Þegar (lögreglu)maður drepur mann

Snemma morguns annan dag desembermánaðar 2013 féll Sævar Rafn Jónsson fyrir hendi lögreglu. Dauði Sævars markaði tímamót í Íslandssögunni: Þetta var fyrsta skiptið sem lögreglan beitti skotvopnum í aðgerðum sínum og, það sem meira er, fyrsta dauðsfallið  af þeirra völdum.[1] Umfjöllun fjölmiðla um þetta mál hefur verið afar lítil, í raun ótrúlega lítil miðað við hve sögulegt og grafalvarlegt atvik er um að ræða.  Nú, hálfu ári síðar er ótalmörgum spurningum enn ósvarað: Var drápið á Sævari virkilega óumflýjanleg nauðsyn? Munum við einhvern tímann fá viðunandi svör við því?

Það sem við vitum

Við vitum að Sævar var heima hjá sér að morgni þessa dags, hann var með skotvopn og er talinn hafa byrjað að skjóta um klukkan eitt eftir miðnætti. Lögreglan mætti á vettvang tveimur tímum síðar og um sexleytið var Sævar helsærður. Í raun vitum við mjög lítið um hvað átti sér stað þessa þrjá tíma sem umsátrið stóð. Við vitum að sérsveit ríkislögreglustjóra og um fimmtán til tuttugu lögreglumenn aðrir tóku þátt í aðgerðum þessa afdrifaríku nótt. Við vitum að Sævar hleypti af miklum fjölda skota og að tvö þeirra hæfðu lögreglumenn. Önnur málsatvik eru óljós og ótal spurningum er ósvarað. Ríkissaksóknari hefur yfirumsjón með rannsókn málsins og ætla má að hún gefi út skýrslu um málsatvik innan nokkurra vikna. Sú skýrsla mun vonandi varpa meira ljósi á hvað gerðist og svara þessum spurningum sem sitja í mér – og vonandi fleirum.

Er ríkissaksóknari rétti aðilinn til þess að rannsaka málsatvik?

Á meðan við bíðum skýrslu ríkissaksóknara má spyrja sig hvort núverandi kerfi geti ákvarðað á hlutlausan hátt um aðgerðir lögreglu. Er lögreglan rétta stofnunin til þess að rannsaka lögregluna? Embætti ríkissaksóknara er vissulega sjálfstæð stofnun en hún á í nánu daglegu samstarfi við lögregluna. Í máli Sævars er ríkissaksóknari formlega handhafi rannsóknarvaldsins og yfirmaður annara rannsóknarmanna en engar upplýsingar fást um þá lögreglumenn sem standa að rannsókninni með henni. Í svari ríkissaksóknara við fyrirspurn höfundar um hvernig hlutleysi þeirra lögregluþjóna er standa að rannsókn  málsins sé tryggt svarar hún meðal annars:

„Þeir starfsmenn embættis sérstaks saksóknara og lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, þ.m.t. starsmenn tæknideildar, starfa undir beinni stjórn ríkissaksóknara við rannsókn málsins. Ríkissaksóknari fær þá að láni ef svo má að orði komast. Þeirra daglegu yfirmenn hafa hins vegar ekkert yfir þeim að segja við þessa rannsókn ríkissaksóknara á atvikum í Hraunbæ 20.“

Það má því færa sterk rök fyrir því að margir þeirra lögreglumanna sem rannsaka málsatvik skotbardagans tilheyri í raun sama lögregluumdæmi og þeir sem tóku þátt í aðgerðum lögreglu umrætt kvöld. Það sama gildir um tæknideild lögreglu sem rannsakaði vettvang í Hraunbæ – tæknideild lögreglu er jú einungis ein og heyrir undir embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Tæknideildin er því að rannsaka kollega sína og samstarfsmenn. Lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins hefur einnig hlutverki að gegna samkvæmt fréttartilkynningu á vef ríkissaksóknara:

„Atriði sem varða forsögu mannsins sem lést, handhöfn og meðferð hans á skotvopni, sem og annað er hann varðar, er á forræði lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu að rannsaka, allt eftir því sem hann telur tilefni til.“

Þess ber að geta að engum þeirra lögreglumanna sem tóku þátt í aðgerðum var gert að víkja úr starfi á meðan rannsókn málsins fer fram.

