
Nú er hálft ár liðið síðan kórónaveiran umbylti hversdagsleikanum sem tók skyndilega miklum breytingum. Það er ljóst að við erum líklega ekki á leið í fyrra horf alveg á næstunni og raunverulega er spurning hvort við ættum nokkuð að stefna á að fara aftur í fyrra horf.
Faraldurinn hefur sýnt okkur að vísindin skipta máli. Sérfræðiþekking er mikilvæg. Það að fylgja ráðum fagfólksins okkar getur greint á milli lífs og dauða. Við ættum því að hlusta þegar vísindamenn vara okkur við aðsteðjandi hættu. Það getur bjargað lífi okkar.
Kórónaveirufaraldurinn er nefnilega ekki pólitískt mál. Þetta virðumst við öll geta verið sammála um og þau lönd sem hafa tæklað faraldurinn hvað best hafa leyft sérfræðingum að eiga sviðið. En þannig er mál með vexti að loftslagsbreytingar eru heldur ekki pólitískt mál, eða ættu í það minnsta ekki að vera það. Að okkur steðjar hætta, raunveruleg og alvarleg ógn, vegna loftslagsbreytinga. Við höfum treyst sérfræðingunum hvað varðar viðbrögð við COVID-19 og það hefur skilað góðum árangri. Af hverju gerum við ekki hið sama fyrir loftslagið?
Staðreyndin er sú að við þurfum að bretta upp ermarnar, nú sem aldrei fyrr. Við höfum takmarkaðan tíma til þess að sporna við hlýnun jarðar. Allar okkar aðgerðir þurfa að taka mið af því hverjar afleiðingarnar af þeim eru til lengri tíma fyrir loftslagið. Allar okkar aðgerðir.
Sveitarstjórnir heimsins, sérstaklega í hinum vestræna heimi, bera mikla ábyrgð í baráttunni við hlýnun jarðar. Það er þeirra hlutverk að ganga fram með góðu fordæmi ásamt því að búa svo í haginn að almenningur og fyrirtæki geti á auðveldan máta minnkað vistspor sitt. Það er okkar hlutverk að skipuleggja sjálf bæra byggð með þjónustu í nærumhverfi og innviðum fyrir virka samgöngumáta.
Nú líður að því að sveitarstjórnir fari að vinna fjárhagsáætlun fyrir næsta ár. Ljóst að aðstæður fyrir fjárhagsáætlunargerð eru mjög óvenjulegar, en í því felast tækifæri til að hugsa öðruvísi. Við þurfum til dæmis að hefja loftslagsmat á öllum okkar fjárfestingum. Það ætti reyndar að vera jafn sjálfsagt og kostnaðarmat. Nú er tími til þess að huga að loftslagsbreytingum í öllum okkar aðgerðum, með grænum innkaupum, grænum fjárfestingum og grænu skipulagi. Af hverju er látið eins og loftslagsáhrif ákvarðana skipti minna máli en fjárhagsleg?
Sveitarfélög landsins hafa einstakt tækifæri til að standa undir mannaflafrekum, grænum framkvæmdum. Má þarf nefna sem dæmi skógrækt, gerð hjóla- og göngustíga, uppsetningu hraðhleðslustöðva, þróun lausna til að veita þjónustu bæjarfélagsins í gegn um netið í ríkari mæli og hvetja fyrirtæki til að veita þjónustu í heimabyggð.
Nú er rétti tíminn til að sýna í verki að við forgangsröðum í þágu umhverfisins og heilsu og líðanar bæði íbúa og jarðarinnar okkar, líkt og þríeykið knáa hefur gert í baráttunni við COVID-19. Fyrir okkur öll og komandi kynslóðir.
Höfundur er bæjarfulltrúi Pírata í Kópavogi.