Takmarkanir tjáningarfrelsisins

Tjáningarfrelsið er mér einstaklega dýrmætt enda grunnforsenda fyrir þáttöku í lýðræðislegu þjóðfélagi. Í stuttu máli felur tjáningarfrelsið í sér rétt okkar allra til þess að hafa skoðanir og hugmyndir og deila þeim með öðrum án afskipta ríkisvaldsins. Sömuleiðis felur tjáningarfrelsið í sér rétt okkar til þess að kynna okkur skoðanir og hugmyndir annarra án afskipta ríkisvaldsins. Þessi mikilvægu réttindi eru þó ekki án takmarkana.

Í kjölfar Charlie Hebdo árásanna í fyrra skrifaði ég grein sem ber heitið Málfrelsi á mannamáli. Í greininni útskýrði ég hvernig tjáningarfrelsi er skilgreint af Mannréttindasáttmála Evrópu og túlkað af Mannréttindadómstól Evrópu. Til stóð að skrifa aðra grein um takmarkanir tjáningarfrelsisins en sú áætlun tafðist einhverra hluta vegna fram til dagsins í dag. Viðfangsefnið er þó alveg jafn mikilvægt og viðeigandi núna og það var í fyrra: Ör fjölgun flóttamanna og sívaxandi ótti við áhrif þess á vestræn samfélög draga iðulega upp ágreining um frelsi fólks til að tjá sig um þessi mál. Oft virðist þó gæta misskilnings um það hvað felst í tjáningarfrelsi, hvenær segja má að um skerðingu á tjáningarfrelsi sé að ræða og hvað teljist brot  gegn tjáningarfrelsi.

Tjáningarfrelsið er ekki absólút fyrirbrigði og orðum fylgir ábyrgð. Enda er það almennt samþykkt og viðurkennt innan evrópsks réttarkerfis að takmarka megi tjáningarfrelsi eins í þágu réttinda annarra, sé löglega að því staðið.

Tjáningarfrelsið felur í sér skyldu yfirvalda til að hafa ekki óþörf og ólögleg afskipti af tjáningu borgaranna. Skerðing á tjáningarfrelsi á sér stað þegar yfirvöld hvers kyns – og er þá átt við til dæmis dómara, embættismenn, lögreglumenn og ráðherra – beita valdi sínu á einn eða annan hátt til þess að takmarka, koma í veg fyrir eða refsa fyrir tjáningu einstaklinga. Brot á tjáningarfrelsi einstaklinga á sér stað þegar þessi sömu yfirvöld skerða tjáningarfrelsi einstaklinga með ólögmætum hætti.

Algengur misskilningur um tjáningarfrelsið er sú trú að gagnrýni eins á tjáningu annars feli í sér skerðingu á tjáningarfrelsi.

Öllu alvarlegri er sá misskilningur að tjáningarfrelsið feli í sér rétt til þess að segja og tjá hvað sem manni sýnist, hvenær sem manni sýnist og hvernig sem manni sýnist. Réttindi eins má ekki og á ekki að nota til þess að brjóta á rétti annarra. Rétt eins og okkur dytti ekki í hug að trúfrelsi sé svo algert að ákveðinn trúflokkur megi fórna börnum vegna þess ritning þeirra fyrirskipar slíkt, eða að félagafrelsi þýði rétt til þess að vera í alþjóðlegum samtökum líffærasmyglara, þá gefur tjáningarfrelsið okkur ekki rétt til þess að hóta öðrum lífláti, hvetja til ofbeldis gagnvart öðrum eða bera út róg um hóp fólks byggt á þjóðerni þeirra eða trúarbrögðum, kynhneigð, kyni eða öðru því um líku, svo nokkur dæmi séu nefnd.

Lögmæt skerðing á tjáningarfrelsi: Þrjú skilyrði

10. grein Mannréttindasáttmála Evrópu tryggir öllum borgurum aðildarríkjanna tjáningarfrelsi. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur margsinnis fjallað um tjáningarfrelsið í dómum sínum og þar má einnig finna skýr viðmið um ásættanlegar og löglegar takmarkanir á tjáningu einstaklinga.