Verður ekki að teljast bráðnauðsynlegt að rannsókn á dauðsfalli af völdum lögregluaðgerða sé yfir alla gagnrýni hafin? Spurningin um hver skal gæta gæslumannanna er ekki ný af nálinni og hún á sannarlega vel við hér. Er það virkilega ásættanlegt að lögreglumenn rannsaki lögreglumenn sem tilheyra sama umdæmi og þeir sjálfir?

Alls ekki, ef marka má dómsorð Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE). Dómstóllinn á sér langa málasögu þar sem ítarlega er farið yfir hvernig stjórnvöldum aðildarríkja Mannréttindasáttmála Evrópu (MSE) ber að framkvæma svokallaðar „skilvirkar rannsóknir“ á grunsamlegum dauðsföllum, þá sérstaklega þeim sem verða af völdum opinberra starfsmanna. Íslenskum stjórnvöldum ber skylda til þess að framkvæma slíka rannsókn á grundvelli annarrar greinar MSE sem tryggir réttinn til lífs.

Réttur til lífs og hvað í honum felst

Önnur grein MSE felur í sér að réttur allra til lífs er ófrávíkjanlegur nema í örfáum ítarlega skilgreindum tilfellum. Það má því einungis taka líf annarra ef um framfylgd dauðarefsingar að loknum réttarhöldum er að ræða eða þá í algerri nauðsyn og neyð í sjálfsvörn eða til varnar lífi og heilsu annarra.[2]  Þegar um seinni undantekninguna er að ræða (en einnig þegar um hvers kyns grunsamleg eða óeðlileg dauðsföll er að ræða) þá leiðir hún af sér skyldu til þess að framkvæma skilvirka rannsókn á dauðsfallinu.  Þetta er svokölluð réttarfarsleg skylda og MDE hefur skilað inn fjölda dóma sem útlista þær ýmsu skyldur og aðferðir sem ríkjum ber að fara eftir í þessum málum.[3]

Til að rannsókn geti talist „skilvirk“  („effective“) verður hún að vera óháð, fljótvirk, ítarleg og aðgengileg almenningi og fjölmiðlum (og sérstaklega fjölskyldu hins látna).

Til þess að rannsókn geti talist óháð mega rannsakendur ekki tilheyra sömu stofnun og þeir sem verknaðinn frömdu né heldur mega þeir tengjast stigveldisböndum (þ.e. hvorki vera yfir- né undirmenn þeirra sem rannsakaðir eru). Að lokum skulu rannsakendur vera óháðir og sjálfstæðir frá þeim sem rannsóknin snýr að bæði í orði og á borði (þ.e. „a practical independence“).[4]  Það er einnig alveg ljóst að það nægir ekki að sjálfstæð stofnun (lesist: Ríkissaksóknari) hafi yfirumsjón með starfi tengdra aðila, til þess að um óháða rannsókn sé að ræða ef mannskapurinn sem hún nýtir til verksins er ekki óháður og/eða ótengdur þeim sem rannsókninni sæta.[5]

Það gefur augaleið að þegar sönnunargögnum er safnað og vitnaskýrslur eru teknar af lögreglumönnum sem tilheyra sama umdæmi og þeir sem til rannsóknar eru getur rannsóknin ekki talist óháð í þessum skilningi.[6] Langt í frá.  Svarið við því hver skuli gæta gæslumannanna er nefnilega einmitt ekki hinir gæslumennirnir í borginni.

Hvað varðar fljótvirkni og ítarleika þá er erfiðara að gera því skil hvort því hafi verið fylgt eftir fyrr en við sjáum skýrslu ríkissaksóknara. Ítarleiki, samkvæmt MSE, felur í sér að ríkið noti allar helstu aðferðir við rannsókn glæpa sem viðurkenndar eru í þessum vísindum, m.a. við krufningu, tæknirannsókn, viðtöl við vitni og fleira. Hvort rannsókn teljist fljótvirk eða ekki fer svo algerlega eftir hverju máli fyrir sig.

