu sem við mættum í náttbuxum á fundi, lærðum mikilvægi þess að „mjúta sig“ og ferðuðumst innanhúss. Árið sem við lærðum að meta allt sem okkur þótti áður sjálfsagt; hvort sem það eru samverustundir með vinum og ættingjum, gönguferðir um grænu svæðin allt í kringum okkur eða bara að að þreifa á avókadóum í Bónus.
Þetta var líka árið sem við sáum hvernig framtíðin gæti litið út. Hvernig fjarfundir og tæknin munu gera okkur kleift að gjörbreyta vinnustöðum, stuðla að sveigjanlegri vinnutíma og draga úr bíla- og f lugumferð. Framtíðarsýn okkar Pírata um aukið gagnsæi í Kópavogi rættist einnig á árinu. Bæjarráð samþykkti þannig tillögur okkar um að birta ýmsar gagnlegar upplýsingar á vef bæjarins; eins og um laun og aðrar greiðslur til bæjarfulltrúa, margvísleg fylgigögn með fundargerðum og þá eru reglur um hagsmunaskráningu kjörinna fulltrúa á næsta leiti. Allt mun þetta stuðla að auknu aðhaldi og auknu trausti, sem svo styrkir lýðræðið í bænum.
Talandi um lýðræði. Í ár jukum við jafnframt aðkomu íbúa að skipulagsmálum í Kópavogi, eftir tillögu frá okkur í minnihlutanum. Í fyrsta sinn var framkvæmd könnun meðal íbúa til að meta ánægju þeirra með skipulag Glaðheimahverfisins. Þátttaka var góð, margar gagnlegar ábendingar komu fram, sem tekið var tillit til við skipulag næsta hluta hverfisins. Reynslan mun svo leiða til enn betri hverfa í framtíðinni, sem taka tillit til óska og þarfa þeirra sem þar munu búa og starfa.
Á árinu þurftum við einnig að bregðast við miður skemmtilegri þróun, sem segja má að snerti líka framtíðina. Í kjölfar fjölgunar ofbeldisbrota meðal ungmenna og myndbandsupptaka af ódæðunum lögðum við Píratar til að Kópavogsbær hæfi átak í málaflokknum. Bæjarráð samþykkti að hefja samræður við önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu um samstíga aðgerðir vegna ofbeldisins, og í nýrri framkvæmdaráætlun í barnaverndarmálum er áætlað að stofna ofbeldisteymi barnaverndar í Kópavogi.
Tilkynningum um líkamlegt ofbeldi verður þannig veitt sérstök athygli árið 2021 og stuðningur við börn sem hafa upplifað það verður stóraukinn.
Eftir langvarandi myrkur er nefnilega tvenns konar birta fram undan: Hátíð ljóssins með hækkandi sól og svo hið langþráða ljós við enda COVID-ganganna. Ég vona að þetta erfiða og lítilfjörlega ár reynist okkur lærdómsríkt, að það hafi varpað ljósi á það sem skiptir okkur raunverulega máli og hvernig við getum nýtt þá vitneskju til að byggja enn betri bæ. Ég óska þér og þínum gleðilegrar hátíðar og þakka ykkur fyrir seigluna á árinu sem nú er loksins að líða.