Píratar XP

Hvað kostar að semja við hjúkrunarfræðinga

Hvað kostar að semja við hjúkrunarfræðinga? Við Píratar höfum fjórum sinnum spurt Bjarna Benediktsson, fjármálaráðherra og handhafa samningsumboðs ríkisins í kjaramálum, þessarar einföldu en mikilvægu spurningar en ekki fæst hann til þess að svara. Þann 20. mars síðastliðinn, spurði Jón Þór Ólafsson Bjarna í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi, hvað það myndi kosta að ganga strax að samningum við hjúkrunarfræðinga. Bjarni lét það eiga sig í fyrstu atrennu að svara en þegar Jón Þór gekk á eftir svörum í síðari atrennu sagðist hann ekki vita það.

Tæpum tveimur vikum síðar spurði ég Bjarna, hvað það kostaði að semja við hjúkrunarfræðinga. Ég bar þá von í brjósti að fjármálaráðherranum sjálfum, hafi fundist það nógu vandræðalegt síðast að geta ekki svarað þessari einföldu en mikilvægu spurningu. Hann léti varla taka sig í bólinu í annað sinn? En það reyndist því miður raunin, Bjarni fékkst ekki til að svara með öðru en útúrsnúningum og ásökunum um ósmekklegheit af minni hálfu.

Vanvitund eða vanvilji?
Hvers vegna ætli Bjarni þykist ekki vita hvað það kosti að ganga að kröfum hjúkrunarfræðinga? Ætli það sé vegna þess að hann veit að það kostar minna heldur en steypan sem hann ætlar að eyða peningum ríkisins í á árinu? Eða ætli það sé vegna þess að hann veit að það fölnar í samanburði við þá launahækkun sem hann sjálfur ætlar sér að fá hvað úr hverju?

Eða ætli það sé virkilega þannig að fjármálaráðherra Íslands, handhafi samningsumboðs ríkisins í kjaramálum, hafi bara ekki viljað kynna sér það þetta heila ár sem hjúkrunarfræðingar hafa verið samningslausir?

Um smekk og smekkleysi

„Mér finnst þetta ósmekklegt“ var svar Bjarna við því að ég vísaði til þátttöku hans í jafnréttisátakinu HeForShe í tengslum við vilja- og getuleysi hans til þess að semja við hjúkrunarfræðinga. Bjarni hefur haft hvert tækifærið á fætur öðru til að sýna það í verki að hann meti störf kvenna raunverulega til jafns við karla. Hann hefur haft mörg ár til þess sem karl í valdastöðum en þrátt fyrir fögur fyrirheit og þrátt fyrir fagurgala um jöfn laun fyrir sambærilega vinnu er það á hans vakt sem fjármálaráðherra sem ekki nást kjarasamningar við hjúkrunarfræðinga í rúmt ár. Það var á hans vakt sem ljósmæður þurftu að sæta gerðardómi og það var líka á hans vakt sem hjúkrunarfræðingar máttu þola gerðardóm í stað samninga fyrir fimm árum síðan.

Bjarni sá ekki samhengið í því að vísa til þess að með HeForShe hafi hann skuldbundið sig til þess að nota áhrifamátt sinn sem karl í valdastöðu til þess að vinna að jafnrétti kynjanna með því að ganga til góðra og sanngjarnra samninga við þessar mikilvægu kvennastéttir. Nei, um átakið HeForShe sagði Bjarni að „[þ]ar höfum við hreinlega lagt verulega mikið af mörkum með fjöldamörgum viðburðum og höfum fengið mikið hrós fyrir þannig að ég átta mig ekki á því hvaða erindi upprifjun á því átaki á inn í umræðuna í dag.“

Í huga Bjarna snerist HeForShe aldrei um að „hann“ stæði með „henni“. Þetta snerist um ímynd. Bjarni hreinlega viðurkenndi það í þessari ræðu. Og honum fannst það ósmekklegt af mér að benda honum á hræsnina sem í þessu felst.