Til þess að skerðing á tjáningarfrelsi einstaklinga geti talist lögmæt verður þremur skilyrðum að vera fullnægt:

Í fyrsta lagi má ríkisvaldið ekki skerða tjáningu fólks án þess að hafa til þess heimild í lögum. Dæmi um lög sem takmarka tjáningu fólks eru meiðyrðalöggjöfin og þau ákvæði almennra hegningarlaga er banna hótanir og hatursorðræðu. Annað dæmi um slíka löggjöf er trúnaðarskylda lögreglumanna og annarra embættismanna um ýmsar upplýsingar sem þeir fá vegna starfa sinna.

Í öðru lagi verða lögin sem um ræðir að vera samin í lögmætum tilgangi.  Lögunum verður þannig að vera ætlað að vernda réttindi annarra eða hagsmuni samfélagsins í heild. Tjáningarfrelsisákvæði Mannréttindasáttmálans inniheldur upptalningu á því hvaða hagsmunir teljast „lögmætur tilgangur.“

Lög mega skerða tjáningu borgaranna „[…] vegna þjóðaröryggis, landvarna eða almannaheilla, til þess að firra glundroða eða glæpum, til verndar heilsu eða siðgæði manna, mannorði eða réttindum og til þess að koma í veg fyrir uppljóstran trúnaðarmála eða til þess að tryggja vald og óhlutdrægni dómstóla.“

Þannig ætti lögmætur tilgangur meiðyrðalöggjafarinnar að vera að vernda mannorð annarra gagnvart opinberum rógburði og lygum. Lög um trúnaðarskyldu opinberra starfsmanna hafa þann tilgang að koma í veg fyrir uppljóstran trúnaðarmála og einnig að tryggja rétt borgaranna til friðhelgi einkalífs. Loks ætti lögmætur tilgangur laga gegn hótunum og hatursorðræðu að vera að firra glundroða eða glæpum og til verndar heilsu, mannorði og réttinda annarra.

Þriðja skilyrðið fyrir lögmætri skerðingu tjáningarfrelsis er í senn það flóknasta og það mikilvægasta; skerðingin verður að teljast nauðsynleg í lýðræðislegu þjóðfélagi. Til þess að dómstóllinn líti svo á að um nauðsynlega skerðingu hafi verið að ræða þurfa yfirvöld að sýna fram á að þau hafi gætt meðalhófs við ákvörðun sína. Gæta verður jafnvægis milli hins lögmæta tilgangs sem vernda á með skerðingunni sem um ræðir (lesist: „vegna þjóðaröryggis, landvarna eða almannaheilla…“) gagnvart rétti einstaklingsins til tjáningar. Skerðing á tjáningarfrelsi má aldrei ganga lengra en þörf krefur til þess að mæta hinum lögmæta tilgangi.

Þannig gæti það varla talist nauðsynlegt í lýðræðisþjóðfélagi að vernda blygðunarkennd borgaranna með fangelsisdómum yfir geirvörtufrelsandi konum. Sömuleiðis má draga í efa að ásættanlegt sé að dæma fólk í fangelsi fyrir brot á meiðyrðarlögum.

Þegar Mannréttindadómstóllinn meðhöndlar kærur er varða skerðingu á tjáningarfrelsi einstaklinga ber yfirvöldum landsins sem kæran beinist gegn að sýna fram á að þau hafi fullnægt öllum ofangreindum skilyrðum.  Ef svo var ekki er líklegt að dómstóllinn dæmi á þá leið að viðkomandi land hafi gerst brotlegt við 10. grein Mannréttindasáttmála Evrópu.