En hvað með gagnsæi? Aðgengi almennings og fjölmiðla að rannsókn málsins? Aðgengi þeirra að ítarlegum upplýsingum um niðurstöðu rannsóknarinnar? Fréttir af þessu máli hafa verið óvenju fáar í ljósi þess hve alvarlegt  og mikilvægt það er í raun og veru, og þar af leiðandi fréttnæmt – mundi maður halda. Að auki hefur megnið af fréttaflutningnum snúið að erfiðri og átakafullri fortíð Sævars, að geðrænum veikindum hans og vímuefnaneyslu og þá sérstaklega um hvernig kerfið brást honum, fremur en atburðarásina sem leiddi til þess tímamótaatburðar að hann var að lokum skotinn til bana af lögreglumanni. Ríkissaksóknari og lögregla hafa veitt lágmarksupplýsingar og hafa í raun ekkert tjáð sig um þessa rannsókn frá því í desember síðastliðnum.

Annað sem torveldar aðgang almennings að rannsókn málsins er að verklagsreglur ríkislögreglustjóra um beitingu skotvopna eru trúnaðarmál á Íslandi.[7] Mikilvægir hagsmunir lögreglu eru tilteknir sem réttlæting á þessu fyrirkomulagi en birting þessara reglna er sögð geta stefnt lögreglu í hættu í aðgerðum sínum. Það verður því erfitt fyrir almenning að ákvarða hvort settum reglum hafi verið fylgt í þessu máli sem öðrum. Lögregluyfirvöld í öðrum löndum, til dæmis Hollandi, Danmörku, Kanada og Þýskalandi, þar sem beiting skotvopna er mun algengari, virðast þó ekki hafa sömu áhyggjur og kollegar þeirra hér á landi. Þar má auðveldlega nálgast reglur um beitingu skotvopna á netinu.[8]

Við ættum samt að spyrja spurninga

Dauði Sævars vakti strax í upphafi margar spurningar um hvernig kerfið hefði getað staðið sig betur í lífi Sævars. Hann lenti endurtekið í nauðungarvistun á geðspítala, hann var handtekinn oftar en einusinni og oftar en tvisvar, og hann hótaði fjölskyldu sinni margítrekað. Lögreglan og önnur yfirvöld vissu af þessum hótunum en aðhöfðust ekkert. Umræðan rumskaði í örskamma stund um að Íslendingar ættu kannski að endurskoða hvernig velferðarkerfið meðhöndlar þá einstaklinga er kljást við geðræn veikindi eða fíkn. Meira var það nú ekki. Og það er bara alls ekki nóg.

Ég vil sjá Íslendinga krefjast sjálfstæðrar stofnunar sem fer með rannsókn á aðgerðum lögreglu og tekur við kvörtunum og kærum á hendur henni. Ég vil líka að málsmeðferðin í slíkum málum sé gagnsæ og aðgengileg almenningi. Núverandi kerfi hefur verið gagnrýnt af fulltrúa Evrópunefndar Evrópuráðsins um forvarnir gegn pyntingum og ómannúðlegri eða niðurlægjandi meðferð eða refsingu og hér heima af Umboðsmanni Alþingis fyrir skort á gagnsæi og aðgengilegum og skýrum málsmeðferðarreglum. [9]

Þess ber að geta að höfundur er ekki að ásaka saksóknara né þá lögregluþjóna er standa að rannsókninni á dauða Sævars um hlutdrægni, hvað þá um að þau vinni ekki faglega að rannsókn málsins. Þessarri grein er einfaldlega ætlað að benda á að þegar maður deyr vegna aðgerða lögreglu er afskaplega mikilvægt að rannsókn þess máls sé hafin yfir alla gagnrýni og fari eftir settum reglum.

