Píratar XP

Tundurskeyti á Alþingi

Oddviti Pírata í NA-kjördæmi skrifar um vinnubrögð á Alþingi

Í byrjun júní varð uppi fótur og fit á Alþingi þegar þingflokkur Pírata gerðist sekur um þá ósvinnu að leggja til breytingu á dagskrá þingsins, svo að hægt væri að taka fyrir frumvarp Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur, þingkonu VG og formanns atvinnuveganefndar Alþingis, um auknar strandveiðar í sumar.

Það þótti hin mesta fífldirfska og argasti dónaskapur að senda slíkt tundurskeyti, eins og það var orðað, inn í sali Alþingis á sama tíma og samningviðræður um þinglok (reyndar þingfrestun) stóðu sem hæst. Slíkar samningaviðræður snúast jú, eins og mörg vita, um það hvaða þingmál verða svæfð svefninum langa, þ.e. ekki afgreidd úr fastanefndunum til lokaatkvæðagreiðslu í þingsal, hvaða mál fá fullnaðarafgreiðslu frá Alþingi og síðast en ekki síst hvenær alþingisfólk kemst í langþráð sumarleyfi.

Gamla góða handritið
Þessir samningar fara fram eftir venjubundnu handriti:

  • Minnihlutinn segist hafa nægan tíma, ekkert liggi á, rigningarsumar sé hvort sem er í vændum, ýmis mikilvæg mál þurfi nú að koma til afgreiðslu, sum þeirra séu svo mikilvæg að málþóf komi til greina, sum mál meirihlutans séu svo alvarlega gölluð að þau verði að stöðva, o.s.frv.
  • Meirihlutinn lætur eins og honum liggi ekkert á, en nennir auðvitað ekki að búa við þá niðurlægingu að þurfa að hanga í þingsal mikið lengur en starfsáætlunin sagði til um, enda er það meirihlutinn sem ákveður hana, og íslenska sumarið lokkar.
  • Svo hefjast samningaviðræður. Stundum er minnihlutinn, sem ein heild, búinn að velja ákveðin þingmál sem verði að taka fyrir og einnig hvaða þingmálum meirihlutinn verði að fórna fyrir friðinn. Stundum kemur minnihlutinn lítt sameinaður til leiks og heldur þá hver flokkur fram sínum málum, jafnvel án þess að skeyta sérstaklega um vígstöðu hinna. Það hefur svo sem verið allur gangur á þessu í gegnum tíðina.

Niðurstaðan er alltaf sú að fjölmörgum ágætum málum er sópað í ruslið. Einungis 5-15% þingmála sem óbreyttir þingmenn standa að lifa slíka hreinsun af. Hinum er fórnað, jafnvel þótt um þau hafi verið fjallað með ítarlegum hætti, umsagnir borist um þau og ýmsir sérfræðingar og haghafar hafi komið á fundi fastanefnda þingsins vegna þeirra. En nóg um það.

Hvaðan kom tundurskeytið?
Svona að lokum má spyrja hver hafi sent umrætt tundurskeyti inn í þingið. Var það þingflokkur Pírata, með því að vilja taka umrætt frumvarp til umfjöllunar eða var það Lilja Rafney Magnúsdóttir, með því að leggja það fram tveimur mánuðum eftir að frestur til þess rann út og tveimur dögum eftir að starfsáætlun þingsins var felld úr gildi? Ætlaðist Lilja Rafney, og meðflytjendur hennar, ekki til þess að málið hlyti þinglega meðferð? Dæmi nú hver fyrir sig. Hvernig var nú aftur með traust almennings á Alþingi, átti ekki að bæta það?

Greinar eftir sama höfund

Skattarnir sem þú sérð ekki

Við Píratar erum stundum gagnrýnd fyrir það að tala mikið um aðgerðir...

Ólöglegar skerðingar?

Ég fékk mjög áhugaverða ábendingu um Tryggingastofnun (TR) í gær. Ég ætla...

Dýr eru dýrmæt í borgarsamfélaginu

Við í Reykjavíkurborg höfum ákveðið að sameina alla þjónustu við dýr í...

Skiljum fortíðina og sköpum framtíðina

Opnunarræða á aðalfundi Pírata, 21. ágúst.Síðustu 18 mánuðir hafa einkennst af umróti....

Píratar afhjúpuðu hláleg vinnubrögð Alþingis

Í gegnum tíðina hafi margir haft orð á því að starfshættir Alþingis...

Spilling er pólítísk ákvörðun

Píratar berj­ast gegn spill­ingu vegna þess að þannig sköpum við betra og...

On­lyFans, klám og ó­skyn­sam­legar refsingar

Umræðan um klám er mikilvæg og henni er hvergi nærri lokið. Það...

Rasismi gegn Íslendingum

Síðustu vikur og mánuði hef ég reynt að vera sýnileg í framboði...
X
X