Mannréttindadómstóllinn hefur úrskurðað að íslensk yfirvöld hafi gerst brotleg gagnvart tjáningarfrelsi einstaklinga innan íslenskrar lögsögu fimm sinnum, þar af þrisvar gagnvart sama einstaklingi. Í öllum tilfellum höfðu íslenskir dómstólar ekki athugað hvort skerðing á tjáningarfrelsi einstaklinganna sem kærðu hafi verið nauðsynleg í lýðræðislegu samfélagi. Í öllum tilfellum komst Mannréttindadómstóllinn að þeirri niðurstöðu að skerðingin hafi einmitt ekki verið nauðsynleg í lýðræðislegu þjóðfélagi.

Hatursorðræða og eftirlit hins opinbera á skoðunum borgaranna

Margir hafa áhyggjur af því að löggæsluyfirvöld á Íslandi ætli sér að fylgjast með tjáningu fólks sem hefur óæskilegar og jafnvel mannfjandsamlegar skoðanir. Ég deili þeim áhyggjum enda ætti ekki að brjóta á friðhelgi einkalífs og skoðanafrelsi einstaklinga vegna skoðana þeirra. Þar liggur annar misskilningur um tjáningarfrelsið og eðli þess. Í tjáningarfrelsi felst skoðanafrelsi sem sker sig frá öllum öðrum öngum tjáningarfrelsisins að því leyti að ríkinu er ekki heimilað að takmarka skoðanafrelsi fólks á nokkurn hátt. Yfirvöld verða að hafa rökstuddan grun um saknæmt athæfi til þess að mega hefja rannsókn á atferli fólks og dómsúrskurðar er þörf ef yfirvöld hyggjast skoða persónuleg samskipti eða önnur einkamálefni borgaranna. Öllum er heimilt að hafa skoðanir og ríkinu er ekki heimilt að njósna um fólk eða fylgjast með því á þeim eina grundvelli að það sé talið hafa ákveðnar óæskilegar skoðanir.

En tjáningarfrelsið verndar fólk ekki frá því að taka afleiðingum gjörða sinna ef það hvetur til ofbeldis gagnvart öðrum eða hefur í hótunum við fólk. Hvatning til ofbeldis gagnvart heilum þjóðfélagshópum eða beinar hótanir í þeirra garð eru þar ekki undanskildar.

Orð geta raunar verið stórhættuleg líkt og alþekkt er úr sögunni. Nokkrir stríðsglæpadómstólar hafa dæmt einstaklinga vegna hatursorðræðu sem hvatti til ofbeldis og þjóðarmorðs. Meðal fyrstu dóma fyrir hvatningu til þjóðarmorðs var dómur yfir manni að nafni Julius Streicher í Nürnberg réttarhöldunum. Streicher var dæmdur fyrir að hvetja til þjóðarmorðs með útgáfu sinni á tímaritinu Der Stürmer, sem markvisst hvatti til útrýmingar gyðinga.

Der Stürmer-málið var umdeilt á sínum tíma en nýttist sem fordæmi annarra stríðsglæpadómstóla. Til dæmis stríðsglæpadómstól Rúanda, sem dæmdi Jean-Paul Akayesu fyrir að halda viðbjóðslega ræðu sem fylgt var eftir með fjöldamorðum. Rúanda-þjóðarmorðið er dæmi um hörmungar sem hrundið var af stað með víðtækum hatursáróðri og hvatningu til ofbeldis gagnvart Tútsum. Enda hefur stríðsglæpadómstóllinn gefið út ákærur á hendur útvarpskynnum, poppstjörnum og fleirum sem kyrjuðu „kill the cockroaches“ og annan slíkan sora vikum, jafnvel mánuðum fyrir þjóðarmorðið, og meðan á því stóð.

