Home Greinar Tíu þúsund þakkir

Tíu þúsund þakkir

Tíu þúsund þakkir
Álfheiður Eymarsdóttir

Píratar vilja þakka öllum sem studdu við framboðin okkar á Akureyri, Hafnarfirði, Ísafirði, Kópavogi, Reykjanesbæ, Reykjavík og samkurlsframboðin í Árborg, Garðabæ, Seltjarnarnesi og í Suðurnesjabæ þar sem fulltrúar Pírata sátu á listum með öðrum flokkum. 

Píratar náðu góðum árangri í Reykjavík þar sem þrír fulltrúar okkar eru nú í borgarstjórn, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Alexandra Briem og Magnús D. Norðdahl. Í Kópavogi situr Sigurbjörg Erla Egilsdóttir áfram fyrir hönd Pírata í bæjarstjórn. Áfram Árborg náði líka oddvita sínum í bæjarstjórn, sú heitir Álfheiður Eymarsdóttir Pírati og fyrrverandi varaþingmaður okkar fyrir Suðurkjördæmi. 

Önnur framboð höfðu ekki erindi sem erfiði og oddvitar í Reykjanesbæ, Ísafirði, Hafnarfirði og á Akureyri fengu ekki nægilegan atkvæðafjölda til að fá oddvita í bæjarstjórn. Í Hafnarfirði fengu Píratar 6,1% atkvæða, á Ísafirði fengust 4,6%, 4,1% í Reykjanesbæ og 3,1% á Akureyri. Í Kópavogi fengu Píratar 9,5% atkvæða og 11,6% atkvæða í Reykjavík. 

Samtals greiddu tæplega tíu þúsund kjósendur (9961) Pírataframboðum atkvæði í sex sveitarfélögum, þar af 6970 atkvæði í Reykjavík (samkvæmt kosningatölum mbl.is).

Reyndar verður að segjast að Píratar vilja einnig þakka öllum sem greiddu öðrum stjórnmálaflokkum atkvæði og kusu að nýta kosningarétt sinn. Það finnst okkur mikilvægt, því lýðræðið rúllar á kjósendum sem mæta. 

Kosningaþátttaka í sveitarstjórnarkosningum er þó áhyggjuefni þar sem hún var núna 66,7% á landsvísu sem er minna en árið 2018 þegar þátttakan var 67,6%. Minnst kosningaþátttaka var núna í Reykjanesbæ 47,4% en mest var hún í Vestmannaeyjum 80,9% (skv. mbl.is).

Það að fjórir af hverju 10 íbúum á kosningaraldri mæti ekki á kjörstað í mörgum sveitarfélögum er nokkuð sem allir stjórnmálaflokkar ættu að vinna að því að skoða og bæta úr ef hægt er. 

Kærar lýðræðiskveðjur og tíuþúsund þakkir fyrir traustið og stuðninginn, 
Alfa, eini bæjarfulltrúi Pírata utan höfuðborgarsvæðisins. 

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here