Við Bjarni Benediktsson deilum augljóslega ekki smekk. Honum finnst ósmekklegt að ég gefi lítið fyrir fínu viðburðina sem hann hélt í nafni jafnréttis á meðan ósamið er við hjúkrunarfræðinga. Mér finnst ósmekklegt að meira en ár hafi liðið án þess að Bjarni hafi séð til þess að samið væri við hjúkrunarfræðinga. Mér finnst ósmekklegt að vera fjármálaráðherra og geta ekki svarað því hvað það kostar að semja við hjúkrunarfræðinga. Og mér finnst ósmekklegt að enn sé ósamið við hjúkrunarfræðinga í miðjum, skæðum faraldri, sem eykur enn álagið á þessa mikilvægu kvennastétt, sem var þó meira en nóg fyrir.

Hvernig er spegilmyndin?

Við Píratar höfum reglulega látið kanna gildismat samfélagsins gagnvart forgangsröðun fjármuna ríkisins og það hefur komið í ljós ár eftir ár að fólk leggur langmesta áherslu á gott heilbrigðiskerfi. Vel fjármagnað og vel virkandi heilbrigðiskerfi.

Þrátt fyrir þetta hefur Landsspítalinn þurft að búa við stífar aðhaldskröfur ár eftir ár. Þrátt fyrir þetta hefur heilbrigðskerfið okkar verið vanfjármagnað ár eftir ár. Þrátt fyrir þetta erum við með fjármálaráðherra sem neitar ár eftir ár að semja við hjúkrunarfræðinga um sjálfsagða og eðlilega kjarabót – og neitar því enn.

Við lifum á tímum sem kalla á samfélagslega sjálfsskoðun. Við höfum nú tækifæri sem samfélag að líta vel og rækilega í spegil og spyrja okkur hvort verðmætamat samfélagsins endurspegli raunveruleg verðmæti? Hvort þetta sé samfélagið sem við viljum vera til framtíðar? Hvort við höfum kannski villst af leið í gildismati okkar?

Eða réttara sagt, hvort stjórnvöld endurspegli raunverulegt gildismat og verðmætamat þjóðarinnar?

Höfundur er þingmaður Pírata og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.

Upprunaleg birtingMannlíf

Borgarbúar skulu fá fyrsta flokks hjólastíga

Of oft þarf ég að grípa inn í tilvik þar sem mér finnst vanta upp á grænan...

Þetta vilja Píratar gera fyrir yngstu íbúa Kópavogs

Barn sem fæðist í dag á rétt á 12 mánaða fæðingarorlofi með forsjáraðilum sínum (gefum okkur að...

Kosningaframkvæmd 2022

Á laugardaginn er kjördagur og því utankjörfundi að ljúka. Því er ekki úr vegi að líta til...

Nóg komið

Ég veit ekki hvað mér þykir verst í þessu. Er það sjálf salan á Íslandsbanka, þar sem...

Hús­næðiskrísa!

Það er mikill skortur á húsnæði, það dylst engum. Það er ólíðandi ástand, ekki síst vegna þess...

Óheiðarleg stjórnmál

Oddviti Flokks fólksins í Reykjavík, Kolbrún Baldursdóttir, sat nýverið í oddvitaspjalli á Bylgjunni þar sem hlustendur gátu...

Þess vegna bjóðum við okkur fram

Við Píratar erum stundum sögð vera óvenjulegur stjórnmálaflokkur. Við stundum öðruvísi stjórnmál, til dæmis tökum við ekki...

Rasismi á Íslandi

Rasismi er vandamál á Íslandi eins og annars staðar í veröldinni. Íslenska lögreglan er þar ekki undanskilin....

Hversu löng eru fjögur ár?

Mig langar að stunda stjórnmál þar sem íbúar bæjarins fá að segja skoðun sína oftar en á...

Eru 4.300 í­búar Kópa­vogs hunsaðir?

Fjölmenningarráð hafa verið sett á fót í mörgum stórum og smáum bæjarfélögum. Þar má nefna Reykjavík, Hafnarfjörð,...
X
X
X