Sem betur fer virðist lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins vera sammála höfundi. Nýlega skrifaði Stefán Eiríksson pistil um eftirlit með starfsemi lögreglu í vefritinu Kjarnanum.[10] Pistlinum er ætlað að svara „gagnrýnisröddum“ um að núverandi eftirlitskerfi skorti sjálfstæði. Í pistlinum fer Stefán svo yfir það margvíslega innra og ytra eftirlit sem haft er með aðgerðum lögreglu af hinum ýmsu stofnunum. Hann fer líka lauslega yfir hlutverk ríkissaksóknara í þessu samhengi og minnist á að sumum þyki það óheppilegt að stofnun sem vinni eins náið með lögreglu og raun ber vitni skuli hafa það undir höndum að rannsaka aðgerðir hennar.  Að lokum ályktar Stefán að það beri að íhuga alvarlega að setja á laggirnar sjálfstæða stofnun til þess að sinna eftirliti með lögreglu þar sem það myndi auka traust almennings til lögreglunnar enn frekar.  Enda er meginástæða skyldunnar til þess að framkvæma skilvirka rannsókn byggð á því að fullvissa almenning um að lögreglan hafi farið rétt með einokunarvald sitt á ofbeldi.[11]

Pistill Stefáns er frábær byrjun að mati höfundar og ég vonast til þess að sjá tillögu hans rædda á þingi í náinni framtíð. Íslenskt réttarkerfi þarfnast nefnilega óháðrar stofnunar til þess að rannsaka mál sem þessi. Stofnun sem byggir á gagnsæjum málsmeðferðarreglum sem er aðgengileg almenningi. Það þarf nefnilega að vera hafið yfir allan vafa að lögreglan verði fólki aldrei að bana nema ítrasta nauðsyn krefji, eins og Mannréttindasáttmáli Evrópu kveður á um.

2. gr.  MSE: Réttur til lífs.

1. Réttur hvers manns til lífs skal verndaður með lögum. Engan mann skal af ásettu ráði svipta lífi, nema sök sé sönnuð og fullnægja skuli refsidómi á hendur honum fyrir glæp sem dauðarefsingu varðar að lögum.

2. Þótt mannsbani hljótist af valdbeitingu skal það ekki talið brjóta í bága við þessa grein ef valdbeitingin er ekki meiri en ýtrasta nauðsyn krefur:

a. til að verja menn gegn ólögmætu ofbeldi;

b. til að framkvæma lögmæta handtöku eða til að koma í veg fyrir flótta manns sem er í lögmætri gæslu;

c. vegna löglegra aðgerða sem miða að því að bæla niður uppþot eða uppreisn.

Þessi grein birtist upphaflega á Grapevine.is. Ljósmynd tók Sigtryggur Ari Jóhannesson.

Heimildir:

[1] Sjá hér.

[2] Sjá t.d. Oğur v. Turkey [GC], nr. 21594/93, málsgrein 78, MDE 1999‑III. Þetta er reyndar ákveðin einföldun á túlkun dómstólsins, en skyldan til þess að framkvæma skilvirka rannsókn byggist einnig á þrettándu grein MSE sem er Réttur til raunhæfs úrræðis til að leita réttar síns.

[3] Sjá t.d. Ramsahai and others v. The Netherlands [GC], nr. 52391/99, málsgrein 322, MDE 2007; Tahsin Acar v. Turkey[GC], nr. 26307/95, málsgreinar 222 og 223, ECHR 2004‑III; Eitt af þekktustu málum MDE og með þeim fyrstu um skilvirkar rannsóknir er svo: Kelly et al. v. The United Kingdom, Nr. 30054/96, 2001.

[4] Sjá t.d : Edwards v. United Kingdom [2002] 35 EHRR 19, málsgrein 70.

[5] Aktaş v. Turkey, nr. 24351/94, málsgrein 337, 2003; Ramsahai and others v. The Netherlandsmálsgrein 322.

[6] MDE hefur ítrekað dæmt brot á annari grein MSE ef um slík málsatvik er að ræða, sjá t.d. : Hugh Jordan v. the United Kingdom, nr. 24746/94, málsgrein 120,  2001, og McKerr v. the United Kingdom, nr. 28883/95, málsgrein 128, ECHR 2001-III. Nú eða Ramsahai and others v. The Netherlandsmálsgreinar 337 og 341.