Eflaust má segja að hlutdeild hatursáróðurs í stríðsglæpum og glæpum gegn mannkyni hafi að fullu verið viðurkennd í Rómarsáttmálanum þar sem hvatning til þjóðarmorðs og þjóðernishreinsana telst meðal þeirra glæpa sem stríðsglæpadómstóllinn í Haag hefur lögsögu yfir. Dómstóllinn hefur ákært útvarpsmann í Kenía fyrir hvatningu til þess ofbeldis sem braust út eftir kosningar þar í landi árið 2007 (Áhugaverðar upplýsingar um hatursorðræðu og þjóðarmorð má finna hér).

Á tímum sívaxandi útlendingahaturs, fordóma og afturhaldssemi er mikilvægt að standa vörð um tjáningarfrelsið eins og Mannréttindadómstóll Evrópu gerir í sínum úrskurðum: Með sanngjörnum og vel skilgreindum takmörkunum, hverra lögmæti þarf að meta sjálfstætt í hverju tilviki fyrir sig. Því miður  virðast íslenskir dómstólar ekki vilja taka sér fyrirmæli Mannréttindadómstólsins til fyrirmyndar. Að mínu mati munum við ekki geta tryggt raunverulegt tjáningarfrelsi á Íslandi né tekið á alvarlegri hatursorðræðu og hótunum með trúverðugum og sanngjörnum hætti fyrr en Hæstiréttur sér ljósið.

Upprunaleg birtingKvennablaðið

Kommentakerfi Pírata

Og ólögum eyða

Þegar öryggi okkar er ógnað hugsum við gjarnan um eigin hag en ekki annarra. Það er eingöngu...

On­lyFans, klám og ó­skyn­sam­legar refsingar

Umræðan um klám er mikilvæg og henni er hvergi nærri lokið. Það eru margir vinklar á henni...

Píratar í 10 ár og meira

Píratahreyfingin er 16 ára gömul á heimsvísu en 10 ára gömul á Íslandi. Árið 2013 tóku Píratar...

Borgarbúar skulu fá fyrsta flokks hjólastíga

Of oft þarf ég að grípa inn í tilvik þar sem mér finnst vanta upp á grænan...

Þegar kerfið segir nei

Þegar sambandsslit ganga vel eru þau samt erfið. Þegar þau ganga illa og annar aðilinn fæst jafnvel...

Áratugur í Íslenskum stjórnmálum

Það er sagt að vika sé langur tími í pólitík, svo það hlýtur að teljast ágætt að...

A Decade in Icelandic Politics

There is a saying that a week is a long time in politics, so the fact that...

Manneskjan í jakkafötunum

Áður en ég byrjaði í stjórnmálum sá ég þingmenn alltaf fyrir mér sem fólk í jakkafötum og...

Destroyed by Unjust Law

We tend to think of our own interests rather than others when our safety is threatened, but...

Og ólögum eyða

Þegar öryggi okkar er ógnað hugsum við gjarnan um eigin hag en ekki annarra. Það er eingöngu...

Börn í kerfinu þola enga bið

Samfélagið hefur nú heyrt hræðilegar og átakanlegar sögur af reynslu kvenna sem hlutu úrræði á Laugalandi í...

Suðvesturkjördæmi tapar þingmanni

Okkur mun ekki skorta áskoranir á nýju ári. Farsóttir, náttúruhamfarir og sveitarstjórnarkosningar auk þess sem Alþingi hefur...

Meina þingmenn það sem þeir sögðu?

Ríki heims stefna á að vinna langtum meira jarðefnaeldsneyti en óhætt er, ætli þau að ná markmiðum...

Lýðræði er miklu meira en bara kosningar

Slagorð Pírata fyrir alþingiskosningarnar er „Lýðræði - ekkert kjaftæði“ og ekki að ástæðulausu.  Píratar voru stofnaðir til þess...

Skattarnir sem þú sérð ekki

Við Píratar erum stundum gagnrýnd fyrir það að tala mikið um aðgerðir gegn spillingu. Það sé óþarfi...

Ert þú með lægri laun en þing­maður?

Píratar telja að skattkerfið eigi að vera tvennt: Stigvaxandi (á ensku: progressive) og grænt. Það þýðir annars vegar að...