Píratar XP

Þegar Tyrkir þjörmuðu að þingmönnum

Andrés Ingi Jónsson hefur lagt fram tillögu á Alþingi um að Íslendingar viðurkenni þjóðarmorðið á Armenum

Fyrir rúmri öld var framið þjóðarmorð á Armenum. Íslenskum stjórnvöldum hefur reynst erfitt að horfast í augu við þessa einföldu staðreynd, ólíkt mörgum nágranna- og vinaþjóðum okkar. Nú hefur hópur alþingismanna, í sjöunda skipti, lagt til að Ísland viðurkenni þjóðarmorðið og heiðri þannig minningu fórnarlambanna. Tillagan sendir skýr skilaboð um að  Íslendingar haldi merkjum mannréttinda og mannúðar á lofti. Það eigum við alltaf að gera, sama hvaða þjóðir eiga í hlut, því vinur er sá sem til vamms segir.

Sagan skiptir máli

Það er ekki að ástæðulausu sem mannkynið rekur söfn í útrýmingarbúðum og helgar fórnarlömbum voðaverka daga í almanakinu. Það gerum við ekki til að hampa ódæðisverkunum – við gerum það til að gleyma þeim ekki. Til þess að minna okkur á hvað gerist þegar við mannúð og mennska gleymast. Til þess að blóðidrifin saga endurtaki sig ekki. Þjóðarmorð má því ekki þagga í hel og þess vegna hefur hópur alþingismanna upp raust sína í sjöunda sinn.

Í ályktun hópsins er saga þjóðarmorðsins á Armenum rakin. Farið yfir það hvernig Ungtyrkjar vildu byggja upp „hreint þjóðríki“ innan landamæra sinna, en til þess þurfti að víkja til hliðar mannréttindum fjöldamargra. „Hreinsa landið“ af fjölmennum hópum sem pössuðu ekki inn í þá mynd. Armenar voru langfjölmennasti hópurinn – töldu um 2 milljónir við upphaf fyrra stríðs – en einnig mætti nefna smærri þjóðarbrot Assýringa og Grikkja sem þurftu að þola ofsóknir. AUGLÝSING

Skelfileg skilyrðin til staðar

Þjóðarmorðið stóð yfir á árunum 1915 til 1917 og var, eins og gefur að skilja, skelfilegt. Gríðarlegir fólksflutningar í bland við pyntingar, aftökur og annað ofbeldi eru talin hafa dregið á bilinu 600 þúsund til 1,5 milljón menn, konur og börn til dauða. Aðförin gegn þessu fólki er jafnan talið fyrsta þjóðarmorð 20. aldarinnar enda uppfyllir hún öll skilyrði til að hljóta þann vafasama titil. 

Þrátt fyrir að sagan sé skýr og skilyrðin fyrir hendi hafa íslensk stjórnvöld ekki talið að um þjóðarmorð sé að ræða. Um þrjátíu ríki, þar á meðal grann- og vinaþjóðir okkar á borð við Danmörku, Svíþjóð og Þýskaland, segja atburðina 1915 til 1917 vera þjóðarmorð, en Ísland gerir það ekki. Joe Biden varð jafnframt á dögunum fyrsti Bandaríkjaforsetinn til að gera slíkt hið sama, en Ísland þorir enn ekki. Hvað veldur?

Tyrkir þrýstu á þingheim

Íslensk stjórnvöld hafa fengið mýmörg tækifæri til að taka af skarið í þessum efnum. Á Alþingi var Margrét Tryggvadóttir fyrst til að leggja fram tillögu um viðurkenningu á þjóðarmorðinu vorið 2012. Síðan þá hefur sambærileg tillaga verið lögð fram fimm sinnum, oftast með Margréti sem fyrsta flutningsmann, en tillögurnar hafa notið stuðnings þingfólks af öllu pólitíska litrófinu í áranna rás. Aðeins einu sinni hefur náðst að mæla fyrir tillögunni og koma henni til utanríkismálanefndar – en þar dagaði málið upp.