[7] Sjá úrskurð  úrskurðarnefndar um upplýsingamál frá 5. maí 2014.

[8] Hér er hlekkur á beitingu skotvopna í Danmörku (byrjar á 18. grein). Enska þýðingu á reglum um beitingu skotvopna hollenskra lögregluþjóna má svo finna hér: Ramsahai and others v. The Netherlandsí kafla II. D; Her eru svo reglurnar fyrirKanada – nú eða Þýskaland.

[9] Report to the Icelandic Government on the visit to Iceland carried out by the European Committee for the Prevention of Torture and Inhuman or Degrading Treatment or Punishment (CPT), From 18-24 September 2012, Adopted on 8 March 2013.

Fyrirspurnarbréf Umboðsmanns Alþingis sem og ábendingar hans er lúta að eftirliti með störfum lögreglu. Sent 30. desember 2013.  Þess má geta að svar hefur ekki borist frá Innanríkisráðuneytinu.

[10] Sjá hér.

[11] Ramsahai and others v. The Netherlandsmálsgrein 325.

Upprunaleg birtingKvennablaðið

Kommentakerfi Pírata

Og ólögum eyða

Þegar öryggi okkar er ógnað hugsum við gjarnan um eigin hag en ekki annarra. Það er eingöngu...

On­lyFans, klám og ó­skyn­sam­legar refsingar

Umræðan um klám er mikilvæg og henni er hvergi nærri lokið. Það eru margir vinklar á henni...

Píratar í 10 ár og meira

Píratahreyfingin er 16 ára gömul á heimsvísu en 10 ára gömul á Íslandi. Árið 2013 tóku Píratar...

Borgarbúar skulu fá fyrsta flokks hjólastíga

Of oft þarf ég að grípa inn í tilvik þar sem mér finnst vanta upp á grænan...

Þegar kerfið segir nei

Þegar sambandsslit ganga vel eru þau samt erfið. Þegar þau ganga illa og annar aðilinn fæst jafnvel...

Áratugur í Íslenskum stjórnmálum

Það er sagt að vika sé langur tími í pólitík, svo það hlýtur að teljast ágætt að...

A Decade in Icelandic Politics

There is a saying that a week is a long time in politics, so the fact that...

Manneskjan í jakkafötunum

Áður en ég byrjaði í stjórnmálum sá ég þingmenn alltaf fyrir mér sem fólk í jakkafötum og...

Destroyed by Unjust Law

We tend to think of our own interests rather than others when our safety is threatened, but...

Og ólögum eyða

Þegar öryggi okkar er ógnað hugsum við gjarnan um eigin hag en ekki annarra. Það er eingöngu...

Börn í kerfinu þola enga bið

Samfélagið hefur nú heyrt hræðilegar og átakanlegar sögur af reynslu kvenna sem hlutu úrræði á Laugalandi í...

Suðvesturkjördæmi tapar þingmanni

Okkur mun ekki skorta áskoranir á nýju ári. Farsóttir, náttúruhamfarir og sveitarstjórnarkosningar auk þess sem Alþingi hefur...

Meina þingmenn það sem þeir sögðu?

Ríki heims stefna á að vinna langtum meira jarðefnaeldsneyti en óhætt er, ætli þau að ná markmiðum...

Lýðræði er miklu meira en bara kosningar

Slagorð Pírata fyrir alþingiskosningarnar er „Lýðræði - ekkert kjaftæði“ og ekki að ástæðulausu.  Píratar voru stofnaðir til þess...

Skattarnir sem þú sérð ekki

Við Píratar erum stundum gagnrýnd fyrir það að tala mikið um aðgerðir gegn spillingu. Það sé óþarfi...

Ert þú með lægri laun en þing­maður?

Píratar telja að skattkerfið eigi að vera tvennt: Stigvaxandi (á ensku: progressive) og grænt. Það þýðir annars vegar að...