Það gerðist haustið 2012, eftir að Alþingi fékk nasasjón af þeim þrýstingi sem tyrknesk stjórnvöld beita gegn viðurkenningu á þjóðarmorðinu. Sendiherra Tyrklands setti sig í samband við íslenska þingmenn og lagði hart að þeim að samþykkja hana ekki. Þetta virðist vera föst leikflétta í handbók tyrkneskra diplómata. Þeir bregðast við af hörku gegn öllum tillögum sem reyna að heiðra minningu fórnarlamba þjóðarmorðsins, með því einu að nefna ódæðisverkin réttu nafni.

Þingmenn taka af skarið

Nú reynum við einu sinni enn. Í vikunni birtist í sjöunda sinn þingsályktunartillaga um að Ísland viðurkenni þjóðarmorð á Armenum, þetta skiptið með mig sem fyrsta flutningsmann. Auðvitað ætti svona mál ekki að vera á könnu einstakra þingmanna. Ríkisstjórnin ætti að fordæma svona glæpi miklu oftar. Sýna að Ísland sé sterk rödd í þágu mannréttinda og friðar á alþjóðasviðinu. Ríki sem hvorki hefur her né hergagnaframleiðslu, sem nýtur trausts. 

Stærsta ástæðan fyrir því að viðurkenna þjóðarmorðið á Armenum er þó ekki til þess að skora einhver ímyndarstig í útlöndum. Við eigum einfaldlega að kalla hlutina réttum nöfnum, fordæma þá og reyna að sporna við þeim. Við eigum að gera það til þess að gleyma ekki. Til þess að minna okkur á hvað gerist þegar við gleymum mannúð og mennsku. Til þess að blóði drifin saga endurtaki sig ekki.

Upprunaleg birtingKjarninn

Skrifa ummæli við þessa grein

Skrifaðu athugasemdina þína
Vinsamlegast sláðu inn nafnið þitt hér

Borgarbúar skulu fá fyrsta flokks hjólastíga

Of oft þarf ég að grípa inn í tilvik þar sem mér finnst vanta upp á grænan...

Þetta vilja Píratar gera fyrir yngstu íbúa Kópavogs

Barn sem fæðist í dag á rétt á 12 mánaða fæðingarorlofi með forsjáraðilum sínum (gefum okkur að...

Kosningaframkvæmd 2022

Á laugardaginn er kjördagur og því utankjörfundi að ljúka. Því er ekki úr vegi að líta til...

Nóg komið

Ég veit ekki hvað mér þykir verst í þessu. Er það sjálf salan á Íslandsbanka, þar sem...

Hús­næðiskrísa!

Það er mikill skortur á húsnæði, það dylst engum. Það er ólíðandi ástand, ekki síst vegna þess...

Óheiðarleg stjórnmál

Oddviti Flokks fólksins í Reykjavík, Kolbrún Baldursdóttir, sat nýverið í oddvitaspjalli á Bylgjunni þar sem hlustendur gátu...

Þess vegna bjóðum við okkur fram

Við Píratar erum stundum sögð vera óvenjulegur stjórnmálaflokkur. Við stundum öðruvísi stjórnmál, til dæmis tökum við ekki...

Rasismi á Íslandi

Rasismi er vandamál á Íslandi eins og annars staðar í veröldinni. Íslenska lögreglan er þar ekki undanskilin....

Hversu löng eru fjögur ár?

Mig langar að stunda stjórnmál þar sem íbúar bæjarins fá að segja skoðun sína oftar en á...

Eru 4.300 í­búar Kópa­vogs hunsaðir?

Fjölmenningarráð hafa verið sett á fót í mörgum stórum og smáum bæjarfélögum. Þar má nefna Reykjavík, Hafnarfjörð,...
X
X
X